— GESTAPÓ —
ZiM
Fastagestur.
Saga - 2/12/17
Úps

Stundum er maður bara að flýta sér aðeins of mikið.

Ég bjó á Egilsstöðum um tíma og eins og flestir vita þá er það ekki mjög stór bær. Um 3.000 manns eða svo. Þegar það er ekki túrista-season þá er bærinn mjög rólegur og hálfgerð sveitastemming yfir honum. Sem þýðir að maður var ekkert að hafa fyrir því að læsa bílnum, margir svo grófir að skilja bílinn eftir í gangi meðan þeir hlupu inn í búð.
Ég var í vinnunni og þurfti rétt að skjótast inn í verslun. Vinnubíllinn var silfurlitaður Skoda Octavia sem var frekar algengur bíll þarna á þessum tíma. Ég stekk inn í búðina og skil bílinn eftir ólæstan með lyklana í. Ég kem hlaupandi út úr búðinni, með hugann á verkefninu mínu, og sveifla mér í bílstjórasætið. Sem var í öftustu stöðu. Ég, sem er ekki hávaxin, var frekar vön því þar sem vinnufélagarnir voru flestir hávaxnir svo ég pældi ekkert í því. Ég skelli sætinu fram og ætla að starta bílnum þegar ég sé að lyklarnir eru horfnir. Ég fer að líta í kringum mig eftir lyklunum og það var þá sem ég fatta að þetta var alls ekki minn bíll. Ég stökk út úr bílnum, vonaði að enginn hafi séð þetta og þakkaði fyrir að eigandi bílsins hafi ekki skilið lyklana eftir í bílnum.

   (1 af 7)  
2/12/17 12:00

Billi bilaði

En lagaðirðu sætið aftur áður en þú stökkst út?

2/12/17 12:01

Clark Kent

Þetta er alltaf hressandi. Konugreyi einu er sat í bíl sínum fyrir utan bónusverslun var mikið brugðið þegar undirritaður opnaði afturhurð hennar og skellti innkaupapoka í sætið. Færði sig svo og opnaði bílstjórahurðina þarsem hún sat og hvæsti á mig.
Hún sýndi þessu samt skilning og tók mig trúanlegan þegar ég labbaði að alveg eins bíl þremur stæðum frá.

2/12/17 12:02

Grágrímur

Sama gerðist fyrir mig fyrir utan Kaupfélag Árnesinga á Selfossi þegar það var og hét, Fattaði ekki að væri í vitlausum bíl fyrr en ég tók eftir að þessi var sjalfskiptur... læddist út og lokaði og sagði engum frá þessu... fyrr en núna. Svo glaður að sjá hérna að þetta hefur komið fyrir aðra en mig...

2/12/17 13:02

ZiM

Billi: Nei klikkaði alveg á því. Mér brá svo svakalega við að vera næstum því orðin bílaþjófur alveg óvart. En svona þegar þú segir það þá hefur hann örugglega blótað mér meira fyrir sætið heldur en að hafa mátað bílinn aðeins.
Clark og Grágrímur: Það gleður mig einstaklega mikið að ég er ekki ein um þetta.

3/12/17 07:01

Offari

Það hefur komið fyrir mig að setjast í vitlausan bíl en kannast ekkert við krakkana sem sátu afturí þannig að þetta kemur fyrir besta fólk.

Pabbi átti hinsvega hvíta volgu sem var tekin í misgripum fyrir aðra hvíta volgu. Bílstjórinn fattaði ekki mistökin fyrr en hann kom heim til sín og fann ekki skjalatöskuna. hann skilaði bílnum og sagði pabba frá þessu ca ári seinna

ZiM:
  • Fæðing hér: 23/1/06 18:56
  • Síðast á ferli: 26/5/20 12:49
  • Innlegg: 223
Eðli:
Snarbrjáluð geimvera með veruleikafirringu og háleitar hugmyndir um eigið ágæti.
Fræðasvið:
Heimsyfirráð, viðgerðir á hátæknibúnaði, stjórnun heimskra vélmenna.
Æviágrip:
Fæddist á plánetunni IRK en var send í útlegð vegna smá misskilnings sem átti sér stað í hernum. Það getur víst komið fyrir alla að sprengja óvart upp eigin herstöð. Flúði til Jarðar og leitaði hælis á Baggalútíu og fer þar huldu höfði á meðan hún finnur leiðir til að ná heimsyfirráðum.