— GESTAPÓ —
Kargur
Heiðursgestur og  skriffinnur.
Dagbók - 4/12/06
Verkfræði.

Vesenisfræði.

Að undanförnu hef ég verið að hjálpa tengdaföður mínum um helgar. Af óskiljanlegum ástæðum er eitt og annað að húsinu hjá honum; ekki nema rétt rúmir tveir áratugir síðan dyttað var að hlutunum þar síðast.
Ég hélt að þetta ætti nú að vera lítið mál, kallinn verkfræðingur og alles. Aldrei á ævi minni hef ég haft eins ragnt fyrir mér. Í fávizku minni hélt ég að verkfræðingar væru fróðir um verk; hvurnig staðið skuli að verki og svoleiðis. En það er nú síður en svo. Verklagni er eitthvað sem algjörlega hefur farið fram hjá kallinum. Sama gildir um verkvit.
Nú er hann langskólagenginn í þessum fræðum. Er það frekja í mér að ætlast til að hann geti notað hallamál? Er heilbrigð skynsemi ekki eitthvað sem verkfræðingar ættu að hafa? Í hennar stað er kallinn yfirburðamaður á sviði málaflækinga og klaufaskapar.
Þar sem okkur tengdapabba kemur ágætlega saman læt ég svona lagað ekki á mig fá, enda á langlundargeð mitt og þolinmæði fáa sína líka.
Í dag þegar ég fylgdist með honum reyna að skipta um blað í hjólsöginni sinni reyndi ég að ímynda mér hvað mönnum væri kennt í verkfræði. Kallinn átti svolítið bágt með að halda blaðinu á meðan hann losaði róna sem heldur blaðinu. Ég rifjaði upp nokkur atvik þar sem verkfræðingar komu við sögu. Á meðan reyndi kallinn að halda blaðinu með lítilli rörtöng. Ég reyndi að finna samefnara í þessum verkfræðingasögum (ég hafði rúman tíma) Allt í einu varð þetta morgunljóst fyrir mér:

Verk + verkfræðingur = klúður.

Svo sýndi ég kallinum takkann sem læsir blaðinu.

   (18 af 54)  
4/12/06 22:00

Regína

Kannski fer tíuþumalputtafólkið í verkfræði af því að það heldur að þannig fái það verksvit?

4/12/06 22:01

Útvarpsstjóri

Síðan hvenær býrð þú yfir langlundargeði og þolinmæði?

4/12/06 22:01

Jóakim Aðalönd

Hehe, þetta eru verkfræðingar í hnotskurn. Ég þekki það af eigin raun, enda verkfræðingur sjálfur...

4/12/06 22:01

Steinríkur

Verkfræðin er bóknám, og orðið lýsandi fyrir það. Menn læra fræðina á bak við verkið en ekkert um framkvæmdina...
Kúrsinn Hallamál&Borvél 101 var ekki kenndur í HÍ þegar ég var í verkfræði þar. Verkvitið kemur fyrst og fremst með reynslunni, og hana fá menn ekki í háskólanum.
Því eru margir verkfræðingar eins og þorskar á þurru landi til að byrja með, sumir ævilangt.

4/12/06 22:01

krossgata

Eru verkfræðingarnir ekki fólkið sem hannaði takkann sem heldur blaðinu?

4/12/06 22:01

Steinríkur

Það var róni sem hélt á blaðinu. Lastu ekki félagsritið?

Annars eru það oftast verkfræðingar, tæknifræðingar, iðnfræðingar og vélvirkjar sem sjá um hönnun á svona hlutum. Það þýðir ekki að þeir kunni á þá.

4/12/06 22:01

Kargur

Þetta er allt rökrétt; þeir sem ekki geta hlutina sjá í staðinn um að kenna þá...

4/12/06 22:01

Halldór

Það er mjög gagnlegt að leika hálfvita þegar leysa þarf leiðinleg verkefni. Eins og t.d. viðhald. Hver veit nema tengdasonurinn bíti á agnið...

4/12/06 23:01

B. Ewing

Bókvitið er ekki askana látið. Það gildir enn.

4/12/06 23:01

Grágrítið

Í Ármúlanum er stór verkfærðiskrifstofa, þar í andirinu er mikið af ljósum, ég horfði uppá ekki færri en 5 stykki verkfræðinga skipta um eina ljósaperu og þeir voru ekki allir sáttir með hvernig verkið var unnið.

Kargur:
  • Fæðing hér: 8/5/05 19:39
  • Síðast á ferli: 15/10/23 21:26
  • Innlegg: 10540
Eðli:
Kargur bóndadurgur.
Fræðasvið:
Ekkert sérstaklega fróður um nokkurn skapaðan hlut.
Æviágrip:
Hefur unnið að fullkomnun sérvizkunnar frá unga aldri. Tilnefndur til nóbelsverðlauna í þrjósku árlega. Gafst upp á hefðbundnum búskap fljótlega upp úr fermingu og vann um stund að kynbótum á könum. Lauk þeim farsællega og býr nú heima í heiðardalnum.