— GESTAPÓ —
Í uppáhaldi:
Félagsrit:
Tina St.Sebastian
Heiðursgestur.
Pistlingur - 2/11/06
Af siðferði

Nú hafa ýmsir [ræskir sig] býsnast yfir því að orðalagi grunnskólalaga skuli breytt. Kristilegt siðgæði sé hið eina sem við getum nýtt enda "hefð" (40 ára gömul) fyrir því.<br /> En...

Biblían segir:

Ekki drepa.

Ekki ljúga.

Ekki stela.

Ekki herma eftir hinum ef þeir eru að gera eitthvað slæmt.

Vertu góður við ókunnuga, ekkjur, fátæka og föðurlaus börn.

Skildu eftir vínber á viðnum (og korn í hornum akra) handa ferðamönnum og fátækum.

Dómarar og aðrir valdsmenn eiga að vera hlutlausir og ekki þiggja mútur.

Ekki senda sloppna þræla aftur til "eigenda" heldur leyfið þeim að búa með ykkur í frelsi og friði.

Heiðraðu foreldra þína.

Viska er betri en ríkidæmi.

Vertu góður við dýr.

Glatt hjarta er jafn gott og lyf.

Vertu góður við óvini þína.

Gefðu deyjandi mönnum sjúss og niðurdregnum vín svo þeir gleymi sorgum sínum.

Ekkert er manninum betra en að eta, drekka og vera glaður.

Gerðu það vel sem þú gerir.

Borgaðu starfsfólki sanngjörn laun.

Þarna er margt gott að finna inn á milli. Reyndar er slatti í mótsögn við önnur vers...en það er víst sama hvaðan gott kemur (eða þannig), ekki satt?

Kóraninn segir:

Ef þú trúir því, sannaðu það.

Eyddu fé þínu í að hjálpa þurfandi, foreldrum þínum og munaðarleysingjum.

Ekki fela sannleikann viljandi.

Frelsaðu þræla.

Ekki okra.

Ekki rífast um eitthvað sem þú hefur ekkert vit á.

Vertu sanngjarn við ríka jafnt sem fátæka, jafnvel þó það komi þér illa.

Ekki drepa menn eða dýr að nauðsynjalausu.

Ekki svindla eða ljúga.

Greiddu fátækraskatt.

Fyrirgefðu öðrum.

Ekki svara vinsemd með óvinsemd.

Ekki fylgja því sem þú þekkir ekki.

Karlar og konur skulu hjálpa hvert öðru.

Liðfu í friði við hina vantrúuðu.

Ágiskun kemur aldrei í stað sannleikans.

Hér, sem og í Biblíunni eru mótsagnakennd vers inn á milli.

Hávamál segja:

Vertu gestrisinn.

Viska er traustur vinur.

Kynntu þér aðstæður áður en þú ferð að tala.

Viska er betri en ríkidæmi.

Ekki drekka of mikið.

Vertu glaður allt til dauðadags.

Enginn dæmir þig fyrir að fara snemma að sofa.

Ekki blaðra að óþörfu.

Það er heimskulegt að liggja andvaka yfir vandamálum, þau verða enn til staðar um morguninn.

Ekki allir sem brosa til þín eru vinir þínir.

Ekki vera þaulsætinn gestur, annars fá allir leið á þér.

Ekki vera nískur á fé.

Gefðu gjafir sem þér þykir vænt um.

Vertu vinur vina þinna.

Maður er manns gaman.

Gjafmildir og hraustir lifa bestu lífi.

Ekki vera latur.

Ekki skammast þín fyrir að eiga lítið.

Þú ert ekki gagnslaus þó þú sért ekki fullhraustur.

Láttu verkin tala.

Textar Búddista segja:

Ekki skaða neitt lifandi.

Ekki stela.

Forðastu óábyrga kynhegðan.

Forðastu áfengi og annað sem hefur áhrif á skynjun þína.

Ekki ljúga eða segja eitthvað særandi.

Vertu örlátur.

Vertu staðfastur.

Vertu góður og gestrisinn.



Konfúsíus segir:

Vertu réttlátur.

Elskaðu aðra.

Ekki vera gráðugur.

Vertu kurteis.

Heiðraðu foreldra þína.

Vertu staðfastur.

Komdu fram við aðra eins og þú vilt láta koma fram við þig.

Ef maður misnotar vald sitt eiga undirmenn að rísa upp gegn honum.

Rit Hindúa segja:

Vertu góður.

Ekki skaða nokkra lifandi veru.

Vertu heiðarlegur.

Sýndu samúð.

Vertu þolinmóður.

Ekki vera gráðugur.

Ekki vera stoltur.

Ekki vera abbó.

Satanistabiblían segir:

Heimska er höfuðsynd.

Ekki skaða lítil börn.

Ekki taka það sem ekki tilheyrir þér nema það íþyngi þeim sem á það.

Ekki drepa dýr nema þér sé ógnað eða til matar.

Sýndu öðrum virðingu ef þú ert á þeirra yfirráðasvæði.

Ekki kvarta yfir hlutum sem þú hefur stjórn á.

Ekki áreita fólk á opnu svæði. Ef einhver áreitir þig, biddu hann um að hætta. Ef hann hættir ekki, rústaðu honum.

Ekki þykjast vera eitthvað sem þú ert ekki.

Ekki blekkja sjálfan þig.

Ekki fylgja hópnum í hugsunarleysi.

Ekki leyfa stolti að skaða hagsmuni þína.



Almenn skynsemi segir:

Vertu góður við aðra.

Ekki taka meira en þú þarft.

Vertu sérlega góður við minnimáttar.

Hugsaðu sjálfstætt.

Reyndu að gera líf þitt og annarra betra.

Virtu aðra.

Annars er það bara pick'n'mix eftir hentugleikum.

Ó...og gleðileg jól.

   (5 af 43)  
2/11/06 18:00

Andþór

Kærkomið og áhugavert. Takk fyrir.

2/11/06 18:00

Tígri

Mjög flott og gott, en til hvers?

2/11/06 18:00

krossgata

Aldeilis ljómandi samantekt. Skiptir máli hvort við köllum snjó fönn eða mjöll?

Og já... gleðileg jól sjálf.

2/11/06 18:01

Tigra

Þetta er allt sama súpan.
Skilaboðin eru allavega nógu skýr, verum góð hvert við annað.

2/11/06 18:01

Jarmi

Glæsilegt alveg hreint. Góð samantekt.

En "almenn skynsemi" er alls ekki jafn almenn og skynsamt fólk gæti ætlað.
Fólk er fífl upp til hópa og ég myndi aldrei treysta manneskju sem ólst upp án þess að nokkurn tíman einhver hefði sagt við hana "vertu góður við aðra".

Nema ég auðvitað. Ég fæddist góður.

2/11/06 18:01

Regína

Þetta er vel og læsilega upp sett.
En Jarmi: Aldrei hefur neinn sagt við mig: ,,Vertu góður við aðra".
Örugglega hefur enginn heldur sagt þetta við Tinu eða krossgötu.

Svo okkur er verr treystandi... kannski ástæðan fyrir launamisréttinu fundin...

2/11/06 18:01

Jarmi

Ykkur er treystandi til að snúa útúr, allavegana sumum ykkar.

2/11/06 18:01

PabbiBakkus

Ekki kvarta yfir hlutum sem þú hefur stjórn á.

Gæti verið að það eigi að vera "ekki" einnig seinna í setningunni?

2/11/06 18:01

Jarmi

Það held ég ekki.

Þú átt ekki að nöldra yfir því sem þú getur stýrt, þú átt aftur á móti að gera eitthvað í því.

2/11/06 18:01

Vladimir Fuckov

Skilaboðin í þessu eru skýr eins og Tigra bendir á í 4. efsta svari.

En ætli sjeu nokkuð til trúarbrögð sem boða eitthvað allt annað en þetta ? (Fyrir utan þá undantekningu að algengt er að trúarbrögð boði að villutrúarmenn eigi ekkert gott skilið)

2/11/06 18:01

feministi

Er virkilega hvergi minnst á flata jörð? Annars gott rit.

2/11/06 18:01

Sundlaugur Vatne

[Lítur yfir listann]
Eru engin trúarbrögð sem segja að það megi drýgja hór og sparka í hunda?

2/11/06 18:02

Tina St.Sebastian

Prófaðu Vatneisma. Skammlíf en falleg trúarbrögð, vinsæl í afskekktu sjávarþorpi á Vestfjörðum um skamma hríð. Mjög skamma. 10 mínútur eða svo.

Það má ekki sparka í ketti. Áhangendur eru hinsvegar hvattir til heiðurssjálfsvíga með Tígris-aðferð, til dýrðar hinum almáttuga...öh..Kúblæ Kan.

2/11/06 18:02

Huxi

Siðvæðing stríðir gegn lögmálum náttúrunnar um að þeir hæfustu skulu lifa af. Því stendur siðmenningin í vegi fyrir þróuninni og og er að mörgu leiti til óþurftar. En vegna sameiginlegra hagsmuna hefur mannkynið komið sér saman um að það borgi sig ekki að vera vond hvert við annað. Það er nefnilega aldrei að vita hvenær kúgarinn verður sá kúgaði. Þeir sem taka sénsinn á því að kúga aðra í krafti einhverslags yfirburða eru því kallaðir vondir. Til að koma síðan einhverju skikki á siðfræðina var það talið best að sega að einhver æðri máttarvöld hefðu fyrirskipað hvernig hentugast væri að hegða sér.

2/11/06 18:02

Tina St.Sebastian

feministi; tilvísanir í flata jörð má finna víðsvegar í Biflíunni. M.a. er minnst á tré sem var svo stórt að það sást um alla jörð. Sem þýðir að annað hvort var jörðin flöt eða flókið speglakerfi var sett upp.

Eða þetta er líking.

[Yppir öxlum]

2/11/06 18:02

Texi Everto

Ásatrú: ef þú ætlar að myrða einhvern - gerðu það að nóttu til, farðu hljóðlega og láttu ekki rekja sporin þín!

Klassískur sannleikur

2/11/06 18:02

Amma-Kúreki

Leiðinleg þessi Hávamál
Skál !
og sérstaklega 5 píning

2/11/06 18:02

Kondensatorinn

Skemmtilegt og fræðandi félagsrit.
Glæsilega skrifað.

2/11/06 19:00

Jóakim Aðalönd

Gaman væri að vita hvar í siðaboðskapsritum ásatrúarmanna þetta stendur Texi...

Hávamál eru svolítið torf, en alls ekki leiðinleg. Nema þetta með drykkjuna, það er bull.

Gleðileg jól.

2/11/06 19:00

Jóakim Aðalönd

Já, góð og fróðleg samantekt hjá þér Tina.

2/11/06 20:02

gregory maggots

Glæsilegt! Ég segi ekki annað.

Nema ef vera skyldi: Gleðileg jól, Tina.

2/11/06 20:02

Nermal

Þessi blessuðu trúarbrögð eru í grunninn það sama. Verum nú öll góð við alla. Gleðileg jól allir.

2/11/06 22:01

Reynir

Tina er vöknuð til lífsins og þar með byrjar enn eitt gáfnaljósið á að gaspra. Tina er með frekar illa loftræst höfuð og veik fyrir leðurbrakandi rúllupylsum úr Fellunum. Hennar Idol hanga undir ljósastaur, reykjandi filterslausan kamel við hlið hommalegra hjóla.

2/11/06 22:02

Tina St.Sebastian

Filterslaus Camel er vibbi, og rúllupylsur sömuleiðis. Að öðru leyti er þetta rétt - höfuðið á mér er illa loftræst, þar sem ég er ekki með loft á milli eyrnanna- og James Dean, eitt af mínum aðal ædolum úr æsku hékk einmitt mikið undir ljósastaurum við hlið leðurhommalegra hjóla.

Tina St.Sebastian:
  • Fæðing hér: 12/1/05 17:54
  • Síðast á ferli: 18/12/16 21:15
  • Innlegg: 7042
Eðli:
Slettir ensku miskunnarlaust, sem og dönsku, latínu, hindí og heimatilbúnum tungumálum. Mun aldrei framar setjast á hækjur sér, af siðferðilegum orsökum. Vill láta banna krumpuð leðurstígvél.
Fræðasvið:
Rit Davíðs Þórs Jónssonar. Breskir uppistandarar. Eldamennska. Málvillur í útvarpi. Sósíalkommúnismi í Íslenskum framhaldsskólum, einkum í úthverfum Reykjavíkur.
Æviágrip:
Fæddist í útihúsi í Betlehem í Virginíufylki Bandaríkjanna um miðbik síðari heimsstyrjaldar. Dóttir hjónanna Victoriu Mooseport (húsmóður) og Don Corleone (heiðvirðs kaupsýslumanns). Strauk að heiman um sjö ára aldur til að ganga í herinn, en var hafnað sökum kynferðislegrar brenglunar. Tók þá upp nafnið Tina St.Sebastian, og tókst með klókindum, undirförli og lauslæti að komast í Frímúrararegluna, Lionsklúbbinn Rex og Kvenfélag Strandasýslu. Lítið er vitað um ferðir hennar síðustu áratugi. Síðast var hún með fasta búsetu skráða Í Dallas, Texas, en flutti þaðan snögglega í nóvember 1963. Vitað er að hún heimsótti New York borg árið 1980, að sögn talsmanns til að "heimsækja fyrrverandi Bítil," en engar nánari upplýsingar hafa fengist um þá heimsókn. Vitni þykjast hafa séð hana við opnun Þjóðminjasafnsins, en þær sögur eru -enn sem komið er- óstaðfestar.

--

Vígð prestur frá Universal Life Church í nóvember 2006