— GESTAPÓ —
Í uppáhaldi:
Félagsrit:
Vladimir Fuckov
Friðargæsluliði.
Heiðursgestur og  sagnaþulur.
Pistlingur - 1/12/04
Áramót, áratugamót og aldamót

Tímatalið er nákvæmlega skilgreint þó ótrúlegt megi virðast<br />

Eigi bjuggumst vér við að nú í upphafi árs yrði enn á ný minnst á hvenær aldamót séu en það gerðist nú samt í félagsriti Fergesjis og bregður þar fyrir kunnuglegum misskilningi. Enda er núna farið að styttast aðeins í áratugamót en þá blossar þessi umræða oft upp líka.

Það sem gleymist alltof oft í svona umræðu er að þetta er ekki spurning um mismunandi skoðanir manna og ekki spurning um heilbrigða skynsemi. Þetta er spurning um hvernig tímatalið er skilgreint og það gefur auga leið að sú skilgreining þarf að vera á hreinu. Og þó ótrúlegt megi virðast er hún það, þetta var allt skilgreint fyrir mörgum öldum og hefur hvað þetta snertir eigi breyst. Og eins og tímatalið er skilgreint eru ártölin í reynd raðtölur, þ.e. fyrsta árið er 1, annað árið 2 o.s.frv. Árið 0 er einfaldlega ekki til. Raunar er svo langt síðan þetta var skilgreint að talan 0 var 'óþekkt' er það gerðist. Ártölin 'hegða' sér þannig öðruvísi en 'mælingar' á aldri manna þar sem eins árs afmæli á sér ei stað fyrr en ári eftir fæðingu - fram að því hefur barnið verið að upplifa sitt fyrsta ár. Af þessu leiðir jafnframt að eigi var liðið eitt ár frá 'viðmiðunarpunktinum', þ.e. fæðingu Krists (*), fyrr en árið 1 var liðið. Á sama hátt voru 2000 ár eigi liðin fyrr en árið 2000 var liðið, þ.e. aldamótin voru um áramótin 2000/2001.

Sé vilji til að breyta þessu þannig að tímatalið byrji á árinu 0 er eigi unnt að bæta því ári einfaldlega við. Ástæðan er sú að núna er eitt ár milli (t.d.) miðbiks ársins 1 fyrir Krist og miðbiks ársins 1 eftir Krist. Sé bætt þarna inn ári lengist þessi tími og slíkt gengur að sjálfsögðu ekki. Það yrði að gera þetta með því að endurnúmera öll ár. Þannig yrði það sem nú nefnist árið 1 e. Kr. árið 0 við þessa breytingu, árið 2 yrði 1, árið 3 yrði 2 o.s.frv. Síðast en ekki síst yrði árið 2005 2004 þannig að þá væri árið 2004 núna að hefjast. Jafnframt breytast að sjálfsögðu öll ártöl mannkynssögunnar (þau lækka um 1) og er auðvelt að ímynda sér þann rugling er slíku fylgdi.

Einnig yrði að endurnúmera ártöl fyrir Krist á sama hátt svo tímatalið yrði samhverft um núllpunktinn, þ.e. árið 0 fyrir Krist yrði til líka. Samskonar ruglingur yrði því með ártöl fyrir Krist.

Við þetta má svo bæta að allt sést þetta líka sé beitt vel þekktum formúlum er notaðar eru við tímatalsreikninga, t.d. við að reikna dagafjölda milli tveggja atburða, dagsetningu páska o.s.frv.

Einfalt dæmi:

a=(14-mánuður)/12
y=Ár+4800-a
m=Mánuður+12*a-3

JD = Dagur + (153*m+2)/5 + y*365 + y/4 - y/100 + y/400 - 32045

Hér er JD sk. 'Julian day number' sem er í raun dagafjöldi frá tilteknum upphafspunkti. Sé um að ræða ártal fyrir Krist er 1 fyrir Krist hér táknað sem 0, 2 fyrir Krist sem -1, 3 fyrir Krist sem -2 o.s.frv. Eingöngu er hér notuð heiltöludeiling. Formúlur þessar eru oft notaðar til að reikna dagafjölda milli tveggja atburða. Sé þeim beitt til að reikna dagafjölda milli tveggja dagsetninga þar sem önnur er fyrir Krist og hin eftir Krist sést á útkomunni að árið 0 er ekki til.

Vonum vér að hér með finnist öllum allt augljóst í þessari endalausu deilu en einhvernveginn grunar oss þó samt að eigi muni svo vera.

Óskum vér að lokum öllum Bagglýtingum gleðilegs árs, líka þeim er líta svo á að nú sé árið 2004 að hefjast.

(*) Það má svo auðvitað flækja málin með því að benda á að Kristur fæddist eigi nálægt áramótum og hann fæddist auk þess að líkindum lítið eitt fyrr en miðað er við í tímatali vorra daga en slíkar hártoganir eru utan við efni þessa félagsrits.

   (53 af 102)  
1/12/04 01:01

feministi

Mikil ósköp, það þarf greinilega ekki að ræða þetta frekar.

1/12/04 01:02

Z. Natan Ó. Jónatanz

Dásamlegt. Hefði allsekki getað orðað þetta betur sjálfur. Takk.

1/12/04 01:02

Hexia de Trix

Burtséð frá þessu öllu saman, þá voru báðar fylkingarnar (1999-2000 og 2000-2001) sammála um að árið 2000 væri [aldamótaárið]. Það var nefnilega enginn sem hélt því fram að 1999 eða 2001 væri aldamótaárið. Þess vegna (burtséð frá hártogunum um aldamót, núll og tugi) held ég að þetta hafi aðallega verið spurning um hvort menn vildu [heilsa] árinu 2000 eða [kveðja] það.
Annars getum við líka alveg lagt ágreininginn til hliðar um stund og skemmt okkur við eitthvað annað, allavega þar til árið 2100 fer að nálgast.

1/12/04 01:02

Þarfagreinir

Hafðu þökk fyrir þessa þörfu áminningu, Vlad. Það er merkilegt hvað fólk getur karpað yfir einföldum skilgreiningaratriðum, eingöngu vegna þess að þeim líkar ekki skilgreiningarnar.

1/12/04 01:02

Sjöleitið

"Þetta er spurning um hvernig tímatalið er skilgreint og það gefur auga leið að sú skilgreining þarf að vera á hreinu," sagði Fokkerinn. Hverju breytir það hvort menn segja núllgildi milli -1 og 1, öðru en að gera úr því nothæft kerfi?

1/12/04 02:00

Steinríkur

Þetta er nú meira ruglið...
Smá innsetning:
m = Mánuður+12*a-3 = Mánuður+12*((14-mánuður)/12)-3 = Mánuður+14-mánuður-3 = 11 ?!

Þetta "y/4 - y/100 + y/400" lítur líka út eins og hlaupárapælingar (+1 dagur á hlaupári, nema um aldamót, nema árið sé margfeldi af 400 )

Er þetta ekki eitthvað að klikka?

1/12/04 02:01

Vladimir Fuckov

Nei, þetta er rétt. Þér gleymduð að margfalda með 12 á mikilvægum stað. Vantrúaðir geta prófað þetta í t.d. Excel.

Varðandi spurningu Sjöleitisins þá breytir núllgildi milli -1 og 1 því að með því væri verið að breyta skilgreiningu tímatalsins frá því sem verið hefur í margar aldir og slíkt er allt annað en einfalt mál eins og kemur fram í félagsritinu.

1/12/04 02:01

Steinríkur

Er enþá vantrúaður.
Skoðaðu jöfnurnar betur of segðu mér svo hvað 12*a-3
á að vera (í tölum og mánuðum)...

1/12/04 02:01

Vladimir Fuckov

Gildran sem þér félluð væntanlega í er að það verður að nota heiltöludeilingu. Þér verðið að reikna 'a' á þann hátt áður en þér setjið það inn í formúluna fyrir 'm'.

1/12/04 02:01

Heiðglyrnir

Herra Vladimir Fuckov Gleðilegt nýtt ár og hafðu þökk fyrir samskipti okkar á því liðna.

1/12/04 02:01

Sjöleitið

Ég skil Fuckov, þ.e. röksemdir hans en ég verð að benda á meginmótsögnina:

Það eru til dæmis tvö núll í ártalinu 2005 en þó skal halda því fram að núllið fyrirfinnist ekki í tímatali okkar. Þykir mér þá neindin orðin fyrirferðarmikil.

1/12/04 03:00

Ívar Sívertsen

Hverslags endemis fábjánar getið þið verið! Ber okkur ekki að miða við Baggalútíska tímatalið?

1/12/04 03:00

Nafni

Gleðilega hátíð Vladdi minn og takk fyrir liðnar samverustundir.

1/12/04 03:01

Lómagnúpur

Ákaflega eðlilegt er að útvíkka tímatalið niður í núll og neikvæðar tölur. Slíkt er alþekkt og nefnist stjörnufræðitímatal. Svo bendi ég á að tíminn hefur hvorki upphaf né enda, hvorki árið núll né eitt og því algerlega háð geþótta hvers og eins hvenær hann telur 10, 100, eða þúsund ár hafa liðið, enda má hann miða við hvað sem er. Mér fellur vel að telja sléttar tölur frá árinu núll, enda verða svoleiðis tímamót alltaf svo falleg.

Vladimir Fuckov:
  • Fæðing hér: 20/8/03 21:21
  • Síðast á ferli: 23/8/23 21:21
  • Innlegg: 19773
Eðli:
Forseti Baggalútíu. Kóbalt- og hergagnaframleiðsluráðherra og viðskiptaráðherra Baggalútíu. Æðstiklerkur Skipulagsstofnunar Hreintrúarflokksins. Eigandi sálar Ég sjálfs (eða hvernig sem það nafn fallbeygist). Rocket scientist. Stofnandi Nátthrafnasamtaka Baggalútíu (NHS-B). Erkilaumupúki.Flöt jörð, slétt föt, hrein trú !
Fræðasvið:
Rocket science, life, the universe and everything
Æviágrip:
Vjer fæddumst í Rússlandi, að líkindum seint á 19.öld eða snemma á síðustu öld en munum eigi hvenær, vorum of ungir er það gerðist til að muna eftir því. Snemma hófum vjer tilraunakenndar eldflaugasmíðar og vorum óvart næstum búnir að þurrka megnið af Síberíu út við tilraunageimskot í Tunguska. Þar vorum vjer þó heppnir þvi eigi komst hitinn og eldurinn í kóbalt vort. Síðar lukum vjer doktorsnámi í eldflaugaverkfræði og efna- og eðlisfræði kóbalts svo og í notkun tölva til stjórnunar á gjöreyðingarvopnum og flúðum að því loknu land til að stunda tilraunir á eigin vegum víðsvegar um heim. Seint á árinu 2003 urðu tímamót í rannsóknum vorum er vjer skruppum í svaðilför mikla til Rússlands og stálum þar gjöreyðingarvopni því er elipton nefnist. Er vopn þetta núna mikilvægur liður í því að tryggja stöðu Baggalútíu sem stórveldis og hefur því stöku sinnum verið beitt gegn óvinum ríkisins. Nýlega hófum vjer síðan umfangsmiklar rannsóknir á hagnýtingu plútóníums, einkum til hálkuvarna og götulýsingar, t.d. á Hellisheiði.