— GESTAPÓ —
Kífinn
Heiðursgestur.
Saga - 2/11/08
Óþjál sambúð

Ég bað hana um ósköp fátt og vildi ekki mikið í staðinn. Sambandinu fór samt hrakandi. Það byrjaði svo sem ekki með neinum neista, enginn blossi eða aðdráttarkraftur sem knúði þetta áfram. En misskilningur minn stafaði af þeirri ranghugmynd að einhvers umburðarlyndis og skilnings gætti okkar í milli. En nei, hún hélt sínum upptekna hætti og mér stóð ekki á sama. Íbúðin var ekki það stór að við gætum hunsað hvort annað. Eldhúsið skildi hún eftir í drasli, klístur á skápum, borði, ísskápnum, leirtau um allt þó uppþvottavélin væri í stakasta lagi og duftið í hana vantaði ekki. Baðspegillinn var kámaður af hárspreyi og öðru sem ég kann ekki að nefna, niðurfall sturtunnar skartaði rauðleitum hárum hennar í massavís svo pollar mynduðust er ég sté inn og kveikti á blöndunartækjunum. Kattarsandurinn var óþrifinn og stybba farin að rísa í íbúðinni. Allt var rykugt og einn stóll brotinn, dósir uppi á borðum og blettir á flísum og parketi. Stofuborðið orðið skakkt og tættur klósettpappír á gólfum íbúðarinnar eftir köttinn hennar. Ég hafði bara verið burtu í viku og hún vissi hvenær mín var að vænta.
Ég kom heim og hvíldist en daginn eftir hittumst við og hún spurði mig hvernig hefði verið á sjónum. ,,Það var gott fiskerí og góður túr fyrir utan að ég veiktist. Hitt er annað mál að ég var ansi ósáttur þegar ég kom heim í íbúðina og sá útganginn á henni“. ,,Já“ svaraði hún, ,,Ég hélt ég ætti ekki von á þér fyrr en á morgun, svo ég hefði nú tekið fötin mín upp af stofuganginum hefði ég vitað að þú værir að koma“. Þessu næst skellti hún hvítvíni í ísskápinn og skundaði út um dyrnar.

Til að andsvara þessu dæmalausa svari nýtti ég mér möguleika risíbúðarinnar. Ég opnaði svaladyrnar sem höfðu verið settar upp áður en grenndarkynning fór fram og því engar svalir utan við þær vegna andsnúinna nágranna. Kötturinn hafði oft leikið sér í dyragættinni þegar ég loftaði út eftir reykmettað heimspekispjall og datt mér í hug að hann kynni að rasa um ráð fram. Ég kveikti mér því í nýjum tóbaksnagla og beið átekta. Svo fór að kattargreyið hrundi fram af og endasteyptist af 12 metra háu þakskyggninu þegar hann sá fugl í nærstöddu tréi og lenti á steypustétt garðsins. Út fór ég því næst og borðaði með vini mínum á flatbökusölu, gengum við svo niður í bæ og tefldum yfir tebolla en er líða tók að kveldi hélt ég heim á leið.

Við heimkomuna í íbúðina beið mín sjón: Niðurbrotin stelpa með kraminn kött í fanginu, grátandi; kæruleysið í fasi hennar horfið fyrir ekkasogum og léttleikinn liðinn tíð. Þegar hún mændi á mig með grátstafinn í kverkunum og augun eitt stórt spurningarmerki ansaði ég um hæl: ,,Hefði ég vitað að þú ætlaðir ekki að henda honum í ruslið hefði ég nú stungið honum í frysti fyrir þig. Annars var ég að borða og fláðu hann nú yfir vaskinum, ég er orðinn þreyttur á öllu þessu rusli í kringum þig“.

Hugdettan er á þessa leið: ég held ég fái mér nýjan leigjanda.

   (10 af 25)  
2/11/08 01:01

Offari

Láttu ekki svona þú ert í það minnsta laus við köttinn.

2/11/08 01:01

Húmbaba

Ég hefði nú steypt meðleigjandanum

2/11/08 01:01

Nermal

Mér finnast þetta nú ansi dramatískar hefndaraðgerðir sem lýsa gengdarlausri mannvonsku.

2/11/08 01:01

Jóakim Aðalönd

[Réttir Nermal þúsundkall]

Hérna, farðu og keyptu þér smá skammt af húmor og kaldhæðni fyrir þetta.

Góð saga Kífinn...

2/11/08 01:01

Garbo

Bráðskemmtileg saga.

2/11/08 01:02

Madam Escoffier

Þetta getur ekki verið alslæmur meðleigjandi, fyrst hún vill hafa hvítvínið sitt kalt.
Skemmtileg lesning.

2/11/08 01:02

Bleiki ostaskerinn

Þetta er gott dæmi um misbeinda ýgi.

2/11/08 02:00

Huxi

Ég er aldrey sáttur við að illa sé farið með ketti. Jafnvel ekki
í skáldsögum. Þú skalt því halda þig í hæfilegri fjarlægð, heilsu þinnar vegna.

2/11/08 02:00

Kífinn

Þakka almennt heilsuhraust viðbrögð.
Annað þykir mér verra Huxi að menn hóti mönnum og setji þar með skorður við tjáningarfrelsið sem þó er nógu naumt fyrir. Ég mun því virða beiðnina að vettugi og ímynda mér að óuppgerðar sakir við æskuna hafi hvatt þig til skrifanna.

2/11/08 02:00

Jóakim Aðalönd

,,...kauptu þér..." átti þetta að sjálfsögðu að vera.

2/11/08 02:00

Jarmi

Ekki við stúlkuna að sakast að hún var svona illa upp alin. Nær væri að hækka leiguna upp úr öllu valdi vegna hreinsunarkostnaðar sem greiðist fyrirfram. Köttinn hefðir þú getað tekið í gíslingu með þér út á bátinn. Alltaf huggulegt með skipskött um borð.

2/11/08 02:01

Huxi

Þú hefur bara gott af því að vera rasskelltur fyrir að fara svona með köttinn. Það þó að ég geri ráð fyrir að þetta sé einber skáldskapur. [Nær í hrísvöndinn]

2/11/08 02:01

Skoffín

Nei Huxi minn, hrísvendir eru fyrir amatöra. [Réttir Huxa fimmhala köttinn alræmda]

2/11/08 02:01

Jóakim Aðalönd

Er Huxi sumsé atvinnumaður í flengingum? Eitthvað sadómasó dæmi þá?

[Klórar sér í höfðinu]

2/11/08 02:01

Skoffín

Huxi atvinnumaður? Nei, það mun vera ég Jóakim kjánaönd.

2/11/08 02:01

hvurslags

"Kötturinn hafði oft leikið sér í dyragættinni þegar ég loftaði út eftir reykmettað heimspekispjall og datt mér í hug að hann kynni að rasa um ráð fram. Ég kveikti mér því í nýjum tóbaksnagla og beið átekta."

Eftir því að kötturinn færi sér að voða? Og fórstu síðan og fékkst þér pítsu í staðinn fyrir að láta vita? En hugulsamt.

"Í vaskinum fláð'ennan fjanda
í frystinn svo rétt væri að landa.
Hví ertu svo leið?
Ég átekta beið."
Já, Kífinn er kurteis að vanda.

2/11/08 02:01

Huxi

Þetta er bara hobbý hjá mér. Ég er svona áhugamaður um fornar uppeldisaðferðir.

2/11/08 02:01

Jóakim Aðalönd

Mjög forn uppeldisaðferð er að grýta óþekk börn. Það stendur í gamla testamentinu. Það er reyndar margt þar sem er skrýtið...

[Klórar sér í ressgetinu]

2/11/08 02:01

Húmbaba

Ég veit ekki hvar við fórum út af sporinu. Það má ekki einu sinni berja sín eigin börn nú til dags.

2/11/08 02:02

Kífinn

Þetta er farið að þróast út í undarleg bænakver. Annars styð ég kennaraprikið sé það notað á hendur.

2/11/08 02:02

Huxi

[Grípur í hnakkadramb og gerir sig líklegan til að hýða Kífinn]

2/11/08 03:01

Jóakim Aðalönd

Af hverju tekur þú ekki frekar í vindilinn á honum?

Kífinn:
  • Fæðing hér: 25/10/04 10:30
  • Síðast á ferli: 14/10/14 01:14
  • Innlegg: 1425
Eðli:
Augun blá og hárið hátt
hálsinn ofar spölum.
Nefið mikið, mittið smátt
miltað veldur kvölum.
Fræðasvið:
Af hverju litir byrja ekki á sérhljóða? Doktorsrotgerð og rannsóknarvinna styrkt af Hörpu.
Æviágrip:
Borinn bur barst bóli bjarna
bagalegur, búlduleitur.
Burtu býður bægslum barna
bjartur brýtur beisnar breytur.