— GESTAPÓ —
Í uppáhaldi:
Félagsrit:
Vladimir Fuckov
Friðargæsluliði.
Heiðursgestur og  sagnaþulur.
Pistlingur - 2/12/06
Þurrkum út þorskstofninn

Bestu hugmyndirnar verða stundum til óvart

Nýlega stofnaði Mikki mús þráðinn Kvótinn:
http://www.baggalutur.is/gestapo/viewtopic.php?t=701

Þar kom Gaz m.a. með eftirfarandi innlegg: Ofveiðum bara meira.. þegar fiskurinn er búinn þá getum við verið með einkaframleiðslu á ræktuðum þorski...

Þetta er einhver besta hugmynd er sjest hefur í þessum málum. Er nauðsynlegt að hefja þegar í stað aðgerðir til að útrýma þorski á heimsvísu. Þetta má gera með undirróðursstarfsemi, með notkun eiturs, með því að láta sjerþjálfaða útsendara breyta stofnstærðartölum (t.d. með því að lauma núlli aftan við 'rjettar' tölur eða með því að brjótast inn í tölvukerfi) og með leynilegum ólöglegum veiðum víða um heim, t.d. undir yfirskini sjóflutninga.

Samhliða útrýmingunni þarf að hefja umfangsmiklar, háleynilegar rannsóknir á sviði þorskeldis. Þessar rannsóknir verða eðli málsins samkvæmt að fara fram neðanjarðar eða á stórum, yfirbyggðum svæðum. Til að spara mætti nota hallir er þegar eru til, t.d. Egilshöll. Það hefur sýnt sig að svona knattspyrnuhús skila óverulegum ávinningi. Það má t.d. benda á þá staðreynd að íslenska knattspyrnulandsliðið er um þessar mundir ljelegra en það hefur verið í marga áratugi.

Er þorskstofninum hefur verið útrýmt verður land vort eini staðurinn í heiminum þar sem þorskeldi verður með góðu móti framkvæmanlegt, þökk sje áðurnefndum rannsóknum á sviði þorskeldis. Verður hjer því eini staðurinn í heiminum þar sem hægt verður að fá þorsk og þökk sje gífurlegri umframeftirspurn (þökk sje enn á ný útrýmingu þorsks í heimshöfunum) verður hægt að margfalda verðið og selja jafnframt miklu meira en áður. Er því ljóst að verkefni þetta mun skila stórgróða og er eigi óhugsandi að tekjur af þorski gætu hundraðfaldast ‹Ljómar upp›.

ÞURRKUM ÚT ÞORSKSTOFNINN - STRAX !

   (18 af 102)  
2/12/06 02:01

Rattati

Sammála. Með þessu máoti má einnig slá fleiri flugur í sama höggi. Sífelld og kostnaðarsöm endurnýjun stórs hluta fiskiskipaflotans leggst af, hægt er að senda megnið af þessum nýju, rándýru þyrlum til síns heima og leggja einhverju af þessum varðskipum, sem reyndar eru komin svo til ára sinna að þau eru svo gott sem áraknúin. Jafnframt minnka olíukaup landans að sama skapi. Sem sagt, hliðlæg áhrif eru einnig til góðs. Sjómennirnir geta svo fengið vinnu á kassa í Bónus.

2/12/06 02:01

Útvarpsstjóri

Áhugavert. En gæta þarf fyllstu varúðar í þorskeldinu. Ekki er ólíklegt að óvinir ríkisins beiti sömu brögðum og þeir gerðu nýlega í Grundarfirði. Þar fór nokkurra ára tilraunastarfsemi í þorskeldi í vaskinn.

2/12/06 02:01

Tigra

Miðað við magnið af þorski sem jarðarbúar innbyrða á ári, þá munum við ekki gera mikið annað en að rækta þorsk ef þetta verður að veruleika.

2/12/06 02:01

Útvarpsstjóri

Sem þýðir 0% atvinnuleysi og nógur peningur!

2/12/06 02:01

krossgata

Þetta gæti líka bætt þorskinn verulega, því líklegt er að hægt sé þá að útrýma hringormi í þorski. Það gæti aftur leitt til þess að fleiri myndu vilja éta fyrirbærið. En við erum líka hvort sem er lélegar þorskætur sjálf, svo við gætum líka haldið áfram með sömu reglu og fíkniefnasalar (sumir): Ekki fara í vímu af eigin vöru.

2/12/06 02:01

Offari

Þetta sýnir bara að Gestapóar eru mestu snillingar í heimi.
Snilld kæri forseti, Þetta leysir kvótadeiluna sem klofið hefur þjóð okkar í áratugi.

2/12/06 02:01

Regína

Er ekki hætta á að kvótakóngarnir slái eign sinni á þorskeldisstöðvarnar?

2/12/06 02:01

Hvæsi

Þetta er snilldarhugmynd.
Þorskurinn er afbragðsfiskur til átu og vel ég hann alltaf framyfir ýsuruslið sem veiðist hér við land.

2/12/06 03:00

Klobbi

já svo er ekki verra að svolgra smá Sambúcca með.

2/12/06 03:01

Kondensatorinn

Forsetinn hefur hér borið fram afbragðsgóða tillögu. Ef til vill væri hægt að nýta stóra uppistöðulónið á austurlandi sem leynistöð líkt og gert var í einni mynda Jamesar Bonds.

2/12/06 03:01

Regína

Það er fullt af svona lónum út um allt land, svo það er meira að segja hægt að hafa það leyni í hvaða lóni leynistöðvarnar eru.

2/12/06 03:01

krossgata

Þetta yrði þá Laumupúkaþorskeldi.

2/12/06 04:01

Vladimir Fuckov

Þessi ábending um uppistöðulónin er mjög góð. Það er m.a.s. tiltölulega ódýrt að fjölga uppistöðulónum fyrir þorskeldi því eigi þurfa að vera virkjanir við þau öll. Nóg er að hafa gervivirkjanir nálægt þeim til að blekkja Norðmenn og aðra óvini.

2/12/06 04:01

Regína

Verst að þorskfiskar eru saltfiskar. Það er þægilegra að rækta þá í sjó en lóni, nema að koma saltkvörn eins og Fróði konungur heitinn átti fyrir í botni lónsins...

2/12/06 04:02

Hakuchi

Ég legg blessun mína yfir þessa hugmynd. Hef hvort eð er löngum haft andstyggð á fiski.

2/12/06 05:02

Heiðglyrnir

Jú þetta er hugmynd sem allrar athygli er verð. Fáum Ómar karlinn Ragnarsson með okkur í þetta. Hann hefur mikin áhuga á uppistöðulónum, nú og skellum þessu bara í framkvæmd.

2/12/06 06:01

Vladimir Fuckov

Vjer gleymdum því sem Regína benti á varðandi salt en það er í reynd bara betra því þá verður þetta enn meira atvinnuskapandi framkvæmd [Ljómar upp og hefst handa við að stofna kóbaltsaltverksmiðju].

2/12/06 09:01

Regína

Kóbalt er meira undraefni en ég vissi.

Vladimir Fuckov:
  • Fæðing hér: 20/8/03 21:21
  • Síðast á ferli: 23/8/23 21:21
  • Innlegg: 19773
Eðli:
Forseti Baggalútíu. Kóbalt- og hergagnaframleiðsluráðherra og viðskiptaráðherra Baggalútíu. Æðstiklerkur Skipulagsstofnunar Hreintrúarflokksins. Eigandi sálar Ég sjálfs (eða hvernig sem það nafn fallbeygist). Rocket scientist. Stofnandi Nátthrafnasamtaka Baggalútíu (NHS-B). Erkilaumupúki.Flöt jörð, slétt föt, hrein trú !
Fræðasvið:
Rocket science, life, the universe and everything
Æviágrip:
Vjer fæddumst í Rússlandi, að líkindum seint á 19.öld eða snemma á síðustu öld en munum eigi hvenær, vorum of ungir er það gerðist til að muna eftir því. Snemma hófum vjer tilraunakenndar eldflaugasmíðar og vorum óvart næstum búnir að þurrka megnið af Síberíu út við tilraunageimskot í Tunguska. Þar vorum vjer þó heppnir þvi eigi komst hitinn og eldurinn í kóbalt vort. Síðar lukum vjer doktorsnámi í eldflaugaverkfræði og efna- og eðlisfræði kóbalts svo og í notkun tölva til stjórnunar á gjöreyðingarvopnum og flúðum að því loknu land til að stunda tilraunir á eigin vegum víðsvegar um heim. Seint á árinu 2003 urðu tímamót í rannsóknum vorum er vjer skruppum í svaðilför mikla til Rússlands og stálum þar gjöreyðingarvopni því er elipton nefnist. Er vopn þetta núna mikilvægur liður í því að tryggja stöðu Baggalútíu sem stórveldis og hefur því stöku sinnum verið beitt gegn óvinum ríkisins. Nýlega hófum vjer síðan umfangsmiklar rannsóknir á hagnýtingu plútóníums, einkum til hálkuvarna og götulýsingar, t.d. á Hellisheiði.