— GESTAPÓ —
Hildisþorsti
Nýgræðingur.
Dagbók - 7/12/11
Sumarfrí í útlöndum

Að gera einhverjum þann grikk að koma á óvart er ekkert gamanmál. Að vera ósammála er óþægilegt. En að vera sammála er ólíðandi.

Við hjónin reynum alltaf að haga því þannig til að við séum allavega einhvern tíma á sama tíma í sumarfríinu. Þetta hefur nú tekist nokkuð vel hingað til. En nú háttar þannig til í minni vinnu að ég sá að það borgaði sig að færa fríið mitt til vegna þess að ég ætlaði mér að fara í stórframkvæmdir við lóðina heima hjá okkur. Konan gat hinsvegar ekki breytt sínu fríi þannig að ég sá fram á að hún færi í frí á undan mér og væri langt komin með það þegar ég færi í frí.
Konan mín er vinnusöm og ósérhlífin. Ég veit það. Vikurnar fyrir fríið var hún búinn að vinna við mjög krefjandi störf og ég sá að þún var mjög orðin fríþurfi.

Ég fékk hugmynd og ákvað að koma henni á óvart. Ég var staddur á biðstofu hjá tannlækni þegar ég var að glugga í eitt af þessum glanstímaritum. Þar sá ég viðtal við konu sem er með hvíldar og dekurbúðir fyrir íslenskar konur á búgarði í Danmörku. Það vill svo til að við hjónin erum aðeins málkunnug þessari konu. Ég setti mig í samband við hana og spurði út í hvað svona kostaði. Verðið var töluvert hærra en ég átti von á en ég hugsaði með mér að konan mín leyfði sér aldrei neitt svona og ég gat alveg hugsað mér að kaupa þetta handa henni.
Það vildi svo heppilega til að flogið yrði út daginn eftir að konan byrjaði í fríinu. Ég borgaði ferðina í topp og keypti nokkra auka pakka sem í boði voru.
Ég talaði við krakkana að nefna ekki orð við hana og ef hún ætlaði sér að skipuleggja eitthvað að draga frekar úr því við hana og tala um það við hana að fresta því um rúma viku. Ég talaði líka við vinkonur hennar. Allir lofuðu að taka þátt í samsærinu. Ég talaði ekki um þetta við tengdamömmu ég var hræddur við að hún mundi missa eitthvað út úr sér með þetta ráðabrugg mitt.

Konan kom seint heim síðasta vinnudaginn og vildi fara snemma að sofa. Talaði um að það yrði stór dagur á morgun. Ég lét sem ekkert væri. Ég ætlaði að bíða til morguns. Þá ætlaði ég að segja henni með stæl að hún væri að fara út daginn eftir. Ég var með það undirbúið að ef hún segðist ekki eiga föt þá ætlaði ég að bjóðast til að fara með hana í fataverslun og dressa hana upp. Þannig að hún gæti notið dvalarinnar í Danmörku.
Daginn eftir vaknaði ég á undan henni og laumaðist út í bílskúr og sótti ferðatösku og stillti henni upp opinni inni í sófa í stofu. Ég sótti miðan og passann og lét á töskubotninn. Konan kom á fætur þegar líða tók á morguninn og ég var orðinn fullur eftir væntingar. Ég opnaði freiðivínsflöku með hvelli til að ná athyglinni og helti í glös.
“Hvað ertu að gera?” kallaði konan.
“Komdu aðeins inn í stofu.” kallaði ég á móti og samtímis hringdi dyrabjallan. Tengdó voru komin í heimsókn. Ég bauð þeim inn og konan kom og heilsaði. Þetta varð ekki til að draga úr mér kjarkinn og ég bauð þeim til stofu. Tengdó rak augun í töskuna á sófanum og kallaði fram til konunnar: “Eru farinn að pakka niður?’”
“Nei.” kallaði konan úr eldhúsinu. “Ég var svo þreytt í gærkveldi, vildi frekar vakna snemma og taka mig til.”
Ég varð skyndilega órór. Hafði allt komist upp. Hver hafði kjaftað frá? Hver hafði farið að kjafta þessu í konuna mína og eða tengdamóður mína? Var virkilega engum treystandi?
Höfðu krakkarnir farið að missa þetta út úr sér. En jæja þá það.
Konan kom fram með kaffi og súkkulaðikex. Þega hún sá töskuna í sófanum þá spurði hún mig í forundran. “Hva. Ertu bara búinn að ná í töskuna? Það er naumast að það liggur á að losna við mig” sagði hún flissandi. Tengdó leit á mig ásakandi.
“Þú hefur þá verið búin að frétta þetta?” stundi ég upp.
“Frétta hvað?” spurði kona.
“Nú með ferðina” sagði ég.
“Frétt hvað? Hvað meinarðu?”
“Nú þessa!” ég teygði mig í töskuna og rétt henni miðan.
“Hvað í ósköpunum er þetta?” spurði konan.
Ég var nú orðin svolítið ringlaður þarna en stundi þó upp: “Nú ferðin til Danmerkur.”
“Hvaða ferð til Danmerkur?” sagði konan eitt spurningamerki.
“Nú ferðin sem þú ert að fara - til Danmerkur!” Ég var orðin svolítið hissa á hvað væri svona erfitt að skilja við þetta allt fyrst að hún virtist vita orðið allt um þetta..
“En ég er ekkert að fara til Danmerkur.” útskýrði konan “Hvað er eiginlega að þér?”
“Ég er að fara til Noregs.”
Ég leit á farmiðann. “Nei til Danmerkur. Það stendur hér”
“Hvaða miði er þetta?” Konan var farin að tala hratt og aðeins búin að hækka róminn.
“Nú ferðin sem ég keypti handa þér.” sagði ég og ég fann að það var kominn svitadropi á ennið á mér.
Tengdamóðir mín horfði rannsakandi á mig en tengda pabbi drakk kaffi og rannsakaði heibrigði stofublómana.
“Hvaða miða varst þú að kaupa handa mér? Ég er fyrir löngu búin að kaupa miða til að fara með mömmu og pabba til Oslóar manstu. Ég er að fara á morgun.”
Ég koðnaði niður í sætið.
“Manstu ekki þegar við fórum í matarboðið til mömmu og pabba í vor þá ákváðum við þetta.”
Í þessu matarboði hafði verið haft áfengi um hönd og ég hef ekki verið með kveikt á skammtímaminninu. Langtíma minnið var núna farið að fara í gang og eftir því sem svitadropunum fjölgaði á enninu varð langtímaminnið skýrara.
“Jú. Ég man eftir því.” umlaði ég.
“Hvaða farseðlar eru þetta þá? Og hvaða kampavínsseremóníur eru í gangi?
“Ég ætlaði að halda upp á þú værir komin í sumarfrí elskan mín og sýna þér þennan miða.
Mér fannst þér ekki veita af góðu fríi núna.”
“Æ. Elsku kallinn minn en þú veist að ég nenni ekki að fara ein til Danmerkur. Ég hefði viljað hafa þig með. Þú skilar bara miðunum.”
“Það er ekki hægt.” sagði ég. Ef tengdamanna hefði ekki verið á staðnum þá er ég viss um að ég hefði farið að skæla. En ég lét ekki bugast. “Það hlýtur að vera hægt að nota þá.” bætti ég við.
Tengdó hafði ekki af mér augun. “Ætlar þú kannski að fara til Danmerkur á meðan konan þín er ekki heima?”.
Ég verð að viðurkenna það það fauk aðeins í mig þarna. Var tengdamóðir mín að gefa það í skin að mér væri ekki treystandi þegar kona færi af bæ? Ég held að ég hafi verið svolítið höstugur þegar ég sagði við hana: “Já. það getur bara vel verið.”
Í þessum töluðu orðum hringdi síminn. Það getur verið mikil fró að síminn hringi þegar maður þarf að koma athyglinni á einhverjar aðrar brautir.
“Halló!” sagði ég hátt og snjallt í símann.
“Góðan daginn og guð styrki þig og styðji á þessum dýrðarinnar degi. Eru menn bara vaknaðir?” sagði röddin í símanum.
Þetta var ódámurinn hann Helgi frændi minn að reyna að vera sniðugur við mig á laugardagsmorgni. Það koma stundir að ég er feginn að heyra í þessum frænda og svokölluðum vini. Svoleiðis stund var núna.
“Já og búninn að leggja mig og vaknaður aftur.” sagði ég blaðskellandi.
“Heyrðu það er nú aldeilis ljómandi gott.” sönglaði Helgi. “Við Mæja erum svo að koma til þín á mánudaginn.”
“Nú?” svaraði ég hissa. “Á mánudaginn?”
“Já. Var ekki talað um það? Ertu nú orðinn eitthvað utan við þig? Ha, ha, ha.”
Meðan Helgi frændi minn var að skemmta sér á hinum enda línunar fór konan skyndilega að hnippa í mig og toga í peysuermina mína. Hún fór að hvísla einhverju að mér sem ég gat ekki fest á athygli með þennan hlægjandi apa á hinum endanum. Þó heyrði ég að hún sagði eitthvað um það að Helgi og Mæja ætluðu að vera hjá mér í viku meðan hún væri úti.
Ég fann hvernig reiðin í mér kraumaði frá iljunum upp leggina og lærinn. Mér var nóg boðið. Treysti konan mér ekki betur en svo að hún ætlaði að fá Helga til að “passa” mig á meðan hún færi í einhverja skemmtireisu til Noregs með foreldrum sínum? Á þessum tímapunkti tók ég ákvörðun og það veit konan mín að þegar ég tek ákvörðun undir svona kringumstæðum þá verður því ekki breytt.
“Ég held góðin minn að það það geti barasta ekki orðið.” þrumaði ég ákveðið í símann. “Ég er nefnilega að fara til Danmerkur.”
Ég skellti á. Ég átti í erfiðleikum með að hemja skjálftann í höndunum og náði varla andanum.
“Þarft þú ekki að stunda vinnu?” laumaði tengdó út úr sér innan úr stofu.
“Það er nú enginn ómissandi.” svaraði ég með andköfum.
Meðan konan horfði á mig með þessum svip sem segir: “Það er best að segja ekki neitt. En teldu nú upp að tíu vinur.”, þá mundi ég eftir því hvers vegna ég hafði ætlað seinna í frí.
Ég sá fyrir mér leiðindi í vinnunni. Ég var samt enn alelda.
“Hvers vegna datt Helga það í hug að fara að koma hingað meðan þú værir úti?” hvæsti ég í hálfum hljóðum.
“Þau Mæja ætluðu að vera með tjaldvagninn hérna á vorhátíðinni í næstu viku en Mæja er svo slæm af astmanum núna svo mér fannst upplagt að þau byggju hér á meðan og yrðu þér til skemmtunar meða ég væri úti.”
“Eins og þú heyrðir. Þá er ég á leiðinni til Danmerkur í ferð sem ég er búinn að borga. Ég ætla ekki að láta Helga brasa eitthvert grænfóður fyrir mig í mínum húsum.”
Allt í einu var sem tengdapabbi væri búinn skoða öll blóminn og hann ljómaði upp.
“Jæja. Ertu að fara til Danmerkur. Ég hef oft komið þangað. Þetta hlýtur að verða gaman hjá þér. Hefurðu komið þangað áður?

Þannig fór það. Ég gekk á fund yfirmanns míns og bar upp erindið í góðri trú um það að hann aftæki með öllu að ég færi. Það kom hinsvegar á daginn að hann hafði einmitt verið í vandræðum sjálfur að dekka sitt sumarfrí þannig að það kom sér að afar vel fyrir hann að ég færi í viku frí núna.
---
Þessi vika hér í danaveldi er búin að vera nokkuð átakalaus. Í upphafi ferðar þá var mér gerð grein fyrir því að ég gæti ekki gist á sveita setrinu sem hvíldarvikan átti að vera á vegna þess að ég væri eini karlinn. Það væru fjórar konur í hverju herbergi. Ég taldi það ekkert mál fyrir mig. En það voru ekki allri eins jákvæðir fyrir því. En athafnakonan sem stóð fyrir þessari ferð átti vinafólk sem rekur gistihús við Istegade inn í borgini svo mér var plantað þar. Þetta var svo sem ósköp einhæft ég fékk miða í neðanjarðarlestina til að fara á milli borgarhluta og að borgarmörkunum. Þaðan var ég sóttur af athafnakonunni á hverjum morgni og keyrður á setrið. Það tók mig tvo daga og þó nokkrar villur að komast upp á lag með þetta. Á þessu sveitasetri var ég látin borða banana og hrökkbrauð með gallsúru jukki, gera leikfimiæfingar og grindarbotnsæfingar í hálftíma, stunda böð og krem í klukkutíma. Ég þakkað ölum helgum verum að Helgi frændi skildi ekki vera með í ferðinni. Í hádeginu fengum við glas af einhverskonar greipsafa, melónu og einhverjar pillur. Eftir hádegi var farið í þriggja tíma kraftgöngu og “íhugun” sem engan endi ætlaði að taka á eftir. Síðan var frjáls tími fram að kvöldmat. Og ég nýtti mér ferðirnar sem ég hafði keypt handa konunni minni. Það var verslunarferð í H&M með leiðsögn. Ég keypti mér svarta sokka. Annað sá ég nú ekki sem mig langaði í.

Ein ferðin var í tískusýning í Parken, sú ferð tók heila eilífð. Og hávaðinn maður lifandi. Einhverjar öldurhússferði eru á eftir kvöldmatnum sem samanstendur af hænsnaketi í ýmsum útgáfum sem n.b. ég borða ekki og svo sérrýglas á eftir. Ég drekk það. Ég reyndar missi sem betur fer af öldurhúsaferðunum vegna þess að ég þarf að komast í neðanjarðarlestina til að ná á gistihúsið.

Ég sit nú hér á gistihúsinu í litlu þröngu herbergi með Gammel Dansk, tannbursta og á náttfötunum og sé út um gluggann að íðilfagrar fáklæddar stúlkur eru að stjákla úti á götunni. Ég reyni að átta mig á í hvaða átt Noregur er og Osló en átta mig engan veginn á því.
Ég held því áfram að horfa á stúlkurnar á götunni og velti fyrir mér: Hvers vegna?

   (1 af 21)  
7/12/11 08:00

Hermína

Þér var nær að stokka ekki skapið.

7/12/11 08:00

Hrani

Þetta er líf mitt í hnotskurn. Þér fyrir gefið?!

7/12/11 08:00

Rósmundur

Ég hefði aldregi tekið það í mál að verða nauðbeigður til að fara til Köben við þessar aðstæður. Þetta er skandall.

7/12/11 08:00

Bægifótur

Þér hafið getið af þér ritstörf sem eru öðrum til fyrirmyndar blessaður Hildisþorsti minn.

7/12/11 08:00

Regína

Hahahaha, dásamleg lesning.

7/12/11 08:01

Anna Panna

Úrvalsrit! Skál í sérrý..

7/12/11 08:01

Bakaradrengur

Passar Helgi þá börnin á meðan?

7/12/11 09:01

Grágrímur

Frábær lesning, þù mátt alveg skrifa oftar
.

7/12/11 10:02

Herbjörn Hafralóns

Góð saga.

7/12/11 10:02

Vladimir Fuckov

Skemmtileg lesning - og greinilega mjög furðulegt sumafrí.

7/12/11 11:00

Madam Escoffier

Já sú þraut að vera góður, frábær lesning, skrítið frí,

8/12/11 03:01

hlewagastiR

tl;dr

Hildisþorsti:
  • Fæðing hér: 29/4/04 07:41
  • Síðast á ferli: 25/5/19 03:06
  • Innlegg: 8
Eðli:
Ljúfmenni á öllum stöðum.
Fræðasvið:
Tækifærissinni með föst viðmið.
Æviágrip:
Ólst upp þar sem öll fjöll eru há.