— GESTAPÓ —
Herbjörn Hafralóns
Heiðursgestur.
Dagbók - 4/12/03
Sprenging í tebolla.

Ég varð fyrir heldur óskemmtilegri reynslu í morgun. Eftir að ég skreið á lappir hugðist ég af gömlum vana fá mér te til morgunverðar. Eins og venjulega setti ég kalt vatn í bolla, stakk honum í örbylgjuofninn, stillti tímann og setti í gang.
Eftir að hefðbundnum hitunartíma lauk fannst mér eins og ósköp lítið væri að gerast í bollanum, engar loftbólur né önnur merki um að vatnið væri komið að suðumarki.

Ég bætti því einhverjum sekúndum við og ræsti ofninn á ný. Ég ætlaði síðan að kíkja í örbylgjuofninn gegnum glerið í hurðinni og fylgjast með framvindunni. Þá varð allt í einu mikil sprenging í ofninum með þeim afleiðingum að allt rafmagn fór af íbúðinni. Ég opnaði ofninn varlega og sá þá að bollinn var nánast tómur og ofninn allur rennblautur að innan. Það hafði sem sé orðið sprengigos í bollafjandanum, sem orsakaði útleiðslu.

Ég varð því að sjóða mér tevatn í skaftpotti á eldavélinni og síðan tók við talsverð vinna við að þurrka örbylgjuofninn, sem m.a. fólst í því að skrúfa af honum ytra byrðið og blása í hann heitu lofti.

Þegar ég fékk mér svo síðdegis-tesopann prófaði ég ofninn aftur og þá var allt eðlilegt. Einhvern tíma las ég einhvers staðar að koma mætti í veg fyrir slíkar sprengingar með því að setja lítinn hraunmola í bollann meðan vatnið er hitað, þá verði súrefnisflæði í vatninu reglulegra eða eitthvað svoleiðis.
Kannski ég fari og leiti mér að hraunmola til að koma í veg fyrir endurteknar tebollasprengingar.

   (30 af 32)  
2/12/10 17:01

Sannleikurinn

ekki nema furða að þú hafir trollað á einu innleggja minna fyrir stuttu - skelfing ertu bilaður maður!!
Sprengja kaffibolla í örbylgjuofni?
Je minn eini........það er eins gott að þjer sprengið eigi vor fallegu kaffikönnu sem var verið að koma með heim fyrir þrem dögum....

Herbjörn Hafralóns:
  • Fæðing hér: 15/8/03 18:28
  • Síðast á ferli: 13/7/21 13:54
  • Innlegg: 35350
Eðli:
Vammlaus miðaldra gáfumaður, sem ann sannleikanum í fréttum Baggalúts, er með stafsetningu á hreinu og hefur næmt skopskyn. Vinur Færeyinga.
Fræðasvið:
Ohmslögmál. Hópatferli rafeinda í torleiðurum.
Æviágrip:
Herbjörn fæddist í sjávarplássi við Faxaflóa um miðja öldina sem leið og telst því líklega með eldri gestum Baggalúts. Alinn á þverskorinni ýsu, kjötsúpu og fleira góðmeti og fékk lýsispillur í skóla. Var samt pasturslítill og horaður í æsku en hefur nú náð kjörþyngd. Tekur lýsi daglega. Sótti framhaldsskóla og stundaði ýmis störf á sumrin. Byrjaði frekar seint að drekka og telur sig hófdrykkjumann. Herbjörn vinnur tæknistörf í þágu hins opinbera en eftir að hann ánetjaðist Baggalúti hafa vinnuafköst stórminnkað. Hefur þó enn ekki fengið áminningu í starfi.