— GESTAPÓ —
blóðugt
Heiðursgestur.
Dagbók - 2/11/04
Amma.

Ég fór að heimsækja hana móðurömmu mína á sjúkrahúsið í dag. Hún var lögð inn í gærkvöld blessunin. Það virðist alltaf eitthvað vera að hrjá hana þessa dagana, tja eða reyndar síðustu ár. Hún amma hefur gengið í gegnum margt og ég held að þegar hugurinn er orðinn svona þreyttur þá verði líkaminn það líka.
Ég fór að hugsa um hana ömmu og hennar ævi og það er eflaust margt sem ég veit ekki en það sem ég veit er að hún er algjör kjarnakona. Upp úr 1950 var hún einstæð móðir með tvö lítil börn því hún hafði kjarkinn til að yfirgefa eiginmann sem fór illa með hana. Hún kynntist öðrum manni sem gekk börnum hennar í föðurstað og átti með honum tvö til viðbótar. Þar með var amma orðin bóndakona. Ég man eftir sögunum af því hvað það var alltaf snyrtilegt heima hjá ömmu. Systur mínar voru þar í sveit og hef ég einnig heyrt endalausar sögur af því hvað var gaman og gott að vera í sveit hjá ömmu. Árið sem ég fæðist verður fósturafi minn bráðkvaddur úti á túni og þar með hætti amma búskap rétt um sextugt. Því fékk ég aldrei að vera í sveit hjá ömmu, og afa, manninum sem gekk móður minni í föðurstað, kynntist ég aldrei. Mamma sagði mér einhvern tímann þegar ég spurði um alvöru afa minn að eini alvöru faðirinn sem hún hefði átt væri hann Jón, og því væri hann alvöru afi minn. Ég spurði aldrei um „alvöru“ afa framar. Ég þurfti þess ekki. Ég fann bara hvernig mömmu leið þegar hún sagði mér þetta og vissi að hann skipti okkur engu máli. Ég fletti honum einu sinni upp í íslendingabók af einskærri forvitni, því ég vissi ekki einu sinni hvort hann væri lífs eða liðinn eða hvort hann hefði átt fleiri börn. Ég sá að hann hafði dáið 1974 og að ég ætti fullt af ættingjum í Vestmannaeyjum, hann átti þó aldrei fleiri börn. Einhverra hluta vegna finn ég mig ekki knúna til þess að hafa samband við þetta fólk.
Þegar afi dó flutti amma í kaupstað. Það var alltaf jafn gaman að koma til ömmu. Hún var svo hress og skemmtileg og alltaf átti hún „nammi í gússunni“ (nammi í skúffunni) eins og systir mín sagði þegar hún var lítil. Við fórum alltaf til ömmu einu sinni í viku og eyddum þá heilum degi með henni. Tókum hana með okkur í búðir og fengum kaffi hjá henni. Þegar amma fór að eldast meira fór hún að koma meira til okkar og vera yfir helgi. Þá dunduðu þær mæðgur sér við handavinnu, enda báðar afskaplega lagnar í höndunum, og kjöftuðu fram á nótt. Þær voru báðar, mamma og amma, miklar frúr og héldu sér alltaf vel til. Því var það fastur liður að mamma plokkaði augabrúnirnar á ömmu því hún var hætt að geta það sjálf. Ekki þótti ömmu það samt notalegt og setti alltaf upp ægilegan svip. Pabbi sagði mömmu stunda mæðraofbeldi og því var sú athöfn að plokka augabrúnir alltaf kölluð mæðraofbeldi í minni fjölskyldu, og er enn.
Þó svo að amma hafi átt fjögur börn, var mamma, eina dóttirin, sú eina sem eitthvað nennti að sinna gömlu konunni. Þær voru miklar vinkonur, töluðu saman í síma á hverjum degi og hittust eins oft og hægt var.
Það er auðvitað hverri móður mikið áfall að missa barnið sitt, eitthvað sem seint, jafnvel aldrei er hægt að jafna sig á. Mamma reyndi það. Amma reyndi það.
Þessi litla, granna kona með smáu fæturna sem aldrei er hægt að finna nógu litla skó á, þessi hressa brandarakerling sem ætlaði aldrei með í ferðalög því hún yrði „örugglega dauð“ þegar kæmi að brottför, þessi sterka kona sem hefur þolað meira en nóg væri til að buga hvern sem er, en tapaði þó aldrei skopskyninu og getur enn laumað út úr sér gullkornum eins og „það er bara hugsað of vel um þetta gamla fólk nú til dags, það ætlar hreinlega aldrei að drepast“ og „ég þarf engan andskotans staf... ef þið ætlið að láta mig vera með staf þá lem ég bara kallana með honum“, þessi gamla kona sem reykti filterslausan kamel í yfir 60 ár!... er bara komin með nóg. Það er ofsalega erfitt og sorglegt að horfa upp á einhvern sem er bara einfaldlega kominn með nóg.

Ég mæli með því að allir sem eiga ömmur fari og heimsæki þær. Ömmur þurfa á því að halda.

   (20 af 27)  
2/11/04 05:02

Bölverkur

Hugljúf saga. Ég á reyndar enga ömmu og er feginn því, þeim mundi ekki líða vel núna.

2/11/04 05:02

Hvæsi

[Fær ryk í augað]
Kíkti á mína um helgina.
Svipað ástand á henni.
Skál fyrir ömmum.

2/11/04 05:02

Nermal

Ég á tvær ömmur. Önnur þeirra er eiginlega búin að missa alla löngun til að halda áfram að lifa. En hin er mikil kjarnakona. Bráðhress 90 ára gömul. En ömmur eru snilld það verður ekki annað sagt.

2/11/04 05:02

Offari

Mínar ömmur eru löngu farnar þær voru báðar sveitaömmur og gaman var að heimsækja þær.
Takk.

2/11/04 05:02

Jóakim Aðalönd

Ég myndi heimsaekja ommu mína, ef ég vaeri heima á Fróni.

2/11/04 06:00

Heiðglyrnir

Kæra blóðugt, þetta er fallegt og vel skrifað félagsrit, um persónur sem hafa haft mikil áhrif á líf þitt, hver og hvernig þú ert. Riddarinn Þakkar þér fyrir að veita okkur innsýn og hlutdeild í því með þér.

2/11/04 06:00

Hundslappadrífa í neðra

Kæra blóðugt, hafðu það sem best og takk fyrir þetta ljúfa félagsrit. Þetta eru erfiðir tímar, en gangi þér samt sem best.

2/11/04 06:00

blóðugt

Þakka ykkur.

2/11/04 06:00

Sæmi Fróði

Já Ömmur eru kjarni sem gott er/var að leita til, blessuð sé minning þeirra sem fallnar eru frá. Góð og hugljúf lesning.

2/11/04 06:00

Litli Múi

Já ég er ekki frá því að ég sakni ömmu eftir að hafa lesið þetta félagsrit. Takk fyrir þetta.

2/11/04 06:01

fagri

Ég er orðinn það aldraður að þegar ég var lítill þá
bjuggu allar ömmur landsins í sveit og þangað var ég einmitt sendur öll sumur. Ekki minnist ég annars en amma og afi hafi þrælað mér út, ungum drengnum. Minningar sem ég var að reyna að bæla niður en hafa nú verið ýfðar upp á ný.

2/11/04 07:00

Sundlaugur Vatne

Fallegt, blóðugt.
Þið sem enn eigið ömmur og afa á lífi: Verið góð við þau, kannske og vonandi eigið þig eftir að standa í þeirra sporum síðar.

2/11/04 07:01

Aulinn

Já, ég veit alveg hvað þú ert að ganga í gegnum. Missti einmitt ömmu mína í sumar, bestu vinkonu mína.

2/11/04 08:00

Gísli Eiríkur og Helgi

Ég var að stærstum hluta til alin upp hjá ömmu minni. Þegar þessi dásamlega kona dó , dó ég líka að mestu leiti

2/11/04 20:00

Leibbi Djass

Rækallinn! Ég missti ömmu mína fyrir um 2 árum síðan. Hún hafði reykt Winston(tók reyndar fílterinn alltaf af) í 50 ár. Hún hafði líka gott skopskyn. Hún átti það til að segja við fólk sem var fölt og ekki í góðu formi

"Hvað er að sjá þig. Þú lítur út eins og draugur dreginn uppúr öðrum draug."

Ég elskaði ömmu mína. Mæli með því, við alla þá sem eiga ömmur sínar enn að, að þið heimsækið ömmur ykkar oft og iðulega.

blóðugt:
  • Fæðing hér: 28/9/05 21:23
  • Síðast á ferli: 4/2/19 14:42
  • Innlegg: 8170
Eðli:
Sverðgyðja. Verndari vopnanna. Herská með eindæmum.
Fræðasvið:
Sverð, notkun þeirra og umhirða.