Sérleg rannsóknarnefnd skipuð nokkrum hugprúðum mönnum á miðjum aldri freistar þess nú að fá hina dularfullu „apabólu“ fyrstir Þingeyinga, svo vitað sé.
Að sögn talsmanns hópsins ríkir mikil eftirvænting innan hans, en einnig nokkur kvíði, sem vonlegt er. Þeir hafi kynnt sér „bóluna“ nokkuð vel á undanförnum vikum, lesið sér til, sótt námskeið og telja sig býsna vel í stakk búna til að takast á við þennan óútreiknanlega vágest, sem hefur heillað marga að undanförnu. Gera þeir ráð fyrir að ljúka undirbúningi í kvöld og halda utan, áleiðis til Berlínar, snemma í fyrramálið.
Óskum við þeim félögum alls hins besta.
Til sölu
Nokkrir erlendir fjárfestingabankar, innlend fjármögnunarfyrirtæki, fasteignir (sumar ókláraðar) og ýmis lítið notuð verðbréf.
Einnig á sama stað tryggingafélög (flest því sem næst gjaldþrota).
Fjármálaeftirlitið
Það er sérlega ánægjulegt að taka við viðurkenningu fyrir hönd Baggalúts fyrir framúrskarandi rekstur samsteypunnar, og þar með hluti af þeim 2% fyrirtækja sem geta státað af slíkum árangri. Ljóst er að yfirgnæfandi hluti íslensks atvinnulífs er í tómu tjóni og órafjarri frá því að vera framúrskarandi á nokkurn hátt. Mættu þau taka Baggalút og önnur almennileg fyrirtæki sér til fyrirmyndar og hysja upp um sig rekstrarbrækurnar.
Það eru tíu lykilatriði atriði sem hafa komið Baggalúti á þennan eftirsóknarverða stað, sem rétt er að deila með áhugasömum:
Beri önnur fyrirtæki gæfu til að fylgja fordæmi okkar er ljóst að íslenskur fyrirtækjamarkaður yrði skjótt heilbrigðari og næði undraskjótt að skipa sér í fremstu röð í heiminum. En til þess er lítil von, meðan íslenskir stjórnendur eru upp til hópa óhæfar, ákvarðanafælnar gungur með allan sinn rekstur á bólakafi uppi í bakraufinni á sér.
Góðar stundir.
Baggalútur hefur, í samvinnu við erlenda öryggissérfærðinga, skipt út öllum lykilorðum í tölvukerfum samsteypunnar fyrir nýtt, samræmt lykilorð af öflugustu gerð. Í takt við stefnu félagsins um gagnsætt jafnrétti verður nýja lykilorðið samnýtt af öllu starfsfólki félagsins, sem m.a. mun tryggja að engin veikburða lykilorð verða lengur í umferð.
Nýja lykilorðið, 8t0c$bMp7t^HNax1
, uppfyllir ýtrustu kröfur um öryggi, bæði hvað varðar lengd og fjölbreytileika stafa.
Hólmgeir Hrafnkelsson hálfviti segir í aðsendri grein á fréttavef Baggalúts að hann hafi aldrei kallað Þórð Þrándsson hálfvita.
„Þetta eru mjög alvarlegar ásakanir á mig,“ segir Hólmgeir í greininni. „Mér er sama hvað þessi hálfviti heldur fram, ég hef aldrei kallað hann hálfvita.“
„Þessi hálfviti hefur ítrekað sýnt af sér hálfvitalega háttsemi og það er bara hreinn og klár hálfvitaskapur í honum,“ segir Hólmgeir að lokum.
Hinn alræmdi fornleifafræðingur og mennþekkjari Hörður P. Einarz hefur uppgötvað sameiginlegan snertiflöt við ósamþykktan fornleifauppgröft við Holtagarða.
Er Hörður sannfærður um að snertiflöturinn sé býsna forn, eða jafnvel allt frá tímum verslunarveldisins Miklagarðs. Hefur hann fundið merki um káf, kám og jafnvel pot á fletinum.
Hörður vonast til að frekari rannsóknir á sameiginlega snertifletinum geti leitt í ljós ástæður þess að blómleg verslun leið undir lok á þessu svæði og hefur aldrei þrifist þar síðan.
Krónur
Nú fer hver að verða síðastur að trygga sér krónurnar vinsælu, síðasta prentun á þrotum, aðeins er vona á einni til viðbótar.
Seðlabankinn – meira og minna í hálfa öld.
Það er með feikimiklu stolti sem við tilkynnum að Baggalútur er í hópi Framúrskarandi fyrirtækja á Íslandi, annað árið í röð. Með því erum við ekki endilega að gera lítið úr þeim 98% fyrirtækja á Íslandi sem eru það EKKI, og eru þar af leiðandi í tómu rugli, rekstrarlega — en samt — við erum augljóslega betri en eiginlega allir.
Við þökkum árangurinn fyrst og fremst miklum árangri á menningar– og upplifunarsviði, en aukin áhætta sem fyrirtækið tók á köntrí– og aðventumarkaði á sínum tíma, þvert á spár sérfræðinga, hefur skilað sér í auknu eiginfjárhlutfalli og traustum rekstri. Þá var tekin umdeild ákvörðun innan stjórnar seint á síðasta áratug um að hætta alfarið rekstri kaffivélar, sem hefur skilað sér margfalt til baka.
Hið fornfræga myndmerki (e. lógó) Baggalúts hefur verið uppfært. Er það gert til að mæta betur kröfum samtímans um skjámiðlun, skölun, formlegt hagræði og breytta merkjaskynjun nútíma skjáneytenda, eins og segir í fréttatilkynningu.
Merki Baggalúts var upprunalega hannað af vestgotnesku listakonunni Gertrude Zeta–Zebra og standa angar þess fyrir gildi Baggalúts; traustgefni, samhygli, þrautsýni, metnúð og frumkvæðni. Þá stendur hringurinn fyrir kvenlægni og miðdepillinn fyrir mangó. Undirstrikið er svo villa í teikniforritinu Paint.
Eftir talsverða yfirlegu og hreinteikningu þar sem öll form, litir og útlínur myndmerkisins voru tekin til gagngerrar endurskoðunar, með tilliti til fagurfræðilegrar og tæknilegrar nálgunar, var ákveðið að færa merkið upp um þrjá svokallaða „pixla“ — til reynslu.
Baggalútur sendir frá sér glænýtt aðventulag sem ber heitið „Afsakið þetta smáræði.” Þar bregður ljóðmælandi sér í hlutverk hins hógværa gestgjafa, sem afsakar lítilræðið sem er á boðstólnum. Lagið er áminning um að forðast asann og stressið í desember og setjast aðeins niður og slaka á. En um leið að fara nú ekki of geyst í áti, útbelgingi og ítroðningi.
Lag og texti er eftir Braga Valdimar Skúlason en ótal valinkunnir veislugestir komu að hljóð– og leikmynd lagsins. Guðm. Kristinn Jónsson stýrði upptökum í félagi við Sigurð Guðmundsson og Ágúst Bent leikstýrði krásum hlöðnu myndbandi, sem tekið var upp í hinum fornfræga skíðaskála í Hveradölum.
Eigum á lager
Heimsendabolir, -bollar, derhúfur, -grillsvuntur og mussur. Fást gegn vægu gjaldi.
Í tilefni einmuna veðurblíðu sendir hljómsveitin Baggalútur frá sér nýtt lag, sem ber heitið Appelsínugul viðvörun.
Lagið er bæði uppblásið og háfleygt og er því tilvalin 17. júní blaðra til að sleppa í loftið á sjálfum þjóðhátíðardegi Íslendinga. Til lukku með lýðveldið.
Lagið er áhlýðanlegt á tónsprænunni Spotify. Því má dreifa sem víðast.
Allsherjar endurmörkun og ímyndarsköpun tónlistarmannsins Megasar er nú á lokametrunum. Að sögn yfirstílista verkefnisins hefur Megas verið endurskoðaður frá grunni, hann straumlínulagaður og útlit hans fært til nútímahorfs — án þess þó að hreyfa um of við sérkennum hans og alþýðlegu yfirbragði.
Samhliða þessu hafa textar Megasar verið einfaldaðir til muna til að ná til breiðari markhóps, auk þess sem þeir hafa verið leitarvélabestaðir og þýddir yfir á bæði hollensku og finnsku til að ná til stærra markaðssvæðis.
„Breytingin er ótrúleg. Hann hefur fengið alveg nýja litapalettu, nýtt og ferskt lógó, auk þess sem söngkonan Birgitta Haukdal mun ljá honum rödd sína. Sem er spennandi nýjung.“
Þá verða ný gildi Megasar kynnt, en þau eru ÁKEFÐ, EINURÐ og RÁÐDEILD.
Karlmaður á besta aldri, Nói Albínusarson, tók kassabíl bróðursonar síns traustataki snemma í morgun og ók af stað í honum, án þess að biðja um leyfi.
Því miður kunni Nói ekki á stjórntæki bílsins og mölbraut því sérsmíðaðan gírkassa bílsins, sem hafði einmitt unnið Ofvitann, nýsköpunarverðlaun ofurgáfaðra leikskólabarna.
Nói komst við illan leik úr bílnum, sem gereyðilagðist. Hann var þó hinn hressasti og vildi ólmur sýna blaðamanni hvernig hann sýður egg.
ÞÚ TRÚIR ALDREI HVAÐ GERÐIST NÆST!
Fyrirtæki íslensku jólasveinanna fékk í dag jafnlaunavottun, en félagið hefur á undanförnum árum tekið með skipulögðum hætti á kynbundnum launamun innan fyrirtækisins og komið á metnaðarfullri jafnréttisstefnu.
„Við erum mjög ánægðir, eða alltsvo ánægð með þetta. Það eru að vísu mestmegnis karlmenn, sem starfa hjá okkur, eða eingöngu eiginlega, sem stendur. En það breytir því ekki að þetta er mikill heiður fyrir okkur… öll,“ segir Kertasníkir Leppalúðason, framkvæmdastjóri mannauðs– og jafréttissviðs Jólasveinanna.
Hann segist jafnframt vonast til að fleiri konur (og raunar fólk af öllum mögulegum kynjum) bætist í þessa rótgrónu — og um margt íhaldssömu stétt — á næstu áratugum eða öldum. Hann tekur þó fram að öllu slík aðlögun taki tíma og þurfi auðvitað að ígrunda vel. Hann áætlar að í dag séu um 300 sveinar í starfsnámi hjá félaginu, „allt jú, mögulega karlmenn“.
Arnfinnur Ástvaldsson, blásari hefur kært ítrekaðar frávísanir umsóknar sinnar um inngöngu í Synfóníuhljómsveit Íslands til Félagsmálaráðuneytis, en þær eru alls …
Baggalútur hefur, í samvinnu við erlenda öryggissérfærðinga, skipt út öllum lykilorðum í tölvukerfum samsteypunnar fyrir nýtt, samræmt lykilorð af öflugustu …
Arnar Jónasson, tæknifræðingur hjá Orkuveitunni, hefur hannað peysu sem numið getur tískubylgjur og lagað sig að þeim eftir þörfum. Peysan …
Aukin harka hefur færst í leigubílastríðið svonefnda undanfarna sólarhringa og hafa átökin breiðst hratt út um höfuðborgarsvæðið. Nokkuð hefur verið um …
Mikil ringulreið ríkir nú í Grafarvogi eftir að upp komst um mistök í prentun nýs korts Bandaríkjahers. Kortið, sem ætlað …
Hrafn Sveinbjörnsson, heildsali og fyrrverandi íslandsmeistari í glímu, gekk um helgina að eiga fimm systur, þær Helgu, Maríu, Gerði Kristbjörgu, …
"..þetta var nú blanda ýmissa samverkandi þátta," sagði Helgi Pjetursson, múrari en hann varð fyrir þeirri óskemmtilegu reynslu að selja …
Níels Níelsson, prófarkalesari, hefur lokið við að lesa yfir síðasta fylgiskjal hinnar margfrægu skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og er þar með …
Rúmenska listakonan Jaroslava Barbara, hefur látið reisa svokallaða friðarsúlu í Viðeyjarstofu, en slíkar súlur njóta sívaxandi vinsælda um þessar mundir. …