— GESTAPÓ —
Í uppáhaldi:
Félagsrit:
Dula
Heiðursgestur.
Dagbók - 1/11/07
Matur og matarmenning eða ómenning.

Nú er aftur byrjað að finnast matarilmur í stigagöngum almennings þegar hin svokallaða kreppa er gengin í garð, nú kemur maður útá gang í blokkinni sem maður býr í og finnur fiskibollulykt á þriðjudögum, kjötbollulykt á fimmtudögum einsog þetta var alltaf hjá ömmu í gamla daga. Ég er alveg að fíla þetta, ekki lengur biðraðir á matsölustöðunum allan daginn óháð tíma heldur bara alvöru heimilismatur á boðstólnum á matartímum. Ég hefði nú haldið að kreppa væri þegar fólk ætti ekki lengur mat til að elda sér heima hjá sér.

Já ég er ekki frá því að það sé vel til fundið að skella áramótaskaupum á dagskrá ríkissjónvarpsins á sunnudögum og rifja upp kreppufílinginn síðan 1983-1986 og svo kom þarna aftur einhverskonar kreppa í kringum 1990-1992 minnir mig , þá var galað og gólað um blankheit og lægð í atvinnulífinu.

Síðan þá hafa matsölustaðir sprottið einsog gorkúlur uppum alla veggi og maður hefur hugsað sér gott til glóðarinnar að fá sér heimsendar pítsur í staðinn fyrir soðna ýsu, það er mega , gíga ,ofur tilboðs vika á öðrum hverjum pítsustað í hverjum mánuði og maður sér ekki sólina fyrir þessu kínverska, indverska,ítalska, tælenska og ameríska jukki sem tröllríður auglýsingatímum fjölmiðlanna.
Í mörg ár var ógeðslega leim og púkó að taka slátur og í mörg ár varstu hallærislegur ef þú gast komið niður soðinni ýsu og það var hreinlega gubbað framan í þig ef þú vogaðir þér að steikja uppúr smjöri en ekki Omega 6,5,8,6, og 3 fitusýrum fyrir hitt og þetta hitastigið.

Árin 2000 -2007 varstu náttúrlega bara fábjáni ef þú hristir þér ekki búst eða herbalæf sjeik í alla mata og keyptir þína rándýru orkudrykki til að skvetta í ginið á þér eftir hlaup á brettinu á rándýra heimsklassa staðnum sem var byggður fyrir litlar 578 milljónir og þú varst nú ekki manneska með viti ef þú keyrðir ekki um á jeppa sem var keyptur fyrir myntkörfulán í evrum , jenum og dollurum og þá er ekki einusinni verið að tala um alla flatskjáina, gemsana, tíslufatnaðinn og leikföngin sem var hægt að fá með vísa rað í lange baner og svo ef þú gast ekki borgað þá hringdirðu í bankann og þjónustufulltrúinn ýtti bara á einverja takka og þá gastu keypt þér enn meira af rusli og drasli sem þér fannst seinna svo ljótt og úrelt að það fór í öskutunnuna já eða til að hugsa. betur um jörðina þá fórstu á rándýra jeppanum þínum með það útí sorpu.

Nú er allt í einu einsog þyrmi yfir fólk, það á ekki greiðan aðgang að eyðslufé vegna þess að það er búið að hjálpa ríkisstjórninni ásamt auðmönnum Íslands að setja skerið okkar á höfuðið, íslenska útrásin er bara einsog tyggjókúla sem er svo búin að springa yfir andlitið á mér og þér og núna sitjum við með sletturnar í hárinu og grenjum yfir því að þetta hafi nú aldrei verið planið og bendum á alla aðra en sjálf okkur með sakleysissvip.

Nú eru Bretar alltíeinu vondi kallinn og við skiljum ekkert í af hverju við erum orðuð við terrorisma, nei auðvitað ekki, við almenningurinn áttum engan hlut að máli og að við þurfum að fara að borga þær skuldir sem við höfum komið okkur í er auðvitað bara fásinna.

Svo núna eru húsmæður og feður þessa lands alltíeinu farin að streyma í bónus að kaupa sér hjartasnitsel í raspi sem áður hefði nú verið hlegið að og taka slátur, margir í fyrsta sinn.
Taka strætó og sauma sér föt alveg einsog var gert hér lengi vel og þótti sjálfsagður hlutur, sumir taka uppá því að leggja þurrkaranum og uppþvottavélinni, láta bara duga að hafa heimasíma og rúv, segja upp tímaritum og fjölvarpi. Já þetta þykir alveg hreinasta kreppa og volæði mikið að þurfa skyndilega að neita sér um enn einn óþarfann á heimilinu.

Ég skal viðurkenna að sé komin kreppa þegar ég þarf að veiða sjálf í matinn niðri við höfn.

   (41 af 46)  
1/11/07 04:01

Wayne Gretzky

Þessu get ég verið sammála. Fólk og börn nútildags eru ekki nægjusöm eins og fyrr. Það þarf alltaf að fá það besta, það besta og ekkert annað en það besta.

Fólki og börnum nútildags býður við þjóðlegum mat, svokölluðum "þorramat" , sem er prýðisgóður og ekkert að honum. Ég fæ mér oft svið í mötuneyti í skólanum mínum þegar þau eru í boði. Það eru reyndar nokkrir aðrir sem gera þetta líka, en fáir. Þá er oftast eitthvað annað kjöt í boði og nánast allir vilja það. Það er starað á sviðin og fólki býður við þessu.

Margir vilja ekki borða t.d. skötu, hákarl, hrútspunga, svið og ýmsa aðra prýðisgóða þjóðlega rétti - bara út af því þeir líta ekki vel út.

Margt fólk nútildags er allt of þurftarfrekt og það er ekki nógu gott. Bara gott á fólkið á 100milljónakróna jeppunum að þetta komi aftur aftan að þeim.

1/11/07 04:01

Dula

Já ég held nú bara að þorramaturinn verði aðeins framreiddur á "betri heimilum " af því að hvar finnur maður dýrari mat en hákarl og harðfisk.

1/11/07 04:01

Jarmi

Flott félagsrit, segir nákvæmlega það sem ég hef lengi hugsað. Og það besta sem kemur út úr þessu er það að fólk þroskast svakalega mikið. Það gerir sér grein fyrir alvarleika lífsins og lærir að meta það sem það hefur.

1/11/07 04:01

Útvarpsstjóri

Hákarl og harðfiskur er ekki þorramatur, það er hvunndagsmatur.

1/11/07 04:01

Wayne Gretzky

Útvarpsstjóri segir satt..

1/11/07 04:01

Dula

Já hákarl er dýrari en Cobe nautakjöt .

1/11/07 04:01

Wayne Gretzky

"Ég er fædd í október og læt það gott heita í bili. Er gul og glæsileg. Spilaspásnillingur og matgæðingur. Þar að auki nýkosin kosta og kynjamálaráðherra Baggalútíu, það þýðir að ég hef yfirumsjón með pörum og einhleypingum í Baggalútíu ."

1/11/07 04:01

Hexia de Trix

Gretzky, ég get alveg borðað ljótan mat. Það sem ég get hinsvegar ekki gert er að borða mat sem fær mig til að kúgast bara ef ég finn lyktina í þarnæsta húsi. Þetta á sérstaklega við um svið.

Annars prýðisgott félagsrit Dula mín, ég verð að segja að þú hittir naglann á höfuðið eins og svo oft áður.

1/11/07 04:01

Kiddi Finni

Orð í tíma töluð, Dula min. Ég tók nú reyndar slátur þegar ég átti heima á Fróni. (ljómar upp)

1/11/07 04:01

Huxi

Ég er mjög hress með kreppua. Hún þýðir að núna eru allir komnir í sama kúkinn og ég... Það verður bráðum aðal terndið að þekkja stefnuvottana með nafni og enginn er maður með mönnum nema geta grobbað sig af því að það nú séu báðir bílarnir og húsið auglýst í Lögbirting.
Ég hélt reyndar að þetta félaxrit yrði um einhverjar krassandi mataruppskriftir í anda kreppunar t.d. bútungur með mörfloti, heilabollur með njólajafningi eða jafnvel sýrð stórgripabein með skarfakáli og ysting.
Þó að engar kreppuuppskriftirnar þá er þetta samt sem áður hið ágætasta rit.

1/11/07 04:01

krossgata

Pff. Ég bara ekkert hryðjuverkamaður og bara víst í fýlu við breta. Ég datt ekki í gervipeningafyllerí á síðustu árum.
[Snýr upp á sig]
En það verður voða gaman að það þyki sjálfsagt að ég eldi mitt slátur, hafi minn þorramat og sjóði mín svið.
[Glottir kindarlega]

1/11/07 04:02

Garbo

Góður pistill.
Hér höfum við nú haldið áfram að éta soðna ýsu og íslenska kjötsúpu enda lítið séð af þessu svokallaða góðæri.

1/11/07 04:02

Skabbi skrumari

Fólk hefur upplifað svokallaða góðæri á ansi mismunandi hátt... mér sýnist fátt muni breytast hjá mér, ég mun varla fara að kaupa mér flatskjá úr þessu, né dýran bíl og ekki ætla ég að fara að fá mér svokallaða myndavélagemsa... nei, ég held áfram að borða svið og slátur eins og síðast liðin ár... jú ætli maður sleppi ekki hinni vikulegu pizzu svona til að spara smá út af verðbólgunni... en flott félagsrit...

1/11/07 04:02

Dula

Takk fyrir, já Grétar ég á eftir að breyta, ég er gul inn við beinið enn[ljómar upp við góðar viðtökur]

1/11/07 04:02

Huxi

séu

1/11/07 04:02

Þarfagreinir

Hmpf. Það er nú flóknara ferli að hækka yfirdráttinn hjá manneskju en að 'ýta á einhverja takka'. Það þarf að segja töfraorðið líka.

1/11/07 04:02

Hexia de Trix

Töfraorðið myndi þá vera leyninúmerið?

1/11/07 04:02

Þarfagreinir

Nei, reyndar ekki. Þetta er alveg sérstakt orð. Hins vegar er bannað að svo mikið sem nefna það upphátt orðið. Kreppan, skilurðu.

1/11/07 04:02

Villimey Kalebsdóttir

Flott rit! Núna langar mig í harðfisk.

1/11/07 04:02

Nermal

Ég fór nú ekki á neitt eyðslufyllerí. Ég á ekki dýran bíl, ekki flatskjá né síma með myndavél,gps og innbyggðri keðjusög. Þorramat ét ég ekki, enda er hann að mínu mati óætt júnk. Við höfum aðeins verið að föndra við bakstur þessa dagana og það er bara gaman. Nú er bara málið að nýta matinn, fötin og henda ekki öllu strax. Ef gemsin virkar þá ber að nota hann en ekki hoppa út í búð og kaupa nýjann bara vegna þess að sá sími er með einhverjum fídus sem maður notar svo aldrei. Flott rit.

1/11/07 05:00

Jóakim Aðalönd

Þörf áminning Dula mín.

Ekki tók ég samt þátt í þessu blessaða fylliríi, þó ég hafi oft verið við skál á undanförnum árum. Ég hef alltaf sparað og á þess vegna digra sjóði í dag sem gildna vel í 18% stýrivöxtum! Mwahahahaha!

E.S.
Ég tók 6 slátur þetta árið...

1/11/07 05:00

Z. Natan Ó. Jónatanz

Nú er semsagt kominn matartími !

1/11/07 05:01

blóðugt

Gott rit Dula. Mér sýnist sem margir hér á lútnum séu sammála. Mér hefur alltaf boðið við þessari græðgi.

[Skutlast heim á gamla station-bílnum sínum og hendir ýsu í pott]

1/11/07 05:01

Wayne Gretzky

Þorramatur óætt júnk?........................................................................... .................................................................nei

1/11/07 05:01

Huxi

Wæni-Grétar: Éttu matinn þinn og þegiðu svo....

1/11/07 05:01

Nermal

Mér finnst þorramatur vera viðbjóður. Það er ekkert hægt að mótmæla því. Pasta og hrísgrjón eru líka mjög ódýr matur.

1/11/07 05:02

Regína

Hvað er veriða blanda þorramat í umræðuna um venjulegan heimilismat? Sumir borða slátur, aðrir ekki. Dula var mest að tala um kjötbollur og fiskbollur og mat sem er ódýr því það þarf að elda hann.

1/11/07 05:02

Bleiki ostaskerinn

Fólk er samt enn ekki hætt að henda heilum hlutum. Ég veiddi þríhjól handa syni mínum upp úr ruslagámnum í vinnunni hjá mér í fyrradag. Samstarfsmaður minn henti því og svo til ónotaðri barnakerru án þess að svo mikið sem athuga hvort einhver gæti notað þetta. Það má kannski taka það fram að gámurinn var tómur utan við þessa nothæfu hluti þegar þeir voru teknir upp.

1/11/07 06:01

Dexxa

Flott félagsrit! Ég get nú ekki sagt að ég hafi farið á neitt eyðslufyllerí.. Enda hefur lítið sem ekkert breyst hjá mér.. Ég borða að vísu ekki mikinn þorramat.. finnst hann bara ekki góður.. en er alltaf tilbúin að smakka.

1/11/07 01:00

Skreppur seiðkarl

Ég hef verið láglaunaður á þessum 'góðæristímum' með 160 - 240.000 útborgaðar á mánuði. Ég veit ekki í hvern andskotann þessi peningur fer en ég á 22" tölvuskjá og ég upp færði tölvuna mína eftir 4ra ára notkun. Kannski maður sleppi sér einstaka sinnum en ég hugsa alltaf um framtíðina og kaupi mér karton af sígarettum þegar ég fæ útborgað.

Dula:
  • Fæðing hér: 18/1/06 17:09
  • Síðast á ferli: 10/11/23 13:19
  • Innlegg: 22400
Eðli:
Dula er mit nafn og ég er best. Og svo get ég verið orðheppin, kemur líka fyrir að menn hlæi jafnvel upphátt þegar ég tjái mig.
Fræðasvið:
Ég er mjög fróð um mjög margt. En kannski ekkert alltof vitur um neitt. En fæ oft hugboð og fer eftir þeim. Er berdreymin , það er að segja ef ég er ber þá dreymir mig um ber.
Æviágrip:
Ég er fædd í október er sérlega glæsileg. Allsherjar snillingur og matgæðingur. Þar að auki kosta og kynjamálaráðherra Baggalútíu, það þýðir að ég hef yfirumsjón með pörum og einhleypingum í Baggalútíu Og vil fá að vita hver hefur samfarir við hvern eftir alla merkilega atburði í baggalútíu.