— GESTAPÓ —
Í uppáhaldi:
Félagsrit:
Tina St.Sebastian
Heiðursgestur.
Pistlingur - 1/12/05
Áróður

Þennan pistling reit ég miðvikudaginn sjötta mars árið tvöþúsundogtvö. Ég rakst svo á hann í afturliti-skástrik-tiltekt núna áðan og ákvað að endurbirta hann þar sem ég er enn á sömu skoðun, sem gerist ekki oft. (Þ.e.a.s. að ég sé ekki búin að skipta um skoðun eftir næstum fjögur ár) Eina breytingin sem hefur átt sér stað er sú að ég hef tekið upp neyzlu nikótíns (eins og flestir góðir rithöfundar).

Tónlist xxxRottweilerhunda er eitt leiðinlegasta afþreyingarefni sem ég veit. En mér finnst það samt ekki réttlætanlegt að banna þá, eða myndböndin þeirra. Eins reyki ég ekki, en finnst samt fráleitt að banna öðru fólki að gera það. Ég neyti ekki vímuefna, utan áfengis, en ekki skipti ég mér af því þó aðrir kjósi að gera það. Ég er ekki trúuð, en margir vinir mínir eru það, ég reyni ekki að fá þá til að afneita kirkjunni, þeir mega haga lífi sínu eins og þeir vilja. Mér finnst það einfaldlega ekki koma mér við hvað annað fólk gerir, svo fremi sem það ekki skaðar mig eða aðra.
Nú er auðvitað hægt að vera rosalega sniðugur og segja "Já, en hvað með óbeinar reykingar? Þær geta skaðað þig! Er þá ekki réttlætanlegt að banna reykingar á kaffihúsum og skemmtistöðum?" Nei, það er það ekki. Ef fólk vill ekki vera nálægt reykingamönnum, þá getur það farið á reyklausan stað. Ef lag með xxxRottweiler er spilað í útvarpinu, þá skipti ég um stöð. Ef vinur minn dregur fram jónu, þá bið ég hann vinsamlega um að reykja ekki í íbúðinni, þar sem hún er mitt yfirráðasvæði. Ef vinkonur mínar biðja mig um að koma á bænafund með sér, þá afþakka ég boðið. Einfalt mál. Eða hvað?
Nei, ég nefnilega get ekki afþakkað allt. Sumt neyðist ég til að gera. Ég er neydd til að borga skatta, sem síðan eru notaðir í að byggja kirkjur og viðhalda kristinni "ríkistrú." Þeir fara líka í að greiða laun mannanna sem banna reykingar á kaffihúsum og neita lögleiðingu vímuefna. Ég er neydd til að hlusta á endalausan áróður ríkisins um skaðsemi áfengisins og tóbaksins sem það sjálft selur og hagnast á.
Ef ríkið vill ekki að fólkið reyki og drekki, hversvegna er það þá að selja okkur þennan stórhættulega varning? Svar sem er oft gefið er "Ef áfengi og tóbak væru gerð ólögleg, myndi skapast risastór, ólöglegur markaður, eins og sannaðist á bannárunum." En þetta er það sem hefur gerst með vímuefni eins og marijuana og kókaín. Hversvegna eru þau þá ekki lögleidd, svo hægt sé að uppræta þennan markað? Þá gæti lögreglan máske farið aðð einbeita sér að einhverju merkilegra en unglingskrökkum með hass. Eins og til dæmis barnaníðingum, morðingjum og nauðgurum. En nei, það er ekki gert. Einfaldlega vegna þess að það hafa alltaf verið, og munu því miður alltaf verða, til menn sem halda að þeir viti betur en allir aðrir. En ég spyr bara eins og fávís kona í barnsnauð: Hvað ef þeim skjátlast?

   (29 af 43)  
1/12/05 16:00

Foxy

Nei

1/12/05 16:00

Jóakim Aðalönd

1/12/05 16:00

Jóakim Aðalönd

Mikið er ég svakalega sammála. Í Hollandi sem dæmi er löglegt að reykja gras og flestir ungir Hollendingar prófa það. Þetta hef ég frá þeim mörgu Hollendingum sem ég hef hitt á ferðalögum mínum. Svo þegar þetta fólk er búið að prófa að reykja gras nokkrum sinnum, hættir það bara, enda ekkert spennandi þegar þetta er löglegt. Sígarettur eru hins vegar langtum meira ávanabindandi og langtum skaðlegri. Ríkinu væri nær að selja gras úti í búð og banna tóbaksreykingar.

1/12/05 16:00

Jóakim Aðalönd

Og já, til hamingju með að vera komin í ,,Club 5K".

1/12/05 16:00

bauv

,,Ég er neydd til að borga skatta, sem síðan eru notaðir í að byggja kirkjur og viðhalda kristinni "ríkistrú." Bara benda þér skatturrinn er splundraður og fær hvert trúar félag x mikinn pening fyrir y marga trúarfélaga Ég man samt ekki hvað er gert við peningar sem heiðingar borga!

1/12/05 16:01

Tina St.Sebastian

Þeir sem ekki eru skráðir í trúfélag (geri ráð fyrir að þú eigir við okkur vesalingana þegar þú segir "heiðingjar") greiða jafnmikið og hinir, en það á víst að heita svo að þeirra skattar fari til Háskóla Íslands. Það er einmitt sá skóli sem sér um að mennta presta Þjóðkirkjunnar. Skrýtin tilviljun...

1/12/05 16:01

Anna Panna

Hva, láttu ekki svona, Rottweilerhvolparnir voru svosem ágætir!
En ég er sammála, mér finnst stjórnvöld teygja sig stundum of langt í frelsisskerðingu almennings en um leið og eitthvað kemur uppá er líka komin krafa frá ákv. hópi um að stjórnvöld geri nú eitthvað í málunum svo að það virðist vera hópur af fólki úti í samfélaginu sem vill láta hugsa svona fyrir sig og finnst það vera voða öruggt þegar það les að löggan er búin að handtaka einhvern fyrir að vera með .5 gr af tóbaksblönduðu hassi.
Mér finnst að það ætti að skipta út þessum hræðsluáróðri út fyrir eðlilega umfjöllun og fræðslu, eins og Jóakim segir þá er allt öðruvísi fílíngur í fólki þegar þetta er löglegt...

1/12/05 16:02

Hakuchi

Hefur þú íhugað framboð í formannssæti SUS?

Tina St.Sebastian:
  • Fæðing hér: 12/1/05 17:54
  • Síðast á ferli: 18/12/16 21:15
  • Innlegg: 7042
Eðli:
Slettir ensku miskunnarlaust, sem og dönsku, latínu, hindí og heimatilbúnum tungumálum. Mun aldrei framar setjast á hækjur sér, af siðferðilegum orsökum. Vill láta banna krumpuð leðurstígvél.
Fræðasvið:
Rit Davíðs Þórs Jónssonar. Breskir uppistandarar. Eldamennska. Málvillur í útvarpi. Sósíalkommúnismi í Íslenskum framhaldsskólum, einkum í úthverfum Reykjavíkur.
Æviágrip:
Fæddist í útihúsi í Betlehem í Virginíufylki Bandaríkjanna um miðbik síðari heimsstyrjaldar. Dóttir hjónanna Victoriu Mooseport (húsmóður) og Don Corleone (heiðvirðs kaupsýslumanns). Strauk að heiman um sjö ára aldur til að ganga í herinn, en var hafnað sökum kynferðislegrar brenglunar. Tók þá upp nafnið Tina St.Sebastian, og tókst með klókindum, undirförli og lauslæti að komast í Frímúrararegluna, Lionsklúbbinn Rex og Kvenfélag Strandasýslu. Lítið er vitað um ferðir hennar síðustu áratugi. Síðast var hún með fasta búsetu skráða Í Dallas, Texas, en flutti þaðan snögglega í nóvember 1963. Vitað er að hún heimsótti New York borg árið 1980, að sögn talsmanns til að "heimsækja fyrrverandi Bítil," en engar nánari upplýsingar hafa fengist um þá heimsókn. Vitni þykjast hafa séð hana við opnun Þjóðminjasafnsins, en þær sögur eru -enn sem komið er- óstaðfestar.

--

Vígð prestur frá Universal Life Church í nóvember 2006