— GESTAPÓ —
Günther Zimmermann
Heiðursgestur.
Pistlingur - 4/12/07
Um skáldskap

Nú er ég hefi rætt ögn um orðin og form þeirra, auk innra samhengis setninganna, er rétt að beina sjónunum að markmiði þess (eða einu þeirra) að setjast niður og setja saman orð; skáldskapnum.

Áður en lengra er haldið, er bezt að vitna í þann sem vinsælast er að vitna (eða vitna ekki) í:

„En skáldskapur, og þá einkum í lausu máli, er hlutur sem heimtar ekki einúngis gáfur, sé þar að marki miðað, og þær á mörgum sviðum, heldur natnari starfshyggju, brattgengari vilja, róttækari þjálfun en nokkur starfsgrein önnur, og strithæfari orku.
[…]
Ritlistin, skoðuð sem starf, er fólgin í kunnáttu til að fara með allar hugsanlegar hugsanir, að málinu sem miðli eða verkfæri. Og af rithöfundinum krefst sleitulaust erfiði, sífeld sókn frammávið, til aukinnar verklegrar fullkomnunar, þolinmóð yfirlega sýknt og heilagt.
[…]
Menntun höfundarins á hvergi að eiga sér takmörk. Honum sé það eitt markmið að hugsa, mæla og vita þúsund sinnum betur en þúsundirnar.“

(Halldór Kiljan Laxness: Af menníngarástandi. Ólafur Ragnarsson gaf út. Reykjavík, 1986. Bls. 79-81.)

Mörgum er gefið að skrifa skáldskap. Almættið veit að ég er ekki einn þeirra, ég kann bara að segja frá hlutum wie es eigentlich gewesen ist (nei, ég nenni ekki að vísa í Ranke).

En hvernig skrifast skáldskapur? Hér er vafalítið einstaklingsmunur eins og í öðru, en ekki sakar að leita fordæma. Halldór boðar iðni, þjálfun og þrotlausan lestur verka annarra. Einhverntíman heyrði ég viðtal við Thor Vilhjálmsson, þar sem hann sagði sína beztu kennslu í skáldskap hafa verið þegar einhver (mér er gleymt nafnið) kenndi honum að henda eigin texta – og byrja upp á nýtt. Annarsstaðar sá ég (ogsvo hulið hvar) að listin við að skrifa texta sem liti þanninn [svo, orðið er fegurra svona] út þeim er læsi, að sem hið ómþýða mál rynni áreynslulaust úr penna höfundar væri að endurskrifa aftur og aftur og aftur!

Jón Helgason prófessor skrifaði í Handritaspjalli sínu að enginn gæti kallað sig rithöfund á íslenzku án þess að hafa lesið í þaula Hómilíubókina, þar renni lindir íslenzks máls tærar en annarsstaðar. Handritið er með þeim elztu á íslenzku, frá 12. öld. Mál þess er enn lifandi okkur í dag. Hún er geymd í Svíþjóð en er til í nokkrum útgáfum, misgóðum þó.

Forn rit geyma ótal lindir líkar Hómilíubókinni, sjáið t.d. upphaf Konungsskuggsjár (Speculum regale):
„Ek leidda allar iðróttir fyrir augu hugar, ok rannsakaða ek með athygli alla siðu hverrar iðróttar, þá sá ek mikinn fjölda mœðast í villistigum þeim, er frá hölluðu siðligum þjóðgötum í villuþoku úsiða, ok týndusk í úbyggiligum dölum þeir, er þá stigu géngu, er mest lágu forbrekkis, þvíat þeir þreyttusk af langri mœðu runnins vegar ok höfðu eigi brekkumegin til uppgöngu, ok eigi fundu þeir gagnstigu þá, er þá mætti leiða til þjóðvega siða.“

Lesið nú konfektið aftur, og hið þriðja sinnið. Þið sjáið ekki eftir því.

Þessi stutti texti leiftrar af myndmáli fegurra nokkru en ég hefi annarsstaðar séð. Lesið hann einu sinni enn, og nú hægar en áður.

En formið eitt er ekki nóg til að gera góðan texta, innihald verður að vera. Höfundur þarf sumsé að hafa einhvern boðskap, því annars er til lítils unnið; lesandi situr eftir veltandi fyrir sér (óaflátanlega? Eða bara augnablik? Hvort vilt þú, sem höfundur?) hvað var þetta sem fyrir augu hugar míns bar? Var þetta kannski listaverk? Eða var þetta hjal hjóms og marklaust múður?

   (19 af 25)  
4/12/07 12:02

Upprifinn

Góðar gæsalappir utan um hann HKL.

hins vegar verður hver og einn að meta skáldskap á sínum eigin forsendum og mér finnst mjög skrítið að því sé haldið fram að hægt sé að læra að vera skáld eða yfirleitt listamaður.
það er hægt að kenna aðferðir en varla er hægt að kenna frjóa hugsun.

4/12/07 12:02

krossgata

Ég þoli ekki stafsetningu Dóra Lax og fraus því strax við fyrstu tilvitnun. Mér er lífsins ómögulegt að lesa nokkuð sem maðurinn skrifar. Píndi mig þó í gegnum þessar tilvitnanir.

Sýknt og heilagt? Er það ekki signt og heilagt?

Annars er ég sammála Uppa að mestu. En rithöfundum finnst sjálfsagt hitt og þetta best og gera þá að góðum rithöfundum (getur þó verið misjafnt hvað öðrum finnst um gæði þeirra). Sjálfsagt að leggja eyrun við ætli maður að fara að stunda skriftir. Eitthvað gæti reynst gott ráð.

4/12/07 12:02

Günther Zimmermann

Upprifinn hefur augljóslega látið hjá líða að lesa fyrsta skilyrð Laxness fyrir ritsnilld, sem er gáfur. Þær verða ekki lærðar, en þær má þjálfa og slípa til.
Einnig impra ég á þessu í síðustu málsgreininni. Því vekur athugasemd Upprifins furðu mína. En hvað um það.

Hvað stafsetningu 'Dóra Lax' varðar, þá er hún þanninn séð ágæt og rökrétt í sjálfri sér. Jafnvel soldið krúttleg. En hennar gætir ekki í orðasambandinu 'sýknt og heilagt'. Það ritast svo einninn af þeim er ekki hafa fengið nóbelsverðlaun - ella fái þeir bágt fyrir.

4/12/07 12:02

krossgata

Það var 'einúngis' sem mig hryllti við. Sýknt og heilagt/signt og heilagt var ekki tilvísun í stafsetningu Dóra, heldur hrein og klár spurning. Ég hélt alltaf að þetta ætti að vera signt og heilagt.

4/12/07 12:02

Kargur

Ekkert léttmeti hér á ferð. Gott aungvu að síður (svo ég stæli nú Laxnesið af veikum mætti). Laxnesið klappaði þarna sjálfum sér vel á bakið.
Merkilega löng setning þarna úr Konungsskuggsjá.

4/12/07 12:02

Huxi

Haf stórar þakkir fyrir skrifið Gúndi. Það er ekki ónýtt að fá félaxrit frá þér eftir að hafa þurft að vaða gorinn sem hefur verið að slettast hér inn á Lútinn, úr hlandforum lágmenningar og auðnuleysis, núna undanfarið. Og engin Hannesun hér á ferð.
Ég hélt reyndar það sama og Krossa, að það ætti að rita signt og heilagt., en það kann að vera að þetta sé samskonar afbökun í tímans rás og með físinn sem breyttist í flís, og féll við einhvern rass.
Það er sjálfsagt rétt að endurskrifun og brottkast texta er góð þjálfun, enda þarf égt oft að henda því sem ég ætla að að rita hér á Lútinn... Nema þegar ég er að segja eitthvað ljótt, en það skýrist sennilega helst af innræti mínu.

4/12/07 13:00

Upprifinn

„En skáldskapur, og þá einkum í lausu máli, er hlutur sem heimtar ekki einúngis gáfur, sé þar að marki miðað, og þær á mörgum sviðum, heldur natnari starfshyggju, brattgengari vilja, róttækari þjálfun en nokkur starfsgrein önnur, og strithæfari orku.“
ég leyfi mér að halda því fram að það þurfi ekki og jafnvel sé hægt að skemma góðan listamann með of mikilli innrætingu.
listamaður ætti eingöngu að læra það sem hann sjálfur leitar eftir að læra en skildi varast að láta segja sér fyrir um hvað læra skuli.

4/12/07 13:00

Z. Natan Ó. Jónatanz

Prýðilegt rit, sem varpar e.t.v. fram fleiri spurningum en það svarar. Um þetta málefni & önnur skyld hef ég miklar & margheilabrotnar meiningar, sem eru reyndar alltof víðfeðmar tilað gera hér skil, néheldur impra á í stuttu máli.

4/12/07 13:01

Andþór

Ég er ánægður með þessi rit undanfarið. [Ljómar upp]

4/12/07 13:01

Kiddi Finni

Skáldskapur þarf gáfu og enn frekar neista, það er að segja ogúrlegan vilja til að segja frá, segja sögu, tjá sig í mæltu eða rítuðu máli. Gáfan sem slik er eins og óslipaður eðalsteinn, en svo, með þraugsegju og mikilli vinnu fer vonandi að gerast eitthvað...

Günther Zimmermann:
  • Fæðing hér: 13/11/05 22:34
  • Síðast á ferli: 6/10/16 10:53
  • Innlegg: 2105
Eðli:
Fróðleiksfús fáráðlingur.
Fræðasvið:
Breytingar á hæð og breidd bókstafsins t í bakstöðu eins og specimenið lítur út komið úr penna skrifarans Jóns Bjarnasonar frá Hvammi í mið-Múlasýslu frá maí mánuði 1623 til sumarloka 1624.
Æviágrip:
Fæddur á síðustu öld. Hefur alið aldur sinn í faðmi Fjallkonunnar og Germaníu en gistir Dannebrog í Babýlón við Eyrarsund nú um stundir.