— GESTAPÓ —
Félagsrit:
Ólafur
Nýgræðingur með  ritstíflu.
Sálmur - 4/12/05
Draumfarir kaldar

Í gærkvöldi sótti að mér ákaflega mikil syfja skömmu eftir kvöldverðinn. Ég hugðist leggjast út af með bók en það skipti engum togum að það rann á mig djúpur svefn og svaf ég draumlaust. Þegar ég hafði sofið góða stund rofaði til og mig dreymdi ákaflega skýran draum. Mér þótti sem ég væri látinn og hefði verið lengi. Enga undankomu átti ég þó úr jarðlífinu heldur hímdi sál mín bundin við leiðið. Þótti mér sem þetta stafaði af eftirsjá minni vegna þess sem ég hafði þráð í jarðlífinu en ekki borið mig eftir. Fleira var þarna af umkomulausum sálum í svipuðu ástandi sem norpuðu við sálnahliðið.
Þá þótti mér sem ég sæi Nornina (þ.e. persónuna héðan af Baggalúti - nákvæmlega eins útlítandi og á myndinni sem henni fylgir). Rann þá upp fyrir mér að það var einmitt þrá eftir henni sem olli skelfilegu ástandi mínu og einnig að hún var í sömu sporum. Við þetta helltist yfir mig óendanlega mikil depurð og eftirsjá yfir hve illa við hefðum notið þess stutta lífs sem okkur var gefið. Leit ég í dapurt andlit hennar og mælti af munni fram þetta kvæði:

Nú hvíslar napur norðanvindur: Vakna!
Það næðir gegnum brostnu hjörtun smáu
og allir þeir sem eftir nokkru sáu
upp rísa og sinna gömlu drauma sakna.

Ó norn sem þrána náðir svo að æra
að naumast fær mig dauðinn til að sofa
vakir þú meðal moldarbúa vofa?
Mig hafa örlögin seint þér náð að færa

Nornin mín góða, galdramey sem kann
gleði og ásta, víns og manna njóta.
Spök varstu og dyggðug, sparsöm á þitt hold

Aldrei við mættumst meðan blóðið rann.
Eftirsjá tjóðrar oss við jarðvist ljóta.
Kvalin af losta kúrum við í mold.

Það rann upp fyrir mér um leið að ég hafði aldrei fyrr getað mælt svo mikið sem tvær rímaðar línur af munni fram og varð mér svo mikið um þetta allt að ég rumskaði. Vaknaði ég með ónotalega tilfinningu sem vonlegt var, enda draumurinn ákaflega skýr og hráslagalegur í meira lagi. Um leið og ég vaknaði sótti að mér sú tilfinning að draumfarir þessar væru ekki að fullu á mínu valdi. Veit ég ekki hvað Nornina hefur dreymt en fróðlegt væri að heyra það (afsakið hnýsnina). Hugsanlega var þarna um að ræða einhvers konar aðvörun í gegn um samband af því tagi sem Dr. Helgi Pjeturs hefur lýst manna best, en ég er illa áttaður á þessu, enda deili ég þessu með ykkur nú um leið og ég vakna. Einhverra hluta vegna hef ég þó sterklega á tilfinningunni að mig eigi ekki eftir að dreyma meira í nótt.

   (1 af 1)  
4/12/05 03:01

krumpa

Mikið verður Norna glöð að sjá þetta! Af hverju dreymir engan mig...????

4/12/05 03:01

Nornin

Já Ólafur minn.
Einkennilegar þykja mér þessar draumfarir þínar en eitt hef ég alltaf sagt og það er að eftirsjá í draumi hlýtur að vera það versta sem til er, því í draumum eiga allar okkar þrár að rætast.
Kannski þetta sé ábending til þín að sitja ekki á strák þínum heldur sækjast eftir öllu sem þú girnist?

En mikið þykir mér gaman að hafa fengið að blása þér í brjóst andagift, þó ekki væri nema um hríð.

Þar sem ég er Norn hef ég fulla stjórn á mínum draumum og minnir mig að nóttinni hafi verið eytt við gítarspil og sangríudrykkju á Spáni seint á 19. öld.

4/12/05 03:01

Vladimir Fuckov

Athyglisvert og mjög undarlegur draumur. Reyndar dreymdi oss líka undarlega um helgina. Þar komu einnig við sögu Bagglýtingar en það gerist sjaldan. Eigi var þó um að ræða þá þrjá Bagglýtinga er hjer hafa komið fram [Veltir fyrir sjer hvort þetta tengist bilun í tímavjelinni og að sú bilun hafi þá áhrif á stórt svæði og/eða langt tímabil].

4/12/05 03:01

Ugla

En rómó!

4/12/05 03:01

Gaz

Draumurinn hljómar sem viðvörun finnst mér. Kannski þú hafir gleymt að njóta þess sem þú hefur?

Mig dreymdi enga bagglýtinga. Hinsvegar dreymdi mig að ég hljóp og fangaði hjört úti í skógi með eigin klóm og tönnum.

4/12/05 03:01

B. Ewing

Að dreyma e-n látinn er fyrir langlífi hans / hennar.

4/12/05 03:01

Skabbi skrumari

Ljómandi fín Sonnetta... salút...

Ólafur:
  • Fæðing hér: 1/7/04 12:11
  • Síðast á ferli: 23/5/06 00:00
  • Innlegg: 0
Eðli:
Forhertur, gamaldags, íhaldssamur.
Fræðasvið:
Klassísk fræði
Æviágrip:
Lauk námi, fór að vinna.