— GESTAPÓ —
Í uppáhaldi:
Félagsrit:
Dula
Heiðursgestur.
Dagbók - 3/12/09
Slappleiki, leti og veikindi... smá pirr.

Það er alltaf aðlaðandi tilhugsun að kúra heima hjá sér í fullkominni leti með eitthvað góðgæti í annarri og fjarstýringuna í hinni , oft er maður kominn í vinnuna og mann langar bara að vera heima hjá sér að sortera sokkana sína eða hvað sem maður gerir heima hjá sér þegar allir aðrir heimilismeðlimir eru úti að læra eða vinna. Svo þegar maður er illa fyrirkallaður þá verður þetta ekki alveg eins kósý, maður á í erfiðleikum með að koma sér vel fyrir, maður er lystarlaus og pirraður með óþægindi allstaðar.

Nú er ég ekkert sú eina sem er heima hjá mér að gera ekki neitt þessa stundina , en þetta er eitthvað sem er svo ósamþykkt að maður geri, að hanga heima hjá sér að maður er með hálgert samviskubit, af hverju er maður ekki að vinna þar til maður dettur niður dauður, það virðist allavega vera ætlun yfirmanna í gegnum tíðina að maður drullist í vinnuna einsog það sér það eina sem skipti mann máli í lífinu, maður þarf helst að mæta með dánarvottorð til að maður sé afsakaður. Og skiptir þá engu máli hvort maður sé sá duglegasti eða óduglegasti í vinnunni.

Í gegnum tíðina hef ég unnið að mestu með fólki, í návígi við annað fólk , inni á þeirra heimili eða inni á mínu heimili að passa lítil börn, ég hefði haldið að það vildi enginn fá pestargemling einsog mig heim til sín þegar ég er með flensuna og eins að koma með börnin sín inn til mín þegar ég er með veik börn og þess háttar, þetta virðist ekki bögga fólk neitt, það er bara sátt ef ég skila minni vinnu og þá get ég notað minn frítíma til að vera lasin
.Foreldrar koma með börnin í pössun á fyrsta degi í pensillíni og eru svo bara steinhissa á því af hverju barnið er illa fyrirkallað og pirrað. Oft fær maður hornauga fyrir það eitt að tala um að einhver sé lasinn, það virðist vera svo fast í fólki að á meðan maður getur staðið í lappirnar þá eigi maður að vinna sína vinnu með bros á vör.

Minnir mig nú bara á sögurnar af þeim konum sem voru að missa vatnið og fæða í miðjum heyskap og skelltu barninu bara inná blússuna sína á meðan þær voru að klára að raka saman slægjuna, svo fóru þær inn að lögðu sig í korter á meðan var verið að draga fylgjuna út. Og ekki voru kallarnir neitt að flýta sér inn ef þeir urðu fyrir slysi, frekar blæddi þeim út heldur en hætta í miðju verki.

Til dæmis er ég núna með eymsli í eitlunum í hálsinum að það er eiginlega ekkert hægt að hreyfa hausinn eða kyngja, og mig langar alveg geðveikt í eitthvað gott að borða, svo ef ég hreyfi mig þá svitna ég einsog ég hafi verið að taka vel á því . Þetta eru auðvitað smámunir við hliðina á mörgu öðru, og auðvitað gæti maður unnið við eitthvað í þessu ástandi, en ekki það sem ég geri dags daglega.

Og tilhugsunin um það að fá frí var mjög freistandi hérna um daginn þegar ég var alveg eldhress af því að þá hefði ég auðvitað drifið í að fara með flöskurnar í endurvinnsluna, sorterað allan þvottinn og tekið til inní barnaherberginu án þess að blása úr nös, nú horfi ég á heimaleikfimi í sjónvarpinu og fæ bara hroll við að horfa á þessar glæsilegu, hressu og vel vöxnu konur sprikla einsog enginn sé morgundagurinn.

Svo eru það oft utanaðkomandi áhrif sem draga mann niður, peningamálin eru stundum það slæm að maður verður bara þunglyndur af því að reyna að hugsa um þau, maður finnur bara hvernig ónæmiskerfið koðnar niður þegar það er mikið stress og streita í gangi, ef einhver sýnir manni óvild eða mótlæti þá getur það haft sín áhrif, slæmt mataræði er alveg sotheld aðferð til að finna orkuleysi og þreytu í öllum líkamanum. Ef maður fær ekki það sem maður á rétt á í vinnunni eða einkalífinu þá hefur það einnig sín áhrif og maður verður ósamvinuþýður og bitur.

Það er hellingur sem getur dregið mann niður og ég held einmitt að ónæmiskerfið mitt sé að mótmæla óhóflegri streitu með þessu bakslagi, og ég sem verð eiginlega aldrei lasin *dæs*

   (17 af 46)  
3/12/09 03:01

Regína

Mér finnst að þú ættir bara að leggja þig, hvort sem þú mátt vera að því eða ekki.
En ég er sammála, það er skrýtið að senda börn til dagmömmu bara af því að þau eru komin á lyf. Þau verða ekki undireins hress við það.

3/12/09 03:01

Dula

Það er mun algengara en maður gerir sér grein fyrir , fólk er að mæta í vinnuna um leið og það er komið á lyf líka, algjört ábyrgðarleysi finnst mér.

3/12/09 03:01

Yoka

Það er bara svo skrýtið hvernig fólk forgangsraðar oft á tíðum.
Það er eins og þú segir, ansi algengt að fólk komi alveg af fjöllum ef börnin verða veik og finnst það bara algjör þvættingur að það þurfi kannski bara að vera heima í ró og næði ekki innan um önnur smábörn.
En skelltu nú sólhatt og lýsi í kjaftinn á þér og njóttu þess að styrkja ónæmiskerfið þitt Dula. Mættu svo með bros á vör í vinnuna þína og vertu ánægð með að þurfa ekki að koma með dánarvottorð til vinnuveitandans

3/12/09 04:00

dordingull

Talaðu við Dr.Vímus. Slappleikalausnir eru hanns sérgrein.

3/12/09 04:02

Grýta

Láttu það eftir að vera veik og gera ekkert, (alveg sama hvað aðrir hugsa eða halda) nema láta þér batna.
Gangi þér vel!

3/12/09 04:02

Dula

Já takk fyrir það Grýta mín. Það er einmitt það sem ég er búin að vera að gera og núna er ég einmitt komin með félagsskap í ræfilshættinum, sonur minn er lagstur líka svo ég verð bara að liggja áfram og bíða bata.

3/12/09 07:02

Grýta

Æjá, svona er það stundum að börn manns veikjast þegar maður er sárveikur sjálfur. Einhvern veginn fær maður þá viðbótarorku og sinnir veikum börnum sínum og frestar einhvern veginn ósjálfrátt sínum veikindum. Ég veit ekki hvaðan sú viðbótar orka kemur.
Stundum endar það samt þannig að eftir að barnið hefur náð sér þá leggst maður niður og sefur sólarhringum saman.

Dula:
  • Fæðing hér: 18/1/06 17:09
  • Síðast á ferli: 10/11/23 13:19
  • Innlegg: 22400
Eðli:
Dula er mit nafn og ég er best. Og svo get ég verið orðheppin, kemur líka fyrir að menn hlæi jafnvel upphátt þegar ég tjái mig.
Fræðasvið:
Ég er mjög fróð um mjög margt. En kannski ekkert alltof vitur um neitt. En fæ oft hugboð og fer eftir þeim. Er berdreymin , það er að segja ef ég er ber þá dreymir mig um ber.
Æviágrip:
Ég er fædd í október er sérlega glæsileg. Allsherjar snillingur og matgæðingur. Þar að auki kosta og kynjamálaráðherra Baggalútíu, það þýðir að ég hef yfirumsjón með pörum og einhleypingum í Baggalútíu Og vil fá að vita hver hefur samfarir við hvern eftir alla merkilega atburði í baggalútíu.