— GESTAPÓ —
William H. Bonney
Óbreyttur gestur.
Saga - 1/11/07
Sannleikurinn.

,,Ég er ekki hamingjusöm" segir hún við manninn sinn.
,,Nú, já" segir hann og sveigir augun frá flatskjánum og að tölvunni þar sem hann er að stemma af útgjaldareikninginn (sem er í plús, eins og alltaf), ,,er eitthvað sem ég get gert?" Meira spurt af skyldurækni en áhuga - hann veit svarið. ,,Nei, það er bara ein manneskja (ÉG) sem get gert mig hamingjusama." En hún getur það ekki, ekki í þetta skiptið.

Kökkurinn sem er alltaf í hálsinum er farinn að minna meira á steinhlunk og annar hnullungur er í maganum. Alltaf. Og hún þorir ekki að segja meira því tárin eru alltaf rétt við augnkrókana og í nefinu. Hún á erfitt með að ná andanum og getur ekki hugsað skýrt.

,,Ég er ekki hamingjusöm" segir hún við lækninn sinn. ,,Núnú, það eru jú margir þessa dagana sem eru ekki hamingjusamir." Og jú, kynhvötin er í lagi (þá sjaldan kallinn nennir er hún alveg tilbúin að liggja á bakinu og stara - og stynja), fjárhagurinn góður (endalausar utanlandsferðir með tilheyrandi tilgangslausu rölti um stræti stórborga Evrópu sem eru allar eins), hún á nóg af fötum (þvottur), á fallegt heimili (skúringar), og heilbrigð börn (meiri þvottur), matarlystin er góð (hún á fyrir mat og er of vel upp alin til að leifa), svefninn er eðlilegur (bara erfiðara að vakna), og nóg af vinum (fólk sem tefur fyrir annars glæsilegum frama og þreytir hana með endalausu blaðri um ekki neitt, ergir hana með heimsku sinni). ,,Ertu ekki bara með vöðvabólgu?" spyr læknirinn. ,,Vertu dugleg að fara í bað, það er svo gott. Svo skal ég skrifa upp á endalaust bólgueyðandi..." ,,En ég er ekki hamingjusöm", segir hún aftur. ,,Já, það er nú það, hamingjan er skrítinn fugl."

,,Ég er ekki hamingjusöm", segir hún við vinkonu sína yfir kaffibolla. Vinkonan, ótrúlega hamingjusöm en með atvinnulausan eiginmann á framfæri, fimm krakka og yfirdrátt upp á milljónir, lætur sér fátt um finnast.

Henni líður enn verr því samfélagið segir henni að vera hamingjusöm. Hún á allt sem samfélagið hefur sagt henni að eignast (og haldið því, ólíkt mörgum) og á bara að halda kjafti og vera kát.

,,Ég er ekki hamingjusöm", segir hún við föður sinn þar sem hann horfir út um gluggann og tottar dauða pípu. ,,Já, rófan mín, það er nú það, hamingjan er nú ekki allt." Svo hverfur hann aftur til ársins 1969, þar sem hann dvelur flestum stundum.

,,Ég er ekki hamingjusöm", segir hún við börnin sín en þau vantar línuskauta og inneign á frelsið sitt og svara engu.

Svo hún tekur bólgueyðandi og fer í bað. Kannski fara þau þá að hlusta.

   (2 af 10)  
1/11/07 18:02

krossgata

Óhamingjan hefur valdið bólgum.

1/11/07 18:02

hvurslags

Nokkuð gott.

1/11/07 18:02

Garbo

Þetta venst.

1/11/07 18:02

Álfelgur

Sorglegt

1/11/07 18:02

Regína

Hún stráir svosem ekki rósum í kring um sig, blessuð konan. Hún ætti að prófa að bæta þeim í baðið.

1/11/07 18:02

Huxi

Það er hægt að drepa sig á Íbúfen. Það las ég á fylgiseðlinum með pakkanum sem ég keypti í dag...
[Huxar um að láta renna í baðið]

William H. Bonney:
  • Fæðing hér: 25/8/05 18:25
  • Síðast á ferli: 17/4/12 21:42
  • Innlegg: 27
Eðli:
Kemur síðar
Fræðasvið:
Kemur síðar
Æviágrip:
Kemur síðar