— GESTAPÓ —
Bangsímon
Fastagestur.
Pistlingur - 3/12/05
Uppskrift að lífshamingju

Ég skrifa félagsrit, þessvegna er ég.

Ég held að það sé eitt af grundvallaratriðum lífsins að þekkja sjálfan sig og vita hvernig hlutir og atburðir hafa áhrif á mann. Ef maður vissi nákvæmlega hvað maður þyrfti að gera til þess að breyta skapi og ástandi sínu, væri lífið verulega auðvelt. Það getur verið óhentugt að vera niðurdreginn í sumarfríinu, með standpínu í sundi eða með óstjórnlegan hlátur í jarðaför.

En út frá þessum pælingum hef ég verið að velta því fyrir mér hvenær ég er ánægður og glaður. Það mætti skipta þessari hamingju upp í flokka sem byggjast á hversu lengi þessi jákvæða tilfinning endist. Allar tilfinningar breytast en sumar eru aðeins lengur en aðrar og sumar vara aðeins í augnablik. Augnabliks hamingju er auðvelt að kalla fram (sendið mér einkapóst ef þið viljið þannig, kostar bara kr. 3500), en langvarnandi hamingja krefst smá undirbúnings, ef maður vill ekki lengur taka prosacið sitt.

Mér er frekar illa við fortíðarþrá. En til þess að skilja hvað gerir man hamingjusaman, verður maður að muna hvenær maður var hamingjusamur og hvað var að gerast þá. Ég held samt að það sé ekki hægt að upplifa nákvæmlega sömu tilfinninguna tvisvar, ekki frekar en það hægt að vaða í sömu ánna tvisvar. En það er hægt að endurskapa svipaðar aðstæður svo maður komist í svipað ástand aftur.

Eftir að hafa lagt hausinn í smá bleyti hef ég komist að því að það eru sjö atriði sem valda því að ég er glaður og hamingjusamur. þessi atriði eru ekki í neinni sérstakri röð.

1. Gott líkamsástand. Góð heilsa, regluleg hreyfing, gott matarræði og nóg hvíld. Mér finnst afskaplega gott að hreyfa mig og svitna. Það bætir líka einbeitinguna og færir mér aukna orku. Það er ekki gaman að vera veikur eða þreyttur og matarræði er mikilvægt. Þetta tengist allt sko.

2. Setja markmið og ná þeim. Það bætir sjálfstraustið mjög mikið ef maður nær settum markmiðum, sama hversu lítil þau eru. Það er líka mikilvægt fyrir mig að hafa eitthvað að stefna að. Þannig er ég bara gerður. Því stærri, því betra.

3. Ekki drekka. Það er gaman að drekka en eitt að því sem hefur valdið mér hrikalegum óþægindum er að vera þunnur. Það kemur öllu úr skorðum og ég hef tekið eftir þvi að viljinn verður veikari. Þá er erfiðara að stjórna sjálfum sér og maður gerir einhverjar bölvaðar vitleysur. Eða gerir ekki það sem þarf að gera, sem er jafnvel enn verra.

4. Eiga pening. Það er glatað að vera blankur og það er gaman að geta keypt sér það sem manni langar í eða vantar. Ég er ekki að tala um að vera gráðugur heldur að eiga nóg. Hvað er nóg? Tja... það er persónubundið.

5. Læra nýja hluti. Það er bara svo gaman að læra eitthvað nýtt. Ég veit um fátt betra en að geta gert eða skilið eitthvað sem ég hef ekki getað áður. Eitt af því hræðilegasta sem ég get ímyndað mér er að muni einhverntímann halda að ég kunni allt sem ég þarf að kunna. Þá staðnar maður bara. Það er glatað, skv. skilgreiningu.

6. Ást. Óþarfi að eyða mörgum orðum um það hér, en ástin sem ég vil hefur m.a. gaman af því að knúsast uppí sófa.

7. Hugarró. Vertu hress og ekkert stress. Langvarnandi stress er leiðinlegt en stutt stress er samt smá skemmtilegt. Innhverf íhugun hjálpar mikið hér. Ef hugurinn er í jafnvægi er viljinn sterkari og það er auðvaldara að takast á við hluti.

Já, þá er það komið. Kannski eru fleiri fleiri atriði sem skipta máli en mér finnst sjö bara svo skemmtileg tala. Þetta tengist allt og líklega þurfa öll þessi atriði að vera í lagi til þess að ég verið sem hamingjusamastur. Kannski ekki, ég veit ekki alveg.

Ég hef komist að því að eitt það erfiðasta sem mér finnst í þessu lífi er að halda áfram að gera hluti sem ég ákveð að gera. Mér hættir t.d. til að hætta að hreyfa mig eða borða bara óhollan mat á einhverju tímabili og þá er oft ansi erfitt að byrja aftur góðu líferni. En þá verður maður að vera viljasterkur og kannski hafa það í huga, þegar allt leikur í lyndi, að manni hættir til að gera þetta. ("Þegar sólin er hæst á himni mun hún byrja að lækka aftur.") Árstíðir lífsins eru mismunandi og ekkert nema gott um það að segja. Lífið er ekki alltaf leiðinlegt eða alltaf skemmtilegt , en það er ágætt að vita hvernig það virkar á mann.

Jæja, þetta var bara svona persónulegt félagsrit. Þið hafið án efa ykkar hluti sem gerir ykkur hamingjusöm og ánægð. En ef þið vitið ekki hvað það er, þá vona ég að þið byrjið kannski að pæla í því eftir að hafa lesið þetta.

   (7 af 16)  
3/12/05 02:00

sphinxx

Mikið spáð á svipuðum nótum og lukkunúmerið er sko stór 7-a

3/12/05 02:00

blóðugt

Frábært félagsrit, eitt það besta sem ég hef lesið. Hamingjan er þrotlaus vinna og maður má aldrei sofna á verðinum. Sjálf hef ég gert það margsinnis og vaknað svo upp með andfælum við illan draum. Það tekur tíma að ná sér á strik aftur en með meðvitaðri vinnu tekst það. Góðir hlutir gerast ekki nema maður sé opinn fyrir að meðtaka þá.

Mér fannst ég hafa mjög gott af því að lesa þetta rit. Takk fyrir mig.

3/12/05 02:00

Aulinn

Takk fyrir þetta Bangsi, skemmtileg lesning og afar vel ritað félagsrit.

3/12/05 02:01

Skoffín

Þú ert nú meiri rúsínan Bangsi! [knúsar Bangsímon vel og lengi]
Það er líka mikilvægt að hafa í huga að hamingjan er ekki markmið heldur leiðin sjálf, og því er eins gott að læra að njóta augnabliksins.

3/12/05 02:01

Bangsímon

Mjög gott. Það gleður mig að þið skulið lesa þetta og hafa gaman af. vííí!!

Rúsína? Hamingjusöm rúsína þá kannski bara? En já, lífið er ferðalag og hamingjan ferðastjórinn. [Klórar sér spekingslega og horfir til himins.]

3/12/05 02:01

Þarfagreinir

Heilmikið til í þessu. Þarf ekki að segja mikið meira. Er svo ekki bara málið að njóta lífsins án þess að hugsa allt of mikið um það?

3/12/05 02:01

Skabbi skrumari

Flott félagsrit... salútíó

3/12/05 02:01

Jarmi

Ég get tekið undir þetta. Nema með að drykkja þurfi að skemma hamingju. Það er vel hægt að vera rúllandi fullur af og til. En það er sérstaklega persónubundið þó hversu oft slíkt ætti að gerast.

Ég get stoltur sagt að ég hef aldrei svo mikið sem hugsað "ég er hættur að drekka". Fyllerí skemma ekki mína hamingju.

(Tek það þó fram að ég hef ekki verið fullur síðan um miðjan janúar, þó svo ég hafi fengið mér í glas af og til.)

3/12/05 02:01

Günther Zimmermann

Þetti rit myndi dreifa enn meiri hamingju ef <i>af</i> í titli yrði skipt út fyrir <i>að</i>.

3/12/05 02:01

Nornin

Takk Bangsímon.
Mér leið betur eftir að hafa lesið þetta og hef mjög svipaðar skoðanir á þessu máli og þú. Kannski höfum við það öll, það er jú sammannlegt að vilja vera hamingjusamur.
Við gleymum því svo oft í amstrinu að lífið ER ferðalag og áfangastaðnum er ekki náð fyrr en við deyjum, svo við ættum að fara fallegu leiðina í gegnum það til að njóta þess til fullnustu.

3/12/05 02:01

Jóakim Aðalönd

Ég sleppi algerlega atridum 1, 3 og 6 og tekst ad vera ótrúlega hamingjusamur. Málid er ad eltast vid drauma sína og langanir, en festast ekki í norminu. Aldrei er ég hamingjusamari en thegar ég hef ekkert ad gera. Thad fer ósegjanlega í taugarnar á odrum. Ég er ond sem kann ad slaka á.

3/12/05 02:02

Steinríkur

Gleymdirðu ekki:
8. Krukka af hunangi.
?

3/12/05 04:01

Nermal

Lífið er ekki að komast yfir án þess að detta, heldur að standa upp eftir hvert fall og halda áfram. Lífið er ferðalag, ekki áfangastaður. En giska gott félagsrit o sei sei já.

3/12/05 04:02

Bangsímon

Kannski er lífið ekki ferðalag heldur stefnulaust ráf. En það er samt ekkert verra sko.

Bangsímon:
  • Fæðing hér: 23/2/05 17:46
  • Síðast á ferli: 5/9/13 01:31
  • Innlegg: 455
Eðli:
Það er betra að vera tveir heldur en einn, því Skemmtilegt verður tvöfalt skemmtilegra þegar maður er tveir, og Leiðinlegt verður bara hálf leiðinlegt.
Fræðasvið:
Ég veit ekki mikið, en ég get spurt vini mína.
Æviágrip:
Ég varð augljóslega til í fortíðinni, þar sem ég er til núna. Veit samt ekki hvað ég var að gera áður en ég varð til. Líklega það sama og núna. Núna er ég að gera það sem ég mun gera á eftir. Ég veit ekki hvað það verður, en ég vona að það verði eitthvað mjög skemmtilegt.