— GESTAPÓ —
Í uppáhaldi:
Félagsrit:
Dula
Heiðursgestur.
Gagnrýni - 2/12/09
Leyndir gallar.

Nú get ég ekki þagað lengur yfir því sem hrjáir huga minn þessa dagana. Kannski ég geri lista yfir þá hluti sem eru gallaðir hérna heima við sem ég hef notað og mælt með í góðri trú .

1. Þvottavélin:
Ekki nóg með að hún minnki fötin sem ég hef passað í svo árum skiptir , heldur stelur hún alltaf öðrum sokknum, ég á fullan poka af stökum sokkum sem fóru á sínum tíma í pari inní vélina og komu stakir þaðan út.
2. Þurrkarinn:
Ef þvottavélin hefur ekki minnkað fötin þá gerir þurrkarinn það samviskusamlega, öll börnin mín eru einsog illa vafðar rúllupylsur eftir meðferð þurrkarans á fötunum þeirra, ekki geta þau endalaust verið í vaxtakipp.
3.Ísskápurinn:
Alltaf tómur eða það vantar í hann það sem ég keypti mér sérstaklega til að borða í eftirrétt, það hlýtur að vera gat á honum.
4. Íbúðin mín:
Hvaðan koma þessir diskar, þessar flöskur, þessar umbúðir, þessar barnateikningar, ég veit ekki hver ber ábyrgðina á öllu þessu ryki og kuski um allt, ekki kaupi ég ryk eða kusk og svo eru þessi alltof litlu föt endalaust að troða sér inná milli allstaðar.. það er ekki einsog neinn sé að nota þessar tutlur.
5.Peningar.
Hver fann uppá því að segja manni þá stórkostlegu lygi að maður fái kaup fyrir að vinna? Ég hef nú aldrei fengið neinn pening fyrir það að vera útivinnandi, daginn sem maður fær útborgað þá stendur launareikningurinn manns í núlli, ég veit ekki alveg hvaða húmor það er að ginna fólk í vinnu og segja að það fái hundruðir þúsunda ef það kemur ekki fram á bankayfirlitinu manns, það er svokallaður þjónustufulltrúi í þessum drullubanka sem er búinn að fara á hausinn tíu sinnum og skipta jafnoft um nafn sem heldur að hún eigi peninginn sem ég er búin að strita fyrir allan mánuðinn . Það eina sem maður fær fyrir það að vera útivinnandi eru eintóm núll.
6.Bíllinn minn.
Gullvagninn minn er mjög sérviturt tól og fer bara í gang ef hann vill það, svo eyðir hann bensíni í lítratali, hann kostar mig offjár á ári og samt elska ég hann.
7. Maðurinn og börnin.
Já það er eiginlega ekki hægt að vera án hans eða þeirra samt væri maður alveg til í að hafa fjarstýringuna aðeins handhægari þar sem virðast vaxa gróskumikil bananatré útúr eyrunum á krökkunum en einn stór banani útúr miðjunni á manninum og hann virðist stjórna flestu sem gerist í melónunni sem er á toppnum.
8. Ég sjálf.
Einusinni leit ég í spegil og sá þar meðalgranna ansi krúttlega ljósku/rauðku sem var alltaf skælbrosandi yfir öllu ofantöldu og það fór ekkert í taugarnar á henni, núna sé ég konu sem tuðar allan daginn. Ansi lík ömmunum mínum , frænkum og húsmóðurinni í vesturbænum sem krassaði af miklum móð í velvakanda og hringdi í þjóðarsálina.
9. Speglar heimilisins.
Það er bara alltaf minna og minna að marka þessa spegla, svo er maður steinhættur að sjá nokkurn skapaðan hlut.
10.Ísland:
Einusinni bjó ég á Íslandi þar sem draup smjör af hverju strái, allir voru klæddir nýjustu tísku og það var flatskjár í hverri stofu, allir sveifluðu plastkortunum sínum fram og aftur sem virtust vera þeirra miði til útlanda fimmtán sinnum á ári og allt lék í lyndi, talandi um leynda galla, mér líður einsog Gosa í asnagarðinum eða Hans og Grétu eftir að þau komu inn í piparkökuhúsið.

Ein stjarna ætti að dekka þetta allt saman, kannski þetta lagist allt aftur þegar ég fæ mér súkkulaði.

   (18 af 46)  
2/12/09 03:01

Kiddi Finni

Eitthvað hljómar þetta kunnuglega, sérstaklega með peningana, þeir gufa upp jafnóðum og birtast. Og min ástkæra gæti nú svosem gert svipaða eða lengra lista. Þetta rit fær fleiri stjörnur en gefur.

2/12/09 03:01

Al Terego

11. Rafmagnssnúran á ryksugunni:
Þegar maður ýtir á takkann til að draga hana inn í vélina þarf maður að hjálpa snúrudrusluinni og liðka fyrir henni til að hún drullist inn í vélina. Nema stundum, þá virkar draslið svo vel að snúran fer á ofsahraða og reynir að slá mann í andlitið eins og svipa. Stundum tekst það.

2/12/09 03:01

Billi bilaði

Kærar þakkir fyrir þetta rit. Ég var nefnilega búinn að steingleyma að ég var með fullan þurrkara í þvottaherbergi hótelsins.
<...>
Jæja, ég er búinn að sækja í þurrkarann...

... og fimm sokkar.

Það er reyndar eðlilegt, því að eftir síðasta þvott þá var líka oddatala. Eftir dauðaleit fann ég stakann óþveginn sokk á bak við þvottavélina. Hann var fimmti sokkurinn núna. Allt er því núna upp-parað.

PissuStopp: Ég held að það versta við allar þessar utanferðir sé að hafa orðið að læra á þvottavél. Og þurrkara. <Dæsir mæðulega og íhugar að mæta nakinn í vinnuna á morgun...>

2/12/09 03:01

Offari

Þetta virðist vera víðar svona.

2/12/09 03:01

Grágrímur

12. Kókflöskur... þær virðast vera farnar að leka... maður er ný búinn að opna þær og þá eru þær búnar.

2/12/09 03:01

Regína

13. Íbúðir yfirleitt. Þegar maður kaupir sér íbúð þá er hún fín en þegar búið er að flytja inn í hana þá er ekki pláss fyrir neitt nema á einhverjum asnalegum stöðum, þannig að fallegir hlutir sjást ekki og aðrir taka allt plássið.

2/12/09 03:01

Anna Panna

Það er allt betra eftir að maður hefur fengið sér súkkulaði.

2/12/09 03:01

Heimskautafroskur

Bráðgott rit – takk.

2/12/09 03:02

Valþjófur Vídalín

Mjög skemmtileg upptalning hjá yður frú Dula. Það er ekki laust við að ég kannist við margt af þessu.

2/12/09 04:01

Madam Escoffier

Takk fyrir ritið, við nokkrum atriðum eru til auðveldar lausnir,
1) Best er að eiga 80 staka sokka sem eru allir nákvæmlega eins, þá verður í mesta lagi 1 stakur. Ef fjölskyldumeðlimir eru af mismundi stærð og tegund borgar sig ekki að taka tillits til þess heldur tosa þá bara hærra á þeim smáfættari.
3) Nú er þorri og ættu því engir ísskápar að vera í sambandi hvort eð er, nýta sér svalir og þvottasnúrur til að þurrka, reykja og súrsa allan mat. Má þá nærri geta að matarkostnaður heimilisins minnki til muna þar sem ungmenni eru þekkt fyrir að fúlsa við allvöru mat.
4) Að sama skapi má taka upp aska menningu aftur, er þá bara eitt ílát á mann og hundurinn getur sleikt það.
5) peningar virðast fylgja mannlegu samfélagi, þegar madamman finnur skrifstofuna þar sem móttaka úrsagna úr mannlegu samfélagi fer fram, lætur hún þig vita.
9) Speglar eru verkfæri djöfulsins og þá ber að brjóta, madamman tekur það aðsér, enda hefur óheppnin elt hana alla ævi og hefur hún fyllt kvótan fyrir næstu 9 líf.
10) Ísland er goðsögn ekki ósvipuð Atlantis, ber að taka sögum um það sem skáldsögum en ekki staðreyndum.

2/12/09 04:01

krossgata

Mikið kannast ég við þetta allt. Sama virðist eiga við alla aðra. Þá velti ég fyrir mér hvort þetta séu gallar. Fyrst þetta er svona hjá öllum þá á þetta kannski að vera svona? Je, minn ég vona ekki!

2/12/09 04:02

Nermal

Ég kannast við ýmislegt í þessu. Þvottavél þessa heimilis étur sokka í gríð og erg. Peningarnir eru líka ansi fljótir að gufa upp. Bíllinn fer nú alltaf í gang, en þambar bensín eins og Bagglýtingur blút!

2/12/09 06:00

Dula

Takk öll fyrir að lesa, ég kem líklegast með annan nöldurlista fyrr en varir [glottir einsog fífill]

2/12/09 07:00

Galdrameistarinn

Á bara æðislega þvottavél sem étur ekki sokkana mín.
Þurkarinn minn er æði og fötin koma þaðan lungamjúk og passa mér jafn vel og áður.
Ískápurinn minn er troðfullur af mat sem og frystirinn.
Eldavélin notar gas en ekki rafmagn og það bara endist og endist.
Bíllinn minn fer alltaf í gang án erfiðleika og eyðir ekkert skelfilega miklu og þó er benzín heldur dýrara hérna en á íslandi.
Kellingu á ég enga og krakkaskríllinn vaxinn úr grasi.
Hvað fjármuni og laun vaðar þá nenni ég ekki að nöldra út af því.

2/12/09 08:02

Dula

Það er greinilegt að fólkið í útlöndum er ofdekrað [glottir við jaxl]

2/12/09 09:01

Steinríkur

Það eru að verða 10 ár síðan ég keypti 15 pör af eins sokkum, og losaði mig við þá gömlu. Síðan hef ég ekki tekið eftir að þeir tapi tölunni í þvottavélinni. Endurnýjað á nokkurra ára fresti og málið dautt.

Ég held að þvottavélarskrýmslið sé óttaleg rola, og þori ekki að ráðast á sokka nema þeir séu stakir eða í pörum. Sameinaðir stöndum vér og allt það,,,

Dula:
  • Fæðing hér: 18/1/06 17:09
  • Síðast á ferli: 10/11/23 13:19
  • Innlegg: 22400
Eðli:
Dula er mit nafn og ég er best. Og svo get ég verið orðheppin, kemur líka fyrir að menn hlæi jafnvel upphátt þegar ég tjái mig.
Fræðasvið:
Ég er mjög fróð um mjög margt. En kannski ekkert alltof vitur um neitt. En fæ oft hugboð og fer eftir þeim. Er berdreymin , það er að segja ef ég er ber þá dreymir mig um ber.
Æviágrip:
Ég er fædd í október er sérlega glæsileg. Allsherjar snillingur og matgæðingur. Þar að auki kosta og kynjamálaráðherra Baggalútíu, það þýðir að ég hef yfirumsjón með pörum og einhleypingum í Baggalútíu Og vil fá að vita hver hefur samfarir við hvern eftir alla merkilega atburði í baggalútíu.