Frétt — Enter — 20. 8. 2009
Sér sér ekki fært að koma að uppbyggingunni
Heiðar missti konunar, peningana, húsin, kúlið og sjálfsvirðinguna. Allt á einu bretti.

„Ég missti allt mitt. Það er bara svoleiðis,“ sagði Heiðar Elvuson, fyrrum aðstoðarumsýslustjóri innri fjárstýringar Kaupþings í hjartnæmu, en dálítið þrúgandi spjalli við Baggalút fyrr í kvöld.

Heiðar kvaðst hafa misst allt sitt í „hruninu svokallaða“ og sagði sér þar af leiðandi lífsins ómögulegt að koma að uppbyggingu Nýja Íslands.

„Ég á enga peninga. Þannig. Ekki neitt sem ég myndi kalla peninga allavega. Það var allt tekið. Davíð tók þá ... og Bretarnir.“ [Hér þurfti að gera stutt hlé á viðtalinu meðan blaðamaður reyndi að hugga vesalings Heiðar, sem brast í óstöðvandi grát.]

„Ég á bara þessar nærbuxur. Þið getið svosum fengið þær. En ég mæli ekkert sérstaklega með því,“ sagði þessi ólánsami kaupsýslumaður að lokum þegar hann hafði jafnað sig að mestu – og bætti við með talsverðum ekkasogum: „Ekki það að ég ætli að fara að afsaka mig neitt.“

Blár lúdókall

fannst við uppgröft nálægt Reykjavíkurhöfn. Einnig fannst á svipuðum slóðum teningur og yatsi-blokk.
A.v.á.

Lesbók22. 10. 2020 — Enter

Það er sérlega ánægjulegt að taka við viðurkenningu fyrir hönd Baggalúts fyrir framúrskarandi rekstur samsteypunnar, og þar með hluti af þeim 2% fyrirtækja sem geta státað af slíkum árangri. Ljóst er að yfirgnæfandi hluti íslensks atvinnulífs er í tómu tjóni og órafjarri frá því að vera framúrskarandi á nokkurn hátt. Mættu þau taka Baggalút og önnur almennileg fyrirtæki sér til fyrirmyndar og hysja upp um sig rekstrarbrækurnar.

Það eru tíu lykilatriði atriði sem hafa komið Baggalúti á þennan eftirsóknarverða stað, sem rétt er að deila með áhugasömum:


  • Ekkert starfsfólk
  • Engin viðvera
  • Ekkert húsnæði
  • Engin þjónusta
  • Engin gildi
  • Engin frí
  • Engin áhætta
  • Ekkert internetsamband
  • Enginn samningsvilji
  • Engin kaffivél

Beri önnur fyrirtæki gæfu til að fylgja fordæmi okkar er ljóst að íslenskur fyrirtækjamarkaður yrði skjótt heilbrigðari og næði undraskjótt að skipa sér í fremstu röð í heiminum. En til þess er lítil von, meðan íslenskir stjórnendur eru upp til hópa óhæfar, ákvarðanafælnar gungur með allan sinn rekstur á bólakafi uppi í bakraufinni á sér.

Góðar stundir.

 
Nýjustu fréttir: