— GESTAPÓ —
Günther Zimmermann
Heiðursgestur.
Sálmur - 5/12/07
Um rós á heiði

Hér er birt þýðing mín á ljóðinu Heidenröslein e. Jóhann, ortu 1779.

Sá einn rósu stauli standa,
stóð á víðri heiði.
Morgunjómfrú æskuanda,
æstur rann, að sjá, á skeiði,
auga bar'hann, særður seiði.
Rósa, rósa, rósa rauð,
rósin ein á heiði.

Sláni mælti: "nú slít eg þig,
sléttri, rós, á heiði."
Sagði rósa: "þá særi'eg þig,
svo þú æ munt hugsa'um mig,
og mig ærir enginn leiði."
Rósa, rósa, rósa rauð,
rósin ein á heiði.

Sá þá æsti seggur sleit
sanna rós á heiði;
rósin barðist um og beit,
brugðust hennar köll, ég veit;
hitti fyrir rósa reiði.
Rósa, rósa, rósa rauð,
rósin ein á heiði.

   (18 af 25)  
5/12/07 09:01

Wayne Gretzky

Rósa rósa

5/12/07 09:02

Kiddi Finni

Júh.

5/12/07 09:02

hlewagastiR

Þú ræðst ekki á garðinn þar em hann er lægstur, Gunnar sæll. Stengrímur Thorsteinson var víst búinn að þessu á undan þér. Alltaf erfitt að toppa þjóðskáldin. Ég dembi útgáfu hans fram hér til samanburðar. Ég mæli eindregið með því að þú hjólir í Álfareið Heines næst.

Sveinninn rjóða rósu sá,
rósu smá á heiði.
Hún var ung með hýra brá.
Hljóp hann nær og leit þar á.
Nú bar vel í veiði.
Rósin, rósin, rósin rjóð,
rósin smá á heiði.

Sveinninn kvað: „Nú þríf ég þig,
þú mín rós á heiði.“
Rósin kvað: „Nú ríf ég þig.
Ráð er síst að erta mig.
Farðu frá, ég beiði.“
Rósin, rósin, rósin rjóð,
rósin smá á heiði.

Sveinn tók rós, og síst hann kveið,
smáa rós á heiði.
Rósin varðist, svo hann sveið.
Sveini var það kvöl og neyð.
Þolinn samt hann þreyði.
Rósin, rósin, rósin rjóð,
rósin smá á heiði.

5/12/07 09:02

Günther Zimmermann

Já, mig grunti að einhver hefði snarað þessu áður. Og var að vona að góðir menn myndu benda á það, þakkir færi eg yður.

5/12/07 09:02

hvurslags

Þetta er gott framtak. Síðan væri prýðilegt að ráðast í enn eitt afbrigðið af Lorelei - í fljótu bragði man ég eftir stælingu Sigurðar Þórarinssonar jarðfræðings, sem endaði e-k veginn svona:

"Og bláu báurnar gleyptu
bátinn með manninum.
Því eflaust hún Lorelei olli
með andskotans kveðskapnum."

Annars minni ég á tvær stökur sem ég orti á einhverju hagyrðingamótinu um Heiðarósina:

Göethe reit um rósu smáa
rjóða, því að syndin fláa
missti hennar meyjarblóm.
Var það meir en metafóra
því mærin seinna gerðist hóra;
gengur nú um götur Róm.

Á þýzku hljómar þetta kvæði
þokkafullt, þó inn í slæði
Göethe duldum greiningum.
Ungt er sumra skilningstré, en
“sah ein Knab' ein Röslein stehen”
er merkishlaðið meiningum.

5/12/07 10:00

Bölverkur

Duldar greiningar, ok, en merkishlaðið meiningum? Er svona lagað ekki bara kjaftæði, eða hvurnig ber að skilja svona? svari sá er reit og aðrir, hafi þeir til þess nennu.

5/12/07 10:00

Jóakim Aðalönd

Ja hjerna...

Hjer er komið slíkt skáldaþing að smáir menn sem vjer megum okkur sízt í frammi. Þakkir fyrir öll þessi innlegg.

5/12/07 10:01

hvurslags

Bölverkur: Ætli það verði ekki að skrifast á fljótfærni mína fyrir hagyrðingamótið... [glottir]

5/12/07 10:01

Regína

Vel á minnst, hver verður með næsta hagyrðingamót og hvenær?

Bölverkur. Ég skora á þig.

5/12/07 10:02

Regína

Eða Hlebbi. Hvor verður á undan?

5/12/07 10:02

Regína

Nú, eða Günther.

Günther Zimmermann:
  • Fæðing hér: 13/11/05 22:34
  • Síðast á ferli: 6/10/16 10:53
  • Innlegg: 2105
Eðli:
Fróðleiksfús fáráðlingur.
Fræðasvið:
Breytingar á hæð og breidd bókstafsins t í bakstöðu eins og specimenið lítur út komið úr penna skrifarans Jóns Bjarnasonar frá Hvammi í mið-Múlasýslu frá maí mánuði 1623 til sumarloka 1624.
Æviágrip:
Fæddur á síðustu öld. Hefur alið aldur sinn í faðmi Fjallkonunnar og Germaníu en gistir Dannebrog í Babýlón við Eyrarsund nú um stundir.