— GESTAPÓ —
Günther Zimmermann
Heiðursgestur.
Pistlingur - 2/11/08
Um Jón Þorláksson, tóbaksskort og jólasálma

Nýlegt félagsrit og kvæði Ira Murks minnti mig á annað kvæði, sem mér hefur lengi þótt ansi skemmtilegt.

Bæsár-Jón, Jón Þolláksson frá Bægisá (1744-1819), orti það og er það prentað undir titlinum Tóbaksskortur og pappírsleysi í kvæðasafni hans, sem Heimir Pálsson bjó til prentunar og út kom árið 1976. Annars má það um Jón segja að hann vann sér það helst til frægðar að hafa þýtt bæði Paradísarmissi eftir Mitlon og Tilraun um manninn eftir Pope. Hann var líka einna fyrstur Íslendinga til að sjá kvæði eftir sig á prenti meðan hann var enn lífs. Sigurður Stefánsson skrifaði ævisögu Jóns, Jón Þorláksson, þjóðskáld Íslendinga sem út kom 1963. Einnig er rétt að minna á safnrit sem kom út 1919 og hét: Jón Þorláksson 1744 - 1819 - 1919 og innihélt ljóðmæli, nokkur bréfa Jóns, ævisögu og fleira.

Í framhjáhlaupi vil ég, tíðarandans vegna, láta þessa vísu sr. Jóns fylgja, sem er fimmta erindi Veilræða.

Fýsi þig stolins fjár að afla
forgefins slíkt ei byrjað sé:
Steldu svo fram úr kunnir krafla
og kaupa þig frá snörunne,
því hengingar gista engir ól
utan smá-þjófa greyleg fól!

Ég þykist hafa gert þá uppgötvun (en líklega er það kunnara en frá þurfi að greina) að kvæðið má syngja við sama lag og jólasálminn hans Einars í Heydölum (eða Eydölum), um nóttina einu sem var svo ágæt. En án frekari málalenginga, hér er kvæðið:

Tóbaks-, pappírs-, lýsislaus
legg eg frá mér kvæðaraus,
það skal geymast, ha-ha-ha,
handa mér til jólanna
og hvörn við bita hátt upp kyrjast: Ha…ja!

Sjötta bókin eftir er
öll því nær í sekk hjá mér,
en af pappír óskrifað
ekki minnsta skeinisblað.
– Við sál og heilsu Svarta-Kolbeins sver ég það.

Yðar mann, það aldna skinn,
elskulegan prófastinn,
til altaris eg ekki tek
utan pappír fái og blek,
– við mig sálin vesæl ella verður sek.

Trúi ég vart að tóbakslauf
til ei léti nokkur rauf,
grufli fornum gólfum í
Guðlaug meyjan eftir því.
– Hálfvitlaus á hennar náð eg hér með flý!

---
Skýringar
'Lýsislaus' Lýsi var notað sem ljósmeti. Jón var ekki að hugsa um hollt mataræði.
'Svarti-Kolbeinn' Svo nefndi Jón vinstri fót sinn, en hann var haltur.
'Prófastinn' Hann var sr. Magnús Erlendsson á Hrafnagili. 'Yðar mann' vísar þá væntanlega til Ingibjargar, konu sr. Magnúsar.
'Sjötta bókin' Hér á skáldið líklega við þýðingu sína á Paradísamissi Miltons, sem er mikil kvæðabálkur í 12 bókum.
'Guðlaug meyjan' er dóttir sr. Magnúsar. Gengu mörg ljóðabréf á milli hennar og Jóns í elli hans, t.a.m. þessi staka: Uppbyrjaðan árs um hring /og alla tíma /kristilegur blíðu blómi /bliki á yðar jómfrúdómi.

Eftirmáli

Jón Helgason prófastur stældi sem frægt er orðið stíl Jóns þegar hann orti tannlækniskvæði. Stælingu prófessorsins stældi ég svo þegar ég barði saman tölvukvæði, sem var nokkurnveginn eins og sést hér fyrir neðan, þótt mig minni að ég hafi það birt hér áður. Athugið að stafsetningin miðast nokkurnveginn við rithátt þeirrar aldar er Jón lifði. Hin kvæðin eru öll með nútímastafsetningu.

Þu satst í mirkre umm midia noott
mæddur ad reijna ad laga
mina tolvu, tærda af soott;
tæknenn mig ydkar ad plaga.
Eg lä í wøku og vard ej roott,
þui uel ég heijrde þig kiaga
j angistarfullre ähiggiugnoott;
þad yrde brátt teked ad daga.

Innehalld tölvunnar, æfestarf mitt,
þier uppälagt var þui ad biarga.
Þad heppnadest eckj, handuerked þitt;
hördum disk uardstu ad farga.
Þegar so tijdendenn tiader mier, sjitt,
jeg täradest, hóf so ad garga:
„Fari þú argur í úldenn pitt!
Jeg ata þig fidre og tiarga.“

   (3 af 25)  
2/11/08 01:02

Vladimir Fuckov

Mjög skemmtilegt og fróðlegt - einkum var þó tölvukvæðið skemmtilegt. Skál ! [Sýpur á fagurbláum drykk]

2/11/08 01:02

hlewagastiR

Unaðslegt!

2/11/08 01:02

Regína

Eitt langar mig að vita: Hvað meinar hann með skeinisblað.
Ég stórefast um að klósettpappír hafi verið brúkaður á þeim tíma eins og nú.

2/11/08 02:00

Günther Zimmermann

Eitt dettur mér í hug, væri ekki hægt að skjóta því að symfónleikurum og lúðraþeyturum Baggalúts að taka upp texta Jóns við lag Sigvalda Kaldalóns?

Annars veit ég svosum ekkert um þesstíma skeini, mér datt hreinlega ekki annað í hug en klassísk merking orðsins. Stutt eftirgrennslan hefur gefið þetta upp.

1. Frá miðri 17. öld er til þetta orðatiltæki:
„Af fátækra metnaði skeinir djöfullinn dausinn.“

2. Frá 1844, 25 árum eftir andlát séra Jóns, er þessi texti:
„þeir bæklingar [ [...]] kaupast með spottglósum [ [...]] aftur til nýrrar og máske eilífrar hvíldar, nema ef sú menning kæmist á að skeina sig með öðru en fingrunum.“

3. Og frá lokum 19. aldar höfum við þetta dæmi:
„hann [::Þjóðólfur] er ekki hafður til annars en [ [...]] skeina sig á honum.“

Mér sýnist á þessu að sr. Jón hafi lifað á umbrotatímum endaþarmshreinsunar á Íslandi. Vísindin efla alla dáð!

---
Athugasemd: Innsláttarvilla hefir slæðst inn í nafn Miltons í textanum hér ofar, bið ég lesendur velvirðingar á því.

2/11/08 02:00

Günther Zimmermann

Og til viðbótar: Jón Þorláksson ætti að verða verndardýrlingur detoxunar [framb. de:thochs, ekki díthoks] Jónínu Ben.!

2/11/08 02:00

Regína

Þetta er fróðlegt. Allt saman.

2/11/08 02:00

hvurslags

Þetta er stórbrotið. Ég skellti uppúr í aðdáun á stað þar sem á annars að hafa hljóð. En ég stóðst ekki mátið. Hafðu þökk Günther.

2/11/08 02:00

Ira Murks

[Gefur Günther í nefið]

2/11/08 02:00

Huxi

Þetta er magnað, fróðlegt og skemmtilegt félagsrit. Haf mína þökk og góðar óskir fyrir.

2/11/08 02:01

Útvarpsstjóri

Frábær pistill, endilega komdu með meira svona.

2/11/08 02:01

krossgata

Skemmtilegt! Var ritháttur almennt svona flámæltur (e í stað i) á þessum tíma?

"j angistarfullre ähiggiugnoott;" Á þetta j að vera þarna í upphafi línu?

2/11/08 02:01

Útvarpsstjóri

Ég tek mér það bessaleyfi að svara spurningum Krossu, og svara báðum spurningunum játandi.

2/11/08 02:01

Þetta er stórglæsilegt félagsrit, svo stútfullt sem það er af fróð- og skemmtileik. Og sérstaklega skemmtileg tilbreyting frá lestri fræðilegra einkamálaréttarfarshugleiðinga. Ég kann þér bestu þakkir, þetta verður lesið oftar.

2/11/08 02:01

krossgata

Þá spyr ég enn. Voru einhverjar reglur um hvenær í var notað og hvenær j?

2/11/08 02:01

Kargur

Þökk fyrir. Varðandi flámælskuna má geta þess að í Kanada og Bandaríkjahreppi er hún enn brúkuð af afkomendum vesturfaranna.

2/11/08 02:01

Jóakim Aðalönd

Þessir menn (alla vega Jón Þolláksson) voru náfrændur mínir og hafðu þökk fyrir að koma þeirra verkum á framfæri...

...fíflið yðar!.

Skál!

2/11/08 02:01

Günther Zimmermann

Er Jóki skyldur Jóni Þolláks! Óskaplega ertu úrættis, Kimi minn.

2/11/08 02:01

hvurslags

Eða eins og skáldið sagði:

Taktu í nefið tvinnahrund
til er baukur hlaðinn.
Komdu svo með káta lund
og kysstu mig í staðinn.

2/11/08 02:01

Jóakim Aðalönd

Á ég sumsé að kyssa Günther? Ég er ekki viss um að mig langi til þess...

2/11/08 02:01

Jóakim Aðalönd

...og já, ég er úrættis, alla vega með þennan part ættar.

2/11/08 02:01

Jóakim Aðalönd

Það má reyndar nefna að Günther hefur kysst Aðalöndina og reyndar fleiri á Þarfaþingi, en hefur sér til afsökunar að vera blindfullur...

2/11/08 02:02

Günther Zimmermann

Jæa, farið nú að láta af þessu kossaflensi.

Eitt hnaut ég um! Ég hef kallað Jón Helgason prófessor, prófast! Það er reginhneyksli og biðst ég margfaldlegrar afsökunar á því. Þetta er nú einusinni Jón sem orti:

Ef allt þetta fólk fær í gullsölum himnanna gist
sem gerir sér mat úr að nugga sér utan í Krist,
þá hlýtur sú spurning að vakna hvort mikils sé misst
ef maður að síðustu lendir í annarri vist.

En aftur að efninu, Jón prestur Þorláksson gæti hafa stælt bragarhátt Einars í Eydölum (eða Heydölum) fyrir þetta kvæði af því að nokkru áður en hann orti það átti hann í mikilli sennu vegna nýrrar sálmabókar, sem prentuð hafði verið á Leirárgörðum, og þóttu sálmarnir í henni svo illa ortir að hún var kölluð Leirgerður. En á tímum Jóns var annað lag sungið við sálm Einars er nú er, og segja mér það fróðir menn að það lag sé nú glatað.

En nú vil ég heyra undirtektir ykkar við þeirri hugmynd minni, að skora á hljómsveit Baggalúts að taka texta sr. Jóns upp við lag Sigvalda Kaldalóns?

Til upprifjunar er hér tengill á sálm Einars sunginn við lag Sigvalda: http://www.youtube.com/watch?v=KGZX33-A6hc

2/11/08 02:02

Günther Zimmermann

En hvernig læt ég! Afsakið dónaskapinn og hafið heila þökk fyrir fögur orð um þennan samtíning.

2/11/08 03:00

Günther Zimmermann

Afsakaðu Krossgata að spurning þín fór fram hjá mér. Ekki var gerður greinarmunur í ritmáli á i/j og u/v að sama marki og við gerum í dag á fyrri tímum. Allt tal um 'reglur' sambandi við ritmál fyrir árið 1929 (minnir mig, það var alla vega á þriðja áratug síðustu aldar) er vandkvæðum bundið, þar eð þær voru hreinlega ekki til. Fyrstu lög um stafsetningu voru sem sagt sett þá. (Kannski var það 1926.) Vissulega voru menn byrjaðir að festa þetta niður fyrir sér fyrr, sbr. frægar stafsetningarreglur Fjölnismanna frá því um ca. 1835, blaðamannastafsetninguna svokölluðu og fleiri dæmi frá 19. öld, sem snarfjölgar eftir því sem nálgast aldamótin 1900 og eftir þau. Ætli stafsetning hafi ekki verið næst vinsælasta þrætuepli landsmanna á þessum tíma, næst á eftir sjálfstæðismálinu.

En gerum langa sögu stutta: Þetta 'j' á að vera þarna, og það á að lesast sem 'í'.

Um meint flámæli (sem vera má að ég hefi ofnotað sökum nýjunga- (eða öllu heldur fornyrða-) blætis vísa ég í orðabelgi Hlégests við flégasrit mitt, Tölvukvæði, þar sem það var birt fyrst. (Enda er hér ekkert nema endurtekið efni.)

2/11/08 03:01

Kífinn

Glæsilegt eitt saman. Ekki hefði mig rennt í grun að ég skildi geta notið forneskjumálblæbrigða jafn vel og raun ber vitni.

1/12/09 23:00

Rattati

Eftir langa fjarveru af síðum Baggalúts kom á mig sú löngun að elta uppi félagsrit er´eg hafði ekki lesið. Var þar svosem af nógu af taka og var margt ánægjulegt, sumt allt að því skemmtilegt. En þegar ég hnaut um þetta félagsrit var mér öllum lokið. Snilldin sem Gunther hefur löngum haldið á lofti náði hér að mér fannst algerlega nýjum hæðum, sérlega í Tölvukvæðinu. Þetta félagsrit fer í sama flokk og saumaklúbbaritin hans Haraldar Austmann. Í þann flokkinn er vandratað hjá mér.
Takk Gunther. Megir þú lengi rita.

Günther Zimmermann:
  • Fæðing hér: 13/11/05 22:34
  • Síðast á ferli: 6/10/16 10:53
  • Innlegg: 2105
Eðli:
Fróðleiksfús fáráðlingur.
Fræðasvið:
Breytingar á hæð og breidd bókstafsins t í bakstöðu eins og specimenið lítur út komið úr penna skrifarans Jóns Bjarnasonar frá Hvammi í mið-Múlasýslu frá maí mánuði 1623 til sumarloka 1624.
Æviágrip:
Fæddur á síðustu öld. Hefur alið aldur sinn í faðmi Fjallkonunnar og Germaníu en gistir Dannebrog í Babýlón við Eyrarsund nú um stundir.