— GESTAPÓ —
Í uppáhaldi:
Félagsrit:
Þarfagreinir
Friðargæsluliði.
Heiðursgestur og  skriffinnur.
Sálmur - 2/11/04
Sáttasálmur

Í tilefni orðasennu sem ég missti af sökum ferðalags.

Man ég göfugra Gestapó
- gleði ríkti þar meiri og ró.
Mig kalla gamlan má vel of,
en mildi samt vil ég kveða lof.

Skilst mér nú að ígrunduð orð
ávallt finni hérna laust borð.
Kórrétt ritar Vauni og vel,
að véfengja það fráleitt ég tel.

Boðskap hans þó um þræta má
þar til sýnd í við verðum blá,
hafa samt efst í huga ber
að hegða af sóma og aðgát sér.

Guðlaus og efins er ég víst,
aðra sýn þó ég lasta síst.
Ábyrgð bera jú orð mest fæst,
og eru ljót slík sem skata kæst.

Bjóða nú vil ég velkominn
Vauna, skelegga guðsmanninn.
Þrífast vel allir þankar hér
- þeirra kúgun æ blöskrar mér.

   (33 af 49)  
2/11/04 13:00

krumpa

Fallegur boðskapur hjá þér! Og spurning hvort maður reynir ekki að hafa þetta í huga næst...

2/11/04 13:00

Günther Zimmermann

Vel er kveðið.

2/11/04 13:00

Litla Laufblaðið

Allir gestapóarnir í skóginum eiga að vera vinir, og enginn gestapói skal éta annan gestapóa. Nema sumir. Ég sakna hins göfuga Gestapó.

2/11/04 13:00

Offari

Æ ég held að ég hafi gleymt að bjóða Vauna velkominn í öllum látununm.
Takk fyrir.

2/11/04 13:00

Sæmi Fróði

Vel ort og góður boðskapur, Þarfi minn.

2/11/04 13:00

Nafni

Tja... helvíti er þetta fínt hjá þér.

2/11/04 13:01

albin

Flottur á því þarfi. Skál!

2/11/04 13:01

Mjákvikindi

Reglulega flott.

2/11/04 13:01

Leibbi Djass

Vel mælt.

2/11/04 13:01

Anna Panna

Heyr heyr!

2/11/04 13:01

dordingull

Vandinn við að virða skoðanir bókstafstrúarmanna er sá að þeir virða ekki skoðanir annara.
Ég fyrirlít skoðanir þínar en er tilbúin að hætta lífinu í baráttuni fyrir rétti þínum til að láta þær í ljósi.
Ef þeirTRÚUÐU færu eftir þessu væri vandinn leystur. Þeir geta það bara ekki. Þeirra skoðun er kominn frá Guði og Biblían eða Kóraninn eru Guðsorð og því er allt annað rangt. Þeir geta ef nauðsyn krefur umborið okkar skoðanir en þeir munu aldrei virða þær.
Flottur sálmur.

2/11/04 13:01

Þarfagreinir

Ég þakka góð viðbrögð.

Og dordingull, það má vera að það sé margt til í því sem þú segir um að margir bókstafstrúarmenn eru umburðarlitlir. En er það þá ekki enn frekari ástæða til þess að fara ekki út í orðasennur við slíkt fólk? Ef það er ekki tilbúið til að ræða hlutina á öðrum forsendum en blindri trú, þá þýðir lítið að reyna að sannfæra það um gallana í skoðunum þeirra. Betra þykir mér þá að þegja í stað þess að stofna til illinda sem aldrei munu enda.

2/11/04 13:01

dordingull

Það má vel vera rétt. Svar mitt til Vauna var grín og glens af minni hálfu eins og allt hér þó einstaka sinnum sé alvarlegur undirtónn í því. Það var svar við riti sem ég allt eins taldi vera grín.
En sálmurinn þinn er enn betri nú þegar ég les hann aftur. Glæsilegt.

2/11/04 13:01

Vauni

Þarfagreinir
Takk kærlega fyrir þennan frábæra sálm, sem ég finn að ortur er af andans gift. Þetta yljar mér um hjartaræturnar og lætur mig brynna músum.
En varðandi bókstafstrúarmenn, þá vil ég segja það, að hver sem trúin er, þá ber þeim sem trúir að standa á trú sinni, því annars er hún ekki trú.
En hafðu Guðs laun fyrir sálminn.

2/11/04 13:01

Skabbi skrumari

Skál...

2/11/04 13:01

Skabbi skrumari

hmm... hérna er gamla myndin mín... hehe...

2/11/04 13:01

Skabbi skrumari

... afsakaðu Þarfagreinir... gamla/nýja myndin mín...

2/11/04 13:01

Þarfagreinir

Já, skál Skabbi. Þetta er merkilegt misræmi. Verð ég nú að segja að mér þykir nýrri myndin mun betri, enda varstu með hana fyrst þegar ég álpaðist inn á Gestapó, og ekki spillir fyrir að Dylan er ... óþarfi að hafa um það mörg orð. Skál fyrir Dylan.

2/11/04 13:01

dordingull

Þar liggur munurinn. Ég skipti um skoðun fái ég haldbetri upplýsingar en ég hafði áður.
Hætti að skera menn upp með skítugum hníf eftir að Pasteur fann sýklana og sagði mér frá þeim á undan Guði.
Þrasa ekki meir á sáttasíðu Þarfa.

Mér finnst myndin af öðlingnum M.Tal betri.

2/11/04 13:01

dordingull

Annars var það víst hollenskur glergerðarmaður sem var að slípa og bjó óvart til stækkunargler sem sá fyrstur manna örverur svo vitað sé.

2/11/04 13:01

Vauni

dordingull
Ef ég fæ haldbetri upplýsingar en ég hef. Þá er ég tilbúinn að skoða það. Ég hef skoðað æði margt, en ekkert fundið betra. Þess ber og að geta, að sá sem verður efins og reikull í trú sinni og skiptir ört um skoðun, líkist sjávaröldu, er rís og hrekst fyrir vindi. Sá maður, er tvílyndur og reikull á öllum vegum sínum, og má eigi ætla, að hann höndli nokkurntíma sannleikann.

kveðja, með sáttartón í hlustum.

2/11/04 13:01

dordingull

Ég mun aldrei höndla SANNLEIKANN þú ekki heldur.
Hann er ekki til. Eingöngu getur verið um nálgun að ræða.
Aðeins í stærðfræði er nálgunin slík að hægt sé að tala um sönnun.
Þar liggur líka LÖGMÁLIÐ, í eðlisfræðinni !!

Er ekker ósáttur við þig. Þvert á móti! Þessar trúardeilur eru með því skemtilegasta hér á Gestapó í langan tíma og hristu heldur betur upp í þeirri deifð sem hér hefur ríkt of lengi. Stór hluti innleggja er orðin í sms stíl þar sem fólk í baunasöfnun dælir út skeytum án þess að vera að tala um nokkurn skapaðan hlut. Í þessari "deilu" hafa verið skrifuð fleiri orð af viti og óviti á nokkrum dögum en nemur samanlögðum orðafjölda hér síðasta mánuð hef ég trú á. Þú komst hlutunum því heldur betur á hreyfingu og hefur minar þakkir fyrir það.
Ég hóf þátttöku mína í þessu með gríni í þeim anda sem hér ríkti oft áður og menn fengu það óþvegið af minnsta tilefni. Nú má vart jarma á nokkurn sauð án þess að fjöldi gemlinga móðgist. Hef haft virkilega gaman af þessu en er að byrja að þreytast eins og margir aðrir, að því mér sýnist.
Mun því enda umræðuna frá minni hálfu með pistli,ef ég þá nenni,en setja þar punkt.-- Í bili.
Lifðu heill og vertu velkominn til Bestalands. (paradísar?).

2/11/04 13:01

Finngálkn

Mig langar nú svolítið að setja í þig Dordingull! - Þú minnir á illagefna pabbastelpu sem enn á eftir að kenna lexíu...

2/11/04 13:02

Þarfagreinir

Gaman að sjá hvað allir eru sáttir og samlyndir hérna.

[Ljómar upp og gefur Finngálkninu kattarhræ til að japla á]

2/11/04 13:02

Vauni

Það sannast á þessum skrifum máltækið, að hægra er að byrja en endalyktum að ráða. En ég er orðinn eins og þú, dordingull, þreyttur á þessu. Og ætla að hvíla mig og safna kröftum. En hafi allir þökk fyrir.

2/11/04 14:00

dordingull

Reyndu þá að setja í einhverja pabbastelpuna geimruslið þitt. Afi þinn á himnum setti í eina slíka og það er búið að kosta hér margra daga skemmtilegt rifrildi.

Þarfagreinir:
  • Fæðing hér: 5/10/04 00:11
  • Síðast á ferli: 13/12/20 16:11
  • Innlegg: 13121
Eðli:
Ég er Þarfagreinir. Ég hef mikið yndi af því að þarfagreina. Ef ykkur vantar mann til að sjá um þarfagreiningarþarfir ykkar, þá er ég sá maður.
Fræðasvið:
Þarfagreining fyrst og fremst. Einnig etanólrannsóknir, orðkynngi, algrím, og listfræði.
Æviágrip:
Ég var eitt sinn týndur og sótti Menntaskólann í Reykjavík. Síðan gerðist ég tossi og fór í Fjölbraut í Breiðholti og hóf etanólneyslu. En það var ekki fyrr en í Háskóla Íslands að ég fann mína sönnu hillu í lífinu, en það er auðvitað hið merka fræðasvið er þarfagreining nefnist. Fyrir áhugasama um þarfagreiningu þá er það fyrst að nefna hún kennd innan tölvunarfræðinnar. Reyndar er ýmislegt fleira gagnslaust rusl kennt þar; mín skoðun er sú að fella mætti allt slíkt niður og kenna þarfagreiningu eingöngu, enda er það göfugasta fræðasvið þessa heims, sem og allra annarra.

Nú í dag stunda ég fræði mín við virðulega stofnun í höfuðstað Íslands. Samhliða því eyði ég óhemju miklum tíma í rannsóknarvinnu ýmis konar á Alnetunum. Miðar þetta allt að því að ég uppfylli mitt æðsta markmið, sem er að verða Yfirþarfagreinir alheimsins.