Freyr Freysson, uppfinningamaður hefur hannað og smíðað nýja og fullkomna alhliða margmiðlunarvél sem hann hyggst setja á markað til höfuðs „ípóðum, farsímildum, tölvuspilum og þesslags rusli.“
„Þetta er hámóðins græja sko,“ sagði Freyr alluppveðraður í spjalli við Baggalút. „Nema hvað að hún er sko ekkert helvítis diddital neitt. Mín vél tekur bara við alvöru gögnum, ekki einhverju ópersónulegu stafrænu rusli sem enginn getur séð eða káfað á. Við erum að tala hérna um vínil! við erum að tala um pappír - og við erum að tala um filmu! Alvöru stöff!“
Freyr segir tæki sitt geta geymt allt að 40 ljósmyndaalbúmum, annað eins af vídeóspólum og „allavega 142 hljómplötum og 37 snældum,“ eins og það var orðað. Tækið kemst með góðu móti fyrir í venjulegum bílskúr og það má hæglega draga á eftir bíl ef veður er skaplegt.
Freyr stefnir á fjöldaframleiðslu tækisins og reiknar með að ná að smíða „allavega fjögur til viðbótar, þó ekki í sama lit“ fyrir árið 2015.
Auðtrúa asnar athugið!
Myntkörfulánin sívinsælu eru komin aftur!
Bankarnir
Ég sé að fullháttvirtur forseti hins háa Alþingis er með eitthvað bakkaklór eftir ömurðarveisluna sem hann hélt á Völlunum að viðstöddu fámenni í gær.
„Forseti Alþingis harmar að heimsókn danska þingforsetans hafi verið notuð til að varpa skugga á hátíðarhöldin og leyfir sér að trúa því að það sé minnihlutasjónarmið að viðeigandi sé að sýna danska þingforsetanum óvirðingu þegar hann sækir okkur heim og kemur fram fyrir hönd danska Þjóðþingsins og dönsku þjóðarinnar.“ — segir forseti.
Ég mótmæli herra forseti.
Þessi vanhugsaða og alls óvelkomna heimsókn var hreint ekki „notuð“ til að varpa skugga á fjölmilljónapartíið þitt. Heiðursgesturinn flóttalegi sá alveg sjálfur um að varpa sínum skoðanamyrka skugga á hátíðahöldin og eyðileggja þau gersamlega.
Það eru miklu fremur Danir sem sýna okkur óvirðingu með því að senda þessa útdönkuðu rasistapíu hingað — og skömmin er þeirra að púkka upp á hana sem þingforseta yfirhöfuð.
Það er nefnilega míkróminnihlutasjónarmið að halda að það sé í lagi að dubba upp rauðklædda rasista og leiða til hásætis á hátíðarþingfundi á sjálfu Lögbergi. Og það að gera lítið úr gagnrýni á þetta skipulagsslys er ekkert annað ómerkilegt yfirklór og eftirámjálm.
Svo eiga menn bara að drullufrussfretast til að biðjast afsökunar á klúðrinu í stað þess að barma sér undan eðlilegum viðbrögðum við þessum skammarlega undirlægju– og druslugunguhætti.
Góðar stundir.