— GESTAPÓ —
Í uppáhaldi:
Félagsrit:
Tina St.Sebastian
Heiðursgestur.
Pistlingur - 1/12/06
Fríkeypis

Það er stundum erfitt að fá fólk til að skilja að þegar ég segist ekki eiga pening, þá meina ég í alvörunni "engan pening". Ekki "þangað til ég kemst í bankann" eða "bara þúsundkall" heldur [b]engan[/b] pening!

Við gúglun orðins "ókeypis" komst ég að því að það er afarfátt sem hægt er að gera í Reykjavík þegar maður á engan pening.

Ef þig vantar lesefni geturðu fengið Kaþólska Kirkjublaðið sent heim til þín, alveg ókeypis. Eða lesið Fréttablaðið eða Blaðið. Nú, eða flett í gegnum A-in í nokkrum orðabókum í boði Eddu útgáfu. Það veltur auðvitað á því að þú hafir nettengingu, en hún er víst ekki ókeypis.

Þú getur auðvitað farið á bókasöfnin, þar er alltaf frítt inn.
Frítt er inn á Listasafn Íslands alla daga sem og fyrstu hæð Þjóðminjasafnsins, og auk þess er aðgangur að safninu öllu án gjalds á miðvikudögum. Þetta veltur auðvitað á því að þú sért í göngufæri við söfnin, nú eða eigir reiðhjól eða góðhjartaðan kunningja sem getur skutlað þér ókeypis.

Gönguferðir eru - enn sem komið er- ókeypis, og þú getur jafnvel grætt á þeim með dósatínsluaðferðinni. Til þess þarftu þó annað hvort að eiga debetkort og vera í göngufæri við eina af endurvinnslustöðvum Sorpu, eða vera í göngufæri við Endurvinnsluna.

Einhver hélt því fram að það væri ókeypis að brosa, en ef þú ert með slæmar tennur er betra að sleppa því bara.

Ef þú ert í göngufæri við bankaútibú geturðu rölt þangað og fengið þér kaffisopa, og jafnvel kleinu eða smáköku ef þú ert heppinn. Þetta er þó stutt gaman, því bankastarfsmenn eru fljótir að átta sig á því ef þú ert einungis kominn til að þamba kaffi.
Ef þú ert ennþá svangur eftir að öryggisvörðurinn fleygir þér út er tilvalið að kíkja í Hagkaup í Kringlunni og fá að smakka eitthvað góðgæti þar. Ef engar kynningar eru í gangi er alltaf hægt að gæða sér á ostum, og jafnvel heitum mat hjá Nings.
Hafi þetta ekki satt hungrið, má grípa til örþrifaráða; á Stjörnutorginu er oft hægt að finna unglingsstelpur, nokkrar saman í hóp. Laumaðu þér í sæti nálægt þeim, og vertu snöggur að grípa afganginn af matnum þegar þær skoppa í burtu, skríkjandi og flissandi um hvað þær hafi "étið miiikiiið, skilru!" Þær hafa líklega skilið eftir bróðurpartinn af McÓgeði, nokkra bita af Subway-loku og -það sem mestu máli skiptir -
gosglas frá sama stað, en á það er hægt að fylla endalaust - alveg ókeypis!
Ef þú hefur áhuga á slíku er frítt inn í kirkjur landsins eftir því sem ég best veit. Bekkirnir eru þó fremur óþægilegir til lengri tíma, og opnunartímar eru eitthvað á reiki.

Í Góða Hirðinum er oft hægt að fá gefins bækur og ýmislegt smálegt við útganginn. Athugið þó að vera komin nokkru fyrir opnun og hlaupa í gegn til að ná einhverju góðu áður en helvítis kolaportsliðið nær því. Það er allt í lagi að hrinda og gefa olnbogaskot, en forðist að klóra og bíta.
Sama gildir um Mæðrastyrksnefnd og Fjölskylduhjálpina, en ef þú ert ekki hrifnn af brauði, hrísmjólk og útrunnu kexi geturðu alveg eins sleppt ferðinni, nema þig vanti notuð föt. Þau eru reyndar bara ókeypis í Mæðró, en ekki Fjölskylduhjálpinni.

Ef þú ert reykingamaður ertu í nokkrum vanda. Besta leiðin til að redda sér sígarettum án útgjalda er að hanga fyrir utan stærri fyrirtæki og bíða eftir reykingapásum starfsfólks. Það eru alltaf nokkrir sem ná ekki að reykja nema hálfa sígarettu, og þá er nóg eftir handa þér. Leitaðu að þessum sem henda rettunni frá sér logandi, en drepa ekki í henni með skónum.
Hin leiðin er að finna svokallaða "beyglu", en þær má oft finna í kringum ryksugur á bensínstöðvum. Beygla er plastflaska, sem búið er að beygla til og gata á strategískan hátt, ætluð til neyzlu á tóbaksblönduðu hassi eða öðru slíku. Í stútinn er svo settur gataður álpappír. Úr þessu er hægt að reykja það litla tóbak sem finnst í venjulegum stubbum. Safnast þegar saman kemur!

Langi þig í ölsopa er heillavænlegast að hanga fyrir utan skemmtistaði bæjarins á föstudags- og laugardagskvöldum. Einfaldast er að finna staði sem þykja "trendí" meðal unglinga undir lögaldri. Þeir eru oftast með bjórdós með sér, og sötra úr henni í röðinni. Þegar þeir komast inn, neyðast þeir til að skilja dósina eftir, jafnvel hálffulla. Þá er lítið mál að nappa henni. Forðastu unglingspilta með glerflöskur.
Önnur leið er einnig fær, en sú er nokkuð flóknari. Hún felst í því að rölta um inni á skemmtistað, og um að gera að hafa augun hjá sér, því margir skilja við hálffull glös á borðum. Auðveldast er að nappa einu glasi, og tæma úr öðrum í það. Varaðu þig þó á dyravörðum og glasabörnum. Þarna er einnig gráupplagt að sanka að sér sígarettustubbum.

Ég vil end þennan pistling á orðum Mark Steel: "Það er allt í lagi að fara og rölta um almenningsgarð ef þú ert með þúsundkall í vasanum, því þú veist að þú tókst meðvitaða ákvörðun um að gera það. Það er allt annað þegar þú veist að eina ástæða göngunnar er sú að þú hefur ekki efni á neinu öðru."

   (15 af 43)  
1/12/06 06:01

krossgata

Hér er alveg hrúga að góðráðum. Er í alvöru hægt að fá fría osta og heitan mat á Nings?

Því er svona þröngt í búi hjá þér Tina? Ertu fátækur námsmaður? Annars var þarna aftúrkreistingurinn Blöndal, hvað hann nú heitir, að auglýsa eftir dæmum um alvöru fátækt í landinu. Hann segist búinn að vera að leita í tvö ár og finnur ekkert.

Hann er nú líka eitthvað undarlega innréttaður.

1/12/06 06:01

Hakuchi

Aaa já dagar peningaleysis. Ég á hlýjar minningar um þegar við 9 ára pollarnir fórum eins og hrægammar út um allt í leit að fríu nammi. Hagkaup í Skeifunni og Mikligarður sálugi voru góðir staðir til að fá frítt (og horfa á teiknimyndir). Í þá daga var boðið upp á ókeypis kaffi og djús, amk. í Skeifunni. Fimmtudagar og föstudagar voru kynningardagar í matvörubúðum. Kynningar virðast vera strjálli en í gamla daga, sem er miður. Ég man að það var líka ágætis djús í IKEA en það var þegar þeir voru í Kringlunni. Kringlan sjálf var ágæt fyrir sitt leyti en samlokan Skeifan/Mikligarður var einna best.

Ef þú vilt beyglu, þá eru þær til í tugatali í bókstaflega dópgreninu í grenitrjálundinum við enda Fossvogsdals.

Mér sýnist á þessu versta þróunin vera sú að ókeypis kaffi og djús er minna áberandi en í gamla daga. En ef útibúin geta reddað manni smáskammti og maður hefur bókasafnið þá er í raun ekkert sem mann vantar - nema kannski vinnu ef maður er ekki 9 ára.

1/12/06 06:01

Dula

Ef þig vantar máltíð þá geturðu gefið blóð, en það er bara hægt á 4 mánaða fresti og einnig ef þú átt leið fram hjá bæjarins bestu þá geturðu fengið ókeypis pylsur ef þú segist eiga hund.

1/12/06 06:01

Herbjörn Hafralóns

Toyota umboðið var með þetta fína kaffhlaðborð í dag og verður aftur á morgun. Þar voru margar kökusortir, kaffi, kakó og gos. Ef þú getur gengið þangað þarftu ekki að svelta á morgun.

1/12/06 06:01

Hakuchi

Kosningar eru síðan gósentíð auralausra. Ég man enn eftir hinum unaðslegu kosningum '89. Frambjóðendur skófla í mann dásemdar góðgæti. Blessunarlega eru kosningar í vor. Því miður er ég hættur að vera 9 ára.

1/12/06 06:01

Tina St.Sebastian

Ég sat einmitt í kjördeild í síðustu kosningum. Í hálftíma. Síðan fór ég á Hótel Sögu og hámaði í mig kalda bayonneskinku og með'enni.

1/12/06 06:01

Nermal

Svo eru jólin góður tími. Mikið af kjötkynningum, nammi í boði í annari hvorri verslun. Svo ef mann vantar að skuttlast lítilsháttar, þá fer maður á bílasölu og fær að reynsluaka. Bara vona að bílasalinn heimti ekki að fá að fara með.

1/12/06 06:01

Þarfagreinir

Linux er ókeypis. [Glottir eins og fífl]

1/12/06 06:01

Kaftein Bauldal

Ertu búinn að leita í öllum vösum í jökkum og denslags hjá þér? Þar gæti leynst klink.
Einnig, ef ég ætti að mæla með ódýrum mat, þá myndi ég mæla með bökuðum baunum. Í þeim er mikið af prótíni og trefjum

Enn...........ef allt þrýtur og þú verður einhvertímann alveg auralaus þá er til leið sem fáir vita af. Helling af mat er hent í stórmörkuðunum bara því að hann er kominn fram yfir síðasta söludag. Ef að gámurinn á bakvið er ekki læstur er í lagi að grípa nokkra hluti t.d. niðursuðudósir og brauð. Það er yfirleitt fullt af rotvarnarefnum. Þetta síðasta ráð er náttúrulega af síðustu sort, ég geri mér fyllilega grein fyrir því.

1/12/06 06:01

Tina St.Sebastian

Þetta er akkúrat málið, Kaftein Bauldal. Bakaðar baunir eru ódýrar, en þegar maður á ENGAN pening er alveg eins hægt að segja "Varnarliðið er að selja notaða þyrlu á BARA 60 milljónir!"

Og ég hef étið mat úr gámnum á bak við Krónuna. Fínasta blómkál, sem ég skil ekki alveg hversvegna var hent. Það var vakúmpakkað og algjörlega óskemmt.

1/12/06 06:01

Kaftein Bauldal

Ef þú byggir hérna fyrir norðan þá myndi ég bjóða þér í mat.

1/12/06 06:01

Dula

Margir borða mat sem er hent úr syórmörkuðum og sá matur er ekki verri en sá sem er inni í þeim oft á tíðum

1/12/06 06:02

Nermal

Það var nú þannig á mínum vinnustað að okkur starfsfólkinu var leyft að hirða úr því sem kom til baka. Man t.d eftir að hafa fengið að hirða bayoneskinku og fleyra. Svo þurfti einhver drullupungurinn að misnota þetta... og lokað var á þetta !!! Frá okkur er hent alveg óhugnarlega mikklu..... Veit ekki hvort gámurinn er læstur. En það má tékka á kjötiðnaðarfyrirtækjunum sko...

1/12/06 06:02

Tina St.Sebastian

Svona er það í Hagkaupum; fleiri tonnum af nýtanlegum hlutum eins og bókum, leikföngum og fötum er hent, vegna þess að þeir vilja ekki gefa þetta í Rauða Krossinn nema það sé sent úr landi. A.m.k. er það útskýringin sem ég fékk þegar ég var að hneykslast á þessu.

1/12/06 07:01

krumpa

Góð ráð - (en besta ráðið er að hafa vit á að fæðast í ríka fjölskyldu....). Ég vissi þetta ekki með Hagkaup, eða hafði amk aldrei pælt í því - svona sóun er vægast sagt grátleg þegar það er skortur,....

Ég reyndi einu sinni (sennilega 9 ára) að nappa útrunninni samloku úr ruslagám bakvið SS-búðina sem þá var á Hlemmi. Kom þá út ein reiðasta kona sem ég hef séð og hef ég ekki reynt slíkt síðar...

1/12/06 07:01

Grágrímur

Svo er líka bara hægt að fá sér vinnu...

1/12/06 07:02

Tina St.Sebastian

Hverju breytir það? Nema þú vitir um starf fyrir ófaglærða, einhversstaðar þar sem launin eru yfir 200.000 á mánuði.

1/12/06 07:02

Hakuchi

?

1/12/06 07:02

Blástakkur

Besta ráðið til að fá ókeypis peninga (í smá tíma) er að fara í nám og fá námslán. Það þarf ekki að borga aftur fyrr en maður er kominn með vinnu þannig að engar áhyggjur. Til er fullt af námi sem er skítauðvelt að komast í gegnum.

1/12/06 07:02

Hakuchi

Reyndar rétt. Flestir geta drullast í gegnum þennan bjánalega framhaldsskóla. Eftirleikurinn er einfaldur. Ótrúlegt framboð á lánshæfum greinum sem sofandi bavían gæti rúllað í gegnum.

1/12/06 07:02

Regína

Verst að þeir tíma ekki að lána manni 200.000 ókeypis peninga á mánuði.

1/12/06 07:02

Hakuchi

Hvað þá 500.000.

1/12/06 08:00

Tina St.Sebastian

Það er dálítið erfitt að fá námslán þegar maður er á svörtum lista.

1/12/06 08:00

Dula

Þú ert ung og getur fengið styrk hjá féló um með nám held ég, talaðu við félagsráðgjafa og tékkaðu á lausnum fyrir þig. Leggðu spilin á borðið og fáðu aðstoð.

1/12/06 08:01

krumpa

Fyrirgefðu ef ég er Blöndalsleg en....
þú semsagt getur ekki verið í námi og vilt ekki vinna (nema fyrir ofurtekjum)... ætlarðu þá alltaf að gera þetta? Hanga bara og reykja úr beyglum þar til einhver kemur og bíður þér forstjórastarf með millu á mánuði?
Rífðu þig upp á rassinum stelpa og fáðu þér vinnu - allar tekjur eru betri en engar - svo held ég að það sé ekkert mál að fá vinnu á skyndibitastöðum og bensínstöðvum með ca 250-300 á mánuði - sem er meira en ég er að fá með öll mín háskólapróf. Allt í lagi líka að byrja á skítadjobbi (við höfum öll verið í þeim) svo getur þetta bara batnað!

Það gerist ekkert nema maður geri eitthvað.
Gangi þér sem allra best.

ps. ég veit að það er til raunveruleg fátækt, ég græt yfir einstæðum mæðrum, fólki í störfum með lágmarkslaun, öryrkjum, gamlingjum, sjúklingum.........en ef, eins og innleggið hennar Tinu hér að pfan gefur til kynna, fólk nennir ekki að vinna og nennir ekki að mennta sig og nennir ekki að reyna þá getur það bara átt sig. Sorrí - ég vorkenni þeim sem detta niður - en þeir verða fyrst að reyna að standa! Þýðir ekki bara að leggjast strax og gefast upp.

1/12/06 08:02

Hakuchi

Þetta kallast töff löv. Tek heilshugar undir með Krumpu ef forsendur reynast réttar.

1/12/06 08:02

Tina St.Sebastian

"Allar tekjur eru betri en engar"
Já já. Hinsvegar er það nú þannig að maður þarf víst ákveðna grunnupphæð til að geta lifað mánuðinn af. Ég GET alveg fengið vinnu með laun upp á 60.000 á mánuði, en ég verð alveg jafn blönk fyrir það.
Lágmarkslaun eru samkvæmt lögum 138.500 á mánuði fyrir fulla vinnu. Fyrir skatt. Eftir skatt, sé gert ráð fyrir 100% persónuafslætti, eru útborguð laun u.þ.b. 117.000.

Til nánari útskýringar á mínum vandræðum vil ég benda á félagsrit krumpu sjálfrar: Játningar þjúklings.

1/12/06 08:02

Hakuchi

Verður þú alveg jafn blönk með 60.000 kall (eða 117 og upp úr sem er raunsærra) á mán og að þú hafir alls enga vinnu?

Það er voðalega undarlegt.

1/12/06 08:02

Tina St.Sebastian

Þegar maður er í mínus, og öll laun fara beint í að borga skuldir...

1/12/06 08:02

Siggi

þá borgar maður mínusinn farðu á sjó það vantar alltaf matsveina á vigrann þá færðu 200.000 á mánuði og eyðir ekki krónu allt er skárra en að væla yfir þessu

1/12/06 08:02

Tina St.Sebastian

Akkúrat.
Til nánari útskýringar á mínum vandræðum vil ég benda á félagsrit krumpu sjálfrar: Játningar þjúklings.

1/12/06 09:00

Tina St.Sebastian

"Þá borgar maður mínusinn"
Gott ráð þar. Af hverju datt mér það aldrei í hug?
Málið er bara að þegar ekki er hægt að borga lægri upphæð á mánuði, þannig að maður geti hugsanlega reynt að lifa á mismuninum, þá þarf maður stöðugt að reyna að fá lánað annarsstaðar. Og svo fær maður upplífgandi komment eins og "en eftir tvö ár verðurðu orðin skuldlaus!" Ah. Eftir tvö ár af engum mat eða húsnæði verð ég ekki bara skuldlaus, heldur dauð líka, og þá þarf ég ekki að hafa áhyggjur af neinu af þessu!

1/12/06 09:00

Jarmi

Fáðu þér kall sem heldur þér uppi meðan þú borgar skuldir. Nóg af gröðum vitleysingum allt í kringum þig. Kíktu bara á Heimavarnarliðslistann.

1/12/06 09:00

Tina St.Sebastian

Er Jóakim ekki eini millinn hérna? Hann er einhversstaðar í útlöndum að spreða þeim. Ef hann komst þá nokkuð um borð í vélina...

1/12/06 09:01

krumpa

Elskuleg!
Hvað varðar félagsrit mitt um játningar þjúklings þá skil ég ekki alveg hvernig það passar hér inn í. Það var um gráa daga - en ekki grá ár. Ég skil alveg að þú viljir ekki heimskuleg og innihaldslaus hvatningarorð.... En, hins vegar, ef gráu dagarnir eru orðnir að mánuðum eða árum þá er tími til kominn að leita sér aðstoðar - ekki satt? Hef auk þess alltaf - hversu svart sem útlitið annars er - drullast í vinnu.

Auðvitað er það svo rétt að það er vont að vera skuldari og skuldaklafinn oft svo mikill að maður sér ekki fram á að komast út úr honum hvað sem maður gerir - og þá er betra að vinna svart eða vera á bótum. Skil það alveg... Hins vegar held ég að fæst störf bjóði upp á minna en 200 þús kr heildarlaun og ef þú getur dreft skuldunum á 4-5 ár þá kæmistu kannski út úr ruglinu...... (undirrituð var reyndar með 140þús á mán í sumar í vinnu sem krafðist háskólanáms en það mun víst einsdæmi).

Persónulega finnst mér þú alltof ung til að gefast bara upp. Eða hvað sérðu þig eftir tíu ár? (ég verð í stóru einbýlishúsi með millu á mánuði - þó að ég sé langt frá því marki núna - maður verður að stefna að einhverju!)

1/12/06 09:01

krumpa

Ps. þetta með að ná í ríkan kall hefur nú verið markmið hjá mér síðan um fermingu - en á einhverju þarf maður að lifa þangað til....

1/12/06 09:01

Jarmi

Ég sagði reyndar ekkert um 'ríkan', ég talaði um 'graðan'. Ef greddan er næg gera karlmenn allt til að halda í dráttinn.

1/12/06 09:01

krumpa

hrumpf - ef þeir eiga ekki seðla er okkur sko slétt sama um hversu graðir þeir eru...

1/12/06 09:01

Billi bilaði

Það eru allt of, allt of, allt of mörg störf sem bjóða upp á miklu minna en 200 þúsund krónur á mánuði.

1/12/06 09:01

Jarmi

Nú er krumpa komin í sama pakka og hún mótmælti hér að ofan. "Milla á mánuði" og allt það.
(Auðvitað þarf það ekki að vera karlmaður, getur alveg verið gröð kona ef það er það sem hentar Tinu.)

1/12/06 09:01

Fræ

Ég er mjög gratt, ég á líka nóg af peningum.
Ekki að það komi neinum við.

1/12/06 09:01

krumpa

hmmm - þetta seinna var nú meira grín en þetta snýst líka um að vera raunsær - það er fullt af ríkum graðnöglum þarna úti en minna af hálaunadjobbum fyrir ómenntaðar konur...

1/12/06 09:02

Tina St.Sebastian

Ég hef gegnt ýmsum störfum um ævina, og var himinlifandi í síðasta starfi þegar ég fékk heilar 123.000 krónur útborgaðar eftir skatt. Þetta eru hæstu laun sem ég hef á ævinni fengið. Þetta var bara fyrsta mánuðinn, vegna þess að eftir þetta var skattkortið mitt fullnýtt.
Ástæða þess að ég missti vinnuna var sú að ég mætti ekki í tvær vikur, því ég gat bara ekki rifið mig upp til að fara út í myrkrið, jafnvel þó vinnan hafi verið skemmtileg.
Ef ég gæti skipt skuldunum á 4-5 ár, væri útlitið skárra, en þegar maður er kominn á vanskilaskrá og svarta lista, er ekkert auðvelt að fá að skuldbreyta lánum.

1/12/06 09:02

krumpa

Ég skil....þetta er allt fremur súrt.
Ef ég væri í því að gefa heimskuleg ráð þá mundi ég ráðleggja þér að fá uppáskrifaðar gleðipillur (þær virka, hvað annað sem um þær má segja), leita til fjármálaráðgjafa (ráðgjafarstofnun heimilanna eða hvað það nú heitir) og fá þér nýja vinnu.... Það er varla auðveldara að borga af lánum með engar tekjur heldur en með lágar tekjur. Best er að fá einhvern í lið með sér á móti bönkunum eða hverjum það er nú sem þú skuldar....einhvern sem getur útskýrt fyrir þeim að það er betra að fá eitthvað á lengri tíma heldur en ekki neitt....bankarnir fatta það ekki alltaf að hungurdauðir menn borga ekki skuldir.

En ég veit að þegar maður er langt niðri hatar maður heimskuleg ráð svo ég segi ekki neitt.
Líst samt ekki á stöðuna ef þú ert búin að ákveða að allt sé vonlaust.

1/12/06 09:02

Hakuchi

Orð.

1/12/06 09:02

krossgata

Þetta er orðinn svaka þráður! Kæra Tina, ég segi eins og krumpa fáðu gleðipillur þær virka. Vinkona mín fór með allt sitt á vonarvöl til ráðgjafa í banka minnir mig (frekar en endurskoðanda) og sá sá um alla samninga um skuldir. Hún komst á endanum út úr skuldaspennitreyjunni. Ráðgjafar nú til dags gera meira að segja sumir ráð fyrir að fólk borði alla vega 2svar í mánuði.

1/12/06 10:01

Glúmur

Ég myndi mæla með því að þú finnir einhvern sem er til í að semja við lánadrottna þína fyrir þig. Það er hægt að semja um allt, lánadrottnar vilja frekar semja við skuldara en að þeir fari í gjaldþrot. - Ef ekki er hægt að semja myndi ég skoða gjaldþrot.
http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=252687
h ttp://islog.is/app_user/index.php?action=qanPreview&qanID=441

1/12/06 10:01

Tina St.Sebastian

Ég er gjaldþrota og með pappíra upp á það. Ég fæ ekki séð að það skipti lánadrottnana neinu máli.

1/12/06 10:01

krumpa

nei - þó maður sé gjalddþrota er maður ekki laus úr skuldum. Það er endalaust hægt að halda lífinu í þeim og lánadrottnar vilja sitt!
Þetta er ekki alveg rétt hjá Glúmi að gjaldþrot sé góður kostur - bara grátlega margir sem halda það. Það er ekkert grín að mega ekki eignast neitt - þá kemur bara næsti kröfuhafi og tekur það af manni. Eins er ekki gaman að hafa það á ferlinum að maður hafi verið tekinn tl skipta.
Gjaldþrot er ekkert spaug - en fyrst þú ert orðin gjaldþrota ættu lánadrottnarnir samt að sjá að það er betra að fá eitthvað á lengri tíma heldur en ekki neit. Betra að manneskjan fái að vinna sig út úr ruglinu í smáskömmtum heldur en að eignast aldrei - og þar með greiða aldrei neitt.
Það þarf bara oft einhvern til að benda bönkum og öðrum á þetta!
Leyfðu okkur nú að fylgjast með hvernig allt þróast hjá þér og gangi þér vel. Ekki gefast upp!

1/12/06 11:01

Glúmur

Já, gjaldþrot verður seint góður kostur - en það getur verið það eina sem vit er í að gera.

1/12/06 11:02

Hakuchi

Ég geri ráð fyrir að þetta séu ekki skuldir í upphæðum á við íbúðarhús. Ef þetta eru fáeinar millur er algert glapræði að vera að láta vængstífa sig í mörg ár með því að lýsa sig gjaldþrota með tilheyrandi ævarandi vantrausti stofnana sem þú þarft að notast við síðar á æviskeiðinu.

Það er vel hægt að semja sig úr skuldum af lægri toganum en þá þarf maður auðvitað vinnu en eins og einhver benti á hér að ofan er augljóst að engum dytti í hug að öll laun viðkomandi fari í skuldir - það er bara heimskulegt. Bankar gefa svigrúm nú á dögum og ætti ungfrúin að leita til ráðgjafastofu um fjármál heimilanna til að byrja með. Það er apparat á vegum bankanna, ríkisins og verkalýðsfélaga.
http://www.fjolskylda.is/fjarmal

Gjaldþrot á að vera allra, allra, allra síðasti kostur og í raun ættir þú að sleppa því að láta þér detta þann kost í hug.

1/12/06 11:02

Tina St.Sebastian

Búið og gert. Og upphæðin er undir tveimur millum.

1/12/06 11:02

Hakuchi

Djís, þá skaltu ekki dirfast að fara í gjaldþrot. Þú endursemur og borgar. Þetta er ekki óyfirstíganlegt eins og þú áttar þig eflaust á.

1/12/06 11:02

Tina St.Sebastian

En...en...ég er búin? Á ég að fara aftur til sýslumanns og skila sneplinum, og segjast ekki vilja vera gjaldþrota lengur?

1/12/06 11:02

Hakuchi

Af hverju í ósköp..jæja...talaðu við þessa ráðgjafa eða lögfræðing um hvernig þú kemst úr hlekkjum gjaldþrots sem allra fyrst.

1/12/06 12:01

krumpa

Hefðir augljóslega átt að tala við okkur konunginn áður en til þessara drastísku aðgerða var gripið.
En aðvitað er hægt að vinna sig út úr gjaldþroti - það tekur bara lengri tíma en að vinna sig út úr skuldum. . .
Stend við ráð mín um pillur, vinnu og ráðgjafa. Getur varla versnað!

1/12/06 12:01

Vladimir Fuckov

Þvílíkur þráður ! Ástandið er vont en 2 milljónir eru ekki óyfirstíganlegar - það er hægt að lenda í verri málum vegna t.d. himinhárra húsnæðisskulda. Verra með gjaldþrotið en hægt er að vinna sig út úr því, sbr. orð krumpu.

Krumpa og Hakuchi hafa að því er oss virðist lög að mæla. Tekjur, þó þær sjeu e.t.v. ekki háar, eru alltaf betri en engar tekjur. Því er mikilvægt að bæta ástandið þannig að hægt sje að komast sem fyrst í vinnu og því hljóta 'gleðipillur' að vera mjög ofarlega í forgangsröðinni. 'Gleðipillur' er reyndar vítt hugtak í huga vorum og nauðsynlegt að fá góða aðstoð þar ef þjer hafið ekki þegar gert það.

Tina St.Sebastian:
  • Fæðing hér: 12/1/05 17:54
  • Síðast á ferli: 18/12/16 21:15
  • Innlegg: 7042
Eðli:
Slettir ensku miskunnarlaust, sem og dönsku, latínu, hindí og heimatilbúnum tungumálum. Mun aldrei framar setjast á hækjur sér, af siðferðilegum orsökum. Vill láta banna krumpuð leðurstígvél.
Fræðasvið:
Rit Davíðs Þórs Jónssonar. Breskir uppistandarar. Eldamennska. Málvillur í útvarpi. Sósíalkommúnismi í Íslenskum framhaldsskólum, einkum í úthverfum Reykjavíkur.
Æviágrip:
Fæddist í útihúsi í Betlehem í Virginíufylki Bandaríkjanna um miðbik síðari heimsstyrjaldar. Dóttir hjónanna Victoriu Mooseport (húsmóður) og Don Corleone (heiðvirðs kaupsýslumanns). Strauk að heiman um sjö ára aldur til að ganga í herinn, en var hafnað sökum kynferðislegrar brenglunar. Tók þá upp nafnið Tina St.Sebastian, og tókst með klókindum, undirförli og lauslæti að komast í Frímúrararegluna, Lionsklúbbinn Rex og Kvenfélag Strandasýslu. Lítið er vitað um ferðir hennar síðustu áratugi. Síðast var hún með fasta búsetu skráða Í Dallas, Texas, en flutti þaðan snögglega í nóvember 1963. Vitað er að hún heimsótti New York borg árið 1980, að sögn talsmanns til að "heimsækja fyrrverandi Bítil," en engar nánari upplýsingar hafa fengist um þá heimsókn. Vitni þykjast hafa séð hana við opnun Þjóðminjasafnsins, en þær sögur eru -enn sem komið er- óstaðfestar.

--

Vígð prestur frá Universal Life Church í nóvember 2006