— GESTAPÓ —
Í uppáhaldi:
Félagsrit:
Tina St.Sebastian
Heiðursgestur.
Dagbók - 3/12/06
Skoðanafrelsi

Tjáningarfrelsið á að vernda allar skoðanir, ekki bara þær vinsælu.

Vitleysingur að nafni Ernst Zundel hefur haldið því fram undanfarna áratugi að helför nasista gegn gyðingum hafi aldrei átt sér stað, ellegar verið stórlega ýkt. Þetta er auðvitað kjaftæði, eins og hver heilvita maður hlýtur að sjá. Hinsvegar á auðvitað ekki að skipta máli hver skoðunin er, maðurinn hefur rétt til að tjá hana án þess að vera fangelsaður, en það er einmitt það sem skeði. Hann var handtekinn í Bandaríkjunum og framseldur til Kanada, hvar hann hafði búið í fjörutíu ár, og fékk að dúsa þar í fangelsi í tvö ár. Eftir það var hann framseldur til Þýskalands, en hann er þýskur ríkisborgari, og fimmtánda febrúar síðastliðinn var hann dæmdur til fimm ára fangelsisvistar fyrir að "æsa fjöldann gegn minnihlutahóp".

Því miður vill umræða um þennan mann breytast í umræðu um helförina, mistraustar sagnfræðilegar heimildir, og annað slíkt. Það kemur málinu bara ekkert við. Hvort sem hann hefur rétt eða rangt fyrir sér, verðum við að verja rétt manna til tjáningarfrelsis, sama hversu heimskulegar skoðanir þeirra kunna að vera.

Næstkomandi þriðjudag á milli 11:30 og 12:00 verður mótmælastaða fyrir framan þýska sendiráðið, og hvet ég alla sem láta sig tjáningarfrelsið einhverju varða til að mæta.

   (13 af 43)  
3/12/06 01:01

Upprifinn

Þú mátt ekki gleyma Tina mín að það eru lög og hafa lengi verið í Þýskalandi að þar er bannað að draga Helförina í efa.
Þetta er gert í virðingarskini við þá sem létust og ekkert sjálfsagðara að mínu mati.

3/12/06 01:01

Tina St.Sebastian

Í Þýskalandi, já. Eru þau líka í gildi í Kanada og Bandaríkjunum?
Nú þegar er fólk farið að hópast um mannfíflið og halda því fram að fangelsunin sé afleiðing "gyðingasamsæris". Er það virkilega til framdráttar baráttunni gegn fordómum?

3/12/06 01:02

Jóakim Aðalönd

,,Þú mátt ekki gleyma Tina mín að það eru lög og hafa lengi verið í Þýskalandi að þar er bannað að draga Helförina í efa.
Þetta er gert í virðingarskini við þá sem létust og ekkert sjálfsagðara að mínu mati."

Fyrirgefðu, en mér finnst það bara hreint ekkert sjálfsagt. Jafnvel þó að bera eigi virðingu fyrir þeim sem létust í helförinni, var það einmitt háttur Nazista að banna skoðanir og tjáningu á þeim. Það, að banna þessar skoðanir og tjáningu á þeim, er ekkert skárra en það sem Nazistarnir iðkuðu á sínum tíma.

Lög eru venjulega sett af einhverri ástæðu, en stundum gildir sú ástæða ekki lengur. Hér á Íslandi var lengi vel leyfilegt að drepa Tyrki hvar sem til þeirra sæist, en ástæðan var Tyrkjaránið 1627. Sú ástæða er löngu horfin og því voru lögin (eftir dúk og disk) afnumin. Ástæðan fyrir þessum lögum í Þýzkalandi var sú að tryggja að Nazistar næðu ekki fótfestu á ný eftir stríð. Sú ástæða er löngu horfin.

Það, að fangelsa mann fyrir skoðanir sínar, telzt brot á mannréttindasáttmála Evrópu og Þýzkaland er aðili að þeim sáttmála. Hann er yfir þýzk lög hafinn og því er þetta réttarfarslegur skandall í alla staði.

3/12/06 01:02

Hakuchi

Ég held nú að það sé leyfilegt að afneita helför í USA og Kanada. Spurningin er hvort hann hafi verið kærður fyrir einhvers konar hatursáróður gegn öðrum hópum. Ég held að flest vestræn ríki hafa slík lög undir sínu belti og hafa haft þau í gildi lengur en síðan helförin átti sér stað. Slík lög eiga rétt á sér.

Hins vegar er spurning hvernig stendur á því að það er verið að henda honum á milli ríkja og dæma fyrir sama glæp aftur og aftur. Það er asnalegt.

3/12/06 01:02

Jóakim Aðalönd

Það er alveg rétt að hatursáróður gegn öðrum hópum er ekki leyfilegur, ekki heldur í mannréttindasáttmálanum. Hins vegar, að draga eitthvað í efa telzt varla sem áróður gegn minnihlutahópi, er það?

3/12/06 01:02

krumpa

Í ljósi þess sem ég hef áður skrifað verð ég nú að vera hjartanlega sammála Tinu - burtséð frá bullinu sem frá mannaumingjanum kemur. Raunar er ég þó orðin dulítið þreytt á því hvað Ísraelsmenn komast upp með - að því er virðist í skjóli helfararinnar. Þá er ég ekki að tala um þá sem gyðinga enda má fólk trúa á stokka og steina mín vegna. Ég fagnaði þess vegna ákaflega þegar gyðingar tóku sig upp hérna um daginn og fordæmdu stjórnina - og höfnuðu því að í gagnrýni á stjórnina fælist gyðingahatur enda slíkt bara rugl! Ef manni leiðist Bush er maður þá að ofsækja kristna menn? Sem btw eru heldur ekki í meirihluta í heiminum! En þar sem mér er annt um frelsi mitt ætla ég ekki að segja meir...

3/12/06 01:02

Hakuchi

Ég var ekki að segja það. Ég var að velta fyrir mér hvort hann hefði verið dæmdur undir þeim lögum og þá um leið að velta fyrir mér hvort eitthvað fleira hafi komið frá honum en þessi eina afneitun því eins og þú skrifar er afneitun varla nóg til að kefla manninn niður fyrir hatursáróður.

3/12/06 01:02

Hakuchi

Ég held að bann gegn afneitun hatursglæpa og síðari tíma áróðursbragð ísraelsku ríkisstjórnarinnar um að reyna að spyrða saman andófi gegn stefnu Ísraelsstjórnar á svæðum Palestínumanna og gyðingahatri séu aðskilin viðfangsefni.

Þjóðverjar settu lög um bann gegn afneitun Helfarar, af augljósum ástæðum á sínum tíma. Austurríkismenn líka. Þetta snýst ekki bara um gyðingdóm lengur því svipaða þróun má merkja t.d. í banni á afneitun á fjöldamorðum Tyrkja á Armeníumönnum í ýmsum löndum (nú síðast Frakklandi). Þessi þróun er svo sem velviljuð en það er augljóst að hún stefnir út í öfgar.

3/12/06 01:02

Jóakim Aðalönd

Þú meinar að fundin hafi verið tilliástæða til að dæma manninn fyrir skoðanir sínar? Það er líklegasta skýringin. Ég er líka alveg sammála síðari innleggsbólunni.

3/12/06 01:02

Klobbi

Í Borgarnesi setja þeir remúlaðið undir pylsuna, ekki ofaná. Það telst glæpur gegn mannkyninu, það er að skemmta skrattanum að afneita því

3/12/06 01:02

Þarfagreinir

Ég skoðaði Wikipediasíðuna um manninn og sé ekki betur en að hann hafi verið dæmdur fyrir það eitt að afneita Helförinni. Ég get engan veginn séð hvernig það er hvatning til hatursglæpa, hvað svo sem má segja um það annað. Svona bjánamálflutningur dæmir sig sjálfir, og það eina sem gerist ef menn eru sóttir til saka fyrir hann er að þeir telja sig í kjölfarið píslarvotta, og stuðningsmenn þeirra líka. Þetta eru ólög, og ekkert annað.

3/12/06 02:00

krossgata

Það lítur sem sagt út fyrir verið sé að dæma manninn hér og þar fyrir skoðun, en ekki ólöglegt athæfi. Það er voðalegur óþefur af því.

3/12/06 02:00

Vladimir Fuckov

Vjer þekkjum þetta mál illa en við snögga skoðun á netinu sáum vjer að hann hefur m.a. verið ákærður fyrir hatursáróður gegn einhverjum hópum, fyrir að ýta undir kynþáttahatur o.fl. Um rjettmæti þeirra ákæra vitum vjer lítið.

Mörkin milli skoðana/tjáningarfrelsis annarsvegar og ýmislegs annars (sjer í lagi friðhelgi einkalífsins) hinsvegar eru oft sjerlega erfið viðureignar.

3/12/06 02:01

Gaz

Að gefa sínar skoðanir á ekki að banna, en "æsingur gegn minnihlutahópi" er stórhættulegur. Vandamálið er bara að hér eru bandaríkjamenn að rúlla sér í hræsninni, en þar er tjáningafrelsið svo heilagt að það er allt í lagi að æsa svo lengi sem að maður útskýri ekki akkúrat "hvernig" það á að þyrmast á minnihlutahópnum.
(Já eða veita flokknum vopn til að fara á minnhlutahóps-veiðar.)
Það er næstum eins og það sé bara verið að handtaka til að vera "flottir".

3/12/06 04:00

Jóakim Aðalönd

Jæja, hvernig fór svo mótmælastaðan?

3/12/06 04:00

Tina St.Sebastian

[Roðnar niður í tær] Ég svaf aðeins yfir mig smápínusko. [Muldrar eitthvað óskiljanlegt um samsæri Sony Ericsson síma og fasistahreyfinganna]

3/12/06 04:01

Jóakim Aðalönd

[Skoppar af hlátri]

3/12/06 04:02

Hakuchi

Óþarfi að láta brennandi hugsjónir standa í vegi fyrir góðum svefni.

Tina St.Sebastian:
  • Fæðing hér: 12/1/05 17:54
  • Síðast á ferli: 18/12/16 21:15
  • Innlegg: 7042
Eðli:
Slettir ensku miskunnarlaust, sem og dönsku, latínu, hindí og heimatilbúnum tungumálum. Mun aldrei framar setjast á hækjur sér, af siðferðilegum orsökum. Vill láta banna krumpuð leðurstígvél.
Fræðasvið:
Rit Davíðs Þórs Jónssonar. Breskir uppistandarar. Eldamennska. Málvillur í útvarpi. Sósíalkommúnismi í Íslenskum framhaldsskólum, einkum í úthverfum Reykjavíkur.
Æviágrip:
Fæddist í útihúsi í Betlehem í Virginíufylki Bandaríkjanna um miðbik síðari heimsstyrjaldar. Dóttir hjónanna Victoriu Mooseport (húsmóður) og Don Corleone (heiðvirðs kaupsýslumanns). Strauk að heiman um sjö ára aldur til að ganga í herinn, en var hafnað sökum kynferðislegrar brenglunar. Tók þá upp nafnið Tina St.Sebastian, og tókst með klókindum, undirförli og lauslæti að komast í Frímúrararegluna, Lionsklúbbinn Rex og Kvenfélag Strandasýslu. Lítið er vitað um ferðir hennar síðustu áratugi. Síðast var hún með fasta búsetu skráða Í Dallas, Texas, en flutti þaðan snögglega í nóvember 1963. Vitað er að hún heimsótti New York borg árið 1980, að sögn talsmanns til að "heimsækja fyrrverandi Bítil," en engar nánari upplýsingar hafa fengist um þá heimsókn. Vitni þykjast hafa séð hana við opnun Þjóðminjasafnsins, en þær sögur eru -enn sem komið er- óstaðfestar.

--

Vígð prestur frá Universal Life Church í nóvember 2006