— GESTAPÓ —
Í uppáhaldi:
Félagsrit:
Tina St.Sebastian
Heiðursgestur.
Pistlingur - 4/12/05
Að tolla í tízkunni

Ég hef oft velt fyrir mér tízku og þaim sem elta hana. Hér er niðurstaðan.

Nú verður seint um mig sagt að ég eltist sérstaklega við tízkuna þó ég eigi ofgnótt af fötum. Ég hef nefnilega aldrei skilið þeta fólk sem rýkur út í búð um leið og það heyrir um nýjustu mynstrin og sniðin. Það er eins og tízkufíklarnir séu annaðhvort svona fávísir, og hafi bara aldrei dottið í hug að stórrósótt pils í A-sniði væru til, eða -sem mér þykir líklegra- að þeir séu svona miklar hópsálir. Það skil ég reyndar ekki heldur.
Tízkufíkillinn er kannske mjög hrifinn af kúrekastígvélum, en hefur aldrei þorað að ganga í þeim fyrr en nú, að einhver gúrú fullvissaði hópsálartetrið um að það væri sko allt í lagi, svona væru allir til fara í útlöndunum. Þá rauk greyið beinustu leið upp í Smáralind, inn í næstu skóbúð og keypti sér þrjú pör í mismunandi litum, til að geta nú skipt út netaskónum og þessum ljótu brúnu með þvertánni, sem hann fattaði núna að honum fundust aldrei flott, enda eru þau löngu komin úr tízku.
Tízkufíkillinn röltir síðan um Lindina, og tekur eftir því að allt smarta fólkið er með legghlífar og svitabönd, rosa eitís eitthvað, svo hann gleymir á stundinni öllum þeim ræðum sem hann hefur haldið yfir foreldrum og systkinum um ósmekklegheitin sem tröllriðu öllu á níunda áratugnum. Hann hefur hingað til litið á þetta sem eitt hræðilegasta tímabil tízkusögunnar, en nú rennur upp fyrir honum ljós. Því hvernig getur eitthvað verið ljótt, ef öllum öðrum finnst það flott?
Tízkufíkillinn man samt enn eftir niðurlægingunni sem hann varð fyrir þegar hann henti öllum gömlu fötunum foreldra sinna, því, eins og hann orðaði það "hver heldurðu að gangi í svona gömlu drasli?" Síðan kom í ljós nokkru seinna að retro er hið nýja "nýja" og vesalings tízkufríkið neyddist til að fara í Spútnik og kaupa sér ný gömul föt til að tolla í retróinu.
Fötin eru ekki það eina sem tízkufíkillinn þarf að hafa áhyggjur af, ó nei. Hárið, húðliturinn, líkamsræktin, bíllinn, mataræðið og jafnvel gæludýrin eru háð tízkusveiflum.
Tízkufíkillinn mætir á hárgreiðslustofuna (sem auðvitað er sú heitasta í bænum, hver heldurðu að fari á einhverja úthverfabúllu að láta klippa sig?) með nýjasta eintak af Séðu & Heyrðu, Vogue, Marie Claire eða Cosmo, bendir stoltur á einhvern frægan, og heimtar eins klippingu. Vesalings skærasveiflarinn þorir ekki annað en að hlýða, jafnvel þó viðkomandi greiðsla henti tízkufríkinu alls ekki. Eftir lengingu, krullun, sléttun, liðun, litun, strípun og klippingu gengur svo tízkufíkillinn stoltur um með nýja hárið, eða þar til fyrirmyndin skiptir um greiðslu, eða sem verra er - hættir að vera hipp og kúl. Tízkufíkillinn gleymir því sko aldrei þegar Rachel klippti hárið, enda leið vika þar til hann gat fengið tíma á heitustu stofunni, og honum leið illa að vera með þessa úreltu klippingu, vitandi það að fólk var að hlæja að honum.
Húðliturinn hefur sem betur fer verið nokkuð stöðugur undanfarið, en tízkufíkillinn kvíðir einna mest þeim degi þegar snjóhvíti íslenzki liturinn tekur við af brúnkunni og hann þarf að taka til við að skrapa brúnkukrem og -sprey af næpuhvítu undirhúðinni. Tízkufíkillinn fer aðvitað ekki í ljós lengur, þar sem allir þessir heitustu fara í spreytan núna.
Einu sinni var tízkufríkið í trimminu, en það var svo eitís eitthvað. Svo prófaði það TæBó, en það hætti að vera kúl. Svo var það jóga, spinning, sjálfsvarnarlistir ýmiss konar, stafganga...núna er tízkufríkið að bíða eftir stripperóbiks, því allar hollívúdd-stjörnurnar eru víst í því.
Einu sinni var tízkufíkillinn á Golf, og líkaði vel. Þá kom Yaris, og tízkufríkið fékk sér svoleiðis, silfurlitan að sjálfsögðu. Nú er Yarisinn að erða úreltur, og grey tízkufríkið er að reyna að spá fyrir um hvort það verði næst lítill innanbæjarbíll, svona Smart, nú eða tvinnbíll, af því að umhverfisvernd er inni í dag. Svo eru reyndar jepparnir alltaf flottir, svo tízkufríkið bíður bara eftir kallinu frá blöðunum, svo hann geti skipt út þessari Yaris-druslu.
Mataræðið er svo kafli út af fyrir sig; hveitigrassafi, hollívúdd-kúrinn, slow food, Burger King, Vox, uppbyggingardrykkir, Magic...allt þetta hefur tízkufríkið reynt, sama hversu vont það var. Meira að segja sveppateið var drukkið á sínum tíma, ef viðkomandi er nógu gamall. Drykkjan er háð tízkusveiflum, og tízkufíkillinn lítur niður á þá sem eru svo hallærislegir að drekka ennþá Cosmopolitan eða Mojito, þar sem það nýjasta er svo miklu flottara en eitthvað raubleikt sull eða myntukássa. Ef fjárráðin leyfa ekki kokteilaþamb, fær tízkufíkillinn sér frekar Breezer en bjór, þó hann geti svosem sötrað Miller eða Lite - ef ekkert annað er í boði.
Tízkufíkillinn hefur átt persneskan kött, chihuahua, pomma, ástargauk, norskan skógarkött og hest (þegar það þótti ennþá fínt að vera í hesthúsinu allar helgar að moka skít) en hann hefur gefist upp á þessu öllu, og er núna að spá í að eignast barn. Börn eru nefnilega voða heit núna, og auðvelt að fylgjast með því nýjasta í tízkunni fyrir þau. Sarah Jessica Parker á barn, Brad Pitt er að hugsa um krakkana hennar Angelinu Jolie, svo það hlýtur að vera í tízku. Þá er bara eftir að ákveða hvaða húðlitur fari best við nýja leðursófann , því tízkufríkinu dettur auðvitað ekki annað í hug en að ættleiða. Það er svo töff og meðvitað.
Tízkufríkið dreymir um frægð, og hefur reynt margt til að ná því takmarki. Það reyndi að komast í Idolið, en komst ekki einu sinni í fyrsta þáttinn. Það sótti um í Djúpu lauginni, og komst inn, en fékk ekkert deit. Það dugði því samt alveg tvær helgar í röð, þar sem dyraverðirnir á Rex horfðu allir á þáttinn, og fíkillinn komst fram fyrir röðina. Það mætir á allar frum- og forsýningar í von um að rekast á ljósmyndara frá Séðu & Heyrðu eða Hér og Nú eða bara einhverju blaði sem fína fólkið les.
Tízkufíkillinn hefur meira að segja reynt að komast í Innlit Útlit, og er þessvegna búinn að setja sig því sem næst á hausinn, bara til að geta keypt plasmasjónvarp, húsgögn eftir Arne Jacobsen og málverk eftir Pétur Gaut.
Tízkufíkillinn les eki bækur nema þær séu mikið auglýstar, og þyki almennt hipp og kúl. Hann á áritað eintak af Myndinni af pabba, sem snerti hann djúpt, hann heldur mikið upp á DaVinci lykilinn og Arnald Indriða, og svo Hann var kallaður Þetta, sem snerti hann einnig mjög djúpt á sínum tíma, þó hann muni ekki um hvað hún var. Tízkufríkið á líka allar barnabækurnar eftir Madonnu, og fjöldan allan af ævisögum fræga fólksins. Auðvitað var tízkufríkið svo fyrst út í búð þegar Biblía fallega fólksins kom út, og dreymir um að hitta Gillzenegger sjálfan til að lýsa yfir aðdáun sinni.
Tízkufríkið á líka ævisögu Beckham, en hún er komin niður í geymslu, þar sem Beckham er ekkert voða töff lengur.
Það góða við að þekkja tízkufrík, er að þau gefa stundum fínar gjafir. Tízkufríkið les til dæmis listana sem birtast í blöðunum fyrir fermingar og útskriftir, og velur gjafir eftir stjörnumerkjunum. Það slæma er að tízkufríkið er ekki með mikið hugmyndaflug, þannig að það gæti allt eins rölt sig inn í næstu Skífu og beðið um "eitthvað sem svona X gamlar/ir stelpur/strákar hlusta/horfa á", sem -eins og allir sem ferðast utan hjarðarinnar vita- er yfirleitt eitthvað ömurlegt.
Stærsti galli tízkufríksins er nefnilega sá að því finnst ekert óeðlilegt við að haga lífi sínu svona, og furðar sig á því að allir séu ekki eins og það. Það getur ekki ímyndað sér þá kvöl að þurfa að hugsa sjálft, en öfundar samt í laumi fatahönnuði og rithöfunda. Ekki bara af frægðinni, heldur fyrst og fremst hugmyndaauðginni og frelsinu.

   (25 af 43)  
4/12/05 11:01

Nornin

Tina, þú ert snillingur.
[Klappar]

4/12/05 11:01

Vestfirðingur

Hvernig er lífið á stúdentagarðinum?

4/12/05 11:01

Tina St.Sebastian

Ah. Stúdentagarðurinn er í bið akkúrat núna. Og þakka þér Norn.

4/12/05 11:01

Jarmi

Og er það ekki bara allt í lagi?

4/12/05 11:01

Finngálkn

Tina Bitch! - Þetta er fucking fimm stjörnu rit! - Ekki af því að ég er sammála hverjum einasta helvítis staf heldur af því að þetta ristir viðbjóðslega djúpt... Ég hef vanmetið þig og kokkslappa þig í heiðurs og virðingarskini!

4/12/05 11:01

Tina St.Sebastian

Jarmi: jújú.
Finngálkn: Ég tek þessu sem miklu hrósi. Og Virðingarskyn er ritað með ypsiloni.

4/12/05 11:01

Þarfagreinir

Uss hvað ég veit lítið um tískuna. Ég þarf augljóslega að fara að kynna mér þennan óvin minn betur.

4/12/05 11:01

Aulinn

Kúrekastigvélin eru komin úr tísku.

[Starir út í loftið]

4/12/05 11:01

Skoffín

Þetta félagsrit er í bókstaflegri merkingu hverju orði sannara og skrúfaði frá brosgrettunni oftar en einu sinni og oftar en tvisar. Skál fyrir snilldarpennanum Tinu!

4/12/05 11:02

Hugi

Þettað eru alltov margir stavir.

4/12/05 11:02

Fávitaháttur

Las þetta virkilega einhver?

4/12/05 11:02

Hakuchi

Úrvalspistill byggður á góðum og gildum fordómum og steríótýpum.

Ég þekki manneskju sem er nákvæmlega upp á hár eins og ofangreind lýsing. Nákvæmlega. Hún hefur verið eyðilögð af Sex and the City.

Hún lifir og hrærist í þessum heimi. Hver hugsun og pæling fer í tískustrauma og mátanir og hún virðist ekki hafa áhuga á neinu umfram það, þó hún sé góð í sinni vinnu. Það sorglega er að hún er bráðgáfuð og gæti verið að eyða tímanum í að finna lækningu sjúkdómum sem herja á mannkyn. Sorglegt.

4/12/05 11:02

Ísdrottningin

Frábær pistill Tina.
Hann lýsir í hnotskurn lífi sem að ég held að flestir hér á Gestapó séu sem betur fer lausir við.
Þvílíkt ok að lifa við. Má ég þá heldur biðja um frumleika og karaktera sem skera sig úr hvort sem það er í klæðaburði eða einhverju sem máli skiptir.

4/12/05 11:02

Vladimir Fuckov

Frábært fjelagsrit. Því til sönnunar tókum vjer ei eftir lengd þess fyrr en að loknum lestrinum. Flestu vorum vjer sammála þarna og bendir það til að eigi teljumst vjer til tískufíkla [Fær hroll við tilhugsunina um að vera tískufíkill].

4/12/05 11:02

Ugla

Jahérna! Mér finnst gaman að kaupa mér tískuföt og síðast þegar ég fór á hárgreiðslustofu sýndi ég mynd að einhverri frægri leikkonu og sagði "get ég fengið svona klippingu" ?
Ég set líka oft á mig brúnkukrem og les alls konar tískublöð. Svo finnst mér breezer agalega góður. Mér finnst þessir þættir samt segja voða lítið um það hvernig manneskja ég er...

4/12/05 11:02

Haraldur Austmann

Ég vil fá að vera tískudrós í friði.

4/12/05 12:00

Jarmi

Ugla... jú sedd itt.

Það er ekkert að því að vera tískumella (eða hvað það er kallað)... svo lengi sem maður er samkvæmur sjálfum sér (?). Er það ekki það sem þetta gengur út á? Að vera ekki "fóní"? Ég sé ekki að þeir sem stimpla sig sem tískubolti (eða hvaða tísku- sem þú vilt) séu neitt falskari en hver annar... svo lengi sem þeir halda sig við það að vera akkúrat það...

Æji, ég nenni ekki að röfla um þetta, en ég vil þó bæta við einu sem ég hef gleymt hingað til...

Frábærlega vel skrifað rit! Þúsund lófatök og tíu sjússar!

4/12/05 12:00

Anna Panna

Frábært rit Tina! [stendur upp og klappar og blístrar og öskrar sig hása, ef félagsritið væri lag myndi ég syngja með og slamma tekíla á meðan] Og frábær komment Ugla og Jarmi [blístrar á þau líka]

Annars verð ég að fá að segja í sambandi við þetta eitís dæmi; tískan er búin að gera þessi mistök, af hverju þarf að gera þau aftur? Það eru heilu og hálfu kynslóðirnar sem þora varla að fletta myndaalbúmum frá áttatíuogeitthvað vegna þess að það tekur tvo daga að losna við hrollinn sem fylgir í kjölfarið...

4/12/05 12:00

Jóakim Aðalönd

Ugla: Mwahahahahahaha! Grunaði ekki Gvend skrítna...

Þetta segir í raun ekkert um hvernig manneskja þú ert, nema að þú ert tízkufíkill og grunnhyggin.

4/12/05 12:00

Skabbi skrumari

Jei... eitís að koma aftur... frábært félagsrit...

4/12/05 12:01

albin

líklega eitt lengsta rit sem ég hef nennt að lesa í gegn. Skemtilegt rit.
Ég sé þetta fyrir mér sem fræðigrein í vísindaakademíuni um tegundina.

4/12/05 12:01

Ugla

Hvernig færðu það út að ég sé grunnhyggin Jóakim?
Ertu þá að ganga út frá því að þessir hlutir sem ég minntist á séu það sem skiptir mig mestu máli í lífinu?
Þú þekkir mig ekkert og ert eflaust upplýstari en svo að þú dæmir fólk af útlitinu, eða hvað?

4/12/05 12:01

Hakuchi

[Píanótónlistin þagnar. Gestir flýja óttaslegnir undir borð og bak við stóla]

4/12/05 12:02

albin

[Hóstar kæfðum hósta og ræskir sig varlega]

4/12/05 12:02

Jóakim Aðalönd

Er hugtakið ,,kaldhæðni" þekkt hjá ykkur? Ég hefði átt að setja síðasta svar í gæsalappir svo ekkert misskildist.

Kæra Ugla:
Málið er að sumir eru nefnilega svo miklir gagntízkusinnar að þeir fylgjast með tízkunni gagngert til að kaupa ekkert sem er í tízku eða gera neitt sem er í tízku hverju sinni. Mér sýnist á öllu að sumir hérna séu einmitt þannig og er það í raun ekkert betra en að eltast stöðugt við tízkuna. Ég geri fátt sem er í tízku, en er í raun alveg sama þó sumt af því sem ég kaupi eða geri sé í tízku. Ég er einfaldlega ekkert að spekúlera í því sem aðrir gera. Ég geri það sem hentar MÉR hverju sinni; ekki öðrum.

Það, að þú gerir stundum hluti sem eru í tízku segir að sjálfsögðu ekkert um þína persónu. Ég var í raun að snúa félaxritinu upp á sjálft sig, því þó það sé ekki sagt berum orðum, sýnist mér að Tina líti niður á þá sem fylgja tízkunni og það er ekkert skárra en að líta niður á þá sem fylgja ekki tízkunni. Við erum jú bara manneskjur, nema ég. Ég er önd.

Við vitum víst fátt um hvort annað Ugla mín, en þú veist alla vega núna að ég er kaldhæðinn hrekkjalómur og ætti ekki að taka alvarlega nokkurn tímann. Ég veit líka að það er aðeins hægt að fá viðbrögð frá þér og það finnst mér gaman, enda gráglettin hrekkjaönd.

Með sátt og virðingu, Jóakim í Mexíkó

4/12/05 12:02

Ugla

[pakkar niður sveðjunni og setur hnífinn í hulstrið] Ekkert mál Jóakim minn. Ég er nokkuð sammála þér í þetta skipti.

4/12/05 12:02

Ugla

[makar á sig meira brúnkukremi og blandar bleikan drykk með regnhlíf]

4/12/05 13:00

Jenna Djamm

Þú ert rosa vel að þér í tískustraumum Tina St.Sebastian.
Hvaða blöð lestu?

4/12/05 13:01

Ned Kelly

Þessi pistill er byggður á fordómum og þeirri alhæfingu að við sem reynum að tolla í tískunni, séum heimskari en þær konur sem ekki nenna að raka á sér lappirnar. Þessi pistill er bull.

4/12/05 13:01

Skoffín

Og hvaða kona hér inni nennir ekki að raka á sér lappirnar? Og hvaða manneskja hugsar ekki á einhverjum tímapunkti um það sem hann eða hún klæðist í því skyni að þóknast umhverfinu frekar en eigin þörfum? Þessum pistli er ekki ætlað að rakka niður alla þá sem nokkurn tímann á ævinni hafa látið sjá sig á ljósastofu, heldur vekja til umhugsunar um þá yfirgengilegu grunnhyggni og blábjánahátt sem alls staðar blasir við samfélaginu. Þyngdarþráhyggjan er gott dæmi um þetta; það þykir forsíðuefni í áðurnefndu menningarblaði Séðu og heyrðu að Idolstjarnan hafi verið "búgtaður" sem barn, sem er þá undirstrikað í flennistórri fyrirsögn með tilheyrandi sjokk-áhrifum. Satt að segja fæ ég stundum knýjandi löngun til að stilla mér upp fyrir framan höfðuðstöðvar slíkra blaða með risastórt skilti með áletrun á borð við "MÉR ER F**K SAMA!". Fullyrðingar um hegðunarmynstur stereótýpa og að "allir" geri þetta og hitt geta vitanlega aldrei staðist fullkomlega en varpa þó ljósi á t.d. vissan hugsunarhátt og pælinguna á bak við lífsstíl frekar en lífsstílinn sjálfan í raun.

4/12/05 13:01

Ned Kelly

Og hvað kemur ykkur það við þótt einhver kjósi að klæða sig til að þóknast umhverfinu? Bifvélavirkjar gera það t.d. við vinnu sína. Læknar líka.
Hvaða kona hér inni nennir ekki að raka á sér lappirnar? Það hef ég ekki hugmynd um en ef þú ert svona bókstafstrúar að þú skiljir ekki líkingamál, verður þú að díla við það sjálf.

4/12/05 13:01

Tina St.Sebastian

Það var ekki meining mín að móðga nokkurn. Það er bara bónus. Aftur á móti spannst þessi pistlingur út frá einfaldri pælingu; Af hverju fólk tekur allt í einu upp á því að ganga í einhverju sem það hefði ekki litið við áður fyrr, bara vegna þess að allir eru í því sama. Ef þú hefur alltaf verið gasalega hrifin af gylltu leðri, af hverju datt þér ekki í hug að nota það fyrr? Eða varstu kannske bara að fatta núna að það væri til?

4/12/05 13:01

Hakuchi

Þú ert viskupungur Jóakim minn.

4/12/05 13:01

Heiðglyrnir

Jamm..Jóakim heiðursönd hafði þetta...

4/12/05 13:02

Jóakim Aðalönd

Ég er í tízku núna. Híhíhí.

Alltaf gaman að vekja umræður.

E.S.
Læknar og bifvélavirkjar ganga um í hlífðarfötum til að hlífa þeirra eigin fatnaði. Læknar ganga t.d. ekki í hvítum sloppum af því að það er í tízku. Það eru hreinlætisástæður þar að baki.

4/12/05 14:01

Gaz

Allgert snilldar-rit. *skál*

4/12/05 14:01

Dexxa

Ég þekki eitt stykki svona tískufrík.. og ég kenni Sex and the City þættinum um.. Ég er ánægð með að tískan leifir mér að vera í þeim fötum sem MÉR finnst flott.. enda skilst mér að tískan í dag snúist um manns eigið hugmyndaflug og hvað manni sjálfum finnst flott...

4/12/05 16:00

Jóakim Aðalönd

Það er ekki hægt að kenna þættinum um nokkurn skapaðan hlut. Það er á ábyrgð þeirra sem horfa á að hafa vit á að huxa sjálfstætt. Það er t.d. ekki hægt að kenna ofbeldisþáttum um að fólk fari út á götu og drepi hvert annað. Það er líka á ábyrgð foreldra að gæta þess að börnin sín horfi ekki á óhugnanlegar myndir í sjónvarpinu, m.ö.o. að gæta sakleysis þeirra.

Ég reyndi einu sinni að horfa á Sex and the City og mér tókst það ekki. Ég hef sjaldan horft á ófyndnara og óskemmtilegra sjónvarpsefni.

Skál!

4/12/05 16:01

Haraldur Austmann

Mér finnst ótrúlegt að einhver skuli nenna að pæla í hvernig einhver sé klæddur til þess eins að geta flokkað hann sem tískufrík. Mín vegna má fólk elta tískuna, það má reyna að forðast hana eða bara láta sem hún sé ekki til. Þetta er nefnilega ekki mjög stór eining í mælikvarða mannlífsins.

4/12/05 16:01

Jóakim Aðalönd

Vel að orði komist herra Austmann.

4/12/05 16:02

Limbri

Vel skrifað rit og skemtilegt.

Að berjast við tískustrauma sí og heilagt er nokkuð sem margir mér betri menn hafa lagt á sig og þótt misgóðir fyrir. Hef ég stundum reynt að leika það eftir og er skemst frá því að segja að það hefur sjaldnar tekist en hitt. Held ég því að þeir sem leggja þessa listgrein fyrir sig hljóti að eiga skilið broskall í kladdann og jafnvel klapp á kollinn (þó án þess að rándýr hárgreiðslan hljóti skaða af).

Svo er það hitt að auðvitað er í óefni komið þegar venjulegt fólk er farið að klæðast einhverju sem því jafnvel finnst ekki flott eingöngu vegna þess að einhver pungsmár Ítali sagði í frönsku blaði að það væri eins móðins og hlutirnir gerast að ganga í flíkinni. Slíkt leiðir af sér óhamingju á vissu stigi sem að mínu mati vegur ekki upp á móti hamingjunni sem felst í því að vera hlýðin sauður í hjörð tískukinda.

Þegar allt kemur til alls held ég að við verðum að lofa tísku-hermunum að njóta vafans og við skulum fara varlega í að stimpla fólk eftir klæðnaði þess eða útliti. Fegurðin kemur að innan sagði vitur maður eitt sinn og er ekki svo galið að fylgja þeirri heimspeki.

Reynum því að fagna því að í flóru samfélaxins skulu vera allar mögulegar sortir mannfólks, bæði þeir sem elta blöðin frá Mílanó jafnt sem þeir sem elta nefið á sjálfum sér.

-

4/12/05 16:02

Ugla

Fata og hártísku finnst mér nú saklaust að elta upp að vissu marki en verra finnst mér með sílikon og fitusogs "tískuna".
Þegar fólk leggst undir hnífinn með glöðu geði til að vera í tísku, þá finnst mér þetta ekki fyndið lengur.

4/12/05 17:00

Brauðfótur

Það er í tísku að vera á móti tískunni.

Tina St.Sebastian:
  • Fæðing hér: 12/1/05 17:54
  • Síðast á ferli: 18/12/16 21:15
  • Innlegg: 7042
Eðli:
Slettir ensku miskunnarlaust, sem og dönsku, latínu, hindí og heimatilbúnum tungumálum. Mun aldrei framar setjast á hækjur sér, af siðferðilegum orsökum. Vill láta banna krumpuð leðurstígvél.
Fræðasvið:
Rit Davíðs Þórs Jónssonar. Breskir uppistandarar. Eldamennska. Málvillur í útvarpi. Sósíalkommúnismi í Íslenskum framhaldsskólum, einkum í úthverfum Reykjavíkur.
Æviágrip:
Fæddist í útihúsi í Betlehem í Virginíufylki Bandaríkjanna um miðbik síðari heimsstyrjaldar. Dóttir hjónanna Victoriu Mooseport (húsmóður) og Don Corleone (heiðvirðs kaupsýslumanns). Strauk að heiman um sjö ára aldur til að ganga í herinn, en var hafnað sökum kynferðislegrar brenglunar. Tók þá upp nafnið Tina St.Sebastian, og tókst með klókindum, undirförli og lauslæti að komast í Frímúrararegluna, Lionsklúbbinn Rex og Kvenfélag Strandasýslu. Lítið er vitað um ferðir hennar síðustu áratugi. Síðast var hún með fasta búsetu skráða Í Dallas, Texas, en flutti þaðan snögglega í nóvember 1963. Vitað er að hún heimsótti New York borg árið 1980, að sögn talsmanns til að "heimsækja fyrrverandi Bítil," en engar nánari upplýsingar hafa fengist um þá heimsókn. Vitni þykjast hafa séð hana við opnun Þjóðminjasafnsins, en þær sögur eru -enn sem komið er- óstaðfestar.

--

Vígð prestur frá Universal Life Church í nóvember 2006