— GESTAPÓ —
Í uppáhaldi:
Félagsrit:
Vladimir Fuckov
Friðargæsluliði.
Heiðursgestur og  sagnaþulur.
Gagnrýni - 6/12/04
Í neðanjarðarbyrginu

Þýskur Hitler

Fyrir skömmu sáum vjer myndina Der Untergang er fjallar sem kunnugt er um síðustu daga Hitlers en myndin er byggð á frásögn Traudl Junge er lifði af vistina í neðanjarðarbyrginu alþekkta. Það var sannarlega tilbreyting að sjá þýska mynd þar sem Hitler sjest en eigi bandaríska eða breska. Sú mynd er dregin var upp af honum í Der Untergang var talsvert önnur og margbrotnari en vanalega hefur sjest. Hún var þó sem fyrr eigi fögur. Myndin hófst á því að verið var að ráða nýjan einkaritara fyrir Hitler og sást þar á honum óvenjuleg hlið en hann var mjög vingjarnlegur við stúlkurnar er sóttu um og svo í kjölfarið við þá er ráðin var. Eigi var þetta þó alltaf svona. Hann skipti skjótt skapi, var stundum vingjarnlegur og stundum niðurbrotið, skjálfandi gamalmenni er gerði sjer grein fyrir að stríðið var tapað og hann sjálfur búinn að vera. Þess á milli var hann froðufellandi, veruleikafirrtur brjálæðingur sem öskraði á samstarfsmenn sína og sakaði meira og minna alla í kringum sig um svik, samsæri, landráð og að vera óhæfir í starfi, gaf fyrirskipanir sem voru út í hött og færði herdeildir er eigi voru lengur til fram og til baka á kortum og ljet sem árangursrík gagnsókn væri í nánd. Bruno Ganz sýndi stórleik í hlutverki Hitlers, m.a. kom greinilega fram að Hitler var undir það síðasta illa haldinn af Parkinsonsveiki en Ganz undirbjó sig einmitt m.a. með því að kynna sjer ástand Parkinsonssjúkra. Eigi höfðum vjer áður vitað af Parkinsonsveiki Hitlers.

Mjög vel kom fram það vitfirrta andrúmsloft er ríkti í byrginu undir lokin, einkum hvað Göbbels-hjónin varðaði. Atriðið þar sem frúin gaf börnunum inn eitur því hún gat ekki hugsað sjer líf fyrir þau án nasisma er sjerlega óhugnanlegt. Sama má segja um undirbúning sjálfsmorðs Hitlers þar sem m.a. voru umræður um hvort hann væri of skjálfhentur til að geta skotið sig í höfuðið.

Myndin gerðist líka að hluta til ofanjarðar meðal óbreyttra borgara í kúlnaregni og sprengjuhríð frá bardögum Rússa og Þjóðverja. Einkum fundust oss þar óhugnanlegar herlögreglusveitir nasista er fóru um og tóku af handahófi af lífi óbreytta borgara fyrir að vinna með Rússum (þar sem 'vinna með' gat þýtt að vera óvopnaðir í skjóli fyrir sprengjuregni).

Vjer mælum því eindregið með mynd þessari og gefum henni fimm stjörnur, hún er þó e.t.v. eigi fyrir viðkvæma.

Að lokum viljum vjer gagnrýna að það skuli helst þurfa eitt stykki kvikmyndahátíð til að svona myndir (þ.e. myndir er eigi eru Hollywood-myndir) sjáist hjer á landi. Myndir er eigi eru frá Hollywood geta fengið fína aðsókn, t.d. var oft uppselt á mynd þessa á kvikmyndahátíðinni og fór hún í kjölfarið í almennar sýningar ásamt fleiri myndum, m.a. House of Flying Daggers er vjer sáum á kvikmyndahátíðinni. Aðsókn á hana virtist líka mikil, a.m.k. var troðfullur salur er vjer sáum hana.

   (41 af 102)  
6/12/04 03:01

Skabbi skrumari

Sammála þér Vladimir... fínasta félagsrit... Skál

6/12/04 03:01

Hóras

Glæsilegt. Nú verð ég að hafa upp á þessari, ef mér verður einhvern tímann hleypt úr vinnunni.

6/12/04 03:01

Hakuchi

Úrvalsgagnrýni. Ég verð að hætta að trassa að fara á þessa mynd.

6/12/04 03:02

Litla Laufblaðið

Hún var mjög góð þessi mynd. Góð gagnrýni líka

6/12/04 04:02

Heiðglyrnir

Riddarinn uppfærir "það sem ég á eftir að sjá listann" í samræmi við þessa frábæru gagnrýni.

6/12/04 04:02

Rýtinga Ræningjadóttir

Ég fór á myndina nú um daginn, og upplifði allan skalann af tilfinningum við að setja mig í spor persónanna, sem voru mjög vel útfærðar af leikurum. Svo þótti mér einstaklega skrítið að ganga út úr salnum og koma inn á íslenskt sumar, en ég var búin að fullvissa mig um að það væri kominn vetur aftur.. það gæti líka hafa verið vegna þess hve kalt var inni í salnum á meðan á myndinni stóð..

9/12/07 19:01

krossgata

Hmm. Allir (2-3) að tala um að þeir séu farnir í neðanjarðarbyrgið en sjást ekki hér.

Vladimir Fuckov:
  • Fæðing hér: 20/8/03 21:21
  • Síðast á ferli: 23/8/23 21:21
  • Innlegg: 19773
Eðli:
Forseti Baggalútíu. Kóbalt- og hergagnaframleiðsluráðherra og viðskiptaráðherra Baggalútíu. Æðstiklerkur Skipulagsstofnunar Hreintrúarflokksins. Eigandi sálar Ég sjálfs (eða hvernig sem það nafn fallbeygist). Rocket scientist. Stofnandi Nátthrafnasamtaka Baggalútíu (NHS-B). Erkilaumupúki.Flöt jörð, slétt föt, hrein trú !
Fræðasvið:
Rocket science, life, the universe and everything
Æviágrip:
Vjer fæddumst í Rússlandi, að líkindum seint á 19.öld eða snemma á síðustu öld en munum eigi hvenær, vorum of ungir er það gerðist til að muna eftir því. Snemma hófum vjer tilraunakenndar eldflaugasmíðar og vorum óvart næstum búnir að þurrka megnið af Síberíu út við tilraunageimskot í Tunguska. Þar vorum vjer þó heppnir þvi eigi komst hitinn og eldurinn í kóbalt vort. Síðar lukum vjer doktorsnámi í eldflaugaverkfræði og efna- og eðlisfræði kóbalts svo og í notkun tölva til stjórnunar á gjöreyðingarvopnum og flúðum að því loknu land til að stunda tilraunir á eigin vegum víðsvegar um heim. Seint á árinu 2003 urðu tímamót í rannsóknum vorum er vjer skruppum í svaðilför mikla til Rússlands og stálum þar gjöreyðingarvopni því er elipton nefnist. Er vopn þetta núna mikilvægur liður í því að tryggja stöðu Baggalútíu sem stórveldis og hefur því stöku sinnum verið beitt gegn óvinum ríkisins. Nýlega hófum vjer síðan umfangsmiklar rannsóknir á hagnýtingu plútóníums, einkum til hálkuvarna og götulýsingar, t.d. á Hellisheiði.