— GESTAPÓ —
Í uppáhaldi:
Félagsrit:
Tina St.Sebastian
Heiðursgestur.
Dagbók - 4/12/06
Gámaköfun

Í nótt rölti ég um hverfið og skoðaði í ruslagáma. Hér er það sem ég fann.

14 epli
1 1/2 agúrka
1 poki lífrænt ræktaðar gulrætur
1 bakki græn vínber
5 perur
2 pakkar flatkökur með fjallagrösum
4 pokar af blönduðu salati
1 stór gul melóna
1 mandarína
1 mangó
10 tómatar
1 stór pakki af þvottadufti (ekki á mynd)
---

Er þetta virkilega eðlilegt? Langstærstur hluti matarins var í góðu lagi, utan hálf gúrka sem hafði kramist í gámnum, og nokkur epli, en í þeim voru blettaskemmdir sem auðvelt er að skera úr.
Í vínberjabakkanum voru tvö ólystug vínber, en í stað þess að taka þau úr og selja restina er öllum bakkanum hent. Í gulrótapokanum var ein gulrót sem leit illa út. Nánar tiltekið var annar endi hennar skemmdur.
Flatkökurnar eru á síðasta söludegi (23.04.07). Salatið rennur út á morgun (24.04.07).

Í frystinum hjá okkur eru nokkrir pakkar af flatkökum og þrír eða fjórir pokar af kleinum. Í grænmetisskúffunni eru þrjár stórar púrrur. Kvöldmaturinn í fyrradag samanstóð af kjúklingi í karrísósu og fersku salati úr tómötum, agúrku, káli og púrru. Allt þetta, utan kjúklingurinn, kom úr gámum. Með þessu drukkum við núllkók og spræt.

Þetta er allt fínasti matur. Ástæðurnar fyrir því að honum var hent eru sjálfsagt mismunandi. Miðarnir á gosflöskunum voru rifnir. Grænmetið var orðið "slappt". Púrran var ljót að utan. Flatkökurnar voru við það að renna út. Kleinurnar voru...tja...ætli plássið hafi ekki bara verið búið? Karrísósan var mjög góð, krukkan heil, og lokið ekki "poppað".

Óhugnanlega miklu magni af mat er hent á hverjum einasta degi, að maður minnist nú ekki á föt og aðrar vörur. Hér er ég ekki að tala um heimilissorp, heldur "sorp" frá fyrirtækjum.

Þegar ég minnist á þessar "veiðiferðir" mínar, uppsker ég viðbrögð sem ná yfir allan skalann, frá undrun til viðbjóðs til reiði. Yfirleitt beinist reiðin gegn verslununum en ekki mér, en viðbjóðurinn tengist einkum ímynduðum ástæðum þess að matnum var hent til að byrja með. Margir virðast nefnilega halda að þessu sé ekki hent nema ærin ástæða sé til, en ég tel mig hafa sýnt fram á að slíkt er lagt frá hinu rétta. Oft er engin góð ástæða fyrir svona eyðslu og ábyrgðarleysi.

Fyrir þá sem hafa meiri áhuga á þessu vil ég benda á þessa ágætu ritgerð.

   (10 af 43)  
4/12/06 23:00

hvurslags

Og allt svona hollur matur líka! Það er greinilegt að dumpster diving er líka gott fyrir línurnar...

Verst að hérna úti eru milljónir fólks sem lifa á þessu þannig að lítið er eftir fyrir tággrannan útlending eins og mig...

4/12/06 23:00

Tina St.Sebastian

Já, grænmeti virðist vera það fyrsta sem fær að fjúka þegar tekið er til. Tja, grænmeti, kleinur og flatkökur...

4/12/06 23:00

Jóakim Aðalönd

Þetta líst mér vel á. Þetta er sumsé allt ókeypis!

4/12/06 23:01

krossgata

Þetta lítur ágætlega út þarna á myndinni.

4/12/06 23:01

B. Ewing

[Opnar Sparnaðarráðaskóla og rukkar 25.000kr á haus. Byggir skólann á Tinufræðum]
Kapítalismi!

4/12/06 23:01

Nermal

Spurning um að skella sér í þetta. Verst að ég er ekki mikið fyrir grænmeti.

4/12/06 23:01

Hakuchi

Þetta er akkúrat sem maður þarfnast eftir slítandi vinnudag.

4/12/06 23:01

Offari

Hvar er þessi gámur. Ég kann vel við þennan verslunarmáta.

4/12/06 23:02

Jarmi

Þetta er ólöglegt. Ég sendi lögguna á þig!

4/12/06 23:02

Blástakkur

Matur er matur. Fólk hugsar of mikið um mat. Fólk á að hugsa meira um heimspeki og geimflug.

4/12/06 23:02

albin

Er það þitt mat?

5/12/06 00:01

Vímus

Mér var eitt sinn boðið upp á fína nautasteik í húsi vestur í bæ. Eftir að ég hafði þakkað fyrir góða máltíð var mér sagt að steikin væri úr ruslagámi JL hússins. Þrátt fyrir það, fór hún bara vel í mig.

5/12/06 01:01

kolfinnur Kvaran

Ertu galin?

5/12/06 05:01

Morðhaus

hey, ég vinn í verslun og þegar við hendum mat á síðasta söludegi sem er allt í lagi með þá fáum við öll samviskubit að henda þessu fíneríi, en oftast er það sent aftur til fyrirtækisins. eitt dæmi um að við neytum matar á síðasta söludegi er að við eigum fresca sem er orðið mánaðagamalt, það er allt í lagi með það.

5/12/06 05:01

Morðhaus

það er jafnvel ennþá gos í því

Tina St.Sebastian:
  • Fæðing hér: 12/1/05 17:54
  • Síðast á ferli: 18/12/16 21:15
  • Innlegg: 7042
Eðli:
Slettir ensku miskunnarlaust, sem og dönsku, latínu, hindí og heimatilbúnum tungumálum. Mun aldrei framar setjast á hækjur sér, af siðferðilegum orsökum. Vill láta banna krumpuð leðurstígvél.
Fræðasvið:
Rit Davíðs Þórs Jónssonar. Breskir uppistandarar. Eldamennska. Málvillur í útvarpi. Sósíalkommúnismi í Íslenskum framhaldsskólum, einkum í úthverfum Reykjavíkur.
Æviágrip:
Fæddist í útihúsi í Betlehem í Virginíufylki Bandaríkjanna um miðbik síðari heimsstyrjaldar. Dóttir hjónanna Victoriu Mooseport (húsmóður) og Don Corleone (heiðvirðs kaupsýslumanns). Strauk að heiman um sjö ára aldur til að ganga í herinn, en var hafnað sökum kynferðislegrar brenglunar. Tók þá upp nafnið Tina St.Sebastian, og tókst með klókindum, undirförli og lauslæti að komast í Frímúrararegluna, Lionsklúbbinn Rex og Kvenfélag Strandasýslu. Lítið er vitað um ferðir hennar síðustu áratugi. Síðast var hún með fasta búsetu skráða Í Dallas, Texas, en flutti þaðan snögglega í nóvember 1963. Vitað er að hún heimsótti New York borg árið 1980, að sögn talsmanns til að "heimsækja fyrrverandi Bítil," en engar nánari upplýsingar hafa fengist um þá heimsókn. Vitni þykjast hafa séð hana við opnun Þjóðminjasafnsins, en þær sögur eru -enn sem komið er- óstaðfestar.

--

Vígð prestur frá Universal Life Church í nóvember 2006