— GESTAPÓ —
Fíflagangur
Óbreyttur gestur.
Dagbók - 1/11/07
Veiðisaga úr raunheimum - þriðji hluti.

Fyrsta skrefið niður í skaflinn gaf góð fyrirheit. Hællinn gekk vel ofan í snjóinn sem var þéttur og fastur fyrir. Þetta yrði létt verk. Ég fikraði mig niður eftir skaflinum, fyrst til vinstri, svo til hægri. Þegar ég tók síðasta skrefið til hægri lá fyrir að snúa sér til vinstri og koma sér út úr skaflinum og ganga niður úr klettabeltinu í rólegheitunum. Við snúninginn lækkaði ég í skaflinum og fann að hann var orðinn helvíti harður. Þó var enn gott grip svo ég reyndi að vinna hæð aftur á leið minni þvert yfir skaflinn til að komast aftur upp í kaflann sem var auðgenginn. Færið bara versnaði. Eftir nokkur hænuskref var skaflinn orðinn svo harður að ég treysti mér ekki lengur til að fara lengra til vinstri. Erfitt var að bakka í sömu sporin og ómögulegt að taka skefið upp á við nógu gleitt til að komast í förin ofan við mig. Nú reið á að anda rólega og meta stöðuna.
Fyrsta skref var að gera sér mögulegt að ná stöðu til að stappa ný för í skaflinn. Það var ekkert annað að gera en að dýpka sporin sem ég stóð í og sjá svo til. Það mætti svosem skjóta för í helvítis skaflinn ef maður næði góðu jafnvægi. Þetta gekk ágætlega og eftir að hafa náð góðum skörðum í skaflinn rétti ég úr mér með hælana í skaflinn og varpaði öndinni.
"Jæja Klængur minn. Helvítis rugl er þetta nú í okkur."
Þegar ég hafði sleppt orðinu heyrði krafs og klór fyrir aftan mig. Hundurinn tók þetta sem vísbendingu um að hættan væri yfirstaðin og kom skoppandi niður skaflinn til mín. Það næsta sem ég finn er að hundurinn flaðrar eða rennur á hægri hnésbótina á mér.
"Aaaaandskotans hundfjandi!"
Með hægri hönd greip ég í hnakkadrambið á hundinum og henti honum aftur upp skaflinn. Sveifluna notaði ég til að koma hægri fæti í farið eftir vinstri fótinn og reyndi svo að stappa niður vinstri fætinum örlítið ofar til að halda þessari nýju stöðu, auk þess að færa byssuna yfir í hægri höndina til að ná jafnvæginu.
Eitt augnablik leit allt út fyrir að þessi nýja staða héldi. Svo fann vinstri fóturinn að hann hafði einfaldlega lent á hjarninu án þess að marka nokkuð í það. Hann myndi renna niður skaflinn um leið og ég gæti ekki lengur haldið fullri spennu í öllum neðri hluta líkamans. Það yrði ekki lengi. Ég spyrnti því vinstri fæti frá hjarninu og teygði hann út fyrir skaflbrúnina á stein sem stóð út í skaflinn eilítið ofar an þar sem ég hafði staðið. Ég stóð þarna eitt andartak, gleiðari en ég gat með góðu móti, með annan fótinn á steini sem gerði lítið annað en að halda við hann og hinn með hælinn í glerhörðum skafli sem teygði sig niðurundan mér niður að næstu klettabrún.
Það var grafarþögn. Meira að segja vindinn hafði lægt og eina hreyfingin var í sólargeislunum þar sem þeir glömpuðu í lækjunum fyrir neðan mig.
Svo gaf skaflinn sig undan hælnum.

Þegar maður undirbýr sig fyrir það að detta í skafli í brekku er best að halda á ísexi. Þegar ég fór að ganga til rjúpna á þessu svæði lenti ég fljótlega í því að þurfa að þvera skafla. Ég á ekki ísexi en ákvað að ef rétt væri farið að mætti alltaf nota byssuna til að stöðva sig áður en maður rynni af stað. Ég æfði mig meira að segja í skafli á viðbrögðunum. Takmarkið er að snúa alltaf hliðinni í skaflinn með byssuna klára í báðum höndum þannig að þegar lappirnar renna undan manni séu í raun ósjálfráð viðbrögð að reka hlaupið á bólakaf í skaflinn. Fallið sjálft sé þannig meirihluti þess afls sem rekur hlaupið niður og málið er bara að hanga í kvikindinu. Ég hef bæði prófað þetta og þurft að nota. Aldrei reyndar í skafli ofar klettum, en þó sparað mér nokkra marbletti í gegn um tíðina. Málið er sumsé það að ef maður ætlar að detta í skafli á maður ekki undir neinum kringumstæðum að snúa baki í hann.

Það er ótrúlega margt sem getur farið í gegn um hugann þessa sekúndu eða tvær sem það tekur að renna niður snarbrattan skafl. Ég náði t.a.m. að dást að hvað byssan þeyttist í fallegum boga yfir mig eftir að ég hafði náð að reka bláendann að hlaupinu í skaflinn. Ég náði líka að reyna að þreifa á rennilásnum á vasanum sem síminn var í. Það væri eins gott að hafa símann ef maður myndi enda lifandi eftir fallið. Ég náði líka að reyna eftir bestu getu að halda stefnunni þannig að lappirnar myndu lenda á undan í urðinni.
Svo skall ég á henni. Öll von um að stöðva sig á grjótinu var í raun horfin áður en ég kom að því. Hraðinn var orðinn slíkur að það var fullljóst að ég færi yfir urðina og fram af klettinum. Ég reyndi samt af öllum kröftum að spyrna í þó ekki væri nema til þess að hlífa skrokknum við grjótinu. Þegar ég lenti fann ég bara fæturna bögglast undir mig eins og þeir væru skálmarnar tómar. Eftir það gat ég aðeins hugsað eina hugsun þar sem ég þeyttist fram af hamrinum.
"Nú er þetta búið!"

   (5 af 24)  
1/11/07 08:01

Lepja

Jédúddamía!

1/11/07 08:01

Regína

Veiðar eru greinilega stórhættulegar.

1/11/07 08:01

Huxi

Þú ert þó ekki dauður eins og rjúpan sem þú skaust...

1/11/07 08:01

hlewagastiR

Það er alveg laust við að ég vorkenni mönnum slasast á rjúpnaveiðum eða verða fyrir öðrum hremmingum. Ég get jafnvel ekki neitað því að ófarir þeirra hlægja mig oftast. Ég er nefnilega vinur rjúpunnar og þar með óvinur óvina hennar. Þó hló ég ekki þegar ég heyrði af helvítis mannfýlunni sem dró barnungan son sinn með sér í slíka níðingsför um daginn með tilheyrandi fyrirhyggjuleysi í morðbrimanum og þarm með þeirri afleiðingu að drengurinn er nú stórslasaður. Bíður heimsku föðruins jafnvel aldrei bætur. Erfðasynd í framkvæmd. Þá hló ég ekki. Hefði þó verið til í að berja helvítis manninn.

1/11/07 08:01

Huxi

Þar erum við þó sammála Hlebbi sæll...

1/11/07 08:01

Lepja

Mér finnst það vera hræsni að vilja ekki drepa það sem maður ætlar að éta. Láta aðra um skítverkin og smjatta svo á sunnudagssteikinni, helst eftir að hafa talað illa, daginn áður á Gestapó, um þann sem drepur sjálfur sitt fæði.

1/11/07 08:01

Lepja

Nema auðvitað að þið séuð grænmetisætur herramenn. Sem ég efast um.

1/11/07 08:02

Tigra

Lepja: En hvað finnst þér um þá sem fara og skjóta 200 rjúpur, éta 10 og henda rest?
Eða fólk sem skýtur ýmis dýr bara til þess að hengja höfuðið á þeim upp á vegg?

1/11/07 08:02

hlewagastiR

Aldrei hef ég étið rjúpu og það er ekki á dagsrká.

1/11/07 08:02

Lepja

Tigra: Það er ljótt að gera. En ég hef líka hent hálfum kjúkling í ruslið vegna þess að ég var ekki eins svöng og ég hélt. Ég er ljót. Keypti líka einu sinni leðurjakka sem ég notaði bara 3 sinnum. Og það var alltaf bara til að líta vel út. Semsagt skraut. Ég er vond.

1/11/07 08:02

Lepja

hlewagastiR: Hvaða dýr hefur þú étið og hvers vegna var líf þeirra minna virði en líf rjúpu?

1/11/07 08:02

hlewagastiR

Lepja: Ég skil vel punktinn hjá þér. Sennilega er það vegna þess að rjúpan er einkennilega varnarlaus skepna sem hefur fengið það hlutskipti að kúldraðst í köldri auðn Íslands hundelt af aragrúa náttúrulegra óvina - sem fær mann til að finnast það skepnuskapur að slást í hóp óvinahennar.

Auðvitað má halda því fram að missir þrosks eða búrhænu sé sísti minni þegar viðkomandi eru sviptir lífinu - og síst minna sárt. Vísindamenn hafa jafnvel fært sönnur á það að engin lífvera kveljist jafn mikið við dauðdaga sinn og gulrótin þegar hún er dregin upp úr jörðinni. Sársaukahormónin fara þá á meiri siglingu en þekkist í neinu öðru lífsformi. Þó drepst hún ekki alveg fyrr en við gnögnum hana lifandi en hálfdauða. Þetta er ljótt.

Þrátt fyrir þetta allt er hugur minn með rjúpunni örðum kvikindum fremur. Kannski það sé allt Jónasi Hall að kenna. Ég oflas hann sem barn. Þó fyrirlít ég helvítis manninn fyrir hvernig hann fór með Breiðfjörð og rímnahefðina.

Já, það væri gott að þurfa ekki að drepa aðra til að halda lífi sjálfur. Liklega væri göfugast að reyna að halda andlátum í algeru lágmarki, með -öðrum orðum, við ættum helst ekki að leggja okkur annað til munns en stórhveli. An gulrótarstöppu.

1/11/07 08:02

Skabbi skrumari

Þetta er æsispennandi... meira meira...

1/11/07 08:02

Fíflagangur

Nei, það er nú bara best að skilja börnin alltaf eftir heima í tölvunni.

Það hefur aldrei skilað nokkru að taka þennan debatt. Það eru annars vegar þeir sem skilja og stunda veiðar. Þeir eru misjafnir og asnar þar inn á milli eins og annar staðar.
Enn misjafnari er hópurinn sem ekki skilur eða stundar veiðar.
Þeir einu sem ég tek mark á í þeim hópi eru þeir sem eru grænmetisætur.
Aðrir lifa í sjálfsblekkingu og hræsni.

Því segi ég:
Kellingar!
Þeir skilja það sem hafa vit til.
Aðrir mega móðgast.

1/11/07 08:02

hlewagastiR

Ég gæti auðvitað spurt á móti: hversvegna etið þið ekki hudnana ykkar og kettina ykkar? Og sagt að ég taki ekki neitt mark á þeim sem neita sér um slíka krásir nema þeir séu grænmetisætur og helst afhaldsmenn á gulrætur.
Hitt er rétt að debattur þessi skilar ekki niðurstöðu því að hann snýstu um prívat smekk og gildismat. Ég býst við að minnihluti rjúpnaætna myndi éta lóur. Þó styðja engin rök að farið sé út í slíkt fuglgreinaálit. Sjálfur á ég vini og mér ér illa við að þeir séu drepnir. Það nægir mér. Ég verð svo að þola það ef eihverjir áðrir fella yndi við búrhænsnin og mjókurkýrnar sem ég sjálfur ét.

1/11/07 08:02

Skabbi skrumari

Mmmm.... fátt er betra en grillaðar heiðlóubringur...

1/11/07 08:02

Lepja

Hræsnin sem ég talaði um snýst ekkert um hvaða dýr er drepið heldur hvort að þeir sem drepa ekki þau dýr sem þeir sjálfir éta hafi efni á að gagnrýna þá sem drepa sinn kvöldmat sjálfir. Ég held ekki.

1/11/07 08:02

Skabbi skrumari

Hættið að tala um mat... [Getur ekki hætt að hugsa um rjúpu í einiberjasósu og slefar]...

1/11/07 08:02

Billi bilaði

<Kjellingast>

1/11/07 09:00

Einstein

Er ekki rétt að éta það sem maður drepur? Ég drap eitt sinn mann og át hann með bestu lyst. Með einiberjasósu og slefi.

1/11/07 09:01

Skabbi skrumari

Hvenær kemur fjórði hlutinn?

1/11/07 09:01

hlewagastiR

Hvenær étur maður mann og hvenær étur maður ekki mann. Fjandakornið að ég át hann!

1/11/07 09:01

Fíflagangur

Nei Skabbi.
Ekkert er betra en grillaðar heiðlóubringur, nema ef vera skyldi smjörsteiktar heiðlóubringur.

En allt er best í hófi. Rest kemur fyrir rest.

1/11/07 09:01

Fíflagangur

Nei Skabbi.
Ekkert er betra en grillaðar heiðlóubringur, nema ef vera skyldi smjörsteiktar heiðlóubringur.

En allt er best í hófi. Rest kemur fyrir rest.

1/11/07 09:01

hlewagastiR

Nei Skabbi.
Ekkert er betra en grillaðar heiðlóubringur, nema ef vera skyldi smjörsteiktar heiðlóubringur.

En allt er best í hófi. Rest kemur fyrir rest.

1/11/07 09:02

Einstein

Nei Skabbi.
Ekkert er betra en grillaðar heiðlóubringur, nema ef vera skyldi smjörsteiktar heiðlóubringur.

En allt er best í hófi. Rest kemur fyrir rest.

1/11/07 11:00

Finngálkn

Eins manns dauði er annars brauð sagði amma alltaf þegar hún bar í okkur börnin sunnudagssteikina! - Það var svo löngu seinna að við áttuðum okkur á að þetta var afi sem sú gamla hafði sneitt niður og fryst til að eiga til mögru áranna.

1/11/07 11:00

Finngálkn

Uh já... Afi var sem sagt algjört lamb - mjög ljúffeingur.

1/11/07 12:00

Labbakútur

Falleg spáin sem finnst í orðabelg við grein yðar frá 2004 Þú erdrekinn...Jóhannes spámaður er messías.

Fíflagangur:
  • Fæðing hér: 22/8/03 13:35
  • Síðast á ferli: 24/9/11 11:06
  • Innlegg: 82
Eðli:
alltaf fullur
Fræðasvið:
lög
Æviágrip:
ætíð fullur