"Ég hélt að þetta væru húsverðir hér," sagði Ólafur Ragnar, forseti, aðspurður um ástæður þess að bræðurnir Sverrir og Atli Bollasynir hafi óáreittir búið í Bessastaðakirkju frá árinu 1939 án þess að hafa til þess nokkra heimild.
Bræðurnir voru bornir út í gær. Þeir höfðust að mestu við í koju á kirkjuloftinu, en höfðu einnig komið sér upp eldunaraðstöðu bak við orgelið. Þeir veittu enga mótspyrnu. "..við finnum okkur eitthvað annað," sagði Sverrir afsakandi við forsetann, þegar þeir kvöddust.
Þórarinn Eldjárn man vel eftir þeim bræðrum frá því hann bjó þar með föður sínum, Kristjáni "..jájá - þeir gáfu mér oft kremkex." Vigdís Finnbogadóttir, fyrrum forseti, neitar þó að muna eftir bræðrunum - "..enda steig ég aldrei fæti inn í þessa kirkju!"
Aðildarumsóknir
Eigum fyrirliggjandi ýmsar aðildarumsóknir; Evrópusambandið, NATO, OPEC, IRA, LIKUD, Sameinuðu arabísku – og margt fleira.
Umsókna og eyðublaðamiðstöð Eyþórs
Ég sé að fullháttvirtur forseti hins háa Alþingis er með eitthvað bakkaklór eftir ömurðarveisluna sem hann hélt á Völlunum að viðstöddu fámenni í gær.
„Forseti Alþingis harmar að heimsókn danska þingforsetans hafi verið notuð til að varpa skugga á hátíðarhöldin og leyfir sér að trúa því að það sé minnihlutasjónarmið að viðeigandi sé að sýna danska þingforsetanum óvirðingu þegar hann sækir okkur heim og kemur fram fyrir hönd danska Þjóðþingsins og dönsku þjóðarinnar.“ — segir forseti.
Ég mótmæli herra forseti.
Þessi vanhugsaða og alls óvelkomna heimsókn var hreint ekki „notuð“ til að varpa skugga á fjölmilljónapartíið þitt. Heiðursgesturinn flóttalegi sá alveg sjálfur um að varpa sínum skoðanamyrka skugga á hátíðahöldin og eyðileggja þau gersamlega.
Það eru miklu fremur Danir sem sýna okkur óvirðingu með því að senda þessa útdönkuðu rasistapíu hingað — og skömmin er þeirra að púkka upp á hana sem þingforseta yfirhöfuð.
Það er nefnilega míkróminnihlutasjónarmið að halda að það sé í lagi að dubba upp rauðklædda rasista og leiða til hásætis á hátíðarþingfundi á sjálfu Lögbergi. Og það að gera lítið úr gagnrýni á þetta skipulagsslys er ekkert annað ómerkilegt yfirklór og eftirámjálm.
Svo eiga menn bara að drullufrussfretast til að biðjast afsökunar á klúðrinu í stað þess að barma sér undan eðlilegum viðbrögðum við þessum skammarlega undirlægju– og druslugunguhætti.
Góðar stundir.