— GESTAPÓ —
Í uppáhaldi:
Félagsrit:
Tina St.Sebastian
Heiðursgestur.
Gagnrýni - 5/12/06
Treystir þú löggunni?

Neyðarlínan fær núll. Löggan fær núll. Náúnginn fær 4.

Margir þekkja ljótar sögur af lögreglunni. Ég er engin undantekning, en þar til um síðustu helgi hafði ég aldrei lent í neinu alvarlegra en smávægilegri líkamsárás. Sú saga er löng og leiðinleg...en ég ætla samt að segja hana!

Á "menningar"-"nótt" fyrir nokkrum árum var ég á vappi um bæinn ásamt nokkrum vinkonum mínum. Fyrir okkur varð hópur unglingsstúlkna sem sökuðu mig um (ekki spyrja) að hafa "gelt á eftir þeim um daginn" og ætluðu að lemja mig með röri sem þær höfðu í fórum sínum. Vinkona mín gekk á milli, en ég hljóp að lögreglubílnum sem stóð á Lækjartorgi. Þar gubbaði ég út úr mér helstu málavöxtum, en svo vildi til að kunningi minn stóð við bílinn. Um leið og ég nefndi nafn vinkonu minnar, rauk hann af stað til að verja hana. Lögreglumennirnir voru aftur á móti ekkert að flýta sér, heldur þurfti ég að endurtaka alla söguna. Þeir rúlluðu loks af stað þessa tuttugu metra fyrir hornið. Þá var vinkona mín þegar meidd, en strákaulinn sem stóð á milli heldur verr farinn, með glæsilegt glóðarauga, en sem betur fer engin alvarleg meiðsli.

Við þetta atvik spunnust miklar umræður okkar í milli um meinta hjálpsemi lögreglunnar. Rifjaði vinkona mín þá upp sögu sem ég hef síðan fengið staðfesta hjá "fórnarlambinu".

Þegar þessi vinkona mín var fimmtán ára eða svo var hún stödd niðri í bæ ásamt kunningja okkar. Hann er mikill rokkari, með sítt hár, skegg og er yfirleitt klæddur svörtum leðurfrakka. Einhverjir piltar voru ekki sáttir við þetta lúkk, og ákváðu því að gefa honum makeover með hnefum. Þegar hann staulaðist frá þeim að lögreglubílnum (hér erum við að tala um nánast sömu vegalengd og í fyrri sögunni, þar sem þessi árás átti sér einnig stað í Austurstræti og bíllinn stóð sem fyrr á Lækjartorgi) og sagði þeim hvað hefði gerst, og benti auk þess að piltunum, sem stóðu pollrólegir hinum megin við hornið fékk hann skjót viðbrögð. Löggimann sagðist -um leið- ekkert geta gert, því vinur minn væri ekki með áverkavottorð! Vinur minn ítrekaði að þetta hefði gerst fyrir nokkrum mínútum, árásarmennirnir væru enn á sínum stað og þeir gætu greinilega séð áverkana. "Nei, ekkert hægt að gera nema þú komir með áverkavottorð." Þarna hefðu sumir gefist upp, en kunningi minn tók þess í stað leigubíl beint upp á slysó og fékk vottorðið, rölti sig inn á lögreglustöð daginn eftir og kærði. Sagan endar hins vegar ekki þar. Sex mánuðum seinna fær vinkona mín upphringingu frá lögreglunni. Hún er spurð hvort hún hafi orðið vitni að árás, hún játar því og fær á móti þessa æðislegu setningu: Geturðu lýst þeim? Hún verður hálf hvumsa, bendir þeim á tímann sem er liðinn, viðbrögð lögreglunnar þetta kvöld og á móti kemur: Varstu ölvuð? Þar lýkur sögunni eftir því sem ég best veit.

Annar kunningi minn fékk heimsókn frá kollega sínum um daginn. Sá síðarnefndi hótaði kunningja mínum (köllum hann bara A) lífláti og barsmíðum ef hann pakkaði ekki öllu sínu saman og hypjaði sig af landi brott. Ástæðan var sú að þriðji aðilinn hafði borið í kollegann sögur um hann sem A hafði sagt honum. Meginefni sagnanna var meint geðveila kollegans. Kolleginn ákvað að besta leiðin til að sanna geðheilsu sína væri að hóta A. Skemmtileg lógík það. Hættu að segja að ég sé geðveikur, annars drep ég þig. A hringdi í lögregluna um leið og kolleginn var farinn, en eitthvað tóku þeir víst fálega í þetta. Skömmu síðar ákvað hann að hringja og athuga hvort þetta hefði verið skráð. Hann hringdi í sama númer (það er þriggja stafa og byrjar á 112) en þá brá svo við að enginn svaraði. Já, þið lásuð rétt; það hringdi út hjá 112! Hann gafst ekki upp, en hringdi aftur, og var þá svarað. Honum var gefið samband við lögreglustöðina...en þar var ekki svarað! Finnst ykkur þið ekki vera örugg? Hvað ef kolleginn hefði verið kominn til að standa við hótanirnar, og neyðarlínan ekki tiltæk?

Loksins er komið að minni sögu. Hún er svo sem ekki merkileg, ég var ekki lamin og mér var ekki nauðgað. Ég fór sumsé á djammið, var búin að drekka nokkuð mikið og var farin að hugsa mér til hreyfings. Ég var að tala við strák, sagði honum að ég ætlaði heim, og hann sagðist sjálfur vera á leið heim. Ættum við ekki að splitta bíl? Ég tók undir það, enda ódýrara fyrir tvo að taka bíl en einn. Hann veiddi leigara og hann gaf honum upp sitt heimilisfang. Ég beið með að gefa upp mitt, því ég vildi ekki að strákurinn vissi það. Bílstjórinn ók að fyrri áfangastað í Þingholtunum, og þar byrjuðu vandræðin. Strákurinn reyndi að fá mig inn með sér. Leigubístjórinn neitaði að keyra mig lengra og sagði mér að "drullast út úr bílnum". Ég neitaði, sagðist ætla heim til mín, og þegar bílstjórinn fór að kalla mig öllum illum nöfnum bað ég hann um númer bílsins til að kvarta yfir honum. Þá færðist hann allur í aukana og sagði mér að "drulla mér út úr fokking bílnum" annars hlyti ég verra af. Þegar hér er komið við sögu var ég orðin hálfhrædd við þá báða, bílstjórann sem jós mig fúkyrðum og piltinn sem var farinn að taka undir með honum og reyna að draga mig með valdi út úr bílnum. Ég stökk hinum megin út úr bílnum og hljóp í burtu hágrátandi og í sjokki. Á hlaupunum hringdi ég í 112. Ekki tók betra við þar. Ég reyndi að stama upp úr mér málavöxtum inn á milli ekkasoganna, en aðilinn sem varð fyrir svörum sagði mér að "hringja þegar eitthvað gerðist í alvörunni". Síðan skellti hann á. Ég ráfaði aftur niður í miðbæ, og var svo heppin að rekast á kunningjakonu mína sem gat reddað mér fari heim, og hélt utan um mig á leiðinni.

Þegar ég segi þessar sögur býst ég alltaf - svona innst inni - við því að fólk trúi mér ekki. Annað hefur komið á daginn. Flestir virðast þekkja sögur af afskiptaleysi lögreglunnar, og jafnvel verri sögur en þessar. Sögur þar sem það gerir illt verra að tala við lögregluna. Þessi tvö síðastnefndu atvik eru þó líklega þau fyrstu sem ég heyri af afskiptaleysi Neyðarlínunnar.

   (9 af 43)  
5/12/06 01:01

Billi bilaði

[Trúir]

5/12/06 01:01

albin

[Treystir ekki]

5/12/06 01:01

albin

Ég trúi þér alveg Tina. Löggan er svifasein og alls ekki til þess gerð að hjálpa borgurum í neyð. Hún starfar þegar hún fær skipun um það ,,að ofan" þegar slys verða og annars helst ekki. Mín reynsla alla vega. Og vonandi verður þér ekki nauðgað elsku dúllan mín, þá munt þú víst fyrst verða fyrir niðurlægingu af hálfu lögreglunnar. Ekki það að ég hafi lent í því sjálf en þetta skilst mér.

5/12/06 01:01

Carrie

Gott að lesa að ekki fór verr þessa nótt í Þingholtunum.

Ég hef enga reynslu af starfi lögreglunnar fyrir utan hefðbundið umferðareftirlit. Lögreglan er samt sú starfstétt sem ég ber hvað mesta virðingu fyrir. Starfið sem hún vinnur er ótrúlegt og ég held að almenningur geri sér ekki fyllilega grein fyrir í hverju starfið felst.

5/12/06 01:01

Jóakim Aðalönd

Ég hef litla sem enga reynzlu af lögreglunni, en þeir hljóta að vera misjafnir eins og aðrar stéttir.

Ég trúi þér samt alveg Tina.

5/12/06 01:01

Jarmi

Ég hef mikla reynslu af löggunni. Hef oft verið settur í járn. Þá hef ég einnig oftar en einu sinni og oftar en tíu sinnum hringt í 112 eftir hjálp, bæði fyrir mig og aðra. Ábyggilega svipað oft beint í lögregluna.
Ég hef verið snúinn harkalega niður og settur svo fast í járnin að marblettir hlutust af til nokkura daga. Mér hefur verið hrúgað inní lögreglubíla í öllum mögulegum og ómögulegum stellingum og það oftast harkalega. Ég hef fengið að heyra að ég skuli sko "halda kjafti rétt á meðan fólk sé að tala" og þaðan af verra (sem er ekki endilega gott að hafa eftir hér).

En þrátt fyrir allt þá ber ég fullt traust til lögreglunnar. Mér finnst þessir kallar vera að vinna vinnuna sína betur en flest allir sem ég þekki myndu gera. Mér finnst þeir leggja sig í umtalsverða hættu líkamlega OG andlega. Þeir takast á við miklar hörmungar á hverjum degi og þeir þurfa að smíða utan um sig gallharða skel ef þeir ætla að endast eitthvað í þessu.

Og ef ekki þeir, hver þá?

Jarmi er sáttur við lögguna í heild sinni. Þó svo að það séu rotin epli í þeirri tunnu eins og öllum öðrum.

5/12/06 01:01

Billi bilaði

Amen! [Bætir í glasið hjá Jarma]

5/12/06 01:01

Blástakkur

Þegar að kemur að hlutum sem ekki hafa að gera með umferðina þá held ég að íslenska löggan sé dálítið eins og fiskur á þurru landi. Maður hefur heyrt allt of margar sögur af klúðri þegar kemur að einhverju sem ekki hefur að gera með bíla. Tölvur eru gott dæmi hér.
Það versta er að maður hefur oft sjálfur séð vissan valdhroka hjá einstaka lögreglumönnum. Slíkt vekur náttúrulega upp óþarfa andúð.

5/12/06 01:01

Texi Everto

Það er öllum fyrir bestu að hlýða skerfaranum. <Gengur um ritið svo klingir í sporunum>

5/12/06 01:02

krossgata

Það eru örugglega fólk innan raða lögreglunnar sem ætti ekki að vera þar og svo aðrir, líklega meiri hlutinn sem eru ágætlega starfi sínu vaxnir. Ég svo sem ekkert nema gott af lögreglunni að segja. Hins vegar verður maður oft vitni að því að framkoma við unglinga og ungt fólk er oft á tíðum þannig að það er hunsað og skellt skollaeyrum við. Ég held að lögreglumenn séu ekkert betri hvað það varðar en aðrir í þjóðfélaginu.

5/12/06 02:01

Nornin

Ég ætla ekki einu sinni að byrja á að lýsa viðskiptum mínum og vinkvenna minna við lögregluna.
Eitt get ég sagt þó með góðri samvisku:
Dæmi Tinu eru ekki ofaukin.

5/12/06 02:01

Nermal

Já, löggann er ekki alltaf að standa sig. Ég varð t.d eitt sinn vitni að líkamsárás. Svo var ég kallaður í skýrslutöku löööööngu seinna. Hélt að það væri best að taka skýrsluna daginn eftir.....

5/12/06 03:01

Vímus

Ætli ég hafi ekki flokkast undir svokallaða góðkunningja lögreglunnar hér áður fyrr og fékk oft að kenna harkalega á því. Stundum sanngjarnt og stundum ósanngjarnt. Ég hef oft heyrt lögguna kvarta undan því hve fámennir þeir eru og ég held að það sé rétt hjá þeim því það tekur oft ótrúlega langan tíma fyrir þá að mæta á staðinn frá því að hringt er og stundum koma þeir einfaldlega ekki.

5/12/06 04:00

Rasspabbi

Hef svo sem ekkert upp á lögguna að klaga. Hefur reynst mér alveg ágætlega þegar leiðir okkar hafa legið saman.

5/12/06 05:01

Dula

Ja , ég held það fari svoítið eftir efnum og aðstæðum, ef þú ert ekki í lífshættu þá eru þeir kannski ekkert að drífa sig alltof mikið, það koma mörg símtöl a dag þar sem sjálfsmorð og alvarleg slys eiga í hlut og þar liggur forgangurinn. Týnd börn og unglingar eru líka oft mjög oft inní myndinni. Eitthvað sem bara lögreglan getur aðstoðað við. Það vill svo til aðé g þekki aðeins til þeirra af eigin raun og þeir eru að gera góða hluti hvað mér viðkemur og hafa alltaf komið mér til aðstoðar ef ég hef lent í einhverju rugli niðrí bæ, þá hefur það verið alveg sama hvað lítið og ómerkilegt. Einu sinni var ég með einni vinkonu í bænum og það voru nokkrir unglingsstrákar að sníkja sígarettu af manni sem kom gangandi í rólegheitum , hann var ekki fullur eða neitt. Maðurinn stakk uppá því a' þeir fengju sér löglegan aldur til að reykja , Unglingarnir sem voru frá 13 ára og uppí 16 ára tóku upp hnúajárn og felltu manninn og voru að fara að berja úr honum allar tennurnar þegar ég hljóp af stað og vinkona mín á hælunum á mér. Við náðum að reisa manninn upp og ég öskraði á strákana að þeir ættu að fara heim og leggja sig og eitthvað annað sem átti að teljast móðgun . Þeir ógnuðu okkur með hnúajárnunum og einhverju röri. En það vildi svo til að löggan var þarna rétt hjá og við hlupm að þeim og strákarnir á eftir okkur. Löggan var ekki sein að sjá í hvaða aðstæðum við vorum í og tók á rás á móti þeim . Þannig var okkur bjargað frá vitleysingunum það kvöldið.

Tina St.Sebastian:
  • Fæðing hér: 12/1/05 17:54
  • Síðast á ferli: 18/12/16 21:15
  • Innlegg: 7042
Eðli:
Slettir ensku miskunnarlaust, sem og dönsku, latínu, hindí og heimatilbúnum tungumálum. Mun aldrei framar setjast á hækjur sér, af siðferðilegum orsökum. Vill láta banna krumpuð leðurstígvél.
Fræðasvið:
Rit Davíðs Þórs Jónssonar. Breskir uppistandarar. Eldamennska. Málvillur í útvarpi. Sósíalkommúnismi í Íslenskum framhaldsskólum, einkum í úthverfum Reykjavíkur.
Æviágrip:
Fæddist í útihúsi í Betlehem í Virginíufylki Bandaríkjanna um miðbik síðari heimsstyrjaldar. Dóttir hjónanna Victoriu Mooseport (húsmóður) og Don Corleone (heiðvirðs kaupsýslumanns). Strauk að heiman um sjö ára aldur til að ganga í herinn, en var hafnað sökum kynferðislegrar brenglunar. Tók þá upp nafnið Tina St.Sebastian, og tókst með klókindum, undirförli og lauslæti að komast í Frímúrararegluna, Lionsklúbbinn Rex og Kvenfélag Strandasýslu. Lítið er vitað um ferðir hennar síðustu áratugi. Síðast var hún með fasta búsetu skráða Í Dallas, Texas, en flutti þaðan snögglega í nóvember 1963. Vitað er að hún heimsótti New York borg árið 1980, að sögn talsmanns til að "heimsækja fyrrverandi Bítil," en engar nánari upplýsingar hafa fengist um þá heimsókn. Vitni þykjast hafa séð hana við opnun Þjóðminjasafnsins, en þær sögur eru -enn sem komið er- óstaðfestar.

--

Vígð prestur frá Universal Life Church í nóvember 2006