— GESTAPÓ —
Hexia de Trix
Heiðursgestur.
Pistlingur - 1/12/04
Berdreymi og ekki berdreymi

Mig dreymir oft fyrir daglátum. Verst að ég fatta það yfirleitt eftir á. Nú nýlega dreymdi mig draum sem ég get ekki ráðið og bíð eftir að það sem hann boðaði komi í ljós.

Frá unga aldri hefur mig dreymt undarlegustu drauma á hverri nóttu. Draumarnir eru afar litríkir og líflegir og hafa mikil áhrif á mig. Suma draumana dreymir mig oft, með örlitlum áherslubreytingum. Og sumir draumarnir eru þess eðlis að ég er friðlaus þar til mér hefur tekist að ráða í þá.

Á þessum um það bil 30 árum sem mig hefur dreymt, þá hef ég lítillega þroskast í draumskýringunum. Með þessu framhaldi ætti ég að vera orðin almennilega berdreymin upp úr sextugu eða svo. En það er önnur saga.

Helsta vandamálið við berdreymi mitt er að ég er svo "fattlaus" að sjá ekki augljósustu vísbendingarnar í draumunum fyrr en eftir á. Sem var reyndar alveg ágætt í þeim tveim draumum þar sem klárlega var verið að vara mig við dauða tveggja manneskja sem ég þekkti.
Ég veit að það hljómar ósköp kjánalega að segjast geta ráðið draumana sína eftir á. En hafið biðlund, ég er enn að reyna að læra á táknfræði minna eigin drauma. Þetta er nefnilega ekki eins einfalt og að kaupa sér draumráðningabók. Hver um sig getur haft mismunandi draumtákn, svo ég kíki sjaldnast í slíkar bækur nema ég sé alveg komin í blindgötur með draumráðningarnar. Helst reyni ég bara að miða mig við ömmu mína sem er líka berdreymin, en hefur þónokkur ár umfram mig af reynslu. Ég hef tekið eftir því að sum táknin sem birtast henni eiga líka við um mig.

Ég veit til dæmis að vatn er fyrir erfiðleikum ef það er gruggugt eða skítugt, en fyrir góðu ef það er hreint. Þetta á við þegar mig dreymir að ég eða einhver annar er að synda í vatni eða horfa á skítuga tjörn, svo dæmi séu tekin. Mér verður alltaf um og ó þegar mig dreymir vatn, sérstaklega ef það er skítugt. Þetta er reyndar eitt af fáum draumtáknum sem ég á sameiginlegt með draumráðningabókunum.

Nýlega dreymdi mig furðulegan draum sem ég man þó ekki alveg nógu vel. Þar kom við sögu vatn, sem fyrst var hreint en varð smámsaman skítugra og reyndar var það á góðri leið að frjósa líka. Í þessu vatni (sem var reyndar eins konar sundlaug í bakgarði við ímyndað hús) syntu einhverskonar vatnaverur í mannsmynd. Ein þeirra var barn, og mér fannst í upphafi draumsins að barnið væri drukknað. Saman við þetta allt fléttaðist að ógn væri yfir, óveður eða hreinlega illska. Hugsanlega gosmökkur eða einhver "vond ský" af öðrum toga. Í þokkabót fannst mér að yngri dóttir mín væri í mikilli hættu. Síðar í draumnum var ljóst að vatnaverurnar voru allar dauðadæmdar, nema þessi yngsta því hún var nógu lítil til að geta synt eftir einhverskonar þró sem lá undir húsið, og komast í skjól þar hinum megin í pínulítilli tjörn. Að þessu loknu fór draumurinn að verða enn furðulegri og tek ég ekkert mark á því sem þar gerðist, enda dreymdi mig meðal annars að ég væri á klósettinu og það þýðir bara eitt í mínum draumtáknum: Að nú sé kominn tími til að vakna og fara að pissa!

Vatnaverurnar sækja samt á huga minn. Mér finnst að einhver hafi verið að reyna að segja mér eitthvað með þessum draumi. Mig hefur aldrei áður dreymt vatn frjósa, svo ég veit ekki alveg hvað það á að fyrirstilla. Frosna vatnið gæti þó bara hafa verið til áherslu varðandi ógnina sem vofði yfir.

Ég held að það eina sem ég get gert nú er að bíða og sjá hvað gerist á næstu dögum. Draumurinn sækir ekki eins mikið á mig og sumir aðrir draumar, þannig að hugsanlega þýðir hann ekkert sérstakt. En helvítis vatnið hræðir mig...

   (26 af 32)  
1/12/04 09:01

Limbri

Ég trúi yfirleitt ekki á margt "yfirnáttúrulegt" en ég trúi á berdreymi. Móðir mín var orðin þokkalega nákvæm í sínum draumaráðningum um fertugt. Hún reyndar dreymir ekki oft fyrir hlutum, máske 2-4 sinnum í mánuði. En engu að síður rætist yfirleitt alltaf það sem hún segir. Annað er að hún segir alls ekki frá öllu sem hún dreymir fyrir. Dauði nákominna lætur hún ekki uppi. Dauði fólks sem hún þekkir lítið sem ekkert segir hún engöngu fólki sem einnig þekkir viðkomandi lítið. Ég man ekki eftir að móðir mín hafi haft rangt fyrir sér með kyn ófæddra barna, einnig hefur hún alltaf haft rétt fyrir sér með tvíbura, jafnvel áður en þungun hefur verið gerð opinber.

En hvað viðkemur að ráða í drauminn þinn... tjah, ég veit bara að í mínu tilviki dreymir mig frost yfirleitt þegar það er kalt í herberginu sem ég er sofandi í. Svo ekki er það mikil hjálp.

-

1/12/04 09:01

Skabbi skrumari

Áhugavert, stundum finnst mér sem ég sé berdreyminn... en hef alldrei neitt til að styðjast við...
Frost er nokkurskonar kyrrstaða er það ekki, annað hvort mun þá þetta sem þú ert að dreyma fyrir, frestast eða verða langvinnt, mér dettur ekkert annað í hug... segi bara, gangi þér vel að fatta þetta, ef þetta er eitthvað illt, þá er ekkert betra að vita það fyrirfram...

1/12/04 09:01

Heiðglyrnir

Já þetta er barasta ekkert grín, ég er til dæmis svo berdreyminn að konur hafa hreinlega reynt að kenna mér börn fyrir vikið, fyrr má nú vera berdreymnin.
Til skamms tíma þegar mest að þessu kvað, var ekki um annað að ræða en sofa hreinlega gúmmívarinn í bak og fyrir, nei það er sko ekkert grín. (bara grín)

1/12/04 09:01

Ívar Sívertsen

Ég er enginn gúmm-ívar!

1/12/04 09:01

Ívar Sívertsen

Ætli þetta sé ekki bara fyrir jóla-Visa-Reikningunm þetta með skítuga vatnið... og að þú þurfir að setja greiðsludreifingu á hann og það sé frostið... En ég hef aldrei getað ráðið drauma og við skulum vona að þetta sé málið.

1/12/04 09:02

Nornin

Merkileg lesning Hexía.
Ég er sjálf svo ótrúlega vonlaus í að ráða mína eigin drauma að ég reyni ekki einu sinni. Enda eru mínir einstaklega óspennandi... svona oftast nær.
Vatnaverur eru yfirleitt fyrir slæmu samt. Eins og hafmeyjur og marbendlar sem synda umhverfis mann í draumi tákna yfirleitt erfiðleika. Þannig að kannski er dauði þessara vatnavera ekki fyrir slæmu afþví að þær voru dauðvona.
Svona mínus og mínus gera plús, vatnaverur+frosið/gruggugt vatn= ekki svo slæmt.
Annars er til lítils að spyrja mig... ég spái bara í bolla...

1/12/04 09:02

litlanorn

úff, þetta er merkilegur draumur. ég vona að það verði allt í lagi hjá þér.

1/12/04 09:02

Heiðglyrnir

Gúmm-Ívarinn Muhahahah

1/12/04 10:00

Skarlotta

Merkilegur draumur þetta. Ég get nú því miður lítið ráðið í mína eigin drauma svo ég reyni nú ekki að ráða í þína.
Móðir mín er mjög berdreymin og hefur hana dreymt fyrir hinum ýmsu hlutum eins og t.d sjö slysum sem bróðir minn lenti í og þegar það kviknaði í húsinu hennar en hún fattaði það alltaf eftir á svo það er mjög erfitt að ráða í alla þessa drauma.

1/12/04 10:01

Lómagnúpur

Þessi draumur er klárlega fyrir miklum og góðum þorramat í ár.

1/12/04 10:01

B. Ewing

Fyrst verið er að tala um drauma þá dreymdi mig um eldgos á Bláfjallasvæðinu fyrir fjöldamörgum árum. Margsinnis hef ég síðan fengið samskonar spádóma og draumfarir frá öðru fólki og oft í óspurðum fréttum. reyndar hafa þessir spádómar færst nær og nær Reykjaneshluta Bláfjallanna með árunum. (Einhverjar skipulagsbreytingar hjá Móður Náttúru vegna umhverfisáhrifa líklegast)

Ég bíð bara spenntur með kíkinn og horfi til suðsausturs frá Reykjavík. Þetta kemur...

1/12/04 10:01

Hexia de Trix

Já mig hefur reyndar líka oft dreymt einhverjar hamfarir í kringum Bláfjöllin. Mig minnir samt að það hafi verið farþegaflugvél sem hrapaði...

1/12/04 10:01

Hakuchi

Heyrið mig. Mig dreymdi líka eldgos í Bláfjöllum. Ansi flottar hamfarir. Reykjavík sökk í sæ.

1/12/04 10:01

Tigra

Þessi draumur er frekar ógnvænlegur.. en ég skil samt ekki alveg hvað hann þýðir.
Ég er eins og þið.. á oft í erfiðleikum með að ráða í mína drauma en skil þó yfirleitt hvort þeir eru jákvæðir eða neikvæðir.

Annars vil ég koma því á framfæri að marga íslendinga hefur dreymt eldgos í Bláfjöllum eða þar á svæðinu.. en það eru spádómar um miklar hamfarir sem munu að öllum líkindum hefjast þar.
Spádómarnir eru mis hræðilegir en ég hef lesið allt upp í þvílíkar hamfarir að Hafnafjörður lendi á kafi í hrauni og miðborg Reykjavíkur fari á kaf, t.d. verði öskjuhlíðin eyja. Þá mun mest öll byggð flytjast upp í Mosfellsdal minnir mig.
Einnig á Reykjanesskaginn að rifna af.
Þetta mun þó að öllum líkindum ekki gerast fyrr en um 2020 ef ég man rétt.

1/12/04 10:01

Hexia de Trix

Nújæja, ég hef þá um það bil 15 ár til að flytja mig af Stór-Hafnarfjarðarsvæðinu.

1/12/04 10:01

Tigra

Já ég myndi byrja að pakka.

Hexia de Trix:
  • Fæðing hér: 9/11/04 23:04
  • Síðast á ferli: 22/2/23 12:33
  • Innlegg: 5327
Eðli:
Prakkaranorn
Fræðasvið:
Galdrar, töfrar, hrekkir, tvíræðni, bókasafns- og upplýsingafræði.
Æviágrip:
Missti stjórn á sjálfri sér þegar hún var stödd í Undirheimum fyrir nokkru og náði happapeningnum þegar Frelli lagði gildru. Er nú stoltur eigandi happapeningsins, en man ekki lengur hvað hún ætlaði að gera við hann.