— GESTAPÓ —
Kargur
Heiðursgestur og  skriffinnur.
Dagbók - 4/12/10
Af nafngiftum amerísks lýðs

Enn er nýlenda vor í vestri mér hugleikin.

Á Ameríkuárum mínum gerði ég óvart töluvert ítarlega rannsókn á íbúum landsins. Eitt fannst mér sniðugra en annað; nöfn manna og þá aðallega gælunöfn þeirra.
Ameríkanar heita margir hvurjir sömu skírnarnöfnunum, svona rétt eins og hér. Ættarnöfnin eru þó öllu fjölbreyttari en hérlendis. Þó að litlar líkur séu á að menn rekist á alnafna sína svona hvunndags þá aðgreina menn sig með alls kyns gælunöfnum. Stundum velja menn þau sér sjálfir en oftar en ekki ráða menn engu um það hvað þeir eru kallaðir af vinum og vinnufélugum. Þar er tvennt sem virðist ráða nafngiftinni; hvursu auðvelt það er að snúa út úr eftirnafni þeirra og svo útlit manna.
Ég vann með mönnum sem höfðu misgóð gælunöfn, sum vöru æði hversdagsleg meðan önnur voru ansi spes.
Ég nenni ekki að telja upp alla Jimmy-ana og Bobbana, en ætla þess í stað að minnast á nokkra einstaklinga sem ég þekkti og vann með.
Auðvitað verður að byrja á hinum sígilda ameríska Junior. Junior var minn besti vinur um tíma. Hann bjó við hliðina á vinnustaðnum okkar, en ég bjó í tveggja tíma fjarlægð og þurfti þess vegna að hírast í hótelholu í boði fyrirtækisins. Þegar ég fékk nóg af leiðindaherbergisfélugum, einnig í boði fyrirtækisins, bauð Junior mér að búa í íbúðinni sinni. Þvílíkur öðlingur. Og aldrei bað hann um krónu fyrir.
Næstan ber að nefna Big Mac. Big Mac hét McMullen að ættarnafni og þess vegna smellpassaði þetta. Reyndar kynnti hann sig ætíð sem Mac, en sökum holdafars var hann oft kenndur við ættingja sinn hjá McDonalds-keðjunni. Big Mac var veltifeitur, en ótrúlega duglegur og laginn.
Ég man ekki einu sinni hvað Heavy Duty hét réttu nafni. Hann var tröll að burðum, en þó ansi hreint léttur á sér.
Vörubílstjórinn Anthony var grindhoraður og var því ætíð kallaður Slim.
Þar sem Slim-nafnið var þegar í notkun þegar enn meiri horrengla hóf störf þurfti að að finna nýtt nafn. Stick smellpassaði á þann gaur.
Verkstjórinn Mayo sem mörgum (lötum) þótti vera óttalegt a-hole var náttúrulega kallaður May-hole.
Það þurfti að aðgreina tvo menn sem báðir hétu Richard og voru að sjálfsögðu báðir kallaðir Dick. Eftirnöfn þeirra voru svo lík að þau hljómuðu eins og því var aðeins eitt í stöðunni, sá stærri hét Big-Dick og hinn minni Little-Dick.
Mexíkani einn sem staldraði stutt við hét Paco og var að sjálfsögðu nefndur Taco. Frændi hans var þarna líka og hann nefndist Nacho.
Þegar Jimmy nokkur hóf störf var hann bara nefndur Little-Jimmy þar eð við höfðum annan Jimmy fyrir. Little-Jimmy lét í ljós óánægju með að vera kallaður lítill. Við urðum því að finna nýtt nafn. Little-Jimmy gat ekki gert nokkurn skapaðan hlut nema vera með vinnuvettlinga. Það var auðvitað af því hann var með svo kvenlegar og mjúkar hendur. Nýja nafnið varð þess vegna Ladyfingers. Ladyfingers reyndi að fá Little-Jimmy-nafnið aftur en það var ekki aftur snúið. Ég veit fyrir víst að þegar Ladyfingers hætti hjá okkur og gekk í slökkviliðið notuðu þeir það nafn áfram.
Hér er einungis minnst á nokkra menn sem ég man eftir í svipinn. Ég er vafalaust búinn að gleyma mörgum snillingum.

   (4 af 54)  
4/12/10 23:00

Herbjörn Hafralóns

Reyndu þeir ekki að klína einhverju gælunafni á þig. Kargur minn?

4/12/10 23:00

Kargur

Nei nei, þeir vita að það er ljótt að stríða.

4/12/10 23:00

Regína

Hvort var það Abraham eða Aby?

4/12/10 23:01

Upprifinn

Hef það fyrir satt að Kargur hafi verið kallaður Ladysinger.

4/12/10 23:01

Texi Everto

Ég heyrði því fleygt að Kargur hefði verið kallaður Brokeback cowboy

4/12/10 23:02

krumpa

Ákaflega skemmtileg og fróðleg lesning...af hverju ætli svona uppnefni/gælunöfn séu meira og minna búin að vera hér?

4/12/10 23:02

Garbo

Þú hefur auðvitað verið kallaður Massa.

5/12/10 01:01

Kífinn

Úrvalslesning.

5/12/10 02:02

Kargur

Massa Sir væri nær lagi.

5/12/10 04:01

Kiddi Finni

Afbragðspistill.
En eitthvað af þessum nafngiftum er nú enn viðloðandi hérlendis, þó ég veit ekki hvernig stendur til hjá yngra fólkinu.
En ég þekkti nú marga eins og Dána kálf, Sigga kattó, Sigga tattó, Simma glæp, Gretar á grófunni, og svo framvegis.

Kargur:
  • Fæðing hér: 8/5/05 19:39
  • Síðast á ferli: 15/10/23 21:26
  • Innlegg: 10540
Eðli:
Kargur bóndadurgur.
Fræðasvið:
Ekkert sérstaklega fróður um nokkurn skapaðan hlut.
Æviágrip:
Hefur unnið að fullkomnun sérvizkunnar frá unga aldri. Tilnefndur til nóbelsverðlauna í þrjósku árlega. Gafst upp á hefðbundnum búskap fljótlega upp úr fermingu og vann um stund að kynbótum á könum. Lauk þeim farsællega og býr nú heima í heiðardalnum.