— GESTAPÓ —
Kargur
Heiðursgestur og  skriffinnur.
Dagbók - 9/12/06
Fjármál

Er eitthvað vit í þessu?

Í gærmorgun vaknaði ég í gripahúsi/leitamannakofa á heiðum uppi. Vaknaði eldsnemma. Át súrmjólk og rúgbrauð með reyktri nautatungu í morgunmat. Klæddi mig svo eins og ég ætlaði á norðurpólinn. Svo var okkur skutlað á hjara veraldar. Þaðan gengum við í snjókomu og skafrenningi enn hærra. Ég reyndi hvað ég gat að halda í við gönguóðan mann. Ég hélt ég mundi drepast. Ég reyndi að rifja upp hvunær ég hefði gengið svona síðast. Svo spáði ég í það af hverju í andskotanum ég hefði látið plata mig í svona vitleysu.
Við fundum nokkrar skjátur, allar þrjóskar og reiðubúnar í langhlaup. Sem betur fer höfðu félagar mínir góða hunda, annars værum við enn að elta þær. Ég þurfti að vaða yfir ár sem ekki eru stígvélafærar. Ég þurfti að bera hundblautt lamb á herðunum. Vænn lambhrútur rann í mig. Ég var pelalaus. Ég var blautur og ég var sárfættur. Uppgefinn.
Ég ætla aftur um næstu helgi.
Ég get ekki beðið.

   (16 af 54)  
9/12/06 23:02

Regína

Það er sko vit í þessu.

9/12/06 23:02

Herbjörn Hafralóns

Hvurslags er þetta eiginlega, gátuð þið ekki notað hesta eða fjórhjól við að elta þessar skjátur?

9/12/06 23:02

Kargur

Það voru nokkrir ríðandi.

9/12/06 23:02

krossgata

[Hneyksluð]
Gleyma pelanum! Ekki gleyma pelanum um næstu helgi!

9/12/06 23:02

Andþór

Hljómar æðislega, fyrir utan það að vera pelalaus.

9/12/06 23:02

Kargur

Það á sínar skýringar. Ég var beðinn að fara með nánast engum fyrirvara og komst ekki í ríkið. Þetta kemur ekki fyrir aftur.

9/12/06 23:02

Upprifinn

gat strákhelvítið ekki bara farið, honum hefði verið sama um pelaleysið.

9/12/06 23:02

Kargur

Áttu við Útvarpsstjóra?

9/12/06 23:02

Billi bilaði

Hann faldi örugglega pelann sinn fyrir Kargi, og saup síðan á þegar enginn sá til.

9/12/06 23:02

Upprifinn


10/12/06 00:00

Z. Natan Ó. Jónatanz

Hressilegur pistill; betri eru göngur en ógöngur...
– eða, einsog skáldið kvað forðum:

Kveður í runni, kvakar í mó
kvikur þrastasöngur.
Eins mig fýsir alltaf þó
aftur að fara í göngur.

10/12/06 00:00

Offari

Fjármálinn er sko miklu verri hjá mér ég á nefnilega ekki fyrir pelanum.

10/12/06 00:00

Lopi

Það er ekkert eins hressandi og að fara upp á fjöll á hestum að smala kindur. Og ekki er verra að hafa geltandi hund með.

10/12/06 00:00

Útvarpsstjóri

Það er nú illa gert að biðja þig um svona greiða með stuttum fyrirvara án þess að láta einn pela fylgja.

10/12/06 00:00

Golíat

Kargur, ekki láta glepjast í það að taka með þér áfengi í göngur. Það mætti vel segja mér að sunnlenskir smalamenn hefðu ekki drekkt yfir hundrað kindum um daginn hefðu þeir verið edrú. Ekki þannig að ég geti staðfest að þeir hafi verið sauðdrukknir en hitt veit ég að það er venjan á þesum slóðum. Áfengi og göngur eiga enga samleið. Mun betra að halda réttarball og fá sér rækilega neðan í því þar.

10/12/06 00:00

B. Ewing

Einu göngurnar sem ég fann í ár voru lokaðar í beitarhólfi við þjóðveginn. [Brestur í kjökur] Ég SKAL komast í réttir áður en ég geyspa golunni

10/12/06 00:00

Nornin

Ég leitaði Mývatnsheiðina einu sinni, pelalaus, og týndist!
Ég trúi að það hafi verið vegna pelaleysisins og einskis annars.

Velkominn heim annars. Þetta er eina landið sem búandi er á ... léleg ríkisstjórn, hátt verðlag og allt það skiptir ekki máli þegar blámi fjallana og kyrrð heiðana er í boði gegn engu gjaldi.

10/12/06 00:00

Nornin

[Klappar Ewing]
Við finnum réttir á næsta ári... og höfum með okkur pela [Ljómar Upp]

10/12/06 00:01

Dula

Algjört lágmark að vera á fjórhjóli með 4 til 5 hunda, skítt með pelann.

10/12/06 00:01

Kargur

Það hlýtur að stangast á við fjallskilareglugerð að senda mann pelalausan á öræfin. Golíat; þú ert kjáni.

10/12/06 00:01

Skabbi skrumari

Að vera pelalaus við göngur er eins og að vera súrefniskútalaus við köfun... það sleppur í smá stund, en til lengdar verður það frekar erfitt...

10/12/06 00:01

Tigra

Það skemmtilegasta í heimi er að vera í réttum á hestbaki.
Fjórhjól eiga ekki roð í hrossin.
Mun takmarkaðara sem fjórhjólin komast, allavega í þeim ósléttum sem ég hef smalað í.

10/12/06 00:01

Regína

Golíat hefur allavega aldrei séð fjárhóp renna.

10/12/06 00:01

Golíat

Regína - hef þegar farið í 3 göngur í haust og á nokkrar eftir <Ljómar upp>. Verst að tíðarfarið spillir mjög fyrir okkur sem háðir erum smalamennskum. Féð kemur unnvörpum sjálft af fjalli þegar snjóar svona snemma og norðanáttin er jafn þarautseig og nú.
Tigra - ég held að það sé algjört óráð að vera á hestbaki í réttunum, hvað þá á fjórhjóli. Hins vegar getur verið ágætt að smala ríðandi, þar sem landslagið bíður upp á það.
Kargur - alvöru smalamennskur eru ekki fyrir drykkjubolta. Ekki minnist ég þess í frásögnum af afrekum Fjalla-Bensa að hann hafi unnið þau í ölvímu.
Skabbi - Skál fyrir Bensa! - Ertu búinn að svíða í haust?

10/12/06 00:01

Útvarpsstjóri

Golíat, það sama gildir um pelann í leitum og allt annað í þessu lífi, allt er gott í hófi. Þó að leitarmenn hafi pela meðferðis þýðir það ekki að þeir séu draugfullir og vitlausir allan tímann.

10/12/06 00:01

Golíat

Útvarpsstjóri - þar sem ég smala bera menn ekki með sér neinn óþarfa. Nauðsynlegur fatnaður, vatnsílát úr plasti (til að drekka úr lækjum) óblandaður orkudrykkur, þurrkaðir ávestir og annað létt nesti og talstöð. Annað þarf ekki. Orkan er notuð í yfirbuga sauðféð.
Hver þarf alkóhól til að njóta þess besta sem íslensk náttúra býður upp á? Ekki ég og hef þó ekki verið talinn bindindisfrömuður hingað til.
Er etv rétt að vera með pelann líka á rjúpnaskyttiríi á fjöllum eða jeppaferðum á jöklum?
Allt í lagi ef menn vilja fá sér söngolíu í réttunum sjálfum og taka þar lagið en að drekka á meðan menn eru að smala það er léleg pólitík og stórvarasöm!

10/12/06 00:01

Grágrítið

Taktu með þér riffilinn næstu helgi, þá þarftu minna að elta þetta.

10/12/06 00:01

Skabbi skrumari

Byrjaður að svíða... það minnir mig á eitt... hvar er þráðurinn haustverkin...

10/12/06 00:02

Skabbi skrumari

Fann hann... hann er lokaður á Almennu spjalli... blaðsíðu 18 eða 19... gaman að skoða hann, en líklega óþarfi að opna hann...

10/12/06 01:02

Hakuchi

Ég upplifði svipaða tilfinningu um daginn. Nema hvað við vorum með vitlausan unghund sem rak féð lengst upp í fjöll í stað þess að reka þau niður í dal.

10/12/06 03:00

Kargur

Í minni sveit heita unghundar hvolpar.

10/12/06 03:01

Tigra

Neinei Golíat. Þú snarar kindurnar með reipi, bindur síðan svona 4-5 stykki við hnakkinn og dregur þær inn í dálkinn á hestbaki.
Þannig er það lang fljótlegast.

10/12/06 03:01

Hakuchi

Þessi hundur er svona rétt milli þess að vera hvolpur og hundur. Þess vegna skrifaði ég unghundur því mér vitanlega er ekki til neitt almennilegt orð yfir hunda á gelgjuskeiði.

10/12/06 03:02

Útvarpsstjóri

Glundur?

Kargur:
  • Fæðing hér: 8/5/05 19:39
  • Síðast á ferli: 15/10/23 21:26
  • Innlegg: 10540
Eðli:
Kargur bóndadurgur.
Fræðasvið:
Ekkert sérstaklega fróður um nokkurn skapaðan hlut.
Æviágrip:
Hefur unnið að fullkomnun sérvizkunnar frá unga aldri. Tilnefndur til nóbelsverðlauna í þrjósku árlega. Gafst upp á hefðbundnum búskap fljótlega upp úr fermingu og vann um stund að kynbótum á könum. Lauk þeim farsællega og býr nú heima í heiðardalnum.