— GESTAPÓ —
ZiM
Fastagestur.
Pistlingur - 3/12/05
Hversu mikils virði er mannslífið?

Eru slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn vanþakklátir og frekir?

"Af fréttum sem birst hafa í fjölmiðlum mætti ætla að svo væri. Að hafna 25% kauphækkun hljómar ekki vel.

En af hverju var þessu tilboði Launanefndar sveitarfélaga hafnað?

Svarið er einfalt þegar skoðuð eru byrjendalaun slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna sem hljóða upp á heilar 104.833 krónur.

Til að geta sótt um starf í slökkviliði þarf iðnmenntun eða sambærilegt nám sem nýtist í starfi, mjög góða heilsu, hreint sakarvottorð, aukin ökuréttindi og fleira.

Eftir að komast í gegn um strangt inntökuferli fá menn reynsluráðningu og hefst þá nám og þjálfun til að vera fær um að sinna grunnþáttum starfsins sem er mjög yfirgripsmikið og krefjandi bæði andlega og líkamlega.

Nemi í slökkviliði byrjar á fornámi sem er byggt upp bæði bóklega og verklega og gerir menn hæfa til að starfa við hlið reyndra slökkviliðsmanna en þó eingöngu undir leiðsögn. Þessu næst tekur við grunnnám sjúkraflutningamanna sem meðal annars tekur til öndunarhjálpar, skoðun og mat sjúklings, bráðra sjúkdóma, hálfsjálfvirkra hjartastuðtækja, slysa og áverka, hópslysaviðbúnaðar og áfallahjálpar og sálræn aðhlynning aðstandenda. Að grunnnámi loknu geta sjúkraflutningamenn sótt um löggildingu og starfað við sjúkraflutninga og umönnun bráðveikra og slasaðra.

Þegar hér er komið við sögu, 6-12 mánuðir, hefur heldur ekki vænkast hagur strumpu því nú fær þessi slökkviliðs- og sjúkraflutningamaður kauphækkun. Fer úr 104.833 kr í 112.935 kr. Úpps ég gleymdi að nefna að fyrir skylduþáttöku í endur og símenntun samkvæmt reglugerð þar sem viðkomandi leggur til 52 klst á ári en fær reyndar bara greitt fyrir 48, raðast hann 2 launaflokkum hærra en ella þannig að hann er nú kominn með heilar 116.348 kr og getur farið að panta sér nýja bílinn sem hann hefur alltaf dreymt um.

Nú sinnir þessi freki slökkviliðs- og sjúkraflutningamaður sínum störfum í einhverja mánuði þar til hann fer inn í frekara nám. Á suma renna þó tvær grímur þegar þeir kynnast raunverulegu starfsumhverfi slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna. Eru það ekki snarbilaðir menn sem fara inn í brennandi hús þegar allir aðrir hlaupa út? Hitastig við venjulegan húsbruna getur farið upp í 500 til 800°C, ekki sést fram á nef manna vegna eitraðs og þykks reyks sem smýgur inn í eldgalla slökkviliðsmannsins sem aftur tekur hluta eiturefnanna upp í gegn um húðina. Við bætist hætta af hruni, að falla niður um göt og sprengihætta svo eitthvað sé nefnt.

Næsta útkall gæti síðan verið á sjúkrabíl þar sem einhver hefur skyndilega veikst lífshættulega eða slasast. Það getur verið inn á heimilum fólks, úti í kolbrjáluðu veðri eða í bílflaki utan vegar þar sem um eldhættu og hættu af annari umferð er að ræða meðal annars.

Sjúkraflutningamenn upplifa sannarlega alla anga mannlífsins frá vöggu til grafar. Við tökum á móti börnum og aðstoðum við fæðingar, við endurlífgum og veitum lífbjargandi aðstoð. Stundum gengur það vel, stundum ekki og þá veitum við aðstandendum aðstoð með stuðningi og hluttekningu. Við sjáum eymd náungans betur en margur annar því við erum kallaðir vegna ofbeldisverka, eiturlyfjanotkunar og tekur slíkt oft mikið á menn.

Þá er komið að því að mennta nýliðann okkar betur svo að við getum nýtt hann betur í starfi og falið honum fleiri verkefni og meiri ábyrgð. Nám fyrir slökkviliðsmenn í aðalstarfi er um 540 klst. Framhaldsnám í sjúkraflutningum, svokallað Neyðarbílsnám er um 320 klst. Að þessu loknu getur okkar maður heldur betur farið að horfa björtum augum til framtíðar því nú er loksins komið að almennilegri kauphækkun. Á þessum tímapunkti er vinur okkar búinn að starfa í slökkviliði í 3 ár og ljúka samtals 1.100 klst námi ofan á 4 ára framhaldsmenntun. Spennan eykst því nú er komið að næsta útborgunardegi og viti menn, nú eru grunnlaunin loksins orðin alvöru. Eða hvað? 151.836 kr á mánuði. Nei bíddu hægur. Er þetta nú ekki of mikið af því góða?

Jú, þetta var of gott til að vera satt því nú þarf að draga það frá sem slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn, þessar frekjur, eru með innbyggt í sín grunnlaun sem aðrir eru ekki með. Þar er 42 tíma vinnuvika, skerðing á matar- og kaffitímum, samvistartími á vaktaskiptum og greiðslur fyrir að bera boðtæki svo hægt sé að ná í þá 24 tíma 365 daga á ári þegar eitthvað stærra er í gangi.

Að þessu frádregnu standa eftir 124.505 kr. Svo rífa þeir bara kjaft og hafna 25% launahækkun.

Hvað á að gera við svona menn?"

Þetta er bréf sem að mér var afhent af slökkviliðsmanni í mótmælagöngu þeirra þann 24. febrúar hér á Akureyri. Þeir báru skilti sem að meðal annars stóð á "Björgun á mannslífi, 105.000kr" og "Hver bjargar þér?" Ég verð að segja að ég styð þessa menn. Af hverju?
Það kviknaði í íbúð frænku minnar í fyrra. Kallað var til slökkviliðs og þeir komu á staðin og þeim tókst að ná henni meðvitundarlausri út úr íbúðinni og bjarga lífi hennar. Hún hafði misst meðvitund sökum reykeitrunar.
Þegar ég var 16 ára var ég stödd út í sveit, langt frá næsta sjúkrahúsi. Hjartað í mér stöðvaðist og kallað var á sjúkrabíl. Þeim tókst að endurlífga mig og björguðu lífi mínu örugglega með því.
Mér finnst mannslífið dýrmætt og þess virði að bjarga. Ég veit það líka sjálf að ég myndi aldrei vilja vinna þessa vinnu, hvað þá þegar þeir eru ekki með mikið hærri laun en ég, fiskvinnslukonan.
Þangað til núna um daginn var ég á móti slökkviliðsmönnum. Fyrir 10 árum kviknaði í heimili mínu og fjölskyldumeðlimur lét lífið í eldsvoðanum. Þegar ég var yngri vildi ég meina að hann hefði dáið af því að slökkviliðinu tókst ekki að bjarga honum og ég þróaði með mér biturð í garð slökkvilismanna. Ég veit það núna að þó að þeim hafi ekki tekist að bjarga honum þá unnu þeir þarna mikið starf. Það var blindbylur þessa nótt og erfitt fyrir liðið að komast á staðinn (ég átti heima í sveitþorpi) og erfitt fyrir þá að vinna. Þegar þeir komu á staðinn var hann látinn. Þeir einbeittu sér því að bjarga því sem bjarga yrði og tókst það prýðilega. Þeir hættu sínu lífi fyrir líf föður míns, og íbúðir raðhússins sem eldurinn hafði ekki náð í. Þeir eiga meira skilið heldur en þessi skítalaun sem þeir eru að fá. Þeim mistókst að bjarga lífi pabba og ég hataði þá fyrir það. Þeir áttu það ekki skilið frá mér (það hjálpaði mér að kenna einhverjum um). Ef það væri ekki fyrir þá, hver myndi þá bjarga okkur ef/þegar við þurfum á því að halda?

Spurning mín til Launanefndar er þessi: Hversu mikils virði er mannslífið?

   (6 af 7)  
3/12/05 04:01

Fuglinn

Eru slökkvararnir að semja við launanefnd Baggalúts?

3/12/05 04:01

fagri

Ef maður er óhress með launin þá er alltaf hægt tippa á lengjunni.Maður veit jú yfirleitt hvernig þessir leikir fara.

3/12/05 04:01

B. Ewing

Áfram slökkviliðsmenn.

3/12/05 04:01

Jarmi

Slökkviliðsmenn eru hinar sönnu hetjur nútímans. Þeir eru (sem heild) huguðustu menn samfélagsins. Þeir eiga aðdáun mína alla.

TÖFF KAPPAR!

[Gefur öllum slökkviliðsmönnum hæ-fæv]

3/12/05 04:01

Jóakim Aðalönd

Sammála. Menn sem sinna svona mikilvaegri samfélaxthjónustu, eiga skilid vel borgad fyrir thad. Áfram slokkvilidid. Skál!

3/12/05 04:01

Anna Panna

Sammála sammála sammála. Fólk sem leggur líf sitt í hættu fyrir samborgara sína á meira skilið en að þurfa að sinna sínu starfi nánast af hugsjón einni saman.

3/12/05 04:01

Offari

Manslíf er ómetanlegt. Það má eyða miklu fjármagni í vegabætur ef það getur bjargað manslífi. Gallinn er hinsvegar sá að ekki er farið í aðgerðir fyrr en einhver drepst. Slökkviliðsmenn vinna mikið hugsjónarstarf og áhættusamt starf. Það mætti þrefalda þeirra laun, til að þau flokkist sem mannsæmandi laun..

3/12/05 04:01

ZiM

Einmitt. Þó að slökkviliðið sé hugsjónarstarf þá er það samt vinna þessara manna, þeir þurfa að geta lifað á henni.

3/12/05 04:02

Dexxa

Ég gæti ekki mögulega verið meira sammála !! Slökkviliðsmennirnir eiga betra skilið, hvað myndum við gera ef þeir allir myndu hætta til að geta unnið við eitthvað sem borgaði betur... hver á þá að bjarga okkur?

3/12/05 04:02

feministi

Ekki vildi ég láta tóma eymingja og vitleysinga sækja mig á fjöll yrði ég svo klaufsk að skjóta mig í fótinn. En það er því miður þróunin að gæðafólk sækir ekki í þessi störf lengur. Við borgum fólki mun betur fyrir að hugsa um peninga en fólk.

3/12/05 04:02

Nermal

Ég hef nú ekki talið mína vinnu vel borgaða, en ég er samt með hærri grunnlaun en slökkviliðsmaður. Ekki þarf ég samt að fást við eitraðan reyk né mannlega eymd. Þetta er til háborinnar skammar fyrir þjóðfélagið að þetta sé svona. Ég vil nú helst aldrei þurfa að hringja í þessar hetjur, en ef ég þarf þess, þá vil ég að það séu menn sem kunna til verka!! ÁFRAM SLÖKKVILIÐIÐ !!!

3/12/05 04:02

Vladimir Fuckov

Stærsta vandamálið er eigi hvort til sjeu peningar til að hækka laun þessa hóps heldur hve margir hópar líta svo á að núverandi launahlutföll eigi að vera nánast óbreytanleg. M.ö.o. að ef einhverjir aðrir hækki eigi þeir að hækka líka.

3/12/05 11:02

Nætur Marran

ekki myndi ég vilja sitja föst heima í brennandi húsi upptekin við tala slökkvuliðs manninn til og lofa að borga honum ef að hann kæmi, bara svo honum þætti taka því

ZiM:
  • Fæðing hér: 23/1/06 18:56
  • Síðast á ferli: 26/5/20 12:49
  • Innlegg: 223
Eðli:
Snarbrjáluð geimvera með veruleikafirringu og háleitar hugmyndir um eigið ágæti.
Fræðasvið:
Heimsyfirráð, viðgerðir á hátæknibúnaði, stjórnun heimskra vélmenna.
Æviágrip:
Fæddist á plánetunni IRK en var send í útlegð vegna smá misskilnings sem átti sér stað í hernum. Það getur víst komið fyrir alla að sprengja óvart upp eigin herstöð. Flúði til Jarðar og leitaði hælis á Baggalútíu og fer þar huldu höfði á meðan hún finnur leiðir til að ná heimsyfirráðum.