— GESTAPÓ —
Í uppáhaldi:
Félagsrit:
Rattati
Heiðursgestur.
Dagbók - 8/12/08
Dæmigert flug. Eða svoleiðis.

Já bara....Anchorage til Seattle. Dæmigerður dagur hjá mér.

Ég er frekar afslapaður þegar kemur að því að pakka í tösku fyrir ferðalög. Þetta kemur væntanlega til af áralangri reynslu í að ferðast með eins lítinn farangur og mögulegt er að komast af með, samt án þess að standa uppi fatalaus (orðatiltæki) á ólíklegustu stöðum (en það er efni í annan pistil). Taskan mín er oft uppi við vegna þess að það hreinlega tekur því ekki að ganga frá henni. Oft er hún bara skilin eftir opin svo að ferilinn við að pakka samanstendur af því að ef svo heppilega vill til að ég er með hreint sokkapar í höndunum þega ég á leið hjá þá fara þeir í töskuna. Morguninn sem ég fer svo í flug hendi ég í töskuna nokkrum buxum, bolum, nærbuxum og sokkum. Að endingu fer snyrtitaskan ofaní. Er ég þá búinn að því sem að ég hef séð konuna mína taka 3 daga í að gera þegar hún undir býr þó ekki sé nema ferð í Bónus. Þetta kerfi virðist virka fyrir mig þó svo ég kannski eigi eftir að vakna upp við það einn daginn í 35.000 feta hæð að ekki hafi ég einungis gleymt að pakka buxum, heldur er ég ekki í neinum.

Alltaf þegar ég kem á flugvelli furða ég mig á því hvernig stendur á því að svona risavaxnar byggingar geti verið fullar af fólki sem ekki vill vera þar. Fólk sem er að bíða eftir fluginu sínu svo það geti komið sér þaðan, fólk sem er að flýta sér úr fluginu og fólk sem er að bíða eftir einhverjum svo þeir geti komið sér þaðan. Ég held að flugvellir séu jarðneskar útgáfur af forgarði Helvítis, svæði full af fólki sem er eitthvað skúffað.

Og af hverju eru alltaf allir svona fínt klæddir? Ég fer í sturtu en sleppi því oft að greiða mér, hvað þá meira fyrir flug. Gallabuxur, strigaskór og gamli góði Slayer bolurinn. Vinnujakki og strigaskór og þá er ég klár. En flugvellir eru fullir af köllum í Armani jakkafötum og kvenfólki sem er gersamlega stífmálað og í gasalega lekkert drögtum. Var öllum boðið á ball nema mér?

Flugið mitt í þetta skiptið var nokkuð venjubundið. Þegar ég kom að sætaröðinni þá var þar fyrir mjög öldruð kona, haldandi á – jújú - biblíu. Hún sat við ganginn en ég hafði gluggasæti. Við spjölluðum heilmikið saman á meðan fólkið var að tínast inn í vélina. Það kom í ljós að hún var að heimsækja kirkju sem hún hafði gefið alveg gommu af pening til í gegnum árin. Hafandi í huga að þetta var Bandaríkjamaður (kona, whatever) þá samþykkti ég það heilshugar að það hefði án efa verið mikið og gott starf sem að kirkjan hefði gert fyrir “villimennina í Alaska" eins og hún orðaði það svo smekklega. Ég lýsti fyrir henni Íslandi og svo framvegis og svo framvegis. Þið þekkið ferilinn þegar þið setjist við hliðina á útlending.

Þegar ég var búinn að taka út mp3 spilarann minn (með tónlist sem hefði örugglega látið hana fá hjartaáfall á staðnum), bókina (dittó) og búinn að koma mér fyrir þá kom þar að alveg hreint bráðhuggulega ung stúlka og settist í miðjusætið. Þó nokkrum sinnum á meðan á fluginu stóð tilkynnti sú gamla stúlkunni að ég væri yndislegur ungur maður og hvað hún væri heppin að vera gift mér, á meðan að ég starði ofan í bókina og þóttist ekkert heyra. Að endingu hætti stúlkan að leiðrétta þá gömlu og samþykkti það að vera gift væri hreinlega frábært. Ég brosti til stúlkunnar en hún roðnaði bara.

Þegar vélin var lent þá stukku allir á fætur og byrjuðu að draga niður handfarangurinn. Mér sýnist sem allir taki handfarangur sem hefði þótt góður hestburður hér í den en flugfélögin segja ekkert við því. Allt í einu brast á svartamyrkur (þetta var um 11 um kvöldið) þegar að allt rafmagn fór af vélinni. “Betra núna en fyrir tíu mínútum” sagði einhver húmoristinn og ég varð virkilega undrandi þegar ég fattaði að það var ég. Eftir um mínútu eða svo kom flugstjórinn og fullvissaði okkur um það að þetta yrði komið í lag eftir skamma stund. Klikkti hann svo út með “don’t go anywhere.” Farþegarnir andvörpuðu. Enn einn húmoristinn. Þessi tilraun til húmors fékk enn daprari undirtektir en þegar að ég bað flugfreyjuna einusinni um að fara yfir þetta með sætisbeltin aftur, ég væri ekki alveg klár á smáatriðunum. Þegar ljósin komu aftur þurfti ég að halda aftur af mér til að öskra ekki “PERLURNAR MÍNAR. EINHVER HEFUR STOLIÐ PERLUNUM MÍNUM!!!”

Að sitja með leigubílstjóra sem að er gersamlega upptekinn við að senda textaskilaboð er svo annars ágætur endir á fínum degi.

   (3 af 25)  
8/12/08 20:00

Ívar Sívertsen

Hehe, góður pistill. Þú ættir að lesa bôkina Flying Circus, why we love to hate airline companies.

8/12/08 20:01

Grýta

Góð saga!
Það er bara beinlínis varasamt að punta sig of mikið og klæða sig fínt fyrir flugferð.

8/12/08 20:01

Billi bilaði

Nú hló ég upphátt. Það gerist ekki oft, svo kærar þakkir.

Hvaða gei dæmi, annars, er það að vera með snyrtitösku? <Kíkir eftir hvort ekki sé til sæmilega hreinn plastpoki fyrir tannburstann og sköfuna fyrir helgarflugið>

8/12/08 20:01

Garbo

Takk fyrir skemmtilega frásögn!
Mig fór að langa til að horfa á hina stórkostlegu mynd The Accidental Tourist. Já mér finnst hún frábær í alvöru.

8/12/08 20:01

blóðugt

Svæði full af fólki sem er eitthvað skúffað... [Skellir upp úr]

8/12/08 20:01

Huxi

Góður pistill.

8/12/08 21:00

Jóakim Aðalönd

Snilld! Hafðu þökk fyrir þetta...

8/12/08 21:01

Útvarpsstjóri

Gaman að þessu, takk fyrir.

8/12/08 21:01

hlewagastiR

Þetta var skemmtilegt félagsrit aflestrar. Hafðu þökk.

8/12/08 21:02

Rattati

Snyrtitaska er kannski ekki endilega gei dæmi, ég er með rakstrardótið (mismikið notað - fer eftir hvort ég nenni því eða ekki), og svona helstu nauðsynjar. Maður veit nefnilega aldrei hvort að sá sem var síðast í herberginu hefur étið sápuna og drukkið sjampóið, þannig að ég er alltaf með brýnustu nauðsynjar með mér.

8/12/08 22:00

dordingull

Ratti minn, farðu nú að koma þér til manna , svo ég geti dansað við þig grænlenskan sigurdans yfir veiddun hnúfubak

8/12/08 23:01

Kargur

Takk fyrir.

8/12/08 23:01

Kiddi Finni

Skemmtilegur pistill. Hafiði annars pælt í því, að svona hálftími eða klukkutími töf er alveg rosalega langur tími á fulgstöðinni, en t.d. á skipi tæki maður varla eftir því? En Ratti: takk fyrir, kiitos og kippis!

9/12/08 00:02

Vladimir Fuckov

Þessar ferðasögur yðar eru alltaf skemmtilegar. Skál ! [Sýpur á fagurbláum drykk]

Rattati:
  • Fæðing hér: 28/3/05 11:32
  • Síðast á ferli: 12/5/20 20:25
  • Innlegg: 8165
Eðli:
Fæddist á sínum tíma og er enn að. Bý um þessar mundir bakvið lyklaborð og í flugvélum. Ekki þó á sama tíma eftir þetta óheppilega atvik hér um árið. Fokking Fly-By-Wire.
Fræðasvið:
Er ágætur í Ólsen Ólsen.
Æviágrip:
Er eiginlega búinn að vera meira og minna fullur. Er þó að mestu leyti hættur því. Man samt ekki rassgat af því sem gerðist fyrir ca 2001.