— GESTAPÓ —
Í uppáhaldi:
Félagsrit:
Vladimir Fuckov
Friðargæsluliði.
Heiðursgestur og  sagnaþulur.
Pistlingur - 1/11/03
Hið fullkomna kosningakerfi

Eða hvernig koma má á fullkomnu lýðræði í Baggalútíu - en þó þannig að kosningaúrslit séu samt ávallt þau sömu og fyrirfram ljós

Í kjölfar nýafstaðinna kosninga í Bandaríkjunum fórum vér að velta fyrir oss hvort eigi væri ráð að koma á fullkomnu lýðræði í Baggalútíu og halda þar fullkomlega frjálsar og lýðræðislegar kosningar. Gerðist þetta m.a. eftir miklar fréttir undanfarnar vikur af kosningafyrirkomulagi í Bandaríkjunum. Í Baggalútíu þarf að vera öruggt að engin slys verði þannig að einhverjir kjánar komist til valda. Kosningakerfið þarf númer eitt, tvö og þrjú að tryggja þetta, þ.e. að úrslit verði þau sem eru kjósendum fyrir bestu. Ákváðum vér með þetta í huga að skoða lauslega kosningafyrirkomulagið í fáeinum ríkjum þar sem kosningar teljast fullkomlega lýðræðislegar.

Í Bretlandi eru einmenningskjördæmi er þýðir að sá kemst á þing úr hverju kjördæmi er flest atkvæði fær þar, jafnvel þó hann fái langt innan við 50% atkvæða. Slíkt getur gerst ef frambjóðendur eru margir. Vegna búsetudreifingar mismunandi hópa kjósenda verða ávallt sömu úrslit í um 60% kjördæmanna. Þetta þýðir m.ö.o. að þeir kjósendur er eigi styðja þann flokk er ávallt sigrar í tilteknu kjördæmi geta í mörgum tilvikum í reynd sleppt því að kjósa því atkvæði þeirra skipta engu máli. Þau hafa einungis áhrif á hvað sigurvegarinn vinnur með miklum yfirburðum en vegna þess að um einmenningskjördæmi er að ræða skiptir engu máli hvort sigurvegarinn fær 99% eða 51%. Jafnframt er ekkert víst að sá flokkur er flest atkvæði fær á landsvísu fái flesta þingmenn. Fræðilega séð getur flokkur með yfirburðafylgi á landsvísu m.a.s. lent í minnihluta á þingi. Gerist þetta ef hann vinnur stórsigur í tæpum helmingi kjördæmi en tapar mjög naumlega í rúmum helmingi kjördæma. Í slíku tilviki gæti flokkur með yfir 70% atkvæða á landsvísu fengið færri þingmenn en flokkur með innan við 30% !! Skrítnir hlutir hafa gerst annarsstaðar þar sem fyrirkomulagið er svipað. Árið 1993 þurrkaðist kanadíski Íhaldsflokkurinn nánast út af þingi, fékk einungis tvo (!) þingmenn þrátt fyrir að fá 16% atkvæða. Hann hafði áður verið með hreinan meirihluta í ríkisstjórn með rúm 40% atkvæða á bakvið sig.

Hérlendis hefur tíðkast að atkvæði í landsbyggðarkjördæmum hafi meira vægi en atkvæði á höfuðborgarsvæðinu. Þetta misvægi hefur þó farið minnkandi en er enn til staðar. Árið 1931 fékk Framsóknarflokkurinn hreinan meirihluta á þingi með með einungis um þriðjung atkvæða á bak við sig.

Í Bandaríkjunum er fyrirkomulagið á kosningum líka einkennilegt. Eins og kunnugt er þá er forsetinn eigi kosinn beint heldur af kjörmönnum. Sá frambjóðandi er flest atkvæði fær í einhverju tilteknu fylki fær alla kjörmenn þess fylkis. Því gæti frambjóðandi fræðilega séð fengið rétt innan við helming kjörmanna með því að sigra með yfirburðum í mörgum fylkjum en tapa mjög naumlega annarsstaðar. Þar með missir hann af forsetaembættinu þrátt fyrir meira en 70% fylgi á landsvísu. Sú staðreynd að sigurvegari fær alla kjörmenn getur einnig virkað letjandi á kjörsókn. Í þingkosningum er fyrirkomulagið heldur eigi með öllu gallalaust. Er kosið er til fulltrúadeildar má mismunur á íbúafjölda milli kjördæma ekki fara upp fyrir 1%. Um er að ræða einmenningskjördæmi. Kjördæmamörkin eru endurskoðuð einu sinni á áratug með tilliti til þessa, svo og með tilliti til hvað hvert fylki á að hafa marga þingmenn í fulltrúadeild en það ræðst af íbúafjölda fylkjanna. Þessar breytingar á kjördæmamörkum kallast 'redistricting'. Hægt er að misnota þessar breytingar á kjördæmamörkum. Slík misnoktun er þekkt undir nafninu Gerrymandering eftir fylkisstjóra nokkrum, Gerry að nafni, í Massachusetts er fyrstur beitti slíku 'svindli' árið 1812 og bjó til kjördæmi í laginu eins og salamandra. Misnotkunin gerist þannig að sá flokkur sem er við völd í hverju fylki getur í reynd ráðið (eða a.m.k. haft óeðlilega mikil áhrif á) hvernig kjördæmamörkunum er breytt og því verða mörkin í t.d. borgum stundum hin fáránlegustu því þau miðast við að vera flokknum í hag, t.d. með því að færa smá hluta af einhverju hverfi í kjördæmi A yfir í kjördæmi B því flokkurinn er með yfirburðafylgi í kjördæmi A en staðan tvísýn í kjördæmi B. Algeng aðferð er líka að tryggja að 'óvinaflokkurinn' vinni yfirburðasigur í örfáum kjördæmum en að flokkurinn er öllu ræður vinni minni sigra í öllum hinum kjördæmunum. Er þetta gert með því að kortleggja nákvæmlega hvernig fylgi dreifist milli hverfa/landshluta o.s.frv. og ákveða svo kjördæmaskiptinguna eftir því. Hefur þetta verið stundað í stórum stíl í t.d. Texas upp á síðkastið. Ein hliðarverkun af þessu er svo að í óeðlilega mörgum kjördæmum eru kosningaúrslitin í raun fyrirfram ljós. Það virkar síðan letjandi á kjörsókn. Sjá má nákvæma umfjöllun um þetta á http://www.fraudfactor.com/ffgerrymander.html [tengill] http://www.fraudfactor.com/ffgerrymander.html [/tengill] og ótal fleiri vefsíðum.

Með því að blanda ofangreindum kosningakerfum saman má hanna hið fullkomna kosningakerfi fyrir Baggalútíu. Hér er t.d. ein hugmynd að kosningakerfi: 40 kjördæmi með 3 þingmenn hvert. Sá flokkur er flest atkvæði fær í tilteknu kjördæmi fær alla þingmennina þar (hliðstætt við að fá alla kjörmenn fylkis í Bandaríkjunum). Mest má vera tífaldur munur á íbúafjölda fjölmennasta og fámennasta kjördæmis, sbr. mismunandi atkvæðavægi hér á landi og reglu um mest 1% mun í Bandaríkjunum - hér er hámarksmunur reyndar 'aðeins' meiri. Tífaldur munur kann að virðast mikill en er þó 'einungis' um tvöfalt meiri en munur á atkvæðavægi var hérlendis fyrir eigi mjög löngu ef oss misminnir eigi. Verði munurinn meiri en tífaldur skal endurskoða kjördæmamörk (sbr. Bandaríkin) en gera það fyrir hverjar kosningar. Ríkisstjórn sér að sjálfsögðu um framkvæmdina. Til að tryggja að ávallt þurfi endurskoðun má ákveða mörkin þannig að það sé nákvæmlega tífaldur munur á fjölmennasta og fámennasta kjördæmi og hafa þessi kjördæmi samliggjandi. Mörk þeirra liggja þannig að svæði þar sem íbúum er að fjölga lenda í fjölmennara kjördæminu. Það tryggir að í næstu kosningum verður munurinn aftur orðinn meira en tífaldur og aftur þarf að endurskoða mörkin. Með þessu móti má ávallt hafa alla óvini ríkisins í örfáum fjölmennum kjördæmum þar sem óvinaflokkar og niðurrifsöfl fá alltaf um 100% fylgi. Þeir er rétt kjósa eru hafðir í fjölmörgum fámennum kjördæmum ásamt einhverjum óvinum ríkisins, þó eigi nægilega mörgum til að breyta neinu um úrslit í viðkomandi kjördæmi. Síðan má lögfesta að flokkar með innan við t.d. 10% fylgi á landsvísu, að teknu tilliti til atkvæðavægis kjördæma, fái enga þingmenn og losna þar með við staðbundna smámálanöldurflokka (óvini ríkisins).

Með þessu fullkomlega lýðræðislega og auðskiljanlega kosningakerfi er á sér fyrirmynd í nokkrum gamalgrónum lýðræðisríkjum má halda fullkomlega frjálsar og lýðræðislegar kosningar í Baggalútíu án þess að nein hætta sé á að óvinveitt öfl muni ná að hafa þar einhver áhrif [Ljómar upp].

   (58 af 102)  
1/11/03 14:01

Hakuchi

Stórfróðlegur pistill. Ég styð þetta fyrirkomulag heilshugar. Það er mikilvægt að sauðsvartur almúginn telji sig hafa eitthvað um stjórnina yfir sér að segja. Það dregur úr andúð og slær vopnin úr höndum popúlískra niðurrifsafla sem fá oft mikið duttlungafylgi út á 'óánægju' gegn ráðstjórninni.

Með þessu yrði tryggt að fólk geti notið þeirrar sælu að velja alltaf þá stjórn (okkur) sem er þeim fyrir bestu. Þarna er komið í veg fyrir óábyrgar skyndilausnir sem ganga út á að kjósa slefandi sósíalista sem lofa öllu fögru en eyðileggja svo landið með gengdarlausum hálfvitahætti og kúgun.

Við vitum sem er að innst inni þráir fólk að láta gáfaðara, upplýstara, réttlátara og betra fólk (okkur) stjórna sér. Fólkið þráir það öryggi sem við getum veitt þeim með því að hugsa fyrir það. Lýðræði er allt of verðmæt hugsjón til að hægt sé að sóa því á duttlunga nautheimsks almúgans. Þetta kerfi tryggir hina fegurstu og bestu útkomu fyrir fólkið. Gott framtak Vladimír.

1/11/03 14:01

krumpa

Áhm...lýst nú ekki á þetta ef við missum þar með stöður okkar ! Eru konungar og keisarar annars nokkuð kosnir ? Hmm... Vladimir gæti verið í hættu samt...

1/11/03 14:01

Hakuchi

Nei, ef svo ólíklega vill til að embætti Vladimírs verður í hættu verður að sjálfsögðu beitt hefðbundnu kosningasvindli til að tryggja rétta niðurstöðu.

1/11/03 14:01

Vladimir Fuckov

Svo má hafa stjórnarskrána þannig að þingið hafi vald til að breyta henni ef meira en t.d. 80% þingmanna samþykkja breytinguna.

1/11/03 14:01

krumpa

Er ekki betra að láta þjóðina kjósa um stjórnarskrána ? Atkvæði elítunnar gæti svo vegið t.a.m. hundraðfalt á við atkvæði almúgans ?

1/11/03 14:01

Órækja

En skemmtilegra væri flatt kosningakerfi, þar sem öll atkvæði telja jafn mikið og allir mega kjósa, en aðeins sum atkvæði eru talin.

1/11/03 14:01

Mikill Hákon

Hvað með að hindra alla aðra kandídata en okkur í að geta boðið sig fram? Þá hefur almúginn bara um eitt að velja.

1/11/03 14:02

Ég sjálfur

Sjálfsagt mjög merkilegur pistill, nenni bara ekki að lesa hann.

1/11/03 14:02

Vladimir Fuckov

Varðandi það sem keisarinn nefnir: Víða er það skilyrði fyrir framboði flokks að í viðkomandi flokki sé ákveðinn félagafjöldi og/eða að hann nái að safna nógu mörgum undirskriftum til stuðnings framboði. Svo má gera kröfur um allskyns tæknileg smáatriði, t.d. hreina sakarskrá forsvarsmanna flokksins o.s.frv.

1/11/03 15:00

Skabbi skrumari

Ég kýs þetta atkvæðakerfi... Skál

1/11/03 15:00

Nafni

Hvernig á að kjördæmaskipta Baggalútíu?

1/11/03 15:01

Dr Zoidberg

Hverjir hafa kosningarétt? Mér sínist tilgangslaust að einhverjir níliðar hafi atkvæðisrétt, þeir hafa ekki þroska eða þekkingu til að geta mindað sér skoðun á stjórnkerfi Baggalútíu. Legg til að aðeins þeir sem eru hafa skráð sig inn á árinu 2003 eða firr geti kosið, svo gæti ríkisstjórnin náttúrulega veitt nokkrum sérlega fljótþroska einstaklingum kosningarétt.

1/11/05 05:00

Hvæsi

Hmmmmm.
Næstum tvö á hér.
<Blæs ryki af borðinu, hoppar uppá það og tekur þyrluæfingu>

Ég skála bara við sjálfan mig hér.

Skál !

2/12/06 01:01

Vladimir Fuckov

Skál ! [Sýpur á fagurbláum drykk]

2/12/06 13:00

krossgata

Skál strákar!
[Ljómar upp]

3/12/06 07:01

B. Ewing

Skál!

3/12/06 09:02

krossgata

Er þetta skálarþráður? [Setur ávaxtaskál á borðið]
Skál!

4/12/06 18:01

B. Ewing

Skál! [Bætir sælgætisskál á borðið til halda hlutfalli hollustu og óhollustu í jafnvægi]

4/12/06 18:02

krossgata

[Dettur í skálina]
Skáááááááááááááááál!

3/12/07 09:01

krossgata

Laumupúkaskál!!!

6/12/10 03:00

Billi bilaði

Er búið að telja atkvæðin? <Telur blúta>

31/10/11 10:01

Vladimir Fuckov

Aðalatriðið er auðvitað að vinna talninguna.

Vladimir Fuckov:
  • Fæðing hér: 20/8/03 21:21
  • Síðast á ferli: 23/8/23 21:21
  • Innlegg: 19773
Eðli:
Forseti Baggalútíu. Kóbalt- og hergagnaframleiðsluráðherra og viðskiptaráðherra Baggalútíu. Æðstiklerkur Skipulagsstofnunar Hreintrúarflokksins. Eigandi sálar Ég sjálfs (eða hvernig sem það nafn fallbeygist). Rocket scientist. Stofnandi Nátthrafnasamtaka Baggalútíu (NHS-B). Erkilaumupúki.Flöt jörð, slétt föt, hrein trú !
Fræðasvið:
Rocket science, life, the universe and everything
Æviágrip:
Vjer fæddumst í Rússlandi, að líkindum seint á 19.öld eða snemma á síðustu öld en munum eigi hvenær, vorum of ungir er það gerðist til að muna eftir því. Snemma hófum vjer tilraunakenndar eldflaugasmíðar og vorum óvart næstum búnir að þurrka megnið af Síberíu út við tilraunageimskot í Tunguska. Þar vorum vjer þó heppnir þvi eigi komst hitinn og eldurinn í kóbalt vort. Síðar lukum vjer doktorsnámi í eldflaugaverkfræði og efna- og eðlisfræði kóbalts svo og í notkun tölva til stjórnunar á gjöreyðingarvopnum og flúðum að því loknu land til að stunda tilraunir á eigin vegum víðsvegar um heim. Seint á árinu 2003 urðu tímamót í rannsóknum vorum er vjer skruppum í svaðilför mikla til Rússlands og stálum þar gjöreyðingarvopni því er elipton nefnist. Er vopn þetta núna mikilvægur liður í því að tryggja stöðu Baggalútíu sem stórveldis og hefur því stöku sinnum verið beitt gegn óvinum ríkisins. Nýlega hófum vjer síðan umfangsmiklar rannsóknir á hagnýtingu plútóníums, einkum til hálkuvarna og götulýsingar, t.d. á Hellisheiði.