— GESTAPÓ —
Kargur
Heiðursgestur og  skriffinnur.
Dagbók - 1/12/05
Tengdó til sölu

Gefins væri nær lagi.

Vantar þig ekki fullkomna tengdamóður? Sökum vandlætis hef ég enga þörf fyrir mína, og hef ákveðið að gefa hana. Hún er eins og áður kom fram fullkomin. Hún er Amerísk, að mestu leiti evrópsk að uppruna, þó finna megi Indíánablóð ef vel er að gáð. Meðal helstu kosta hennar má nefna framúrskarandi snilld í að finna galla annarra og benda þeim á þá. Hún lætur tungumálaörðugleika ekki á sig fá, henni tekst að koma vizku sinni til skila við innfædda jafnt sem innflutta. Hún er gríðargóð í að skipuleggja tíma þinn til hennar þarfa, svo góð að þú munt aldrei sitja auðum höndum. Hún er með afbrigðum einbeitt, eins og svefnvenjur hennar sanna. Ekkert fær hana stöðvað. Hún mun einnig benda þér á hvað þú getur ekki gert, og munt aldrei geta gert, svo það er engin hætta á að þú eyðir tíma þínum í að reyna einhverja vitleysu. Hún mun gera allsherjarúttekt á hýbýlum þínum (þér að kostnaðarlausu) og benda þér á hvað betur megi fara. Hún mun vega og meta eldamennsku þína, klæðaburð þinn og yfirleitt flest annað sem þarfnast leiðréttingar. Þú munt geta hætt að stressa þig yfir erfiðum ákvörðunum, hún mun taka þær fyrir þig. Hún mun segja þér hvað börn þín eigi að heita, hvar þú skalt eiga heima, hvurnig bíl þú skalt aka og svo framvegis.
Áhugasamir vinsamlega geri tilboð.

   (37 af 54)  
1/12/05 15:01

Nornin

Ég ætla ekki að gera tilboð í tengdó, en ég verð að koma því á framfæri við þig, að pistlingar þínir koma mér alltaf til að skellihlæja.
Vona að þú losnir við tengdó sem fyrst.

1/12/05 15:01

Poxxx

Ég skal taka hana ef henni fylgir sætur strákur sem hæfir mér.

1/12/05 15:01

Nermal

Er ekki betra að setja hana á E-bay? Mig vantar ekki svona tengdó allaveganna.

1/12/05 15:01

B. Ewing

Líst ekkert á þessa tengdó. Líklegast er eina lausnin að senda annaðhvort ykkur eða hana til búsetu í Carson City.

1/12/05 15:01

Offari

Ég þarf ekki að endurnýja eins og er. Þakka boðið.

1/12/05 15:02

Haraldur Austmann

Hvað kostar hún? Hvernig er hún tennt, hver er nytin, er hún með einhverja smitsjúkdóma eða útlitsgalla?

1/12/05 15:02

Leir Hnoðdal

Mætti ég þá heldur biðja um Soffíu frænku.

1/12/05 15:02

Kargur

Haraldur, þú færð hana fyrir slikk. Sendu mér kíló af appollólakkrís og við erum kvitt. Varðandi spurningar þínar; hún er tannhvöss, ugglaust steingeld, ósýkt og fjarska-falleg (alla vega fyrir löggild gamalmenni).

1/12/05 15:02

Haraldur Austmann

Fallegri en Sólveig Pétursdóttir?

1/12/05 15:02

Kargur

Hreint ekki. Varð reyndar að gúgla þessa Sólveigu, síðan hvenær hleypa þeir kellingum inn á Alþingi?

1/12/05 16:00

Jóakim Aðalönd

O, þetta heitir víst nútíminn Kargur. Nú hafa konur ýmis konar réttindi, eins og kosningarétt og geta boðið sig fram til alþingis svo fátt eitt sé nefnt. Þær mega meira að segja vera prestar! Hvað næst? Kvenkyns sýslumenn?!

Mér líst hreint ekkert á þessa tengdamömmu. Það er eins gott að það hafi verið þess virði hjá þér...

1/12/05 16:01

fagri

Sjálfur á ég fullt í fangi með mína tengdó þannig að sjálfsagt væri óráð að fá sér aðra. Og svona til að öppdeita JA get ég bent honum á að skelegg sýslukona er í feitu embætti á Seyðisfirði.

1/12/05 16:01

Urmull_Ergis

Hvernig lítur hún út þegar hún liggur á bakinu?

1/12/05 16:01

Mjákvikindi

Sýslukona ku vera einnig á Ísafirði.

1/12/05 16:01

Jóakim Aðalönd

Hvað eruð þið að segja?! Eru konur bara búnar að troða sér alls staðar? Össs...

1/12/05 16:01

Hvæsi

Látiði ekki svona, konur með kosningarétt og á þingi ? Eru þær kanski með bílpróf líka ?

1/12/05 16:01

Kargur

Dæmalaus frekja er þetta í þessum kellingum. Ætli það endi bara ekki með því að þær reyni að komast á Bessastaði? Ég er svo aldeilis hlessa.

1/12/05 16:02

Ugla

[Ég er fullkomlega róleg. Ekkert getur raskað innri ró minni. Hugurinn er fullur af ást og góðum tilfinningum. Anda inn. Anda út. Róóólega]

1/12/05 17:01

Wiglihi

Nú þakkar maður fyrir sína tengdó eftir þennan lestur

10/12/07 03:01

Wayne Gretzky

Nú á ég hana.

Kargur:
  • Fæðing hér: 8/5/05 19:39
  • Síðast á ferli: 15/10/23 21:26
  • Innlegg: 10540
Eðli:
Kargur bóndadurgur.
Fræðasvið:
Ekkert sérstaklega fróður um nokkurn skapaðan hlut.
Æviágrip:
Hefur unnið að fullkomnun sérvizkunnar frá unga aldri. Tilnefndur til nóbelsverðlauna í þrjósku árlega. Gafst upp á hefðbundnum búskap fljótlega upp úr fermingu og vann um stund að kynbótum á könum. Lauk þeim farsællega og býr nú heima í heiðardalnum.