— GESTAPÓ —
Í uppáhaldi:
Félagsrit:
Tina St.Sebastian
Heiðursgestur.
Saga - 2/12/04
Hróarskelda 2002

Ég held að ég hafi sjaldan skemmt mér jafn vel og á fyrstu Hróarskeldunni minni. Þeir sem eru viðkvæmir fyrir frásögnum af eiturlyfjaneyslu eru varaðir við: ekki lesa lengra. Nöfnum hefur verið breytt til að vernda saklausa...

Árið 2002 ákvað besta vinkona mín, hún Kanína, að fara á Hróa. Ég hafði svo sem ekkert betra að gera við sumarið, svo ég skellti mér bara með. Þetta var fyrsta skiptið hjá okkur báðum, hún hafði reyndar farið á Reading árið áður, en ég hafði ekki einusinni farið á Þjóðhátíð í Eyjum! Við plönuðum þetta vel, keyptum flug og aðgöngumiða hjá Exit og eyddum mörgum vikum í að hlakka til, pakka og endurpakka, kvíða fyrir, og vona að veðrið yrði sæmilegt, þar sem við höfðum heyrt frá okkur eldra og reyndara fólki að svæðið yrði að einu forarsvaði á fáeinum mínútum ef danska rigningin birtist. Tveir vinir okkar, Fúli og Rauðka, ákváðu svo að slást í hópinn, en þetta var líka fyrsta skiptið þeirra. Við gerðum samkomulag við kunningja okkar, Dóphaus, um að hann og vinir hans myndu leyfa okkur að gista í þeirra tjaldi, og héldum nú að við værum búnar að gera ráð fyrir öllu. En, eins og þeir vita best sem farið hafa á þessa frábæru tónlistarhátíð, er alltaf eitthvað sem fer úrskeiðis, sama hvað maður skipuleggur vel...
Við lentum á Kastrup seinnipart þriðjudags og komumst skakkfallalaust með lestinni til Hovedbane, þar sem ætlunin var að hitta Dóphaus og vini hans. Eftir stutta leit fundust þau, og við héldum með allt okkar hafurtask til Hróarskeldubæjarins, og þaðan með rútu til hátíðarsvæðisins. Þegar við loksins komum þangað var orðið dimmt, og við eyddum hátt í tveimur tímum í að elta Dóphaus um svæðið að leita að "stóru, appelsínugulu tjaldi" sem átti að vera "hérna einhversstaðar." Loksins fannst tjaldið og við gátum farið að sofa.
Næsta dag var ákveðið að skreppa til Kaupmannahafnar aftur til að heimsækja túristastaðina, og var fríríkið fræga þar efst á lista. Einn í hópnum, Fúli, var reyndar ekkert hrifinn af þeirri hugmynd, og eyddi öllum tímanum í muldur um "dópista" og "ógeðslegt pakk," en við stelpurnar vorum yfir okkur hrifnar af öllu lífinu, hundunum og ekki síst Pusherstreet. Eins og sannir túristar keyptum við okkur formkökur (já, auðvitað var hass í þeim, en skrýtin spurning...) og ég og Kanína skelltum í okkur einni köku hvor, en Rauðka, sem reyndar var óreyndust okkar, var svo sniðug að fá sér tvær heilar kökur. Ég veit, við hefðum átt að stoppa hana, en við vorum of uppteknar af því að dást að hundum á stærð við hesta, og reyna að blokka út nöldrið í Fúla, sem nú hafði breyst í "Segi nú bara eins og The Hives: Hate to say I told you so!" Eftir langan skoðunar- og innkaupaleiðangur var ákveðið að snúa til baka, og var ætlunin að hafa viðkomu í Kwickly í Hróarskeldubænum til að endurnýja vistirnar.
Í lestinni fóru formkökurnar að hafa áhrif...
Kanína, verandi minnst freðin, reyndi að tala við Fúla, sem var of fúll til að svara með öðru en tilvitnunum í The Hives.
Rauðka starði út um gluggann með frosið bros á andlitinu og raðaði í sig beikonsnakki sem hún hafði nokkrum mínútum áður dæmt óhæft til neyslu.
Ég ákvað að það væri sniðugt að líta ekki út fyrir að vera útúrfreðin, og fann einhvernveginn út að besta leiðin væri einfaldlega að líta ekki út eins og Rauðka, þannig að ég bjó til áætlun... númer eitt: muna að blikka. Númer tvö: muna að hreyfa höfuðið. Til að muna þetta alltsaman ákvað ég svo að best væri að blikka og hreyfa höfuðið í annað hvert skipti sem ég andaði út. Góð áætlun,ekki satt? Vandamálið er bara það að minnið er ekki upp á sitt besta þegar maður er undir áhrifum THC, svo ég mundi ekki hvort ég var búin að hreyfa höfuðið og blikka, og endaði á því að ofanda, blikka nánast stöðugt, og sveifla hausnum til og frá eins og flogaveikisjúklingur. Einhversstaðar á leiðinni komst maginn í Rauðka svo að því að tvær hasskökur + vont beikonsnakk = slæm hugmynd, og hún hljóp inn á lestarsalernið til að kasta upp...í vaskinn. (Boðskapur: Ekki fá þér tvær, ein er alveg nóg!)
Þegar við komum loks til bæjarins var ákveðið að Kanína fylgdi Rauðku upp á tjaldstæði og ég myndi elta Fúla í Kvickly til að hjálpa til við bjór- og matarburðinn. Þegar þarna var komið sögu var skapið í Fúla komið í Code Red og ég var orðin frekar slöpp. Einhvernveginn endaði það þannig að ég stakk Fúla af til að leita að klósetti, og álpaðist upp á aðra hæð í versluninni, þar sem einhverskonar kaffitería er staðsett, og fann þar almenningsklósett. Eftir langa bið og bank á báshurðir var ég orðin sannfærð um að enginn væri þarna inni, þrátt fyrir að allir básarnir væru læstir, svo ég kíkti undir hurðirnar, og viti menn, engar lappir! Ég gat ekki opnað dyrnar að básunum, svo ég fór út aftur í leit að öðru klósetti. Eftir langt rölt fann ég lítinn pöbb þar sem salernið var í anddyrinu, og ég laumaði mér þar inn, og ældi og ældi og ældi og ældi...og ældi svo meira áður en ég fór fram og keypti mér fokdýrt vatn. Eftir þetta var ég mun hressari, en reyndar enn freðin, svo ég skokkaði upp að lestarstöðinni til að bíða eftir Fúla. Þar rakst ég á tvær stelpur sem ég kannaðist aðeins við, og spjallaði við þær í smástund þar til Fúli birtist. (Önnur stelpan sagði mér seinna að ég hefði verið að tala um himininn; "þú veist hvernig allir litir eru svona mismunandi bláir og svo er einn sem er blárri..." og tímann; "æi, þetta er svona eins og tíminn líði ekkert, og svo líður hann allt í einu geðveikt hratt").
Þegar Fúli mætti á staðinn hófumst við svo handa að leita að rútunni sem við áttum að taka uppeftir. Þarna héngu skilti á öllum veggjum, vendilega merkt með örvum og orðinu "BUS" en einhvernveginn tókst okkur samt að villast. Fúli dró mig að strætóskilti og þar biðum við eftir strætó merktum "Camping East." Eftir nokkurra mínútna bið kom hann aðvífandi...og ók framhjá. Fúli öskraði á eftir honum, hoppandi af reiði, og við fórum að leita að annarri stoppistöð. Auðvitað var ekki hægt að hlusta á mig þegar ég benti vini mínum á hóp fólks sem stóð í röð á stóru plani, og hann vildi ekki spyrja til vegar, svo við enduðum aftur á sama stað. "Kannske hefur vagninn bara verið fullsetinn...mér sýndist það." Ég var ekki í neinu ástandi til að dæma um það hvort vagninn var fullur, tómur, eða hvort það hefði yfirleitt verið einhver vagn, en hélt samt áfram að benda Fúla á sístækkandi hópinn á planinu. Loksins tók Fúli eftir því að vagninn sem við vorum að bíða eftir stoppaði hjá fólksfjöldanum, og við ætluðum að hlaupa til, en misstum af gula ferlíkinu, og þurftum því að bíða eina umferð enn. (Boðskapur #1: Ekki fá þér eina, slepptu þessu bara! Boðskapur #2: Meira að segja freðið fólk hefur stundum rétt fyrir sér!)
Eftir langa og pirrandi ferð í strætó komumst við á svæðið, og tókst í þetta skipti að finna tjaldið án vandræða. Rauðka var sofandi, Kanína líka, og Dóphaus og vinir hans höfðu horfið á dularfullan hátt. Restin af deginum (það var svosem ekki mikið eftir) var hálf-ónýt, og ég ákvað að leggja mig.
Nú er best að ég útskýri hvernig svefnplássi var úthlutað. Við vorum sumsé með eitt stórt appelsínugult tjald, og í því vorum við Kanína, ásamt Dóphaus og vinum hans, þeim TinTin og Dópstelpu, og eitt lítið tjald sem Rauðka og Fúli sváfu í. Ég skreið inn í appelsínugula tjaldið, ofan í svefnpokann minn, sem var við hliðina á hrjótandi Kanínu, og datt út um leið. Svo vakna ég, skynja að það er orðið dimmt, og heyri að fortjaldið er fullt af fólki að syngja "Kúkur í lauginni." Ég drattast fram og hjálpa þeim að muna hverjir sungu þetta ágæta lag, og fer svo að leita að Kanínu. Hún finnst hvergi, og litla tjaldið er tómt (þ.e.a.s. það var ekkert fólk í því, en fullt af fötum og mat) svo ég reyni að spyrja Dóphaus og vini hans, en þeir voru of freðnir til að skilja um hvað ég var að tala. Þarna var ég orðin pirruð og farin að skilja Fúla örlítið...það er ekkert gaman að umgangast freðið fólk nema maður sé það sjálfur...
Ég rölti um svæðið og keypti mér snakk og Squash, skoðaði fólkið og reyndi að láta mér detta eitthvað skemmtilegt í hug. Ég fann ekkert svo ég rölti aftur upp í tjaldið, sem var sem betur fer orðið hljótt, og las þar til tjaldlugtin dó. Ég sofnaði rétt áður en restin af fólkinu ákvað að fara að sofa, sem auðvitað vakti mig, þar sem ég var í miðju tjaldinu og tvær manneskjur þurftu að klifra yfir mig til að ná í svefnpokana sína. Ég sofnaði þó fljótt aftur.
Eitt það skrýtna við Hróarskeldu er hvað maður vaknar snemma. Á fimmtudeginum vöknuðum við um níuleytið, sem var hæfilegt,þar sem við ætluðum í Tívolí, og vildum vera komin aftur áður en hátíðin yrði sett opinberlega. Reyndar var ekkert sem okkur langaði sérstaklega að sjá, utan Fúla sem var yfir sig spenntur yfir Chemical Brothers. Auðvitað höfðum við ekki lyst á matnum sem keyptur hafði verið daginn áður, svo við röltum um og fengum okkur pizzu, áður en við lögðum af stað með rútunni.
Við komumst loks til Kaupmannahafnar, og eftir langt nöldur um verðið á Tívolímiðunum ("Þetta er næstum jafndýrt og heima!") héldum við inn í þennan ævintýraheim.
Þetta var fyrsta Tívolíheimsókn okkar, og við ætluðum sko að fara í öll tækin, sem við og gerðum, þó ég hafi reyndar ælt yfir sjálfa mig í síðasta tækinu (þakka þér fyrir, ódýri bjór sem fæst ALLSSTAÐAR!). Töfrateppið var rétt að stöðvast, og ég hefði sloppið, hefði öryggisgrindin opnast svosem eins og fjórum sekúndum fyrr. Hún opnaðist hins vegar ekki fyrr en skaðinn var skeður, svo næsta verkefni var að finna nýjar buxur handa mér. Við fórum fyrst í minjagripaverzlun, en þar fengust bara kjólar. Þar hittum við fyrir opinberan Tívolístarfsmann, sem vildi allt gera til að leysa vanda minn, hún meira að segja hringdi í óskilamuni til að forvitnast um það hvort einhver hefði gleymt buxum eða pilsi sem ég gæti fengið, en fólk greinilega er ekki nógu duglegt við að afklæðast í dönskum skemmtigörðum, svo ég þurfti að leita áfram. Loks mundi einhver eftir honum Lasse Hjörnæs, sem rekur útivistarbúðina á Hovedbane, og þar fékk ég þægilegar joggingbuxur á góðu verði. (Boðskapur: Taktu með þér aukabuxur í Tívolí!)
Ég var ekki alveg í skapi fyrir fleiri tæki, svo ég sat hjá í seinni ferðinni í Gyllta Turninn - en fyrir þá sem ekki vita, er Gyllti Turninn eitt vinsælasta tækið í Tívolí, 60 metra hár fallturn, og frá toppnum er útsýni yfir alla Kaupmannahöfn í góðu veðri. Þetta er ekki tæki fyrir lofthrædda, hjartveika eða fólk sem er nýbúið að kasta upp.
Eftir Tívolíferðina ákváðum við að rölta Strikið eins og sannir túristar, fengum okkur softæs með flöðeskúmi, og tókum svo lestina til baka til að ná upphafsatriðinu, sem þetta árið var eitthvað fyrirbæri sem hét Superheroes. Við skiluðum af okkur túristagripunum sem við höfðum sankað að okkur á Strikinu og fórum í fyrsta skipti inn á sjálft hátíðasvæðið.
Þennan fyrsta dag sáum við svosem ekki mikið af hljómsveitum, enda var það eina sem við stelpurnar vildum sjá þann daginn ekki á dagskrá fyrr en klukkan hálf ellefu, en það var þýska sveitin Rammstein. Ég hafði misst af þeim þegar þeir héldu tónleika á Íslandi, og eina ástæðan fyrir þvi að ég vildi sjá þá var svo ég gæti verið með í umræðunum, enda var Rammstein ein heitasta hljómsveitin þá. Í stuttu máli voru þetta einir bestu tónleikar sem ég nokkurn tíma farið á, veðrið var indælt, og við Kanína stóðum á fullkomnum stað, sáum bæði á sviðið og skjáina, en vorum samt nógu langt frá til að komast að bjórbásunum og á klósettin. Eftir tónleikana héldum við svo aftur í campið okkar, og sátum þar fram á nótt við gítarspil og söng, ásamt Dóphaus, TinTin og Dópstelpu og nokkrum norðmönnum sem þau höfðu kynnst. Við Kanína fórum svo að sofa en hinir sátu eftir og gerðu sitt besta til að halda fyrir okkur vöku með afskaplega fölskum söng.
Daginn eftir vöknuðum við Kanína snemma og ætluðum að rölta á klósettið, en þá kom fyrsta vandamálið í ljós; Kanína fann bara annan skóinn sinn. Eftir mikla leit fannst annar, svipaður skór, reyndar grár en ekki svartur, og við reiknuðum með að einhver hefði bara tekið skóinn í misgripum. Við fórum á salernið og síðan að matarbás þar sem mesta morgunhungrið var satt. Þegar við komum aftur upp í tjald, og Kanína ætlaði að skipta um föt kom vandamál númer tvö í ljós; buxurnar hennar voru horfnar. Við leituðum útum allt, en engar buxur fundust, svo Dóphaus var vakinn og yfirheyrður. Hann þvertók fyrir að nýju norsku vinirnir hans hefðu eitthvað að gera með dularfulla buxnahvarfið og kom með þá skýringu að Kanína hefði "gleymt þeim einhversstaðar eða eitthvað." Hún var auðvitað ekki sátt við þá skýringu, en þar sem Dóphaus mundi ekki hvað norðmennirnir hétu, vissi ekki hvar þeir höfðu tjaldað, og hafði ekki gert neinar ráðstafanir til að hitta þá aftur, var litið hægt að gera. Kanína fann sér aðrar buxur og við eyddum deginum í að tala illa um þjófótta norðmenn. (Boðskapur: Ekki bjóða hverjum sem er inn í tjaldið þitt!)
Klukkan fimm héldum við að appelsínugula sviðinu til að berja augum hina heimsfrægu metal-hljómsveit Slayer, þaðan var svo för heitið með Fúla á Alec Empire, og eftir það aftur upp í tjald. Ég ákvað að reyna að líta sæmilega út á Red Hot Chili Peppers tónleikunum, svo ég setti á mig smá augnskugga og helling af vaxi í hárið, til að halda því í skorðum. Það reyndust vera mistök, þar sem í kringum miðbik tónleikanna breyttist úðinn í alvöru danska dembu, og ódýra vaxið mitt bráðnaði og lak niður í augun á mér. Allt í einu var ég orðin blind, ekki nóg með að vaxið brenndi augun í mér, heldur voru gleraugun mín þakin móðu í þokkabót. Ég ákvað að sniðugast væri að fara í tjaldið mitt og reyna að ná mesta vaxinu úr hárinu, og vona að það stytti upp á meðan. Einhvernveginn tókst mér, hálfblindri, að þreifa mig í gegnum mannfjöldann og að mannlausu tjaldinu, en þar sem rigningin virtist ekkert vera á leiðinni að hætta, gafst ég upp á að reyna að fara aftur út til að sjá Pet Shop Boys. (Boðskapur: Ekki kaupa ódýrt vax!) Það var reyndar allt í lagi, þar sem staðsetning tjaldsins okkar bauð upp á ágætis hljómburð frá appelsínugula sviðinu, og ég náði að heyra fyrstu tvö lögin með þeim áður en Dóphaus mætti á svæðið. Hann settist inn í tjaldið hjá mér og fór að öskra. "Helvítis fokking Pet Shop Boys! Haldiði kjafti!" Loksins róaðist hann, en þá höfðu dýrabúðarpiltarnir löngu klárað settið. Ég beið eftir restinni af fólkinu, en Kanína birtist aldrei, og Fúli og Rauðka fóru beint að sofa. Þegar Dóphaus brá sér frá, sem þýddi þögn í smástund, sofnaði ég líka.
Á laugardag vaknaði ég við hliðina á Kanínu, og fékk útskýringu á ferðum hennar nóttina áður. Hún hafði verið á HIM tónleikunum, og hitt breskan strák, farið með honum upp í tjald og skemmt sér konunglega við ýmsar æfingar. Svo um nóttina ætlaði hún heim í tjaldið okkar, en fannst leiðin löng, svo hún skreið undir girðingu til að spara sér sporin. Eftir nokkrar sekúndur fattaði hún af hverju girðingin var þarna; hún var að skríða í gegnum brenninetlur! Hún ætlaði að snúa við, en þá sá hún að hún var rúmlega hálfnuð, svo hún lét sig hafa það að skríða út hinum megin og komst í tjaldið við illan leik. (Boðskapur: Girðingin er þarna af góðri ástæðu!)
Við slöppuðum af í tjaldinu fram eftir degi, þar sem veðrið var gott, og skapið ágætt líka, en það breyttist þegar Dóphaus fór á stjá. Hann sat inni í tjaldi í rólegheitum þegar hann kom auga á bjöllur á stærð við litlafingursnögl, sem voru á heilsubótargöngu inni í tjaldinu. Auðvitað gerði hann það sem hvaða heilbrigð manneskja hefði gert; greip skóinn minn og fór að lemja pöddurnar, öskrandi "KAKKALAKKAR! KAKKALAKKAR!" Við Kanína reyndum að útskýra að þetta væru alls ekki kakkalakkar, en hann trúði okkur ekki, heldur missti vitið endanlega þegar örlítið stærri padda rölti inn. "ÞETTA ER MÖMMUKAKKALAKKINN! HÚN EIGNAST BÖRN OG SVO ÉTA ÞAU FÖTIN YKKAR!" Við héldum ró okkar og ég náði skónum mínum aftur, en Dóphaus lét ekki segjast, heldur greip sinn eigin skó og hélt áfram að reyna að myrða aumingja "mömmukakkalakkann" sem hafði falið sig undir svefnpoka. Við Kanína ákváðum að forða okkur áður en þetta færi út í vitleysu, og héldum að því sem þá hét Gula Sviðið, til að hlýða á Mínus.
Þaðan fórum við svo á Manowar, háværustu hljómsveit heims. Kvöldið leið við bjórdrykkju og góða músík, en loks vorum við orðnar þreyttar og héldum "heim" á leið.
Þar sátu Dóphaus, TinTin og Dópstelpa ásamt nýjum skammti af norðmönnum, og rembdust við að kenna þeim íslensk dægurlög. Við fórum að sofa, og til öryggis setti ég veskið mitt í band um hálsinn og stakk því undir bolinn. Við vonuðum að þessir norðmenn þekktu sína skó frá öðrum, og ættu nóg af buxum.
En, viti menn, á sunnudaginn vöknuðum við, norðmennirnir horfnir ásamt síðasta hundraðkallinum úr veskinu mínu, og Dóphaus enn í afneitun. Kanína uppgötvaði að allt tyggjóið hennar, heilt karton í lausum pökkum, var horfið úr töskunni, og síminn hennar líka. Dóphaus hafði sem fyrr útskýringar á reiðum höndum. "Þú hefur bara eytt peningunum og gleymt því, ég man að þú keyptir þér snakk! Síminn er örugglega í töskunni! Þú hefur bara gefið einhverjum tyggjóið!" Svona hélt hann áfram þar til einhver benti honum á að hasspípan hans -forláta gripur úr gleri- væri horfin líka. Þá kvað við annan tón. "HVER KOM MEÐ ÞETTA HELVÍTIS ÞJÓFAPAKK Í TJALDIÐ MITT!?" Ekki tókst honum samt að muna nöfn norðmannanna í þetta skiptið, né gat hann heldur vísað okkur á tjaldið þeirra, þrátt fyrir að hafa hjálpað þeim að bera bjórkassa þangað kvöldið áður. (Boðskapur: Ekki fara á Hróarskeldu með Dóphaus!)
Við ákváðum að líta á þetta sem hluta af reynslunni, og skelltum okkur í verzlunarleiðangur. Ja, Kanína verzlaði, ég fylgdist með úr hraðbankaröðinni. Um kvöldið fórum við svo á tónleika The White Stripes, og þaðan eltum við Fúla á Spiritualized, hljómsveit sem ekkert okkar hafði heyrt um nema hann. Ég ætlaði bara aðeins að kíkja á þá, og flýta mér svo á Garbage, en þetta voru einfaldlega alveg æðislegir tónleikar, og ég stóð í hálfgerðum trans á hjólastólarampinum og hlustaði allan tímann. Þegar þeir fóru af sviðinu eftir það sem virtist allt of stuttur tími, hljóp ég að appelsínugula sviðinu til að horfa á Travis. Rauðka hafði stungið af á klósettið og hún fann okkur ekki aftur, og Fúli týndist á Spiritualized, svo við Kanína stóðum þarna tvær einar og rugguðum okkur í takt við Why does it always rain on me. Þegar Travis höfðu lokið sér af vorum við hálfhugmyndalausar, svo við röltum að Græna sviðinu, þar sem einhverjir plötusnúðar, sem við höfðum aldrei heyrt minnst á, voru að trylla lýðinn með því að blanda saman ótrúlegustu tónlist, til dæmis lögunum Genie in a bottle með Christinu Aguilera og Smells like Teen Spirit með Nirvana. Þetta hljómaði ótrúlega vel, og við skemmtum okkur þarna þar til tónlistin hætti. Við héldum upp í tjald, vonandi að við hefðum ruglast á dögum, því það gat bara ekki verið rétt að hátíðin væri búin strax!
Á mánudaginn vorum við svo vaktar af vondu fólki í appelsínugulum vestum, og skipað að pakka saman, sem við gerðum í hálfgerðu svefnmóki. Við drösluðumst svo með búnaðinn alla leið yfir risastóra, ótraustvekjandi brú, og að lestinni. Þar biðum við svo í langan tíma eftir plássi, og á endanum þurftum við að sætta okkur við að standa upp á endann í troðfullum lestarvagni alla leiðina til Kaupmannahafnar.
Við eyddum síðasta deginum okkar í Danaveldi á Strikinu, fengum okkur hlaðborð á Astor Pizza, þar sem Fúli og Rauðka fóru að rífast heiftarlega. Eftir að þau sættust aftur fórum við svo á farfuglaheimilið þar sem við höfðum tryggt okkur næturstað, spiluðum foosball og hlustuðum á hroturnar í þreyttum ferðamönnum, áður en við svifum sjálf inn í draumalandið.
Daginn eftir fengum við okkur svo morgunmat, fórum í sturtu og héldum heim á leið, uppgefin, með ónýt bök og stirða hálsa, en ánægð með ferðina og ákveðin í að gera þetta að árlegum viðburði.

   (36 af 43)  
2/12/04 10:01

Hermir

Shit, ef ég hefði bara, já ef ég hefði bara...

nennt að lesa þessa langloku.

2/12/04 10:01

Ívar Sívertsen

Mér sýnist þetta vera áhugaverð langloka... skoða það í nótt!

2/12/04 10:01

Nornin

Ok.. ég las. Þetta er örugglega skemmtilegt en ég var að athuga með verðið á þessu dæmi og mér finnst 32.000 fyrir eina helgi vera ÓTRÚLEGA dýrt... er að spá í að fara ekki á þessu ári heldur... [Brestur í óstöðvandigrát yfir að vera ekki milljóner]

2/12/04 10:01

Vestfirðingur

Telst nú varla hrós en þú ert skemmtilegri en Mikki Torfa allavegana.

2/12/04 10:01

Þarfagreinir

Hrói 2005 verður sífellt meira freistandi.

2/12/04 10:01

Órækja

Eiturlyfjaneysla, taumlaus drykkja, ofbeldi, þjófnaður og klám . Já þetta sækir æskan í.

2/12/04 10:01

Tigra

Norna mín.. þetta er nú ekkert bara ein helgi. Ég var þarna á 10 daga djammi í fyrra.

2/12/04 10:01

Skabbi skrumari

Ég þorði ekki að lesa þetta vegna viðvörunar um eiturlyfjaneyslu... en örugglega frábært félagsrit...

2/12/04 10:02

Hermir

Jæja jæja, ég nennti.

Þetta hljómar svo vel að ég ætla að fara núna og tryggja mér, online, miða á Roskilde 2005. Ú JE!

2/12/04 11:01

Blíða

Hvað meinarðu með frásagnir af eiturlyfjaneyslu?! Ég horfi allavega á þetta eins og Thurgood Jenkins; „I don't do drugs, I just smoke weed!” Annars er þetta æðisleg frásögn, ég er alveg að farast mig langar svo á Hróann í ár, en er að spá í að fara á Reading í staðinn, hef aldrei komið þangað...

2/12/04 11:01

Nykur

Been there, done that, bought the t-shirt. Þetta var skemmtilega félagsrit Tina! Það sendi Nykur með hraðlest niður memory lane.

2/12/04 11:01

Heiðglyrnir

Skemmtilegt félagsrit, skrifa meira Tina. Hafðu þökk fyrir.

2/12/04 11:01

Barbie

Viðburðarík ferð þó mann grunaði í fyrstu dóphaus um þjófnaðinn. Æsispennandi lesning sem greip mann og sannaði sakleysi hausins. Helvítis norðmenn!! (Veðrast öll upp og fer að steyta hnefanum í átt að öllum í norskum ullarpeysum). Þakka kærlega fyrir innihaldsríkt og skemmtilegt félagsrit.

2/12/04 11:01

Bismark XI

Heyrir þú það Tæigra NORÐMENN ERU VONDIR.

2/12/04 13:01

Ég sjálfur

Skoða þetta þegar ég er búinn að gera ALLT annað.

2/12/04 14:02

Herbjörn Hafralóns

2400 innlegg á einum mánuði og svo þessi langloka. Gerir þú ekkert annað væna mín en að hanga á Baggalúti allan sólarhringinn?

2/12/04 17:01

Tina St.Sebastian

Nei

Tina St.Sebastian:
  • Fæðing hér: 12/1/05 17:54
  • Síðast á ferli: 18/12/16 21:15
  • Innlegg: 7042
Eðli:
Slettir ensku miskunnarlaust, sem og dönsku, latínu, hindí og heimatilbúnum tungumálum. Mun aldrei framar setjast á hækjur sér, af siðferðilegum orsökum. Vill láta banna krumpuð leðurstígvél.
Fræðasvið:
Rit Davíðs Þórs Jónssonar. Breskir uppistandarar. Eldamennska. Málvillur í útvarpi. Sósíalkommúnismi í Íslenskum framhaldsskólum, einkum í úthverfum Reykjavíkur.
Æviágrip:
Fæddist í útihúsi í Betlehem í Virginíufylki Bandaríkjanna um miðbik síðari heimsstyrjaldar. Dóttir hjónanna Victoriu Mooseport (húsmóður) og Don Corleone (heiðvirðs kaupsýslumanns). Strauk að heiman um sjö ára aldur til að ganga í herinn, en var hafnað sökum kynferðislegrar brenglunar. Tók þá upp nafnið Tina St.Sebastian, og tókst með klókindum, undirförli og lauslæti að komast í Frímúrararegluna, Lionsklúbbinn Rex og Kvenfélag Strandasýslu. Lítið er vitað um ferðir hennar síðustu áratugi. Síðast var hún með fasta búsetu skráða Í Dallas, Texas, en flutti þaðan snögglega í nóvember 1963. Vitað er að hún heimsótti New York borg árið 1980, að sögn talsmanns til að "heimsækja fyrrverandi Bítil," en engar nánari upplýsingar hafa fengist um þá heimsókn. Vitni þykjast hafa séð hana við opnun Þjóðminjasafnsins, en þær sögur eru -enn sem komið er- óstaðfestar.

--

Vígð prestur frá Universal Life Church í nóvember 2006