— GESTAPÓ —
blóðugt
Heiðursgestur.
Dagbók - 31/10/04
Foreldrar.

Undarlegt fólk.

Foreldrar eru undarlegar mannverur. Ég leyfi mér að fullyrða þetta þar sem ég hef örlitla reynslu fengið af foreldrum.
Ég á foreldra, ég er foreldri og ég hef unnið mikið með börn annarra foreldra (og þar af leiðandi haft töluverð samskipti við þá foreldra).
Foreldrar geta verið allskonar. Góðir, slæmir, ágætir, súper-foreldrar, venjulegir foreldrar og þar fram eftir götunum. Nýverið kynntist ég þó alveg nýrri tegund foreldra... og mér blöskraði.

Litli strákurinn minn var að byrja að æfa fótbolta. Við ákváðum að skella okkur á nokkrar æfingar og sjá hvort þetta væri eitthvað sem honum líkaði. Hann verður fimm ára fljótlega og er einn mesti orkubolti sem ég hef nokkurn tímann séð! Og þó hef ég séð þá nokkra. Hann elskar að hlaupa! Hann getur hlaupið endalaust. Svo þegar ég vissi að þessar fótboltaæfingar væru á mjög hentugum tíma fyrir okkur bæði ákváðum við að skella okkur.
Á þessum æfingum eru krakkar fædd 2000-2001, semsagt 4ra og 5 ára. Foreldrarnir koma auðvitað með. Sumir krakkarnir voru þarna líka í fyrra og því er í lagi að skilja þau eftir ein á æfingunni. En við, foreldrar nýju krakkanna, við sitjum og horfum á, svona til öryggis, og á foreldrabekknum sitja sko ekki allir og þegja. Sumir öskra á börnin sín að hlaupa nú hraðar og sparka fastar og ná boltanum og skora, skora, skora, skora! Skora nú mark fyrir pabba! Og eitt dugir ekki. Skoraðu annað fyrir pabba!

En ein kona þarna vakti mikla athygli mína. Það var ekki hjá öðru komist. Barnið hennar fór að hágrenja í hvert skipti sem komið var við það. Ekki þurfti annað en að klukka drenginn í stórfiskaleik, og þá öskraði hann upp yfir sig að hann væri brenndur og hann sviði! Ef hann var klukkaður í öxlina öskraði hann að bannað væri að pota í augu, og allt þar fram eftir götunum. Ég hugsaði strax með mér að þessi drengur hefði bara gott af því að vera í íþróttum, það þyrfti að herða hann aðeins upp, auka hjá honum sjálfstraustið og þvíumlíkt. Svo komst ég að því hvers vegna hann er svona. Móðir hans gerði ekki annað en að brjóta hann niður. Hún gargaði á hann í tíma og ótíma að ná boltanum, svo þegar hann náði honum ekki þá gargaði hún enn hærra að hann ætti að fylgjast með og reyna nú að gera eitthvað. Hann væri sko ekki íþróttaálfur! "Sjáðu hvað þessi strákur er góður, þú verður aldrei eins og hann ef þú reynir ekki að vera með." Í fullar 50 mínútur vann konan staðfastlega að því að niðurlægja barnið sitt með því að segja honum að hann væri ekki góður í fótbolta, hann væri enginn íþróttaálfur (sem greinilega var mikið mál hjá drengnum), hann gæti ekki sparkað, hann ætti nú ekki að hanga á markstönginni eins og einhver kartöflusekkur, hann ætti að hreyfa sig. Endalaust hrósaði hún svo öðrum dreng sem var reyndar mjög góður og tautaði svo við okkur hina foreldrana að sinn drengur væri nú bara alltaf að hugsa um eitthvað allt annað en fótbolta. Hrósaði foreldrum hins drengsins í hástert (sem meðan annars sögðu að þau vonuðu að hann yrði frægur fótboltakappi svo hann þyrfti aldrei að vinna... já það er ekki vinna að vera frægur fótboltakappi... ha?) og niðurlægði sinn á víxl. Hún passaði sig líka alveg á því að hennar drengur heyrði hana hrósa hinum.
Svo þegar æfingin var búin hélt hún áfram frammi í fatahengi. Hvað hann hefði eiginlega verið að hugsa, standandi þarna syngjandi eitthvert lag á meðan allir hinir krakkarnir voru að spila! Hvurslags eiginlega þetta sé með hann!

Ég átti ekki til orð. Ég er langt frá því að vera fullkomið foreldri. Við erum það flest held ég. En þvílíkri hegðun hef ég aldrei á ævinni orðið vitni að fyrr.

   (23 af 27)  
31/10/04 17:00

Litla Laufblaðið

Það á nú bara að flengja svona fólk!

31/10/04 17:00

Þarfagreinir

Oj barasta ... ég myndi selja upp ef ég teldi að ég gæti fengið eitthvað borgað fyrir það.

31/10/04 17:01

Sæmi Fróði

Þetta er ljóta uppeldið, skil ekki svona fólk!

31/10/04 17:01

Sindri Indriði

Hjálp. Þetta er slæmt. Svona börn verða bæld alla tíð og verða skælandi fram á fullorðins ár og verða þá herðatré í bónus.

31/10/04 17:01

Lopi

Merkilegt hve fólk getur verið viss í sinni sök um eitthvað sem er í rauninni alrangt.

31/10/04 17:01

Sindri Indriði

Ertu viss?

31/10/04 17:01

Hvæsi

Þetta á ekki að líðast.
Varð ég vitni af svipuðu atviki á tjaldstæði útá landsbyggðinni. þarna voru 3 fjölskyldur að spila knattleik þennan, þ.á.m var þarna faðir sem niðurlægði stubbinn sinn heiftarlega á vellinum að viðstöddum blöskraði.
Tókum við félagarnir málin í okkar hendur, og þegar föðurómynd þessi fór afsíðis, að gera þarfir sínar, fékk hann smá spjall frá okkur strákunum.
(við vildum nú ekki skamma karlinn fyrir framan börnin hans)
En eftir um 20 minútna spjall fór karlinn að tárast og sá að sér og hagaði sér betur það sem eftir lét helgar.

31/10/04 17:01

Sundlaugur Vatne

Svona foreldrar ættu að varða við lög.

31/10/04 17:01

Galdrameistarinn

Nota sálfræðina á kerlingarómyndina. Niðurlægja hana með því að tala um hvað aðrir foreldrar séu nú góðir við að byggja upp sjálfstraust hjá börnunum sínum, en minnast af og til á það hvernig hún brýtur sitt barn niður. Gæti orðið til þess (ef hún er með eitthðva milli eyrnana) að hún hætti þessu niðurbroti á barninu.

31/10/04 17:01

B. Ewing

Íþróttaforeldrar eru eitthver það ruglaðasta og tryllsta lið sem fyrirfinnst í landinu. Eitt sinn bjó ég í hálfrar mílu fjarlægð frá auðum túnum í borgarlandinu.
Skipulagi var síðan breytt og skólagörðunum hljóðlátu var rutt í burtu, svæðið snyrt og slétt, nokkur fótboltamörk sett upp og byrjað að æfa 3ja flokks lið bæjarins á öllu saman.
.
Fóru þá að berast háreysti mikil og kröftug inn um glugga og dyr svo að ekki var flóafriður á sólríkum síðdögum sumarsins. Barst þetta semsagt yfir fjölmarga garða og húsþök unz komið var að mínum þáverandi hýbýlum.
.
Voru þar einmitt á ferð Íþróttaforeldrar, nokkrir tugir, og fúkyrðin og gargið sem barst alla þessa leið var með ólíkindum.
.
Alltaf þegar boltinn sem börnin léku sér með var í nánd við annan markteiginn hækkuðu öskrin svo mjög að ætla mætti að einhver hefði slasast alvarlega og kalla þyrfti úr þyrlu Landhelgisgæslunar til að ferja hvern þann sem lá í valnum á sjúkrahús það sem var hálfa mílu í gagnstæða átt frá vellinum.
Var þetta meira og háværara eftir því sem börnin voru yngri.
.
Hef ég þar með ákveðið að senda hver þau börn sem kunna að verða í mínu lífi helst af öllu allt annað til íþróttaiðkunar nema að tekið verði fast á þessum uppákomum. Foreldrar sektaðir fyrir kjaftbrúk á svæði þar sem barnaíþróttir fara fram, skilti sem á stendur BARNAÍÞRÓTTIR, EKKI KEPPNISÍÞRÓTTIR verði áberandi á svæðinu.
.
Dugi það ekki til þá verði öllum foreldrum meinaður aðgangur að kappleikjum sem þessum til frambúðar.

31/10/04 17:02

Ormlaug

Þessi kona er augljóslega á villigötum - líklegast gerir hún sé ekki grein fyrir hvað hún er að gera og ætlun hennar er einungis að "hvetja" strákinn sinn og ferst það svona klaufalega úr hendi. Þetta getur reynst stórhættulegt því með þessu áframhaldi mun hún líklega ala upp morðingja Magnúsar Scheving. En hvað um það, ef hún heldur áfram að haga sér svona skaltu ræða þessi mál við hana - og þá meina ég ekki í góðu tómi yfir kaffibolla heldu legg ég til að þú kúkir í veskið hennar - það ætti að kenna henni.

31/10/04 17:02

feministi

Þetta var ekki ég!

31/10/04 17:02

Nermal

Það á nottlega að sápuþvo gúllann á kéllingunni með lút. Svo er ekki útilokað að hún sé undirokuð í hjónabandi...

31/10/04 18:01

blóðugt

Ég hugsa að ég segi nú eitthvað við kerlu næst þegar hún hagar sér svona (sem verður eflaust á föstudaginn). Ég var svo hlessa á þessum öskrum í henni að ég kom varla upp orði! Ég verð samt að segja í hreinskilni, en á engan hátt af illgirni, að einhvern veginn efast ég um að hún hafi burði til að taka athugasemdum með skynsemi.

blóðugt:
  • Fæðing hér: 28/9/05 21:23
  • Síðast á ferli: 4/2/19 14:42
  • Innlegg: 8170
Eðli:
Sverðgyðja. Verndari vopnanna. Herská með eindæmum.
Fræðasvið:
Sverð, notkun þeirra og umhirða.