— GESTAPÓ —
feministi
Fastagestur.
Saga - 5/12/06
Minning um Mána Árilíus

Máni Árilíus var efnilegur högni sem átti samleið með fjölskyldu minni um nokkurt skeið. Þó mér hafi suma daga þótt hann hundleiðinlegur köttur, hugsa ég stundum til hans með eftirsjá.

Máni Árilíus var svartur og hvítur högni sem átti okkur fjölskylduna í nokkra mánuði. Það var ekki eins og enginn ætti okkur, því læðan Kúra Jónína hafði ákveðið sex árum fyrr að fá sér fólk og urðum við fyrir valinu. En börnunum þótti alls ekki nóg að eiga einn kött. Máni var því sóttur í dýrabúðina og fengum við að vita að þessari litlu læðu hefði verið bjargað á síðustu stundu frá svæfingu. Allt gekk vel og þó Máni, sem auðvitað var engin læða, væri full fjörugur fyrir Kúru gömlu. Það var okkur því áfall þegar hann hvarf rúmum mánuði eftir að við fengum hann. Gerð var mikil leit og auglýsingar voru settar upp um allan bæ en allt kom fyrir ekki. Það fannst hvorki tangur né tetur af kettinum. Við veltum hvarfinu mikið fyrir okkur, hafði verið keyrt á hann og honum hent í ruslið eða hafði hann lokast inni einhverstaðar. Við veltum því meira að segja fyrir okkur hvort gamla kisa hefði narrað hann svo langt í burtu að hann hefði ekki ratað heim. Það var ekki auðvelt verk að hugga grátandi dóttur sem ekki gat sofið af áhyggjum út af aumingja litla kisa. Tíminn læknar öll sár og þó. Rúmum sex vikum eftir dularfulla kattahvarfið var baknkað, úti fyrir stóðu tvær stúlkur með kött og spurðu hvort ég ætti ekki þennan. Ég varð orðlaus og satt að segja ekki alveg viss því kettlingar stækka mikið á sex vikum. En þetta var hann Máni Árilíus skjálfandi, hræddur og bældur. Hafi ég verið hissa og slegin yfir þessum endurfundum var það ekkert á við söguna sem þessar tvær stúlkur sögðu mér. Önnur þeirra, sem bjó í þorpi í nokkurri fjarlægð, hafði hýst garminn í nokkrar vikur en hann hafði verið á vergangi blessaður í vetrarkuldanum. Í litlum þorpum þekkja allir alla, og komust þær fljótlega að því að þennan kött hefði kona nokkur fengið gefins frá vinkonu sinni. Kona þessi gengur ekki alveg heil til skógar. Hún hafði sem sagt fengið leið á kettinum og hent honum út því hann hafði gert sín stykki á stofugólfið. Hið sanna kom svo í ljós þegar stúlkan góðhjartaða fór að leita að heimili fyrir kisa. Konan sem átti að hafa fengið hann Mána okkar gefins hafði stolið honum fyrir utan húsið okkar og tekið hann með sér heim. Blessaður vinurinn jafnaði sig aldrei, fyrir brottnámið hafði hann verið með eindæmum kelinn en nú mátti enginn snerta hann án þess að fá klór eða hvæs, nema yngsta dóttirin og það bara stundum. Hann lagðist hálfpartinn út og átti í blóðugum erjum við Kúru Jónínu. Á endanum létum við svæfa hann til að gefa honum færi á að byrja upp á nýtt með nýju mali á öðru tilverustigi.

   (14 af 29)  
5/12/06 14:00

Billi bilaði

[Fellir tár]

5/12/06 14:00

Regína

Aumingjans litla stýrið.
Einkennilegt hvað fólki getur dottið í hug, eins og það sé nokkuð mál að verða sér úti um kött án þess að ræna þeim að heiman.

5/12/06 14:00

Offari

Æ ég sakna líka kisunnar minnar. Henni var samt ekki rænt heldu var að bifreið sem varð henni að bana.

5/12/06 14:01

B. Ewing

Ægilega getur sumt fólk verið vont við dýr.

5/12/06 14:01

krossgata

Grey kisi litli. Blessuð sé minning hans.

5/12/06 14:01

Vímus

Þetta er hin mesta sorgarsaga sem sýnir það best að dýr sem farið er illa með hljóta af því ævarandi skaða ekki síður en mannfólkið. Ég hef átt marga ketti og allir voru þeir ólíkir hvað varðar skapgerð. Ung stúlka sem ég þekki fann eitt sinn kanínuunga í Öskjuhlíð sem var nær dauða en lífi. Þegar kanínan stækkaði varð hún svo grimm að ekki var komandi nálægt henni. Það var ákveðið að fara með hana í Húsdýragarðinn í þeirri von að henni liði betur þar með öðrum kanínum.
Ekki lagaðist greyið við það og varð fljótlega að lóga henni. Hefði þetta verið mannsbarn tel ég víst að með árunum hefði orðið til nýr Lalli Johns.

5/12/06 14:01

Tigra

Æj. Nú fer ég að skæla.
Hvernig getur fólk verið svona vont?
Tek undir þetta sem Vímus segir.

Það á alltaf að vera góður við dýr.
Vei þeim sem ekki virðir það sem lifir.

5/12/06 15:01

Jóakim Aðalönd

Kettir eru yndislegir. Skelfilegt þegar farið er illa með þá.

5/12/06 18:00

krumpa

Sorgleg kisusaga. Vona að allir séu komnir yfir mesta áfallið - enda gerðuð þið það sem varð að gera...

Ef ekki þá á ég blíðan og yndislegan, afburðagreindan högna handa ykkur. Raunar étur hann BARA harðfisk (og ekki hvaða tegund sem er), mígur þar sem honum sýnist, og fer úr kílói af hárum á dag (kann hvorki við kembingar né naglaklippingar).

Kettir eru annars merkilegir, þeir eru frekir, sjálfhverfir og mislyndir og erfitt að hugsa sér ömurlegri gæludýr. En samt elskar maður þessi kvikindi! Alla vega sumir - svo eru auðvitað margir sem eru bara KLIKK - eins og konan í sögunni (ég fékk minn kött reyndar frá einni svipaðri).

feministi:
  • Fæðing hér: 19/8/03 17:08
  • Síðast á ferli: 30/1/12 00:01
  • Innlegg: 451
Eðli:
Góðlega stjórnsöm og gjörn á að hafa rétt fyrir sér. Jafnréttismál eiga hug hennar allan.
Fræðasvið:
Hefur ágætt vald á því að vita lítið um mikið.
Æviágrip:
Ólst upp við gott atlæti og mátulegt afskipatleysi í fagurri Íslenskri sveit. Fylltist þó fljótt eirðarleysi og fór út í hinn stóra heim.