— GESTAPÓ —
Gunnar H. Mundason
Óbreyttur gestur.
Dagbók - 2/12/05
Mér skilst sem að jólin séu á næsta leiti

Alla mína ævi hafa jólin verið nokkuð formföst. Ég, mamma, pabbi saman og svo er afgangurinn breytilegur, systur mínar, amma, stundum á staðnum, stundum ekki. Og þau hafa alltaf verið haldin á sama stað, í húsinu okkar. En nú er svo komið að mamma og pabbi eru skilin, eða eru að skilja, og það verður aldrei eins aftur. Síðan var sú ákvörðun tekin að ég og mamma færum til systur minnar (hálfsystur minnar) yfir jólin, en hún býr í Kanada, eða Winnipeg nánar til tekið, ásamt eiginmanni sínum og tveimur börnum þeirra. Við lögðum af stað tólfta desember og komum samdægurs, þ.e. það var ennþá tólfti hér, en reyndar ekki heima á Íslandi. Flogið var til Minnieapolis og þaðan til Winnipeg. Síðan þá hef ég verið að slaka á, eyða tíma með systur minni og kynnast frændsystkinum mínum, og fara í „mollið“, og að sjálfsögðu að undirbúa jólin. Jólaundirbúningurinn hefur verið í fullu standi, kaupa jólagjafir, pakka þeim inn, kaupa jólamatinn, setja upp jólaljós o.s.frv. Jólin hér verða blönduð, að hluta til íslensk og að hluta til norður-amerísk, eða með öðrum orðum; hamborgarahryggur verður snæddur á aðfangadag og nokkrir pakkar opnaðir. Síðan á jóladagsmorgun opna krakkarnir pakkana frá hinum kanadísku ættingjum, enda snúast þessi jól aðallega um þau, allir aðrir eru orðnir svo til fullorðnir og hafa ekki gaman af jólunum á sama hátt og blessuð börnin.
Nú þegar svo stutt er til jóla átta ég mig á að mér finnst bara ekkert jólalegt hérna. Þrátt fyrir stóra jólatréð, jólaljósin, kransinn og blessaðan snjóinn (sem er hérna frá byrjun nóvember og fram á vor), er bara ekkert jólalegt, að mínu mati. Og ég veit uppá hár af hverju, það er öðruvísi núna en það hefur alltaf verið. Það vantar heilan helling af hlutum sem hafa verið fastur liður af jólunum, svo sem hreingerningarnar, skatan, maltið og appelsínið, Þorláksmessuröltið niður Laugaveginn, Ora-baunirnar og ég veit ekki hvað og hvað. Ég kem þó heim í tæka tíð fyrir peningabrennuna á himninum, það verður gaman. Þó ég geri mér grein fyrir að jólin hefðu aldrei verið eins, þar sem búið er að flytja úr húsinu og allt það, vildi ég nú samt vera heima á Íslandi. Þó ég viti að ekkert getur enst að eilífu, og að einhvern tíman verða svona hlutir að breytast, að þá er sama hvað ég reyni, það er bara ekkert jólalegt hérna, mér finnst sem þetta sé bara hver annar tími ársins. Ég veit að þetta mun breytast þegar árin líða, en þetta eru fyrstu jólin sem eru allt öðruvísi, og þau eru mér erfið. Langaði bara deila þessu með ykkur.
Kæru Gestapóar, nær sem fjær, gleðileg jól, mér skilst þau séu á næsta leiti.

   (1 af 6)  
3/11/04 00:00

Jóakim Aðalönd

Þú heldur að þú hafir það slæmt. Foreldrar mínir skildu þegar ég var 4 ára, ég er á suðurhvelinu þar sem sjóðandi hiti er núna og ég þekki ekki nokkurn mann þar sem ég verð á aðfangadag. Hér á farfuglaheimilinu er ekkert jólaskraut eða jólatré og allir drekka á aðfangadagskvöld og valsa um á stuttbuxum og bol.

Annars vil ég óska þér og fjölskyldunni gleðilegra jóla.

3/11/04 00:00

Gunnar H. Mundason

Takk fyrir það og sömuleiðis. Ég veit vel að það hafa það ekki allir eins og þeir vildu helst kjósa um jólin, og margir hafa það verra en ég, og þar sem ég vissi að einhverju leyti hvernig staðan er hjá þér, datt mér alveg í hug að þú gætir „toppað“ mig, en þú hefur nú upplifað fleiri, og sjálfsagt fjölbreyttari jól. Vona bara að þú erfir það ekki að ég hafi skrifað þetta félagsrit, þó þú sért í verri aðstæðum, ef svo má að orði komast.

3/11/04 00:01

Wiglihi

Það vill því miður koma sá tími að hlutir eins og jólin breytast og það er ekki alltaf auðvelt að sætta sig við það en það er lítið við því að gera því miður, leitt að heyra með foreldra þína Gunnar og hvernig jólin verða hjá þér og eins með þig Jóakim, það er erfitt að halda jól í 24 C° ég veit það, ég prófaði það einu sinni. En þrátt fyrir allt þá er nú allt hverfult í þessum heimi og maður verður að reyna að gera það besta úr öllum aðstæðum, ég vona að þið náið því og hafið það gott yfir hátíðarnar. Ég óska ykkur innilega gleðilegra jóla og vona að það rætis úr þessu á sem farsælastann hátt.

3/11/04 00:01

Günther Zimmermann

Ég er að prófa í fyrsta skipti jól á erlendri grundu fjarri fjölskyldu og vinum. Er spenntur.

Gleðileg jól!

3/11/04 00:01

Isak Dinesen

Góður pistlingur. Gleðileg jól.

3/11/04 00:01

hlewagastiR

Vil benda á að Jóakim er ekki á Suðurhvelinu heldur Kristneshælinu eins og við aðstandendurnir segjum honum oft á dag. Hann vill bara hafa þetta svona. En hann er vissulega á stuttbuxum greyið, sei sei.

3/11/04 00:01

B. Ewing

Gleðileg jól öllsömul, hvar svo sem þið eruð...

3/11/04 00:01

Hildisþorsti

Hvað segirðu Hlewi?
Er Jóakim nú farinn að ganga í buxum?

3/11/04 00:01

Þarfagreinir

Hjá mér eru nú þau tímamót að ég held í fyrsta sinn upp á jól án þess að búa hjá foreldrunum. Reyndar fer ég í mat til þeirra í kvöld, en það verður óneitanlega ný reynsla að gera sér sérstaka ferð til þess í stað þess að hanga bara hjá þeim og bíða eftir því að matur verði fram reiddur.

Gleðileg jól annars.

3/11/04 00:01

Vladimir Fuckov

Munið að leggja undir Baggalútíu með hervaldi einhvern hluta þess ríkis er þjer nú heiðrið með nærveru yðar. Gleðileg jól.

3/11/04 00:01

Rattati

Gleðileg jól, hvar sem þið eruð og við hvaða aðstæður sem þið eruð.

3/11/04 00:01

Gunnar H. Mundason

Þakka ykkur öllum fyrir og gleðileg jól.
Vladimir: Þetta er allt í vinnslu, flotinn er kominn í stöður, og svo er ég að stjórna þessum kosningum á bak við tjöldin, þegar mínir menn vinna, verður mjög einfalt mál að leggja undir okkur annað stærsta ríki heims. Gleðileg jól.

3/11/04 00:01

Kargur

Það má vel komast í jólaskap þrátt fyrir að vera ekki undir pilsfaldinum hjá móður sinni. Svo lengi sem menn gleyma sér ekki í stressinu og kaupæðinu þá ætti að vera hægt að komast í hátíðarskap sama hvar maður er. Og munið að þetta er hátíð barnanna. Gleðileg jól.

3/11/04 00:01

Gunnar H. Mundason

Vel mælt Kargur. Gleðileg jól.

3/11/04 00:02

Jóakim Aðalönd

Ekki var það ætlun mín að ,,toppa" þig Gunnar minn, hvað þá gera lítið úr aðstæðum þínum. Þvert á móti voru skrif mín huxuð til að hughreysta þig á erfiðum tímum. Mundu að öll él birtir upp um síðir og kannske verða næstu jól betri. Ég held það alla vega...

3/11/04 00:02

Gunnar H. Mundason

Þakka þér kærlega fyrir það Jóakim minn, ég held og vona það. Gleðileg Jól.

3/11/04 01:00

Lopi

Þau eru komin, gleðileg jól.

3/11/04 01:00

Hakuchi

Þú harkar af þér góði víkingur. Þetta verður bara betra næst. Megi jólin leika vel við lund þína Guðmundur minn.

3/11/04 01:00

Gunnar H. Mundason

Ég gerði það, þetta var alls ekki það slæmt. Þakka þér kærlega fyrir þessi orð, minn kæri Hakuchi og gleðileg jól enn og aftur.

3/11/04 01:00

Offari

Gleðileg Jól..

4/12/07 19:00

Útvarpsstjóri

<laumast>

4/12/07 19:02

Álfelgur

[Laumast til að vera með]

31/10/07 19:01

Wayne Gretzky

Til hamingju.

Gunnar H. Mundason:
  • Fæðing hér: 19/4/05 08:38
  • Síðast á ferli: 4/9/13 03:18
  • Innlegg: 45
Eðli:
Hann er mikill maður að vexti og sterkur og allra manna best vígur. Hann heggur báðum höndum og skýtur ef hann vill og hann vegur svo skjótt með sverði að þrjú þykja á lofti sjá. Hann skýtur manna best af boga og hæfir allt það er hann skýtur til. Hann hleypur meira en hæð sína með öllum herklæðum og eigi skemmra aftur en fram fyrir sig. Hann er syndur sem selur. Og eigi er sá leikur að nokkur þarf við hann að keppa og hefur svo verið sagt að engi er hans jafningi. Hann er vænn að yfirliti og ljóslitaður, rétt nefið og hafið upp í framanvert, bláeygur og snareygur og rjóður í kinnum, hárið mikið, gult, og fer vel. Mann er hann kurteisastur, harðger í öllu, ráðhollur og góðgjarn, mildur og stilltur vel, vinfastur og vinavandur. Hann er vel auðigur að fé.
Fræðasvið:
Að vega menn með atgeirnum góða.
Æviágrip:
Fæddur fyrir einhverju. Býr að Hlíðarenda. Á tvo sonu, þá Högna og Grana, með mestu tík Íslandssögunnar, Hallgerði langbrók Höskuldsdóttur.