— GESTAPÓ —
Herbjörn Hafralóns
Heiðursgestur.
Pistlingur - 3/11/03
Firring jólanna

Fyrr í þessari viku sá ég aldrei slíku vant hluta af þættinum Ísland í bítið á stöð 2. Þar var verið að ræða við einhvern tölvuspeking, sem var að kynna ný kennsluforrit fyrir börn. Forrit þessi eiga víst að kenna ungum börnum að umgangast tölvur, skrifa tölvupóst og sitthvað fleira.

Með tölvuspekingnum var ung stúlka ca. 5-6 ára gömul, sem ég ætla að hafi verið dóttir hans. Þegar kynningunni var lokið vildi annar þáttarstjórnandinn, sem mér skilst að sé forstjórafrú (Inga Lind) ræða örlítið við telpuna.
Hún spurði telpuna hvað hana langaði mest að fá í jólagjöf en sú stutta var feimin og svaraði litlu. Forstjórafrúin svaraði því fyrir hana og sagði: "Nýja tölvu kannski?"
Mig rak í rogastans. Var frúnni alvara? Getur verið að einhverjir gefi 5 ára börnum tölvur í jólagjöf? Ég hef að vísu heyrt að fólk sé farið að gefa jólagjafir, sem að andvirði jafnist á við fermingargjafir. Mér er bara öllum lokið og kalla þetta firringu jólanna.

Ég held að við megum ekki gleyma hinum sanna jólaanda og verum minnug þess að það er hægt að gleðja aðra án þess að setja sjálfan sig í botnlausar Visa skuldir og raðgreiðslur.
Ég óska svo öllum Bagglýtingum gleðilegra jóla, farsæls nýs árs og þakka árið, sem er að líða.
Herbjörn biskup.

   (24 af 32)  
3/11/03 00:01

Galdrameistarinn

Það var nú talað við forstjóra ræsis í DV í gær og þar kom fram að útgerðarforstjóri hafði keypt 14 miljón króna bens sem hann var að gefa í jólagjöf. Kortið straujað einu sinni fyrir allri upphæðinni.

Hafið Gleðileg jól.

3/11/03 02:01

Hexia de Trix

Já það er nógu slæmt að ætlast til þess að maður gefi börnum, hvað þá á þessum aldri, tölvu í jólagjöf. En til að kóróna allt var það "ný tölva"! Þar með er ætlast til að krílið eigi þá þegar tölvu, sem væntanlega er þá orðin of gömul??? Þá mætti lesa úr þessu að barnið hafi kannski fengið fyrstu tölvuna sína í skírnargjöf??? Nei maður bara spyr sig sko...

Herbjörn Hafralóns:
  • Fæðing hér: 15/8/03 18:28
  • Síðast á ferli: 13/7/21 13:54
  • Innlegg: 35350
Eðli:
Vammlaus miðaldra gáfumaður, sem ann sannleikanum í fréttum Baggalúts, er með stafsetningu á hreinu og hefur næmt skopskyn. Vinur Færeyinga.
Fræðasvið:
Ohmslögmál. Hópatferli rafeinda í torleiðurum.
Æviágrip:
Herbjörn fæddist í sjávarplássi við Faxaflóa um miðja öldina sem leið og telst því líklega með eldri gestum Baggalúts. Alinn á þverskorinni ýsu, kjötsúpu og fleira góðmeti og fékk lýsispillur í skóla. Var samt pasturslítill og horaður í æsku en hefur nú náð kjörþyngd. Tekur lýsi daglega. Sótti framhaldsskóla og stundaði ýmis störf á sumrin. Byrjaði frekar seint að drekka og telur sig hófdrykkjumann. Herbjörn vinnur tæknistörf í þágu hins opinbera en eftir að hann ánetjaðist Baggalúti hafa vinnuafköst stórminnkað. Hefur þó enn ekki fengið áminningu í starfi.