— GESTAPÓ —
Í uppáhaldi:
Félagsrit:
Þarfagreinir
Friðargæsluliði.
Heiðursgestur og  skriffinnur.
Pistlingur - 9/12/04
Sýn mín á yfirborðið

Um þessar mundir er ég í enn einu sjálfsskoðunarskeiðinu, og velti því mörgu fyrir mér. Eitt af því sem hefur löngum valdið mér vangaveltum er það sem ég vil kalla yfirborðsmennsku.

Nú vil ég taka það fram strax í upphafi að ég hef oft verið kallaður skrýtinn maður. Viðhorf mín samrýmast oftar en ekki viðhorfum samfélagsins. Hverju þetta sætir er ekki svo gott að segja, en hitt er víst, að þetta veldur mér oftar en ekki leiða.

En komum okkur nú að efninu. Yfirborðsmennska er hugtak sem ég nota yfir ýmislegt - allt frá þeirri tilhneigingu að dæma fólk eftir útliti þeirra og yfir í almennan einfeldningshátt í mannlegum samskiptum.

Í þessum pistlingi ætla ég mér að taka fyrir útlit. Hér þarf líklega að skipta niður í nokkra þætti. Ég er persónulega þeirrar skoðunnar að

1) Útlit fólks, eins og það kemur fyrir af náttúrunnar hendi, hefur ekkert að segja um neina aðra þætti þess, svosem atgervi, persónuleika, gáfur, eða nokkurn skapaðan hlut. Fyrir utan það hversu bjánalegt og villandi það er að fara eftir þessu þegar fólk er vegið og metið, þá er það einfaldlega ósanngjarnt. Þetta er þó víst ekki hlutur sem fólk ræður neinu um almennt séð - líklega er heimurinn einfaldlega ósanngjarn hvað þetta varðar. Og merkilegt nokk, þá finnst mér það persónulega ekkert sérstaklega mikið hól að heyra það að útlit mitt sé einhverjum þóknanlegt. Hverju ræð ég svosem um það? Ég gerði nákvæmlega ekkert til þess að öðlast útlit mitt, þannig að hverju ætti það að skipta til eða frá hvað fólki finnst um það?

2) Sá fatnaður er fólk klæðist getur sagt eitthvað um fólk, svosem smekk þeirra, fjárhag, og hvort það telur sig tilheyra einhverjum ákveðnum þjóðfélagshópi. Hins vegar getur þetta verið blekkjandi - hver sem er getur fræðilega klæðst hvaða fötum sem er, en það þýðir ekki að viðkomandi öðlist sjálfkrafa þá eiginleika sem þessi fatnaður stendur fyrir. Fötin skapa ekki manninn. Sama gildir um hárstíl og alls kyns aðrar útlitslegar viðbætur.

3) Hlutir eins og svipbrigði og annað látbragð geta oft sagt mikið um fólk. Orð eru alls ekki eina leiðin sem við höfum til að miðla upplýsingum og tilfinningum. Þetta er þáttur mannlegrar tilveru sem ég hef oftar en ekki vanrækt, en hef smátt og smátt öðlast viðurkenningu á.

Ég vil árétta það að þessi viðhorf mín ná yfir alla þætti tilveru minnar. Meira að segja kynferðisleg löngun mín ákvarðast fyrst og fremst að persónuleika viðkomandi manneskju, frekar en öðrum minniháttar þáttum.

Af þessari greiningu minni má sjá að mörgum þykir mér einfaldlega nokkuð leiðinlegur og þröngsýnn maður. Alls konar þættir tilverunnar sem flestum þykja nauðsynlegir og gefandi finnst mér óþarfir. Ég get hins vegar lítið að þessu gert - ég er einfaldlega eins og ég er.

Stundum vildi ég hins vegar að fleiri deildu minni sýn á heiminn.

   (36 af 49)  
9/12/04 18:02

Haraldur Austmann

Æi, ég þoli ekki ljótt fólk í hallærislegum fötum. Tala nú ekki um ef það er alltaf að gretta sig.

9/12/04 18:02

Hakuchi

Sammála. Þoli ekki yfirborðskennt fólk. Sérstaklega þetta yfirborðskennda fólk sem fattar ekki hversu ógeðslega djúpur og sérstakur ég er. Ég meina, hvað er það ekki að fatta? Djís.

9/12/04 18:02

Furðuvera

Mikið rosalega er ég sammála þessum pistli.

9/12/04 18:02

Gísli Eiríkur og Helgi

Þú et mjög víðsýnn Góður pistill

9/12/04 18:02

Limbri

En er rangt að vilja eiga fallega kærustu sem hefur sig oft til og huxar um útlit sitt ?

(Ekki svo að skilja að ég hafi lesið það úr pistlinum, er bara að velta þessum stein við.)

-

9/12/04 18:02

Þarfagreinir

Nei Limbri minn - það er ekkert rangt við það. Þeir sem hafa áhuga á slíku hafa áhuga á slíku. Ég var einfaldlega að lýsa minni persónulegu sýn. Ég dæmi engan.

9/12/04 18:02

Bangsímon

tl;dr

9/12/04 19:00

Litla Laufblaðið

Sammála lang flestu. Ekki öllu samt.

9/12/04 19:01

Tigra

Limbri: Það er ekkert að því að eiga fallega kærustu.. en ég hugsa að Þarfi sé hérna að meina að það sé mikilvægara að hún hafi góðan persónuleika, húmor etc.
Útlitið kæmi svo bara sem aukapakki... plús ofan á allt hitt.

9/12/04 19:01

Nafni

Einlægni er fallegur þáttur í fari flestra.

9/12/04 19:02

Skoffín

Ég er sammála flestu sem kemur fram í þessari grein en vildi gjarnan bæta við ákveðnum punkti. Sem er lykt. Það er alveg sama hvað viðkomandi er frábær manneskja, vel-útlítandi og hentugur bólfélagi; ég get ekki verið í mikilli líkamlegri snertingu við fólk sem mér líkar ekki lyktin af. Á hinn bóginn getur sá sem kannski er ekki mikill bógur útlitslega bætt mikið upp ef hann/hún lyktar yndislega. Fátt rifjar líka upp minningar á sama hátt og lykt.

9/12/04 20:01

Þarfagreinir

Nafni, því er ég algjörlega sammála, og skála fyrir því.

Skoffín, ég er einnig sammála með lyktina. Hún er lúmsk, og maður gerir sér ekki alltaf meðvitað grein fyrir áhrifum hennar. En mikið svakalega getur hún verið góð stundum. Þó er með eins með góða lykt og gott útlit, að hún nær oft ekki lengra en frá hörundinu og út á við.

9/12/04 20:01

Finngálkn

Já það er ógeðsleg lykt af þér Þarmi - farðu í klórbleyti og liggðu þar lengi!

9/12/04 21:01

Þarfagreinir

Lyktin af talanda þínum ein er nægileg til þess að valda hjá mér uppsölum. Móðir þín, ef þú ert þá ekki búinn að drepa hana úr leiðindum, þyrfti að sótthreinsa á þér munninn með brennsluspritti.

9/12/04 21:01

Vímus

Góður pistlingur og þarfur Þarfi minn.
Ég hef það stundum á tilfinningunni að þú takir álit annara dálítið til þín á neikvæðan hátt. Það sem ég hef kynnst þér þá þykir mér þú alveg frábær. Mér hefur reynst best að líta á sjálfan mig sem einstakt fyrirbæri.
Það er sama með þig.
Það er bara til eitt eintak af Þarfa á þessari plánetu. Farðu vel með það og láttu þér þykja vænt um þetta fyrirbæri. Það er einstakt!

Þarfagreinir:
  • Fæðing hér: 5/10/04 00:11
  • Síðast á ferli: 13/12/20 16:11
  • Innlegg: 13121
Eðli:
Ég er Þarfagreinir. Ég hef mikið yndi af því að þarfagreina. Ef ykkur vantar mann til að sjá um þarfagreiningarþarfir ykkar, þá er ég sá maður.
Fræðasvið:
Þarfagreining fyrst og fremst. Einnig etanólrannsóknir, orðkynngi, algrím, og listfræði.
Æviágrip:
Ég var eitt sinn týndur og sótti Menntaskólann í Reykjavík. Síðan gerðist ég tossi og fór í Fjölbraut í Breiðholti og hóf etanólneyslu. En það var ekki fyrr en í Háskóla Íslands að ég fann mína sönnu hillu í lífinu, en það er auðvitað hið merka fræðasvið er þarfagreining nefnist. Fyrir áhugasama um þarfagreiningu þá er það fyrst að nefna hún kennd innan tölvunarfræðinnar. Reyndar er ýmislegt fleira gagnslaust rusl kennt þar; mín skoðun er sú að fella mætti allt slíkt niður og kenna þarfagreiningu eingöngu, enda er það göfugasta fræðasvið þessa heims, sem og allra annarra.

Nú í dag stunda ég fræði mín við virðulega stofnun í höfuðstað Íslands. Samhliða því eyði ég óhemju miklum tíma í rannsóknarvinnu ýmis konar á Alnetunum. Miðar þetta allt að því að ég uppfylli mitt æðsta markmið, sem er að verða Yfirþarfagreinir alheimsins.