— GESTAPÓ —
Skoffín
Fastagestur.
Dagbók - 31/10/04
Enn af búðarraunum.

Ég ákvað að fylgja eftir B. Ewing og Ívari með smávægilegri harmsögu sem átti sér stað á þeim tíma er ég starfaði sem afgreiðslumær í ónefndri sælgætisverslun hér í bæ.

Nú er svo komið að við heiminum blasir stórvægilegur umhverfisskaði af völdum svonefndrar ofpökkunar. Ýmsum smávörum er pakkað svo grimmilega inn í plast- og álumbúðir að ósonlaginu stafar hætta af, svo ekki sé minnst á erfiðleikana við að opna blessað góssið sem stundum er sagt að sé ekki á fullorðinna færi; fullorðinshelt. Í slíkum aðstæðum lenti einmitt Skoffínið þegar það í örvæntingu sinni reyndi að slíta með handafli í sundur kassa fullan af frostpinnum sem var svo kyrfilega lokaður með níðsterku límbandi að flugbeitt verkfæri hefði verið nauðsyn. Verslunin var á þessum tímapunkti yfirfull af fólki og stressaður Skoffínsgarmurinn einn í afgreiðslunni með engin slík eggvopn við höndina. Það kom þó að því að límbandsófétið gaf eftir; raunar svo snögglega að söguhetjan bókstaflega kýldi sjálfa sig í andlitið með höndinni sem skaust stjórnlaust upp á við. Ég fékk að vonum fossandi blóðnasir og roðnandi af skömm þurfti ég að bregða mér afsíðis í leit að tissjúi á meðan hláturinn dunaði meðal viðskiptavina. Það þarf vitaskuld vart að taka fram að ég vinn ekki þarna lengur.

   (2 af 6)  
31/10/04 08:01

Lærði-Geöff

(Hlær eins og villtur hrossatemjari)
Já án efa fyndnasta afgreiðslusaga sem ég hef á ævinni heyrt.

31/10/04 08:01

Ívar Sívertsen

[veinar af hlátri] Hvar vinnurðu núna? Er ekki hægt að panta óhöpp?

31/10/04 08:01

Skoffín

Ég er reyndar í skóla sem stendur en kannski að maður ætti að drullast út á vinnumarkaðinn vegna... skemmtanagildis? [flýgur á hausinn á nýbónuðu gólfi]

31/10/04 08:02

Rýtinga Ræningjadóttir

skemmtun uppá sitt besta. Ég get vitnað um það að Skoffínið getur rétt eins vel klaufast um utan vinnumarkaðar..

31/10/04 09:01

Litla rassgat

Það er ljótt að hlæja að óförum skoffínsins. Skoffínið meiddi sig og það er ekkert sniðugt.

Skoffín:
  • Fæðing hér: 4/10/04 23:23
  • Síðast á ferli: 4/11/11 00:41
  • Innlegg: 292
Eðli:
Aðlaðandi galdrakind sem stökkbreytist á augabragði í hið versta skrímsl. Sækist eftir strokum og kjassi en bregst harkalega við sólarljósi, fávitahætti og ókurteisi.
Fræðasvið:
Kvennaklækir ýmiskonar og blygðunarleysi þeim tengt. Afbrigðasálarfræði og sjaldgæfar perversjónir. Líkamlegar meinsemdir og anatómía. Lágmenning, kitsch og reyfarabókmenntir.
Æviágrip:
Fæddist að líkindum á ofanverðri sautándu öld þegar móðurharðindi og plágur geisuðu og fólk var of upptekið af eigin eymd til að drepa skoffín og skuggabaldra í fæðingu.