— GESTAPÓ —
Kargur
Heiðursgestur og  skriffinnur.
Saga - 2/12/09
Fred.

Endurminningar afdalamanns.

Á ameríkuárum mínum hafði ég um tíma umsjón með ófríðum flokki latra manna. Menn komu og fóru, stoppuðu mislengi við. Fáir entust lengi enda illa launað puð. Það var annar verkstjóri þarna, hann hafði verið lengi hjá fyrirtækinu og fékk þar af leiðandi að velja í sinn flokk, ég fékk rest. Það fyrsta sem hann gerði var að afhenda mér skrítinn mann, með þeim orðum að nú ætti ég tík; Fred.
Fred þessi var kolsvartur maður um fertugt. Hann var lítill, gekk í stórum fötum og það var vond lykt af honum. Hann bjó hjá mömmu sinni og systrum. Hann var og er sá alheimskasti maður sem ég hef um ævina kynnst. Ég hélt fyrst að hann væri að atast í mér með einkennilegum tilsvörum, en svo var ekki. Eina gagnið sem hann gerði var að keyra pikkupp frá höfuðstöðvum okkar á vinnustað að morgni og sömu leið að kveldi. Hann var nefnilega með bílpróf, hafði það umfram flesta eymingjana sem unnu með honum.
Oft og iðulega varð ég fokvondur yfir því sem ég taldi vera leti í Fred, en það var þá ekki annað en heimska. Þegar hann mundi ekki hvað hann átti að gera hætti hann bara og stóð kyrr og horfði út í loftið. Ekki hugkvæmdist honum að spyrja hvað hann ætti að gera. Hann hafði ekki einu sinni vit á að standa með skóflu eða kúst til að það liti út fyrir að hann væri að vinna. En ég gat aldrei verið vondur út í Fred lengi. Ég hafði bara ekki brjóst í mér að reiðast þessum kjána. Og ekki gat ég rekið hann; hvað átti manngreyið að gera? Ég veit ekki um neitt starf sem hann gæti unnið skammlaust. Ekkert.
Stundum setti ég Fred fyrir að sópa möl af götunni ofan í skurðinn sem við grófum. Segjum sem svo að það hafi verið þriggja metra breitt svæði hvoru megin sem sópa þurfti. Hann byrjaði einum metra frá skurðinum og sópaði ofan í. Svo færði hann sig utar og sópaði næst frá tveimur metrum, yfir það sem áður var sópað. Að lokum sópaði hann frá þremur metrum. Þar með hafði hann sópað sumt tvisvar og sumt þrisvar. Ekki var nokkur leið að fá hann til að byrja utast.
Einu sinni vorum við að smíða ofan í gryfju og Fred átti að saga timbur í okkur. En það var sama hvað við báðum um, ekkert passaði. Við fórum að spyrja Fred hvurju þetta sætti, en það varð fátt um svör. Loks datt okkur í hug að kannski kynni Fred ekki á málband. Svo við spurðum hann hvursu margar tommur væru í feti. Fyrir þá sem ekki vita, þá er þetta eins og að spyrja íslendinga hvursu margir sentimetrar séu í metra; þetta vita allir. Fred ansaði engu, svo við héldum áfram að spyrja. Að endingu hálffauk í Fred og hann hreytti út úr sér að hann vissi það ekki; að hann væri nú enginn trésmiður.
Þegar lítið var að gera eitt sumarið var Fred og öðrum óþarfa sagt upp störfum og eftir það heyrði ég ekkert af honum. Ég vona að hann hafi það gott.

   (6 af 54)  
2/12/09 06:00

Regína

Það hlýtur að vera, sjá ekki mæður hans og systur um hann?

2/12/09 06:00

Huxi

Þetta hefur verið svokallaður "verndaður vinnustaður".

2/12/09 06:00

Kargur

Þetta var allt annað en verndaður vinnustaður.

2/12/09 06:01

Bleiki ostaskerinn

Ég var að vinna með konu sem steig ekki beinlínis í vitið greyið. Td kunni hún ekki að lesa á hitamæli, þið vitið svona aflangan með tölurnar sitt hvoru megin. Og það voru ófá störfin sem var bara engan vegin hægt að fá hana til að gera rétt og í hverju verki tók hún margfalt fleiri handtök en var nauðsynlegt.

2/12/09 06:01

Útvarpsstjóri

Ég fór einu sinni með Kargi í vinnuna þarna ytra og get vottað að hann féll vel inn í hópinn.

2/12/09 06:01

Upprifinn

Litill heimskur og í stórum fötum. <glottir eins og fífl.>

2/12/09 06:01

Kargur

Þegar Útvarpsstjóri fékk að koma með í vinnuna var hann eitthvað bilaður á hné eftir slaxmál í frúarleikfiminni. Þrælarnir voru eitthvað að hía á hann og vildu fá að vita af hvurju hann væri haltur. Ég kunni ekki við að segja þeim frá frúarleikfiminni svo ég laug því til að hann hefði komið svona heim úr stríðinu. Þeir vildu fá að vita hvaða stríð það hefði verið; voru sjálfsagt hissa á að svona stráklingur gæti hafa verið í stríði. Svo ég leit á þá eins og þeir væru fífl og sagði "the big one" og þar við sat. Þeir halda sjálfsagt enn í dag að Útvarpsstjóri sé stríðshetja.

2/12/09 06:02

Kiddi Finni

Getur verið að Fred vann fyrir fjölskylduna sína... ss. fyrir mömmu sína og systur. Góð saga, Kargur, endilega komdu með meira frá Bandarikjahreppi...

2/12/09 07:00

Rattati

Ég hef sem betur fer ekki svona menn í vinnu, en ég hef séð týpuna víða í vinnu hjá kúnnum okkar. Alþekkt fyrirbrigði og er reyndar á mögulegum aldri og af ýmsum litbrigðum.

2/12/09 07:01

Kargur

Fred var mikil hjálparhella á heimilinu; hann fór með ruslatunnuna út á veg einu sinni í viku og svo borgaði hann sjónvarpsreikninginn.

2/12/09 01:00

Valþjófur Vídalín

Skemmtileg saga hjá yður hr. Kargur. Gaman væri að heyra meira af dögum yðar í Bandaríkjum Norður-Ameríku.

2/12/09 01:00

Einn gamall en nettur

híhíhí.

2/12/09 02:01

krossgata

Karlgreyið var þó alla vega fært um að sjá um áætlunarferðirnar frá höfuðstöðvum á vinnustað. Kannski hann sé að gera rífandi bissness í áætlunarferðum í dag.
[Strýkur hökuna og þykist trúa því]

2/12/09 16:01

blóðugt

Ég þoli ekki heimskt samstarfsfólk. Er enn í skýjunum yfir því að ein samstarfskona mín hætti fyrir 10 dögum og flutti búferlum til borgarinnar. Skil ekki hvernig þessi kona komst í gegn um skóla - eða hvernig hún getur haldið vinnu.

1/11/09 06:00

núrgis

Sæll Kargur.
Nú ætla ég hér með að taka upp hanskann fyrir Fred.
Ég vitna í þín orð og segi skammlaust: "Ég veit ekki um neitt starf sem hann gæti unnið skammlaust. Ekkert."
(Það er ekki hægt að gera íslenskar gæsalappir á tölvunni minni).
..Það eru mörg störf sem hann Fred hefði getað unnið. T.d. það sem kallast á engilsaxnesku trainspotting. Það starf felur mestmegnis í sér að sitja við lestarteina og fylgjast með því hvort lestir séu á réttum áætlunartíma. Ekki veit ég hversu vel það er borgað en þó er það viðurværi sumra. Síðan er auðvitað það vanvirta starf að þiggja laun frá ríkinu sem öryrki til þess eins að láta öðrum mönnum líða betur með sjálfa sig með því að upphefja sjálfa sig á kostnað annara.
Núh..
"Stundum setti ég Fred fyrir að sópa möl af götunni ofan í skurðinn. þetta vita allir."
Það vita það líka "allir" (samt greinilega ekki allir) að stundum þarf maður að byrja á byrjuninni og halda svo ótrauður áfram.
Og svo að lokum;
"að hann væri nú enginn trésmiður."
Tjah, það eru margir í dag sem vilja titla sig sem þetta og annað án þess að hafa kunnáttuna í það.
Ég tek ofan af fyrir Fred Forrest Gump fyrir að hafa nú samt mætt í vinnu þar til hann var rekinn þrátt fyrir augljósa vankanta.
Annars þakka ég þér fyrir skemmtilegt rit og bið þig vel að lifa. Vonandi sjáumst við galvösk á árshátíðinni.
Kv.
Núrgis

2/11/09 04:01

Sannleikurinn

hvaða sannleika viljið þjer benda á þess tími er liðinn?
Það eru svo mörg sannindi til sko.........t.d. allar þessar gildu röksemdafærslur.

2/11/09 04:01

Sannleikurinn

þær þurfa jú auðvitað ekki alltaf að innihalda einhver sérsannindi í sjálfum sér þó........

2/11/09 04:01

Sannleikurinn

fýlupúki!!

2/11/09 05:00

Kargur

Núrgis;Fred er þér örugglega þakklátur fyrir að taka upp hanskann fyrir hann. Bara svo það sé á hreinu þá var það ekki ég sem rak Fred. Það hefði ég aldrei gert. En ég stend við þau orð að ég viti ekki um neitt starf sem hann geti unnið skammlaust.
Því er svo við bætandi að fyrir einhverja yfirsjón almættisins náði Fred að fjölga sér. Hann eignaðist dóttur með svolítið einkennilegri konu. Hann sagði okkur af þessu einhvurn daginn. En hann mundi ómögulega hvað dóttir hans hafði verið skírð.

Kargur:
  • Fæðing hér: 8/5/05 19:39
  • Síðast á ferli: 15/10/23 21:26
  • Innlegg: 10540
Eðli:
Kargur bóndadurgur.
Fræðasvið:
Ekkert sérstaklega fróður um nokkurn skapaðan hlut.
Æviágrip:
Hefur unnið að fullkomnun sérvizkunnar frá unga aldri. Tilnefndur til nóbelsverðlauna í þrjósku árlega. Gafst upp á hefðbundnum búskap fljótlega upp úr fermingu og vann um stund að kynbótum á könum. Lauk þeim farsællega og býr nú heima í heiðardalnum.