— GESTAPÓ —
Kargur
Heiðursgestur og  skriffinnur.
Dagbók - 1/12/10
Vanþakklæti

Framandi matargerð er ekki allra.

Í upphafi skal þess getið að konan mín kemur frá nýlendu vorri í vestri, Bandaríkjasveit. Þegar við fluttumst til Íslands fyrir nokkrum árum var ég látinn lofa því hátíðlega að láta hana aldrei eta hrossaket, þar eð hún kann ekki gott að meta.
Nýlega tjáði konan mér það að þann daginn ætlaði hún að elda kjötrétt kenndan við sveitunga hennar Meat Loaf. Var ég því beðinn um að finna hakk í kistunni. Ég nennti ómögulega að gramsa mikið í kistunni og tók því það sem lá efst; hakk frá stórglæpamönnunum í bónusi.
Konunni þótti þetta heldur grunsamlegt hakk og vildi fá að vita hvaða skepna hefði verið hökkuð í þessar umbúðir. Ég sagði henni sem satt var að í hakkinu væru ær og kýr.
Þegar ég kom heim um kvöldið voru mér ekki vandaðar kveðjurnar. Sennilega var þetta tæmandi listi yfir amerísk ókvæðisorð sem á mér dundu.
Þannig var að konunni hafði fundist téð hakk eitthvað torkennilegt. Hún er vitanlega útlærð í að sjá í gegnum svona lagað, hafandi séð hvurn einasta þátt af CSI: Whatever. Hún hafði sumsé lesið á umbúðir téðs hakks og sá þar tvö orð sem hún kannaðist ekki við; folaldakjöt og trippakjöt. Hún fór þá á netið og komst að því að þetta leyndardómsfulla ket var af hrossabörnum.
Ef konan mín hefði yfir gereyðingarvopnum að ráða hefði þeim á þessum tímapunkti verið beitt á mig, en sem betur fer hefur hún ekki efni á svoleiðis löguðu. Ég maldaði nú í móinn; sagðist ekki hafa verið beðinn um tæmandi lista yfir innihald hakksins, benti konunni á að svo sannarlega væru bæði ær og kýr í hakkinu líka; það væri auðvitað henni sjálfri að kenna ef spurningar hennar væru svo ófullkomnar að ég gæti gefið loðin svör við þeim. Svo benti ég henni á það að mikill munur væri á hrossaketi, trippaketi og folaldaketi. Ég bauðst vitanlega til að sanna það fyrir henni með smakkprufu, en því kostaboði var afdráttalaust hafnað.
Að endingu var ég látinn lofa því að reyna ekki svona svívirðu oftar og reyna að skammast mín.

   (5 af 54)  
1/12/10 14:00

Billi bilaði

Og hefur þér tekist að skammast þín enn þá? <Glottir út í bæði>

1/12/10 14:01

Regína

Ég gerði þá uppgötvun einhvern tíma á mínum fátæku námsárum að hræódýrt folaldahakk með súputeningi af nautakjötskrafti er ljúfengur matur. En þegar ég deildi þessari reynslu með samnemendunum fékk ég yfir mig þvílíkar snuprur um að maður æti nú ekki vini sína ... ég sagði ekki orð um alla heimalingana vini mína.
Svo hætti folaldahakk að fást!

1/12/10 14:01

Hvæsi

Segi enn og aftur við hestafólk, það á ekki að leika sér að matnum.
Þú getur væntanlega þýtt það fyrir frúna, "don´t play with your food"

1/12/10 14:01

Garbo

Ég vona að þú sért enn að skammast þín! Ég úrbeina og hakka sjálf og veit því af hvaða skepnu kjötið er. Hestar eru á friðunarlista hjá mér eins og t.d. rjúpur, lóur, maríuerlur og hagamýs.

1/12/10 14:01

Miniar

Þetta græðir þú á því að vera að flytja inn maka frá Bandaríkjasveit í stað þess að sækja þér maka ögn norðar. Ég flutti inn maka frá Kanadíu og borðar hann allt sem ég set fyrir hann án kvartana, og þá meina ég allt.

1/12/10 14:01

Upprifinn

Helvítis glæpamennirnir í Bónus að setja þetta á miðann.

1/12/10 14:01

Kargur

Hárrétt Uppi. Og helvítis glæpamennirnir á netinu að kjafta þessu í konuna mína.
Og nei, ég er ekki að skammast mín.

1/12/10 14:01

Sannleikurinn

Hjer með skal staðfest og skjalfest að jeg elska íslenskt hrossakjöt , íslenskt svínakjöt , og íslenskt lambakjöt.......

1/12/10 14:01

Grágrímur

Dönsk svín búa til besta kjöt í sólkerfinu. Íslenskt hrossaket hinsvegar... er best geymt neðst í frystikistunni og skal brúkast í hallæri..

Eða það finnst mér allavega.

1/12/10 14:01

Lopi

MMMMMMMM feit hrossbjúgu.

1/12/10 14:01

Heimskautafroskur

Langar í spóa . . . <horfir dreymandi út í myrkrið>

1/12/10 14:01

Hugfreður

Áttu kaplamjólk?

1/12/10 15:00

Upprifinn

Nei ef það hefur einhverntíman verið ástæða fyrir þig að skammast þín ekki þá er það núna.

1/12/10 15:01

Kargur

Akkúrat. Þetta ætti að flokkast sem þróunaraðstoð.

1/12/10 15:01

Al Terego

Mín er frá Kóreu og hún er búin að sporðrenna bæði hundinum okkar og kettinum. En hún lítur ekki við páfagauknum enda andskotanum kenjóttari, blessunin.

1/12/10 15:01

Kiddi Finni

Ég flutti út eina íslenska og hún hefur lært að borða finnskan mat eins og títuberjarúggraut, mämmi og fiska sem voru steiktir í heilu lagi.

1/12/10 16:02

Sannleikurinn

Jeg mótmæli hjer með hvers kyns tilraun aðila frá löndum er vjer könnumst lítið eða ekkert við hjer (nefnilega útlöndum) til þess að segja oss hvernig hrossakjöt eða annað íslenskt kjöt bragðast
Hafa einhverjir hjer smakkað antílópu?

1/12/10 16:02

Vladimir Fuckov

Það á auðvitað enginn að fá sjer bónushakk. Það er nefnilega drýgt með alltof miklu tvívetnismónoxíði. Hvort það er líka drýgt með einhverju hestakyns skiptir minna máli.

1/12/10 16:02

Kargur

Það kom nú bara til af því að ég hefi ekki komið því í verk að slátra bolanum sem átti að eta í vetur.

1/12/10 17:00

Ívar Sívertsen

Grillað hrossakjöt með piparostasósu... mmmmmm

1/12/10 17:01

Hugfreður

Sanni, þér hafið eitthvað misskilið oss, eða eru þér meri?

1/12/10 17:01

Huxi

1/12/10 19:00

Isak Dinesen

Frábær pistill.

2/12/10 05:01

krossgata

Folaldakjöt er herramannsmatur og hrossakjöt alveg ágætt. Skil ekkert í nýlendubúanum að drífa sig ekki bara í að prófa. Hún er kannski hrædd um að ánetjast?

Kargur:
  • Fæðing hér: 8/5/05 19:39
  • Síðast á ferli: 15/10/23 21:26
  • Innlegg: 10540
Eðli:
Kargur bóndadurgur.
Fræðasvið:
Ekkert sérstaklega fróður um nokkurn skapaðan hlut.
Æviágrip:
Hefur unnið að fullkomnun sérvizkunnar frá unga aldri. Tilnefndur til nóbelsverðlauna í þrjósku árlega. Gafst upp á hefðbundnum búskap fljótlega upp úr fermingu og vann um stund að kynbótum á könum. Lauk þeim farsællega og býr nú heima í heiðardalnum.