— GESTAPÓ —
Kífinn
Heiðursgestur.
Gagnrýni - 2/12/10
Baldur

Skálmöld, hin nýja og framumfleygjandi þungarokkssveit sem sameinar það er flesta Gestapóa lystir í; íslenska bragfræði og texta sem skilst flestum þenkjandi mönnum, hefur gefið í vígahug út harmsárt verk.

Þessi diskur er öskrandi snilld og þá er þungbylgja tónar heilla ekki ætti alla vega að fýsa í sögu Baldurs. Hér samtvinnast fornnorræn gildi að einherja sið en í það spinnst jafnframt örðugt hlutskipti Íslendingsins frá 13. öldinni fram á vora daga með örfáum undantekningum þó.
Drifinn af hatri skal hann hefna í heiðurs nafni og tel ég án snauðs snefils húmors að skilda ætti þær tómu skjóður er skipa bekki löggjafarvaldsins til hlustunar. En án þess að skemma þessa fimm stjörnu gagnrýni með jafn smásálarlegum hlutum sný ég mér aftur að umfjöllunarefni.
Listsköpun er hér í öndvegi og það sem kalla mætti mettað og þungt hetjurokk flæðir í eyru hlustandans án þess hann fái rönd við reist. Ekkert svipað verk hefur komið út í þessum geira lista sem samtvinnar jafndjúpt, skorinort og fallega þá arfleið er við erum sprottin upp úr. Flest höfum við týnt henni og þó það sé miður gefst hlustandanum kynni á að sameinast henni að nýju í einhverjum skliningi.

Án góðfúslegs leyfis höfundar vitna ég hér í þá, fyrir þá er láta ekki ginnast af rýru þvaðri mínu um meinta snillinga.

Morgunsól á miðri heiði
minningarnar sækja á.
Mikil er og römm sú reiði,
rífur sárin hatrið þá.

Eitt sinn átti fljóð að finna,
sem falleg gætti barna minna,
en núna hef ég verk að vinna,
vega, stinga, blóðga´ og flá.

Njótið hlustunar.

   (2 af 25)  
2/12/10 08:00

Grágrímur

Jább þetta er algert meistara verk.

2/12/10 08:00

Fergesji

Svo virðist, sem vér þurfum að verða oss úti um plötu þessa.

2/12/10 08:01

Ívar Sívertsen

Klárlega besta platan sem gefin hefur verið út á Íslandi í mjög mörg ár. Besta þungarokksplatan!

2/12/10 08:01

Galdrameistarinn

Nennir einhver að senda mér eintak?

2/12/10 08:01

Kífinn

Já ekki málið Galdri, en þú getur kynnt þér þá þangað til á youtube (eiginlínu) og fyrsta lagið heitir Kvaðning (sama og textabrotið er úr). En diskurinn skal keyptur af öllum sem þeirra njóta. Mennirnir eru boðaðir á eina stærstu hátíð þungarokksins (Wacken) eftir eina plötu og er það líklega fáheyrt.

2/12/10 09:00

Hugfreður

Fann "Kvaðning" í þúvarpinu, hlusta ekki mikið á svona lagað en hafða gaman af þessu, skemmtilegur og mikill sólókafli þarna, efnilegt.

2/12/10 09:01

Nermal

Það er alveg hægt að greina orðin í textanum hjá þeim. það er nú ekki alltaf þegar svona rámt er að orði kveðið. Frábærlega vel spilandi piltar.

2/12/10 09:01

Grágrímur

Þrumunnar Þór,
eitt sinn ég þér mína hollustu sór.
Þú ert mitt goð, stytta og stoð,
Heljar við styrjöldum hef ekki roð.
Gættu mín vel, hleyp ég mót Hel,
Þar leynast hættur í sérhverjum mel.
Allt getur gerst, Baldur nú berst,
verði það banamein, sáttur ég ferst.

Þetta er nýja kvöldbænin mín. Ég fæ gæsahúð bara við að lesa þetta.

2/12/10 09:02

Offari

mér skillst að þetta sé Þingeyskt rock þá er ekki von nema á góðu.

2/12/10 09:02

Billi bilaði

"En þetta er kölluð þingeysk snilld
og því er ekki um að tala."

(úr útvarpsþáttum Sveins Ásgeirssonar).

2/12/10 10:00

Huxi

Einhvernstaðar á disknum eru borin fram sléttubönd í þungarokkssósu. Verulega lystugur og ánægjuaukandi tónlistarréttur.

2/12/10 10:01

Ívar Sívertsen

MJÖG!

2/12/10 11:02

Skabbi skrumari

Snilld...

2/12/10 12:00

krossgata

... fyrir utan söngvarann, honum mætti skipta út mín vegna.

2/12/10 13:01

Kargur

Djefuls schnilld.

2/12/10 14:00

Ívar Sívertsen

Nei Krossgata, loksins skýrmæltur rymjari!

2/12/10 14:00

Grágrímur

http://www.youtube.com/watch?v=zgr1nNwhTyU

2/12/10 18:01

Sannleikurinn

Jeg er sammála herra háttvirtum Upprifni - jeg hafði aldrei heyrt um þessa plötu fyrr , og á annars dágott safn af tónlist á youtube.com síðu minni.
En þannig eru mál vexti með þá síðu , að vinsæl eins og hún er er jeg sjerlega gætinn á að hafa helst alls enga íslenska tónlist á henni eða tónlist frá eyjum eða landssvæðum sem jeg tel að ráði illa við niðurhal tónlistar á netinu.
Jeg mun verða mjer örugglega úti um eintak af þessum fallega geisladiski í næsta mánuði , sje það hægt.......
Vissi jeg ei að til væri hljómsveit með þessu nafni , og biðst jeg velvirðingar á fávisku og fávísi minni í garð þeirrar staðreyndar.
Vjer erum jú öll ófullkomin.......

2/12/10 23:01

Kífinn

Ég vil vinsamlegast Sannleikur biðja þig að eyða þessum innleggjum komi þau gagnrýni minni á Baldur Skálmaldar ekkert við.

2/12/10 23:01

Einn gamall en nettur

Er það bara ég sem verð kynferðislega æstur við að lesa þessa þrumuræðu Sannleikans?

2/12/10 23:01

Kífinn

Langt er seilst eftir liðsinni, og líðst það bagalega. Kynferðislega örvaður er ég ekki í agunablikinu nei.

2/12/10 23:01

Sannleikurinn

að sjálfsögðu Kífinn.

2/12/10 23:01

Sannleikurinn

Jeg var bara búinn að fá nóg af því hvernig þessi ruslaralýður ljet í minn garð.

2/12/10 23:01

Sannleikurinn

Hef þegar eytt skammar´spamminu´mínu eins og þjer hafið beðið mig um.

3/12/10 01:02

Vladimir Fuckov

Einhvernveginn tókst oss að komast hjá að heyra neitt af þessu meistaraverki fyrr en mjög nýlega. Afleiðing þess að vjer höfum núna heyrt þetta er hinsvegar sú að vjer neyðumst til að fara út í tónlistarlega fjárfestingu mjög fljótlega, nokkuð sem vjer gerum annars tiltölulega lítið af. Skál !

3/12/10 02:00

Kífinn

Ánægjulegt að heyra hr. forseti.
Ég verð nú að gangast við eigin vanþekkingu og biðjast velvirðingar á röngum ummælum mínum. Fyrsta lag plötunnar heitir Heima og fjallar um aðkomu Baldurs að sundurtættu búi en ekki Kvaðning, sem ég og hélt áður en ég eignaðist gripinn.

Kífinn:
  • Fæðing hér: 25/10/04 10:30
  • Síðast á ferli: 14/10/14 01:14
  • Innlegg: 1425
Eðli:
Augun blá og hárið hátt
hálsinn ofar spölum.
Nefið mikið, mittið smátt
miltað veldur kvölum.
Fræðasvið:
Af hverju litir byrja ekki á sérhljóða? Doktorsrotgerð og rannsóknarvinna styrkt af Hörpu.
Æviágrip:
Borinn bur barst bóli bjarna
bagalegur, búlduleitur.
Burtu býður bægslum barna
bjartur brýtur beisnar breytur.