— GESTAPÓ —
Günther Zimmermann
Heiðursgestur.
Pistlingur - 3/12/07
Hvaðan kemur valdið?

Æ ofan í æ sé ég sæmilega skynsamt fólk nota orðið 'þegn' þegar rætt er um innbyggjara okkar ágæta lands, Íslands. Jafnvel fólk sem kjörið er til setu á Alþingi Íslendinga, og fólk sem hefur (hvernig sem það nú gerist) valist til setu á ráðherrastóli.

Það sætir furðu.

Ísland er sjálfstætt lýðræðisríki, sem býr við þingræði. Hér eru allir fulltrúar kjörnir, líka forsetinn.

Á erlendum málum er þegn subject, untertan, undersåt. Einhver undir annan settur.

Borgari er ágætt orð. Það má þýða sem borger, staatsburger, citizen. Borgarinn er ekki undir neinn setur.

Á Íslandi er enginn konungur (þó danska Aldinborgaraættin sé af Guðs náð réttborin til konungsdóms á Íslandi, og getur lítið við því gert, og við sömuleiðis, þótt við kjósum að hunza þeirra rétt til ríkis hér, og þau sömuleiðis). Hér framseljum við vald okkar (það kemur sumsé ekki frá Guði (að ofan), heldur frá íbúunum (að neðan)) á fjögurra ára fresti, og kjörnir fulltrúar fara með það vald í okkkar umboði.

Því er erfitt að vera þegn á Íslandi, nema máské maður hafi tvöfaldan ríkisborgararétt, og sé t.d. danskur einnig.

   (23 af 25)  
3/12/07 10:02

hvurslags

Hefur þó notkun orðsins ekki breyst? Mér finnst reyndar ekkert hljóma annarlega að nota orðið "ríkisþegn", einhver sem er settur undir ríkið og verður að hlýða því... (svona til að segja það í samhengi við félagsrit mitt fyrir neðan). Borgari hefur sömuleiðis breytt um blæ, þýðir ekki lengur "burgeis" heldur venjuleg kona eða karl.

3/12/07 10:02

Jóakim Aðalönd

,,Þegn" er viðurstyggilegt orð og niðrandi um þann sem það er haft. Við erum borgarar á þessu skeri og ekki orð um það meir!

3/12/07 10:02

Günther Zimmermann

Burgeisarnir eru yngri en upprunalegu borgararnir, þ.e. þeir er byggðu grísku borgríkin. Þar var jú lýðræði (demos = lýður, crati = ræði).

Anarkistum finnst máské hvaða form af ríkisstjórn sem er einhversslags valdníðsla og því réttmætt að kalla þegna þá er samþykkja slík ríki.

Þegnar finnast samt sem áður einungis í ríkjum þar sem valdið (eða hluti þess) kemur frá öflum öðrum en innbyggjurum landsins, t.d. almættinu eins og vinsælt var fyrir nokkrum árum.

Samfélag á borð við hið íslenzka byggir á sáttmála borgaranna, þar sem þeir framselja valdið (sem er þríeitt, eins og almættið), þ.e. löggjafar, dómgæzlu og framkvæmda. Lítist borgurunum svo á að valdið sé misnotað, t.d. til áfkáralegrar lagasetningar, óréttlátra dóma eða annarlegra framkvæmda er það þeirra að skipta valdhöfunum út, því þeir eru jú bara leigjendur að þráttnefndu valdi.

Svo má deila um hvernig þetta fúnkerar í praxís...

3/12/07 10:02

hvurslags

Sammála.

3/12/07 11:00

Grágrímur

Pff, er ekki skárra að kallast að vera "þegn" frekar en það sem maður er í raun og veru... launaþrælar bankanna og Baugs. Égséoft ísland fyrir mér eins og eina senuna í Matrix,allir íslendingar eru tengdir við banka/Baugs-Matrixið og halda því á floti og það segir þeim reglulega að þeir séu svo hamingjusamir og sjálfstæðir.

Matrix var ekkert vitleysa eftir allt saman.

3/12/07 11:01

Snabbi

Hvað það er kallað skiptir ekki máli. Kúkur breytist ekkert þó hann sé kallaður skítur. Málið er hvað við erum og hvort við erum sátt við það.

3/12/07 11:01

Kiddi Finni

Vér erum þegnar og verðum æ meir.

3/12/07 11:01

Jarmi

Ég er þegn samvisku minnar.

Günther Zimmermann:
  • Fæðing hér: 13/11/05 22:34
  • Síðast á ferli: 6/10/16 10:53
  • Innlegg: 2105
Eðli:
Fróðleiksfús fáráðlingur.
Fræðasvið:
Breytingar á hæð og breidd bókstafsins t í bakstöðu eins og specimenið lítur út komið úr penna skrifarans Jóns Bjarnasonar frá Hvammi í mið-Múlasýslu frá maí mánuði 1623 til sumarloka 1624.
Æviágrip:
Fæddur á síðustu öld. Hefur alið aldur sinn í faðmi Fjallkonunnar og Germaníu en gistir Dannebrog í Babýlón við Eyrarsund nú um stundir.