— GESTAPÓ —
Sæmi Fróði
Fastagestur.
Dagbók - 1/11/04
Steinninn góði

Endursögn og stílfært dagbókarbrot frá 10 september 1925

Það var eitt sinn snemma á síðustu öld að ég var að byggja hús, það var nýmóðins hús með steyptum steini og glerrúðum. Þetta var um haustið og vetur að skella á og því þótti rétt að reyna að klára húsið áður en frost myndi tefja verk og eyðileggja steypuna.

Þá eins og nú, virtust smiðir hafa alltof mikið að gera, auk þess sem vinnumenn voru allir uppteknir við fjárrekstur, göngur og smölun. Því var litla hjálp að fá þar.

Í þannig aðstöðu finnst mér best að kalla á Kölska, "vin" minn til margra ára. Eftir smá undirbúning, tók ég upp púkaflautuna, spilaði lag fyrir Kölska og viti menn, áður en ég var búinn að flauta innspilið þá var hann mættur.

Kölski mælti: Hvað viltu minn Sæmi sæmi? Ég sagði þá: Sérðu hrúgu Kölski dræmi?
-
Steinahrúgu steypa vil,
svo standi hús á klöppum,
Byggðu nú svo fái frið
fyrir köldum löppum.

Þá sagði Kölski:

Aðeins fyrir eina sál
yðar mun ég vinna
Væni heljarvítisbál
vil þig fyrir kynna.

Ég sætti mig við það og sagði honum að hann yrði að klára alla steypuna og steinahrúguna, enda var búið að mæla það vel út og passaði það nokkuð vel.

Kölski hófst handa og miðaðist verkið vel, blandaði steypu, hrærði, steypti og svo koll af kolli. Húsið rauk upp. Þegar kom að síðustu hrærunni rak hann upp org og hvarf í reykjarmökki um leið og hann sagði:

Svínapest ert Sæmi Fróði
sækja mun þig hel að kynna,
vítiskvölum kargablóði
kem ég brátt og mun þig vinna.

   (16 af 42)  
1/11/04 23:01

Offari

Ég held að þú hafir gert slæman samning Sæmi minn. Gangi þér vel við myrkra öflin kæri.

1/11/04 23:01

Sæmi Fróði

Nei nei, neðst í hrúgunni var þessi steinn sem myndin er af, hann gat því ekki klárað hrúguna! [Hlær hrossahlátri]

1/11/04 23:01

Offari

Léttir að heyra það!

1/11/04 23:01

Lærði-Geöff

Enn og aftur hefurðu sigrast á hinum illa með vitsmunum einum saman, vel gert hjá þér.

1/11/04 23:01

Sæmi Fróði

Já, mér láðist að nefna það að við undirbúninginn þá gróf ég steininn inn í hrúguna yst, þannig að hann kæmi ekki að honum fyrr en síðast.

1/11/04 23:01

Offari

Sæmi lék á Kölska karl
klúrt var stein að færa
Býð ég þér í brauð og snarl
brögð af þér vill læra.

1/11/04 23:01

Heiðglyrnir

.
.
.
Kölska honum kross við brá
kláraði ekki verkið
Sæmi hló sem hrossið þá
hluta af leyfir oss að fá

1/11/04 23:01

Galdrameistarinn

Kölski alltaf klikkar á
köldu bragði klækja
Sæma kastar kveðju þá,
ÉG seinna skal þig sækja.

1/11/04 23:01

Sæmi Fróði

Þakka ykkur fyrir félagar, frábært að fá svona vísur [kurrar sem rjúpa]

1/11/04 23:01

Litli Múi

Enn og aftur tekst þér að koma með frábæra sögu handa okkur sæmi minn. Takk fyrir þetta.

1/11/04 23:01

Heiðglyrnir

.
.
.
Sæmi vendir kvæði í kross
kveðju sendi stjúpa
Áður voru hljóðin hross
heyrist núna rjúpa

2/11/04 00:00

Jóakim Aðalönd

Mognud saga Saemi. Thú ert greinilega fródur.

2/11/04 00:01

Sæmi Fróði

Þessar sögur mínar eru nú farnar að vera nokkuð einhæfar, lofa að koma með skemmtilegri sögu næst.

Sæmi Fróði:
  • Fæðing hér: 10/5/05 15:07
  • Síðast á ferli: 30/9/11 21:47
  • Innlegg: 437
Eðli:
Uppstökkt gamalmenni sem hefur allt á hornum sér, gleyminn í þokkabót.
Fræðasvið:
Saga, Kölskafræði, fjölkynngi og svartrúnalist.
Æviágrip:
Sæmundur fróði Sigfússon, goðorðsmaður og prestur í Odda, lærður mjög. Tók vígslu í Frankoníu á elleftu öld, týndist og fréttist af honum við nám í Svartaskóla í Þýskalandi, þar sem hann nam flölkynngi og svartra rúna list af kappi. Kölski reynir oft að hrifsa sál hans, en gengur illa (sjá félagsrit, nú eru komnar nokkrar sögur inn af baráttu okkar Kölska).